Fjórða evrópska samfélagsþingið (European Social Forum) hefst í Aþenu 4. maí og stendur til 7. maí. Hundruð funda, málþinga og fyrirlestra verða haldnir þessa daga auk fjölmargra listrænna atburða, sýninga og fleira. Evrópskir friðarsinnar og herstöðvaandstæðinga hafa skipulagt fjölmarga fundi og falla hátt í fjörutíu fundir undir flokkinn Stríð, friður, hervæðing, herstöðvar og hreyfingar gegn stríði.
Meðal þessara funda má nefna fund undir yfirskriftinni Herstöðvar Bandaríkjanna og hervæðing Evrópusambandsins í þjónustu hins „alþjóðlega stríðs gegn hryðjuverkum“. Herðum baráttu okkar gegn þeim og annan undir yfirskriftinni Spörkum NATO út úr Evrópu. Þá verður einnig fundur hreyfinga gegn stríði (Anti-war movements), en slíkir fundir hafa verið fastir liðir á samfélagsþingum undanfarinna ára þar sem menn hafa rætt aðgerðir gegn Íraks-stríðinu og áframhaldandi starf þeirrar miklu hreyfingar sem varð til í aðdraganda Íraksstríðsins.
Því miður hafa Samtök herstöðvaandstæðinga ekki séð sér fært að senda fulltrúa á Evrópska samfélagsþingið að þessu sinni, en við munum fylgjast með fréttum af því og umræðum félaga okkar þar eftir föngum.
Þess má geta að umræðum á fundinum um NATO verður haldið áfram á ráðstefnu sem hefur verið boðuð í Brussel 25. nóvember, fáum dögum áður en ráðherrafundur NATO hefst í Ríga.