Geysifjölmenn mótmæli í Washington

By 27/09/2005 Uncategorized

Um helgina efndu andstæðingar Íraksstríðsins í Bandaríkjunum til mótmælaaðgerða í Washington. Aðgerðirnar voru geysifjölmennar. Að sögn The Washington Post áætluðu skipuleggjendur að 200 þúsund manns hefðu tekið þátt í mótmælunum, en ágiskun lögreglunnar var um 150 þúsund.

Mótmæli þessi hljóta að valda stjórnvöldum í Washington, enda stutt síðan skoðanakannanir vestra leiddu í ljós að tveir af hverjum þremur Bandaríkjamönnum telja stefnu Bush-stjórnarinnar í Írak leiða þjóðina út í ógöngur. 60% þjóðarinnar telur innrásina hafa verið mistök. Um niðurstöður könnunarinnar má lesa nánar hér

Skoðanakannanir leiða í ljós að bandaríska þjóðin er andsnúin stríðinu, hún telur það hafa staðið of lengi, óttast að hersveitirnar séu fastar þar til frambúðar og vill kalla þær heim eins skjótt og auðið er. Í ljósi þessa skýra meirihlutavilja skýtur skökku við að bæði Repúblikanar og Demókratar á þingi virðast sameinast um að vilja fjölga hermönnum í Írak – eina deiluefnið er hversu mikil aukningin skuli vera.

Sú sérkennilega staða virðist komin upp í bandarískum stjórnmálum að hyldýpisgjá hefur myndast milli stjórnmálaflokkanna og almennings. Í mótmælunum um helgina voru engir þungavigtarstjórnmálamenn á mælendaskránni. Stuðningsmenn stríðsins eru ráðandi á þingi og í fjölmiðlum. Engu að síður vex fylgið við stríðsandstæðinga hröðum skrefum.

Ritstjóri