Landsráðstefna Samtaka hernaðarandstæðinga, haldin 24. nóvember 2010, hvetur ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna til að standa við gefin loforð í stjórnarsáttmála um að friðlýsa beri Ísland og íslenska lögsögu fyrir umferð og geymslu kjarnorkuvopna.
Langt er síðan SHA hófu baráttu fyrir þessu máli, sem flutt hefur verið oftar á þingi en flest önnur þingmál. Til að styrkja kröfuna, beitu samtökin sér fyrir átaki þar sem íslensk sveitarfélög voru hvött til að friðlýsa yfirráðasvæði sín með þessum hætti. Allur þorri bæja og hreppa á landinu hefur nú orðið við þeirri kröfu.
Hagsmunir Íslands af því að komið verði í veg fyrir ferðir kjarnorkuvæddra farartækja í íslenskri lögsögu eru augljósir og er í því sambandi skemmst að minnast óhapps sem átti sér stað í hafinu fyrir sunnan okkur fyrir tveimur árum þegar tveir kjarnorkukafbátar rákust á.