Fyrst: um Bosníu og Kosovo
Í fyrri grein var minnst á nokkur þau voðaverk á undanförnum áratugum sem eru notuð til réttlætingar hinnar vestrænu íhlutana- og hernaðarstefnu, sem „múrbrjótar“ gegn fullveldismúrnum. Það er rík ástæða til að skoða þau dæmi vel.
NATO réttlætti aðgerðir sínar í Bosníu 1995 og Kosovo 1999 með „þjóðernishreinsunum“ þar, „skipulegum hópnauðgunum“ og „fjöldamorðum“. Í vestrænni pressu er goðsögnin um bæinn Srebrenica skóladæmi um fjöldamorð í „óþokkaríki“. Þar áttu 7-8 þúsund múslimar að hafa verið myrtir í miklu fjöldamorði en rannsóknir eftir á sýndu að í kringum Srebrenica féllu um 2000 manns sem að stærstum hluta voru hermann í bardögum, úr báðum fylkingum stríðsins. Sjá grein eftir Edward S Herman um Srebrenica: http://musictravel.free.fr/political/political58.htm
NATO hóf loftásrásir sínar á Júgóslavíu í Kosovo-stríðinu 1999 eftir ótal uppslætti í vestrænni pressu um „þjóðarmorð“ eða „Holocost“. Bandaríski sendiherrann í landinu hafði t.d. sagt að 100-250 þúsund Kosovoalbanir væru „horfnir“ og líklega „myrtir“. Ári síðar upplýsti Alþjóðlegi glæpadómstóllinn í Hag eftir vettvangskannanir sínar að fundist hefðu 2788 lík í „fjöldagröfum“ Kosovo. Í þeirri tölu var meirihlutinn stríðsmenn frá báðum hliðum og flestir höfðu fallið á svæðum þar sem Frelsisher Kosovo (studdur af Vesturveldunum) hafði verið virkastur. Sjá John Pilger um áróðurinn og raunveruleikann: http://www.newstatesman.com/node/149544
Stjörnudæmið Rúanda
Snúum okkur þá að stjörnudæminu – blóðabaðinu í Rúanda. Þegar vestrænir íhlutunarsinnar flytja mál sitt og mæla með nýrri „mannúðaríhlutun“ er vísað til Rúanda oftar en nokkurs annars lands. Ef þið gúglið „Rwanda – lack of intervention“ [Rúanda – vöntun íhlutunar] koma upp endalausar greinar um það að ógæfa Rúanda hafi verið „afskiptaleysi“ Vesturlanda og skortur á íhlutun „alþjóðasamfélagsins“. Við minnumst orða Kofi Annan, aðalritara SÞ: „Alþjóðasamfélagið brást Rúanda og það hlýtur að skilja eftir hjá okkur beiska eftirsjá.“ (BBC news 26 mars 2004) Sagan um þjóðarmorðið í Rúanda er hin nytsamlega dæmisaga allra vestrænna íhlutunarsinna.
Nefnum fyrst nokkrar glefsur úr sögu Rúanda. Þjóðernislegar andstæður milli Hútúa og Tútsa eru raunverulegar og standa á gömlum merg. Hútúar komu fyrr á það svæði sem nú er Rúanda, og voru miklu fjölmennari. Tútsaþjóðin kom síðan kringum 1400, en náði fljótt efnahagslegum undirtökum og að skipuleggja sig sem forréttindastétt. Við lok 19. aldar gerðu Þjóðverjar Rúanda að nýlendu sinni. Þeir urðu að láta hana af hendi í lok fyrra stríðs. Belgar náðu Rúanda þá til sín og veðjuðu fljótt á einhliða kaffiútflutning. Þeir kunnu listina að deila og drottna, komu á kerfi með þjóðernaskilríkjum sem aðgreindu Tútsa og Hútúa, byggðu á forréttindum Tútsa og notuðu aristókratí þeirra til að stjórna þegnum landsins fyrir sig. Samfélagið var því skipulagt á grundvelli kynþátta.
