Því miður hafa vonir um heim án styrjalda og stríðsæsinga, án vígtóla og gegndarlausra hernaðarútgjalda, ekki glæðst á árinu sem er að líða. Þó eru vissulega góð teikn á lofti, en þau koma því miður ekki frá þeim sem sitja við stjórnvölinn, þvert á móti, það er almenningur sem hefur fundið sig knúinn til að hafa vit fyrir ráðamönnum.
Friðarhreyfingin
Þó að nokkuð hafi dregið úr þeirri hreyfingu sem hæst reis í andstöðu við innrásina í Írak veturinn 2002 til 2003 þá er hún þó enn virk og nýtur þeirra alþjóðlegu tengsla sem þá mynduðust. Í febrúar voru stofnuð á ráðstefnu í Ekvador Alþjóðasamtök herstöðvaandstæðinga, en hugmyndin að stofnun þeirra varð til í kjölfar baráttunnar gegn innrásinni í Írak. Fyrst og fremst er horft til herstöðvanets Bandaríkjanna sem hefur verið í mikilli endurnýjun, en baráttunni er þó beint gegn öllum erlendum herstöðvum, enda heita samtökin formlega upp á enska tungu International Network Against Foreign Bases. Þá er haldið áfram baráttunni gegn stríðinu í Írak og Afganistan og einkum hafa breskir og bandarískir hernaðarandstæðingar haft forystu í þeirri baráttu. Stefnt er að alþjóðlegri baráttuviku dagana 15. til 22. mars næstkomandi þegar fimm ár verða liðin frá innrásinni í Írak.
Þá er einnig öflug barátta í gegn herstöðvum og hernaðarstefnu í einstökum löndum og svæðum. Í Ekvador er háð barátta gegn herstöðinni í Manta, baráttan heldur áfram gegn herstöðinni á Diego García á Indlandshafi, á Filippseyjum er háð barátta gegn nýjum herstöðvum, á Ítalíu gegn stækkun herstöðvarinnar í Vicenza, í Japan er haldið áfram áratugalangri baráttu gegn bandarískum herstöðvum og kjarnorkuvopnum, í Tékklandi hefur myndast öflug hreyfing gegn byggingu ratsjástöðvar sem á að þjóna hinu nýja gagnflaugakerfi Bandaríkjanna. Hér er aðeins fátt eitt talið, um allan heim heldur baráttan áfram. Auk þess ber að hafa í huga borgarastyrjaldir og þjóðfrelsisbaráttu víða um heim, svo sem í Sómalíu, á Sri Lanka, í Tsjetsjeníu, Kúrdistan og Palestínu, og áfram mætti telja upp ýmis gleymd stríð. Og verður þessari upptalningu þó ekki lokið án þess að nefna Kósovó, sem er æpandi dæmi um vanhæfni hernaðarveldanna við að leysa viðkvæm ágreiningsmál, eða öllu heldur um hagsmunaárekstrana sem þar koma alltaf við sögu, eins og best má sjá ef þessi lönd og héruð er skoðuð í samhengi.
Vígfúsir valdamenn
Hinir sem halda um stjórnvölin halda hins vegar áfram vígvæðingu og stríðsæsingum og þeim styrjöldum sem þeir hafa hafið og geta ekki lokið. Ekki sér fyrir endann á stríðshörmungum í Írak og Afganistan. Herlið Bandaríkjanna og bandamanna þeirra ráða alls ekki við ástandið í þessum löndum. Erfitt er að sjá hvernig hægt er að skapa þar frið, en margir telja að vera þeirra erlendu herja sem þar eru geri aðeins illt verra, enda líta margir íbúar þessara landa á þessa heri sem innrásar- og hernámslið. Það er því fagnaðarefni að nokkur bandalagsríki Bandaríkjanna í Írak hafa ákveðið að draga úr þátttöku sinni í þessu stríði. Á hinn bóginn vekja stöðugar ógnanir gagnvart Íran áhyggjum og vísbendingar eru um að Bandaríkin hafi beinlínis búið sig undir að ráðast þar inn, jafnvel eftir að leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að hafi írönsk stjórnvöld einhvern tíma verið að þróa kjarnorkuvopn, þá hafi þau látið af því fyrir mörgum árum.
