Siðferðislegt gjaldþrot hernaðar Nató-ríkja í Afganistan var fullkomnað á dögunum með árás Bandaríkjahers á sjúkrahús Lækna án landamæra, þar sem fjöldi fólks lét lífið. Árásaraðilar hafa svo gott sem viðurkennt að sprengjunum hafi verið varpað á sjúkrahúsið af yfirlögðu ráði. Það er viðbjóðslegur stríðsglæpur, en þó ekki úr takti við blóðidrifna sögu vestrænna herja í landinu allt frá byrjun stríðsins árið 2001.
„Stríðið gegn hryðjuverkum“ hefur nú staðið í á fimmtánda ár, knúið áfram af sturluðum ranghugmyndum um að koma megi á friði með því að varpa sprengjum úr orrustuþotum eða ómönnuðum flygildum á skotmörk á jörðu niðri. Niðurstaðan er sífellt sú sama: dráp á óbreyttum borgurum og aukin olía á eld andstæðinganna.
Ísland ber sem Nató-ríki fulla ábyrgð á dauða fólksins á sjúkrahúsinu í Kunduz, sem og þeirra þúsunda afgönsku borgara sem vestræn hernaðaryfirvöld líta á sem óhjákvæmlilegan meðafla í nútímavæddum stríðsrekstri sínum. Það er einhver ljótasti bletturinn í stuttri sögu okkar sem sjálfstæðrar þjóðar.
Kviksyndið í Afganistan hefur þó engu breytt um aðferðir og hugmyndafræði Nató-ríkja. Sama trúin á sömu aðferðirnar er við lýði víða um lönd, þar sem Bandaríkjastjórn og fylgiríki þeirra fótum troða alþjóðalög á degi hverjum með hátæknihernaði úr lofti. Þess verður vart langt að bíða uns við gröndum næsta spítala.