Um 1960 hófst uppreisn Hútúa gegn þessu kerfi. Það var í senn stéttarleg uppreisn hinna kúguðu (bylting) og einnig þjóðernisleg/kynþáttabundin uppreisn. Árið 1962 gáfu Belgar upp nýlendustjórn sína og Rúanda var lýst sjálfstætt. Flestar nýlendur Afríku fengu formlegt frelsi um það leyti. Miklir flokkadrættir urðu í Rúanda, m.a. á kynþáttagrunni. Í kosningum sem haldnar voru undir blálok stjórnar Belga urðu flokkar Hútúa sterkastsir – enda Hútúar yfir 80% landsmanna en Tútsar aðeins 15% – og fyrsti forseti Rúanda varð Hútúi. Fyrir og eftir ríkisstofnun bar á kynþáttaárekstrum og harðræði gegn gamla forréttindaminnihluta Tútsa, og hlutar hans flýðu land í nokkum bylgjum, einkum til Úganda. Árið 1973 varð J. Habyarimana forseti eftir valdatöku hersins. Þrátt fyrir pólitískt sjálfstæði hélt efnahagsmunstur nýlendutímans áfram. Einhliða kaffiútflutningur var grundvöllurinn. Á 8. áratugnum varð efnahagslegur uppgangur en Frakkland fékk þá afgerandi áhrifastöðu í landinu, líkt og í nágrannalöndunum Súdan og Zaire (áður Belgíska Kongó).
Miklir efnahagsörðugleikar urðu í Rúanda á seinni hluta 9. áratugar með fallandi verði á kaffi og og inn komu AGS og Alþjóðabankinn og lögðu á landið skipulagsbreytingar sínar (structural adjustment) með mjög harkalegum opinberum niðurskurði. Lífskjarasjokkið sem þessu fylgdi olli mikilli ólgu í landinu og beinni hungursneyð, en samtímis því (í október 1990) réðist herinn Rwandan Patriotic Front (RPF. Sumir gera greinamun á RPF sem stjórnmálaflokki og Rwandan Patriotic Army, RPA, sem her en ég sleppi því) inn í Rúanda frá Úganda undir forustu Paul Kagame. RPF-herinn hertók hluta af Norður-Rúanda og hrakti þaðan burt nokkur hundruðþúsund Hútúa. Vopnuð átök voru þó tiltölulega staðbundin þangað til eftir að forseti landsins var skotinn niður í flugvél 6. Apríl 1994.
„Þjóðarmorðið“ – hefðbundna útgáfan
Til er hefðbundin útgáfa (standard model) af blóðbaðinu í Rúanda sem einnig er opinber útgáfa núverandi stjórnvalda í landinu. Hún er svona í stuttu máli: Það voru öfgasinnaðir Hútúar á vegum ríkisstjórnarinnar og hersins sem frömdu þjóðarmorð á Tútsa-minnihlutanum. Nálægt einni milljón varnarlausra Tútsa (algengustu tölur nefndar eru 0,8–1 milljón) var slátrað með byssum, öxum og sveðjum á aðeins 3 mánuðum, frá 6. apríl og fram í júlí 1994. Síðast en ekki síst: Umheimurinn og „alþjóðasamfélagið“ brugðust Rúanda með afskiptaleysi.
