Í dag, 26. apríl, setjast fulltrúar íslensku ríkisstjórnarinnar aftur niður með fulltrúum frá Bandaríkjunum til að ræða þá stöðu sem upp er komin vegna fyrirhugaðrar brottfarar herliðsins af Keflavíkurflugvelli. Það er reyndar varla lengur hægt að tala um hana sem „fyrirhugaða“ þar sem vinna við að pakka búslóðum hermanna og annarra bandarískra starfsmanna er í fullum gangi og brottflutningur liðsins mun hefjast strax í næsta mánuði.
Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skuli láta þetta koma sér í opna skjöldu og að þau hafi ekkert gert til að búa sig undir þessa stöðu. Þetta ótrúlega ábyrgðarleysi snýr ekki síst að þeim íslensku starfmönnum sem nú hefur verið sagt upp. Það verður þó ekki sagt að ríkisstjórnin hafi ekki verið minnt á þetta eins og fram kemur í erindi Jóhanns Geirdal, bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ, á herkveðjuhátíð í Keflavík síðastliðinn laugardag, sem birtist hér á síðunni í fyrradag, en þar segir hann frá því að þegar árið 1996 samþykktu verkalýðsfélög á Suðurnesjum áætlun vegna hugsanlegrar brottfarar hersins og afhentu stjórnvöldum. Það er fyrst núna sem skipaður er starfshópur til að sinna þessum vanda.
Friðarvefurinn hefur nú fengið til birtingar fróðlegan greinaflokk sem Jóhann skrifaði fyrir tveimur árum og birtist þá á vefritinu politik.is. Þar rekur hann aðdraganda þessa máls frá árinu 1993 og bendir á hvaða viðbragða sé þörf og hvaða möguleikar eru fyrir hendi. Sjá hér.
Við munum jafnframt safna saman ýmsum greinum og heimildum varðandi brottför hersins á undirsíðunni Herstöðin og NATO, sjá hér til hægri á síðunni.
Ritstjóri