Íslenskir friðarsinnar standa að blysför niður Laugaveginn á Þorláksmessu.
Safnast verður saman á Hlemmi og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og sjöunda í röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.
Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur kórstjóra tekur að vanda þátt í blysförinni sem endar með stuttum fundi á Lækjartorgi.
Þar mun Falasteen Abu Libdeh frá Palestínu halda stutt ávarp. Fundarstóri verður Arnar Jónsson leikari. Fundinum lýkur síðan með friðarsöng.
Friðargöngur verða einnig á Akureyri og Ísafirði á Þorláksmessukvöld.