Það er ýmislegt dularfullt við þessa útgáfu, jafnvel fyrir þá sem þekkja ekki vel til. Til dæmis þetta: Hvernig má það vera að stjórnarher Rúanda og ýmsir herflokkar Hútúameirihlutans vígvæði sig til mikillar slátrunar á minnihlutanum, en að henni lokinni bíði slátrararnir fullkominn hernaðarósigur fyrir sama minnihluta á 100 dögum og ýmist gefist upp eða flýi land. Samkvæmt Wikipediu eru landsmenn Rúanda nú 12 milljónir en voru 8 milljónir árið 2002. Segjum að sú tala gildi líka um árið 1994 – fyrir blóðbað – að þjóðin hafi þannig aftur náð fyrri fjölda á árunum 1994–2002. Tútsar hafa löngum verið um 15% svo þá hafa þeir verið 1.2 milljónir árið 1994. Samkvæmt því hefði milljón fallnir Tútsar nánast þýtt fulla útrýmingu þeirra. Alla vega er það mjög dularfullt hvernig uppreisnarher fáeinna eftirlifandi Tútsa náði svo skjótt yfirtökunum í þeim stríðsátökum sem fylgdu og tóku síðan völdin. Svona saga hangir illa saman.
„Skortur á íhlutun“
Svo er það afskiptaleysi vestrænna stórvelda. Það er rétt að SÞ sendi aldrei meira en nokkur hundruð manna friðargæslulið til Rúanda og meirihluti þess dró sig út í byrjun blóðbaðisns í apríl 1994. Þar með er ekki öll sagan sögð. Það er nefnilega næstum sama hvaða útgáfa sögunnar er valin, klisjan um afskiptaleysi stórveldanna stenst ekki. Enska Wikipedia hefur ítarlega og fremur vandaða grein undir heitinu „Rwandan genocide“. Túlkunin er hefðbundin og leggur sökina einhliða á stjórnvöld og herflokka Hútúa sem hafi gengið berserksgang eftir morðið á forseta landsins 6. apríl. Þar kemur þó skýrt fram að stjórn Frakklands hafi staðið fast að baki stjórnvöldum í Rúanda í borgarastríðinu, Frakkar hafi litið á innrás RPF sem innrás frá enskumælandi landi (Úganda) inn á franska menningarsvæðið. Það er staðreynd að eftir 1994 varð enska opinbert mál í Rúanda í stað frönsku.
Sem dæmi um þátt Frakka nefnir Wikipedíugreinin þetta:
Að flestir samningar Rúandastjórnar um vopnakaup hafi farið fram gegnum sendiráð Rúanda í París.
- Að í vopnasendingum frá Frakklandi til Rúanda eftir að borgarastríð hófst 1990 (alls 31 vopnasending) hafi samkvæmt skýrslum Human Rights Wathc ekki verið fylgt þeim reglum og skilmálum sem venjulega giltu um vopnasendingar Frakka.
- Að fyrir blóðbaðið hafi tugir af frönskum „hernaðarráðgjöfum“ og „tæknilegum aðstoðarmönnum“ verið í Rúanda.
- Að franskar hersveitir sem fóru til Rúanda í lok júní 1994 (eftir samþykkt Öryggisráðsins þar um, 5 500 manns) hafi, samkvæmt Human Rights Watch, haft það meginhlutverk að hindra sigur RPF og hafi seinkað þeim sigri.
- Að þessi hernaðarafskipti Frakka, þótt þau hafi ekki hindrað sigur RPF, hafi með góðum árangri hjálpað þjóðarmorðingjunum að komast undan RPF og flýja yfir landamærin til Zaire.
Samkvæmt mjög hefðbundinni frásögn getur því sagan um þjóðarmorðið í Rúanda ekki verið saga um afskiptaleysi heimsvaldasinna.
Útgáfa Robins Philpot
Í haust kom út ný bók um efnið hjá Baraka Books í Québec eftir Robin Philpot, Rwanda and the New Scramble for Africa, sem strax hefur vakið athygli í alþjóðlegri gagnrýnni umræðu. Bókin er byggð á rannsóknum á löngum tíma, vitölum við hlutaðeigandi, dómsyfirheyrslum og fleiru. Edward S. Herman (m.a. þekktur sem, , höfundur bókarinnar Manufacturing Consent ásamt Noam Chomsky) skrifar um hana ítarlega umsögn og segir: „[bókin] rífur rækilega niður athyglisverða byggingu rangra upplýsinga um mikilvægt svið og efni og hún varpar ljósi á hina víðari framsókn heimsveldisstjórnmála.“ Sjá umsögn Hermans hér:
http://www.globalresearch.ca/rwanda-and-the-new-scramble-for-africa-an-eye-opener-and-essential-reading/5365737
Það er óhætt að segja að bók Philpots snúi hefðbundnu útgáfu sögunnar á haus. Ég ætla því að leyfa mér að tíunda nokkrar meginniðurstöður úr bók hans (með hjálp Hermans).