Bandaríkin hafa haldið uppi grimmri heimsvalda- og hernaðarstefnu að undanförnu. Liður í þeirri stefnu eru innrásirnar í Írak og Afganistan og raunar einnig loftárásir NATO á Júgóslavíu 1999 og Persaflóastríðið. Rætur þeirrar stefnu sem nú er uppi í Bandaríkjunum má því rekja aftur fyrir stjórnartíma Bush yngri þó að hún hafi komist í nýjar hæðir eftir að hann var kosinn forseti. Þótt mörg frambjóðendaefni fyrir næstu forsetakosningar í Bandaríkjunum boði áherslubreytingar er alls ekki tryggt að um grundvallarbreytingu verði á þessari stefnu. Þessi stefna lýsir sér líka í hinu svokallaða stríði gegn hryðjuverkum, sem í raun er átylla til frekari stríðsæsinga, hernaðaruppbyggingar og eftirlits með almennum borgurum. Hún hefur einnig þau geigvænlegu áhrif að ýta undir fordóma gagnvart múslímum og spennu milli menningarheima. Þriðja birtingarmynd þessarar árásargjörnu heimsvaldastefnu er uppstokkun á herstöðvakerfi Bandaríkjanna, meðal annars með tilfærslu herafla frá Norður-Evrópu til Miðjarðarhafssvæðisins, Miðausturlanda og Asíu. Í fjórða lagi kemur hún fram í breytingum á Atlantshafsbandalaginu, NATO, útþenslu þess og ekki síður verkefnum þess utan bandalagssvæðisins, þar á meðal í Afganistan og Írak, og breyttu hernaðarskipulagi sem er ætlað að auka sveigjanleika þess og viðbragðsflýti.
Enn ein birtingarmynd hinnar nýju hernaðarstefnu Bandaríkjanna er uppsetning gagnflaugakerfis í kjölfar uppsagnar ABM-sáttmálans árið 2002. Þótt hér sé um að ræða áætlun og verkefni á vegum Bandaríkjanna nýtur það viðurkenningar NATO og er samræmt kjarnorkuvopnastefnu bandalagsins sem byggist á mögulegri beitingu kjarnorkuvopna. Á sama tíma vinnur Bretland að því að endurnýja kjarnorkuvopn sín og í mars samþykkti breska þingið áætlun þar að lútandi gegn háværum mótmælum.
Því miður hefur verið fátt fyrir andstæðinga kjarnorkuvopna að fagna á nýliðnu ári, en þó hefur Norður-Kórea í það minnsta hægt á kjarnorkuvopnaþróun sinni eftir kjarnorkuvopnatilraun sína í október 2006. Að öðru leyti hefur árið einkennst af viðsnúningi frá viðleitni til kjarnorkuafvopnunar og sá viðsnúningur er fyrst og fremst á ábyrgð Bandaríkjanna, sem auk gagnflaugaáætlunar sinnar er að þróa ný kjarnorkuvopn sem eiga að vera minni í sniðum í því skyni að meiri möguleikar verði á að beita þeim. Önnur NATO-ríki, eins og Bretland og Frakkland, eru einnig að þróa ný kjarnorkuvopn þótt í minni mæli sé.
Á síðustu árum Sovétríkjanna voru stigin stór skref í afvopnunarmálum. Eftir upplausn Sovétríkjanna dró mjög úr vægi Rússlands sem hernaðarveldis. Hins vegar teygðu Bandaríkin og NATO áhrif sín inn í bæði önnur fyrrverandi austantjaldsríki og mörg gömlu sovétlýðveldin. Á undanförnum misserum hefur Rússland aftur hafið hernaðaruppbyggingu og nú á seinni hluta nýliðins árs hefur rússneski herinn farið að gera sig sýnilegan hér á norðurslóðum í lofti og legi. Það má deila ástæður þessarar þróunar, en án þess að draga úr ábyrgð rússneskra stjórnvalda, þá verður ekki litið fram hjá þeirri ögrun sem þau hafa mátt búa við frá hendi Bandaríkjanna og NATO. Búast má við að þessi þróun verði svo aftur tilefni til aukins vígbúnaðar á norðurslóðum og þá skipta viðbrögð íslenskra stjórnvalda miklu máli.
Vígvæðing Íslands?
Allt þetta hefur haft mikil áhrif hér á landi og má deila um hversu viturlega stjórnvöld hafa brugðist við. Árið 2006 markaði tímamót hér að því leyti að þá hvarf bandaríski herinn á brott frá Íslandi eftir fimmtíu og fimm ára samfellda veru hér. Þetta var fagnaðarefni þótt íslenskir herstöðvaandstæðingar gætu ekki beinlínis hreykt sér af því. Þessi breyting var hluti af endurskipulagningu bandaríska herstöðvakerfisins og því miður þýddi þetta einungis tilflutning hermanna og hergagna í því skyni að þjóna árásargjarnri heimsvaldastefnu Bandaríkjanna enn betur. Þannig er til dæmis beint samhengi milli brottflutnings bandaríska hersins héðan og stækkunar herstöðvarinnar í Vicenza á Ítalíu þó að hermennirnir sem þar bætast við séu fluttir frá herstöðvum í Þýskalandi.
Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við brottför bandaríska hersins einkenndust af taugaveiklun og áhyggjum af því að hér myndaðist einhverskonar tómarúm varðandi varnarmál. Viðbrögðin hafa líka dregið dám að þeim ruglanda sem bandarísk stjórnvöld hafa byggt upp varðandi hernaðarleg málefni, ruglanda sem er vísvitandi settur á flot af þeirra hendi, og hugmyndin um stríð gegn hryðjuverkum gegnir þar mikilvægum þætti. Þar er líka um að ræða ógreinilegri mörk milli hernaðarlegra og borgaralegra stofnana sem við höfum séð á undanförnum árum, meðal annars í heræfingum hér á landi. Því miður hefur utanríkisráðherra hinnar nýju ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tekið þessa stefnu upp í öllum aðalatriðum. Í skýrslu sinni til Alþingis 8. nóvember sagði utanríkisráðherra að nú skilgreindi NATO sig „ekki lengur sem varnarbandalag heldur fremur sem öryggisbandalag“, og hélt áfram: „Upprunalegt landvarnarhlutverk er enn til staðar en í hnattvæddum heimi hefur áhersla bandalagsins færst á hinar nýju hnattvæddu ógnir.“ Þessar ógnir séu t.d. útbreiðsla kjarnorkuvopna, alþjóðleg glæpastarfsemi, neikvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga, fátækt og örbirgð og hryðjuverk.
Á nýliðnu ári hafa verið gerðir samningar um heræfingar erlendra herja hér á landi og flug orrustuþotna nokkurra NATO-ríkja um lofthelgi Íslands. Jafnframt eru ýmis önnur teikn á lofti um aukna hervæðingu Íslands og þar leikur dómsmálaráðuneytið sitt hlutverk auk utanríkisráðuneytisins. Og í fyrsta sinn er í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar liður undir heitinu „varnarmál“. Samtals eru áætluð útgjöld Íslands vegna hernaðarlegra málefna ríflega 2,3 milljarðar króna. Það eru líka vonbrigði að hin nýja ríkisstjórn heldur áfram stuðningi sínum við hernaðinn í Afganistan og hefur ekki haft dug til að taka einarðlega til baka stuðning sinn við innrásina í Írak.
Svo allrar sanngirni sé gætt ber þó að geta þess að tilhneigingar hefur gætt hjá síðustu tveimur utanríkisráðherrum að draga friðargæsluna út úr hernaðarlega samhengi. Nýleg tilkynning um varnamálastofnun vekur þó ýmsar spurningar, þó svo opinberlega sé ætlunin með henni að greina í sundur hernaðarlega varnarstarfsemi og borgaralega starfsemi.
Það er dapurlegt að með formann Samfylkingarinnar og fyrrverandi forystukonu og þingkonu Kvennalistans í hlutverki utanríkisráðherra virðist lítil breyting ætla að verða á stefnunni í hernaðarmálum. Í erindi sínu á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu 27. nóvember sagði hún stjórnvöld fylgja mati NATO á nauðsyn íslensks loftvarnarkerfis og reglulegs eftirlits flugvéla bandalagsríkja og að slíku samstarfi væri ekki ætlað að leysa af hólmi varnarsamstarf við Bandaríkin.
Það var raunar ekki við því að búast að í ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn yrði aðildinni að NATO sagt upp en í öllum flokkum hafa þó heyrst raddir um að varnarsamningurinn við Bandaríkin frá árinu 1951 væri að öllu eðlilegu runninn sitt skeið. Það væri óskandi að á nýju ári tækist andstæðingum herstöðva og NATO í Samfylkingunni sem og öðrum flokkum að hafa þau áhrif á forystu sinna flokka að farið verði vinna að í fyrsta lagi uppsögn varnarsamningsins við hið árásargjarna heimsveldi Bandaríkin og í öðru lagi uppsögn aðildarinnar að NATO. Ennfremur verði loksins samþykkt margflutt tillaga um „friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja“, eins og sú tillaga heitir sem síðast var flutt á þinginu 1999-2000 af þingmönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þannig mundi Ísland geta gert sig gildandi á alþjóðavettvangi sem friðelskandi og hlutlaust land.
Sú ímynd Íslands hefur fengið styrk á liðnu ári. Í fyrsta lagi ber að fagna því að herstöðvarsvæðið og byggingarnar þar hafa fengið nýtt hlutverk og þjóna nú menntastofnunum, þótt ekki hafi orðið úr að þar yrði sett upp friðarrannsóknarstofnun, eins og lagt var til meðal annars hér á Friðarvefnum. En einnig fékk höfuðborg Íslands, Reykjavík, það hlutverk að hýsa friðartákn í formi ljóssúlu sem lýsir upp á himininn í minningu listamannsins og friðarsinnans John Lennons að frumkvæði ekkju hans, Yoko Ono. Þetta kom í kjölfar stofnunar Friðarstofnunar Reykjavíkur í október 2006. Af því tilefni sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þáverandi borgarstjóri: „Ísland er herlaust land og engin hefð er hér fyrir hernaðaruppbyggingu né herrekstri. Því er Reykjavík einstakur vettvangur til viðræðna um friðsamlega úrlausn margvíslegra alþjóðlegra deilumála.“ Þess er að vænta að nýr borgarstjórnarmeirihluti taki undir þess orð og leggi sitt af mörkum að Ísland verði virkilega herlaust land, án aðildar að hernaðarbandalögum og heræfingum og friðlýst fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum eins og samþykkt hefur verið í nær öllum sveitarfélögum á Íslandi, þar á meðal Reykjavík. Sem slíkt gæti Ísland átt erindi í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna.
Friðarvefurinn og Samtök hernaðarandstæðinga óska landsmönnum árs og friðar.