Úti í miðju Indlandshafi, um það bil 1600 km suður af Indlandi, er lítil kóraleyja, ákaflega láglend, löng og mjó og liggur einsog skeifa og myndar þannig ágætis hafnarstæði. Þessi eyja heitir Diego Garcia og er stærst af fjölmörgum eyjum Chiagos-eyjaklasans. Eyjarnar tilheyra Bretlandi, Breska Indlandhafssvæðinu (British Indian Ocean Territory (BIOT)).
Portúgalski landkönnuðurinn Vasco da Gama uppgötvaði eyjaklasann snemma á 16. öld. Stjórnarfarslega varð hann síðar hluti af Máritíus, komst undir yfirráð Frakka á 18. öld en undir Breta 1814. Márítíus fékk sjálfstæði 1968.
Íbúar eyjanna voru kallaðir Ilois. Sumir segja að fyrstu íbúarnir hafi komið sem þrælar Frakka á 18. öld en annars byggðust eyjarnar aðallega á 18. öld fólki af indverskum uppruna frá Madagasgar, Máritíus og Mósambik. Þeir höfðu atvinnu af fiskveiðum og landbúnaði en einkum vinnu við plantekrur, en eigendur þeirra bjuggu á Máritíus. Árið 1967 voru íbúarnir um 2000.
Árið 1966 gerðu Bretar samkomulag við Bandaríkjamenn til 50 ára (með ákvæði um hugsanlega framlengingu samningsins um 20 ár í viðbót) um að reisa herstöð á Diego Garcia. Þá var ríkisstjórn Verkamannaflokksins við völd undir forsæti Harold Wilson. Vegna þessa samkomulags voru Chiagos-eyjarnar skildar frá Máritíus árið 1965 (keyptar fyrir 3 milljónir punda) og gefið stjórnsýslunafnið Breska Indlandshafssvæðið ásamt nokkrum öðrum eyjum. Máritíus gerir nú kröfu til eyjanna og telur þennan gjörning stangast á við samþykktir Sameinuðu þjóðanna. Og reyndar var það svo að íbúar Diego Garcia höfðu áfram ríkisborgararétt á Máritíus og fengu ekki breskan ríkisborgararétt fyrr en 2002, þó ekki allir.
Herstöðin er rekin sameiginlega af báðum ríkjunum en í reynd er hún fyrst og fremst bandarísk en breskir hermenn eru tiltölulega mjög fáir. Þessi herstöð hefur verið með stærri herstöðvum Bandaríkjanna og mikilvægasta herstöð þeirra í Suður-Asíu. Hún gegndi veigamiklu hlutverki í Persaflóastríðinu 1990 og aftur við innrásirnar í Afganistan 2001 og Írak 2003. Talið er að nú séu þar leynilegar fangabúðir í líkingu við Guantanámo-fangabúðirnar ((sjá Múrinn 23.6.2004).
Vandamálið við Diego Garcia voru íbúarnir. Það þurfti að losna við þá. Í mars 1967 gaf landstjórinn út tilkynningu um eignaupptöku lands og stuttu síðar keypti breska ríkið allar plantekrur á eynni. Íbúarnir voru einnig skilgreindir sem „contract workers“ eða einhverskonar farandverkamenn, en með því var fundin smuga til að flytja þá frá eynni án þess að brjóta 73. grein sáttmála Sameinuðu þjóðanna (yfirlýsing varðandi lendur sem ekki ráða sér sjálfar, en þar segir „… að hagsmunir íbúa þessara lendna séu fyrir öllu…“).
Til er minnisblað frá nýlenduskrifstofu breska stjórnarráðsins svohljóðandi:
„Nýlenduskrifstofan er nú að skoða hvaða leið er hægt að fara varðandi íbúana á Breska Indlandshafssvæðinu (BIOT). Skrifstofan vill komast hjá því að nota orðalagið „fastir íbúar“ varðandi íbúa þessara eyja vegna þess að viðurkenning á að það séu einhverjir fastir íbúar þarna hefði í för með sér að það þyrfti að tryggja lýðræðisleg réttindi þeirra og þar með mundu Sameinuðu þjóðirnar líta svo á að þeim bæri að líta til með þeim. Lausnin er því að láta þá hafa skilríki sem sýni að þeir „tilheyra“ Máritíus eða Seychelles-eyjunum og séu aðeins tímabundnir íbúar á BIOT. Þessi ráðstöfun mundi, þótt hún sé frekar gegnsæ, alla vega gefa okkur stöðu til að verja okkur hjá Sameinuðu þjóðunum.“
Til að gera allt þetta minna áberandi voru íbúarnir vísvitandi vantaldir og sagðir færri en þeir voru í raun. Gefin var út tilskipun um brottvísun þeirra en hún var birt í fréttabréfi sem var eiginlega ekki annað en innanhúsblað í BIOT-deild nýlenduskrifstofunnar. Þeir voru síðan fluttir brott á árunum 1967 til 1973, að hluta til ginntir á brott..