Í Rúanda var háð borgarastríð allt frá því RPF-herinn gerði innrás í landið 1990 með hjálp Úganda. Innrásinni fylgdi langvarandi undirróðursstarf RPF og undirbúningur allsherjarárásar í apríl 1994. Í hefðbundnu útgáfu þjóðarmorðsins er ekkert talað um neitt borgarastríð, aðeins einhliða slátrun stjórnarhersins og Hútúa-herflokka á Tútsum.
Kagame foringi RPF-hersins – síðar forseti Rúanda – var nátengdur Bandaríkjunum, hann hafði fengið þjálfun í bandarísku herstöðinni Ft. Leavenworth. RPF-herinn varð til sem hluti af herjum Úganda. Áður en Kagame varð foringi RPF-hersins var hann mæjor í Úgandaher og yfirmaður leyniþjónustusviðs. Árið 1990 höfðu Bandaríkin einnig hafið mikla hernaðaraðstoð við Úganda.
Fyrir og eftir ríkisstofnun voru stjórnmál í Rúanda mjög kynþátta- eða þjóðernatengd. Tútsar voru 15% landsmanna. M.t.t. þess að þeir voru gömul forréttindastétt og m.t.t. flótta hundruðþúsúnda Hútúa undan RPF-hernum 1990 þá var nánast útilokað að flokkur Tútsa myndi nokkurn tíma ná völdum í frjálsum kosningum í Rúanda. Philpot undirstrikar að þetta hafi forystumenn RPF vitað mæta vel og hafi því tekið þá stefnu að beita valdi. Áformið tókst.
Flugvél Habyarimana foresta (og Ntaryamina, foseta Búrúndí) var skotin niður. Það er almennt viðurkennt að sá atburður varð kveikja blóðbaðsins. Samkvæmt hefðbundnu útgáfunni stóðu annað hvort embættismenn ríkisstjórnarinnar að skotárásinni ellegar þá að hún er „óskýranleg“. En yfirgnæfandi rök eru fyrir að hún hafi verið skipulögð af Paul Kagame og RPF, mögulega með vestrænni hjálp. Alþjóðlegi refsidómstóllinn fyrir Rúanda (ICTR) rannsakaði málið 1996–97. Fyrir rannsókninni fór Michael Hourigan sem endaði með því að ákæra Kagame og RPF. Spænskir og franskir rannsakendur komust að sömu niðurstsöðu. En þegar Hourigan lagði málið fyrir opinberan saksóknara ICTR, Louise Arbour, lokaði hún rannsókninni eftir að hafa ráðgast við bandaríska embættismenn og rannsóknin hefur ekki verið endurupptekin – þrátt fyrir mikilvægi þessarar árásar í allri atburðarásinni.
Það er þáttur út af fyrir sig að þetta sýnir heljartak Bandaríkjanna á ICTR. Þessi þöggun beinir auk heldur miklum grunsemdum að Kagame og RTF. Ekki bara fyrir forsetamorðið 6. mars heldur líka fyrir blóðbaðið sem hófst sama dag eins og skotið hefði verið úr startbyssu. Aðgerðir RPF hófust strax í höfuðborginni Kigali og í landinu, jafnvel aðeins fyrir morðið, eins og eftir nákvæman undirbúning. Philpot kallar hernaðarsigur RPF valdarán í kjölfar stríðs. Fyrst kom opin innrás 1990, svo minni hernaðarátök en undirróður og innri uppbygging RPF, síðan morðin á forsetunum og svo blóðugt stríð og valdarán.
