Á dögunum var sagt frá því að fleiri almennir borgarar hafi fallið í hernaðinum í Afganistan þar sem af er ári en nokkurt annað ár frá óöldinni í landinu á tíunda áratugnum. Það er sönnun þess hversu langt er í land að friður komist á í þessu stríðshrjáða landi.
Fyrir nokkrum misserum gerðu þeir Friðrik Guðmundsson og Kristinn Hrafnsson stórmerkilega mynd um íslenska “friðargæsluliða” í Afganistan, Íslensku sveitina. Myndin varpaði skýru ljósi á eðli friðargæsluliðsins í landinu og hvernig í raun var búið að koma upp vísi að íslenskum her. Engu að síður fékk myndin alls ekki þá athygli sem eðlilegt hefði mátt telja og má þar e.t.v. kenna um áhugaleysi sjónvarpsstöðvanna.
Þeir Kristinn og Friðrik mættu á landsráðstefnu SHA, sýndu brot úr erlendu útgáfu myndarinnar – sem nefnist The Chicken Commander. Myndin var svo skömmu síðar sýnd í heild sinni í Friðarhúsi. Eflaust hafa margir misst af þeirri sýningu og hefur því verið ákveðið að endurtaka leikinn, fimmtudagskvöldið 18. október kl. 20. Allir velkomnir. Heitt á könnunni og umræður á eftir.