Af og til fóru skip milli Diego Garcia og Máritíus með uppskeruna af plantekrunum og íbúarnir tóku sér gjarnan fara með skipinu og þurftu þá að bíða alllengi eftir fari til baka. Og nú var þeim sagt, þegar þeir ætlaðu að snúa aftur, að vinnusamningur þeirra á Diego Garcia væri útrunninn. Þeir voru sem sagt kyrrsettir á Máritíus peningalausir, atvinnulausir og heimilislausir. Og það sem meira var, sambandslausir við þá sem heima sátu. Grunlausir komu svo fleiri til Máritíus og voru líka kyrrsettir.
Snemma árs 1971 komu bandarískar liðsveitir til Diego Garcia til að hefja uppsetningu herstöðvarinnar. Þá voru enn nokkrir íbúar ófarnir og í mars kom fulltrúi bresku stjórnarinnar til að tilkynna þeim að þeir yrðu að yfirgefa eynna. Þeir voru síðan fluttir til Máritíus með bandarískum herskipum, sumir reyndar með viðkomu á Seychelles-eyjum þar sem þeir biðu í fangelsi eftir að vera fluttir áfram en eitthvað af fólkinu varð eftir þar.
Breska stjórnin hafði lagt fram 650 þúsund pund til brottflutnings íbúanna, þ.e. innan við 400 pund á mann. Þetta fé rann til stjórnarinnar á Máritíus sem viðurkenndi engar skyldur gagnvart þessu fólki sem nú stóð uppi peninga-, heimilis- og atvinnulaust í landi þar sem þegar var 20% atvinnuleysi. Margir fyrirfóru sér, aðrir reyndu að skrimta á smáglæpum og vændi. Bresk stjórnvöldu vísuðu allri ábyrgð á bug og þegar fólkið sendi þeim beiðni um aðstoð var hún send áfram til stjórnvalda á Máritíus.
Um miðjan 8. áratuginn fóru þessir atburðir að vekja einhverja athygli þegar stjórnarandstaðan á Máritíus fór að spyrjast fyrir um málið og bandarískir og breskir blaðamenn skrifuðu um það. Árið 1976 fór einn hinna brottfluttu íbúa með málið fyrir dómstóla og þá bauð breska stjórnin fólkinu bætur upp á 1,25 milljón punda ef málið yrði fellt niður sem og allar kröfur um að fá að snúa til baka. Ekki var þó gengið að því.
Árið 2000 felldi Hæstiréttur Bretlands þann úrskurð að íbúarnir hefðu rétt til að snúa til fyrri heimkynna sinna en án tímasetningar. Árið 2002 kröfðust þeir bóta vegna tafa á að þeir fengju að snúa aftur. En 10. júní 2004 lét breska stjórnin koma krók á móti bragði og gaf út tilskipanir (Orders-in-council) þar sem aðeins tímabundin búseta er leyfð á eyjunum og borið við hættu á flóðum og náttúruhamförum.
Ekki hafa þó allir íbúarnir gefist upp. Sumir hafa farið til Bretlands og haldið baráttu sinni áfram þar og íhuga nú að fara með málið fyrir mannréttindadómstól Evrópu.
Helstu heimildir
http://www.refusingtokill.net/Chagos/chagos.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/Diego_Garcia
http://en.wikipedia.org/wiki/Diego_Garcia_depopulation_conspiracy
http://www.icelandonline.is/ferdaheimurisl/eyjaalfa_chagos_islands.htm
http://www.hartford-hwp.com/archives/27b/036.html
Einar Ólafsson