Bandaríkin, Frakkar og Afríkusambandið höfðu í ágúst 1993 staðið að Arusha-samkomulaginu til að binda enda á ófriðinn. Með því var RPF fengið stórt hlutverk í nýrri bráðabirgðastjórn og innan hers Rúanda. Samtímis varð sú stjórn að fylgja niðurskurðapólitík og „endurbótum“ AGS. Samanlagt styrkti þetta stöðu RPF en veikti gömlu stjórnvöldin.
Rúandastjórn var undir miklu alþjóðlegu eftirliti. Frjáls mannréttindasamtök höfðu hana í stöðugu kastljósi út af mannréttindabrotum, ekki síst samtök sem nefndu sig Alþjóðleg rannsóknarnefnd um mannréttindabrot í Rúanda. Sú nefnd dvaldi um tíma í landinu og gaf út skýrslu 1993. Ríkisstjórnin hafði handtekið 8000 manns fyrir að vera útsendarar RPF (sem hafði gert innrás í fullvalda ríki og háði þar borgarastríð). Allir voru fangarnir þó látnir lausir innan 6 mánaða en þetta olli miklum hávaða í vestrænum fjölmiðlum. Sumir nefndarmenn í rannsóknarnefndinni urðu síðar ráðherrar í Rúanda, aðrir báru vitni í réttarhöldum gegn hinum föllnu stjórnvöldum Hútúa.
Samkvæmt hefðbundnu útgáfunni voru Hútúar þorparar sem vildu útrýma Tútsum og frömdu á þeim „þjóðarmorð“. En það er öruggt, segir Philpot, að miklu fleiri Hútúar en Tútsar voru drepnir. RPF var vel skipulagður her, útbúinn og verndaður af Bandaríkjunum og nánum bandamönnum þeirra. Hann var tilbúinn til aðgerða 6. apríl 1994 á meðan forusta gömlu stjórnvaldanna var óundirbúin, óskipulögð og illa vopnuð – og gafst upp innan 100 daga.
Það að veita „þjóðarmorðingjunum“ eftirför inn í Lýðveldið Kongó hefur verið afsökun Kagames fyrir innrásum og fjöldamorðum í því landi frá 1996
Bandaríkin og Bretar sáu um að friðargæslulið SÞ varð minna en samþykkt hafði verið í Arusha-samkomulaginu frá 1993 og að mjög var fækkað í því í febrúar 1994 og aftur í apríl er blóðbað hófst. Ríkisstjórn Rúanda fór ítrekað fram á vopnahlé en Bandaríkin studdu valdatöku Kagame og RPF. Með sigur Kagame í sjónmáli var íhlutun Bandaríkjanna fólgin í því að hindra ytri afskipti af drápsvél RPF. Philpot segir einfaldlega að alþjóðlegt „afskiptaleysi“ hafi verið fólgið í því að hafa ekki afskipti af þeim aðgerðum sem voru þarna í gangi og Bandaríkin stóðu á bak við.
