Landsráðstefna SHA 2005 verður haldin laugardaginn 5. nóvember í Friðarhúsi, nýju húsnæði SHA á horni Njálsgötu og Snorrabrautar. Óhætt er að segja að dagskráin sé spennandi, auk þess sem ýmsir hafa líka hug á að berja nýja húsið augum.
Klukkan 11:00 hefst fundurinn á hefðbundnum aðalfundarstörfum, þar sem kjörin verður miðnefnd, rætt um lagabreytingar, tillögur að ályktunum kynntar o.þ.h.
Í hádeginu verður matarhlé þar sem léttur hádegisverður er á boðstólum.
13:00 til 14:00 verður rætt um stefnuskrá SHA á grunni tillagna að nýrri stefnuskrá sem kynntar hafa verið.
Klukkan tvö hefst svo málþing um “Íslenska herinn”. Friðrik Guðmundsson og Kristinn Hrafnsson, framleiðendur heimildarmyndarinnar “Íslenska sveitin” segja frá upplifun sinni af heimsókn á slóðir “friðargæsluliða” í Afganistan. Eru íslensk stjórnvöld að að stofna her á laun? Einnig verður sýndur hluti af hinni erlendu útgáfu myndarinnar, sem meðal annars birtist í norska sjónvarpinu.
15:30 verður svo gengið til afgreiðslu stefnuskrárinnar og ályktana, en miðað er við að fundi ljúki ekki síðar en kl. 16.
Um kvöldið verður svo efnt til opnunarhátíðar Friðarhúss. Þar sem friðarsinnar koma saman og gera sér glaðan dag. Lárus Páll Birgisson verður með gamanmál og Svavar Knútur Kristinsson, sigurvegari trúbadorakeppni Rásar 2 2005 treður upp. Húsið verður opnað klukkan 21.