Eftirþankar Butros-Ghali
Margt má segja um þessa framsetningu Robins Philpot. Lítum fyrst á síðasttalda atriðið: þátt Sameinuðu þjóðanna. Boutros Boutros-Ghali, sem var aðalritari SÞ 1994, segir að afstaða Bandaríkjanna hafi ráðið mestu þegar of veikt gæslulið var sent á vettvang og síðan dregið út. Í viðtali árið 2004 kom Boutros-Ghali inn á samtal sem hann átti við Bill Clinton meðan blóðbaðið stóð sem hæst, í maí 1994, um mögulega friðargæslu SÞ í Rúanda: “Based on this discussion I had with him, Rwanda was a marginal problem. He said [he was] not so sure if [the United States] was ready to help to send soldiers, but he was not interested in this problem.” Boutros-Ghali sagði ennfremur að Clinton hefði jafnvel lagst gegn aðgerð á vegum SÞ ÁN ÞÁTTTÖKU BANDARÍKJANNA af því þau myndu samt þurfa að taka þátt í kostnaði og hætta væri á að aðstoðar þeirra yrði óskað ef vandamál kæmu upp. http://www.pbs.org/wgbh/pages/frontline/shows/ghosts/interviews/ghali.html
Í aðeins eldra viðtali, teknu árið 2002, sagði Butros-Ghali við Robin Philpot að „þjóðarmorðið í Rúanda væri 100 prósent á ábyrgð Bandaríkjanna“. Sjá hér:
http://raceandhistory.com/selfnews/viewnews.cgi?newsid1084838134,91027,.shtml
Í lok umsagnar sinnar skrifar Edward S. Herman: „Bók Philpots segir ljóta sögu um landvinningahagsmuni Bandaríkjanna og náinna bandamanna þeirra, hagsmuni sem ráku þá til íhlutunar í Rúanda og Kongó; að styðja til valda manndrápsstjórnir sem steyptu stjórnum sem voru í allgóðu fulltrúasambandi við þjóðir sínar, og komu í staðinn á miskunnarlausum minnihlutastjórnum sem gættu öðru fremur bandarísk-breskra hagsmuna (Dæmi: Kagame var eini leiðtogi Afríku sem fagnaði innrás Bandaríkjanna í Írak 2003). Rúanda og Úganda voru handlangarar sem ruddu veginn fyrir vestræna framrás inn í Lýðveldið Kongó.“
Útgáfa Robins Philpot er í fremur góðu röklegu innra samhengi, öfugt við hefðbundnu útgáfuna. Þar er engin svo undarleg þversögn þar sem litlum minnihluta er fyrst útrýmt og í beinu framhaldi verður hann ríkjandi í landinu. Frásögn og túlkun Philpots á atburðunum í Rúanda er sem sagt ekki ótrúverðugri en hefbundna útgáfan, raunar hangir hún miklu betur saman.
Chossudovsky – heimsveldin stóðu á bak við báða aðila
Segja má að þær tvær helstu söguskýringar sem hér hafa verið tilgreindar skelli skuldinni á annan aðilann í stríðinu, og annað hvort Frakkland eða Bandaríkin sem bakmann. Michel Chossudovsky skrifaði grein árið 2000 (og uppfærða 2006) sem hann nefnir „The Geopolitics behind the Rwandan Genocide“. Hann byggir hana mikið á gögnum AGS og Alþjóðabankans. Hann færir rök að því að þessar stofnanir (einkum Alþjóðabankinn gegnum útibú) hafi fjármagnað hervæðingu bæði Rúanda og Úganda. Þá þarf að hafa í huga að þessar bankastofnanir voru og eru verkfæri vestrænnar heimsvaldastefnu. Má í því samhengi tilfæra orð Jóns Baldvins Hannibalssonar: „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur á undanförnum árum verið í reynd eins konar útibú frá bandaríska fjármálaráðuneytinu.“
Samkvæmt Chossudovsky voru stríðsaðilarnir einkum tveir, Rúanda undir forsæti Habyarimana og Úganda undir stjórn Musaveni. Báðir aðilar juku snögglega lántökur sínar hjá Alþjóðabankanum. Úganda þrefaldaði skuld sína við Alþjóðabankann á einum áratug. Lánin fóru að stærstum hluta í hervæðingu og vopnakaup. Þetta vissu eftirlitsmenn bankans mætavel þar sem þeir fylgdust vel með hvernig fénu var varið. Þeir fylgdust strangt með að fylgt væri tilmælum bankans um breytingar í átt til einkavæðingar, markaðsfrelsis og niðurskurðar velferðarútgjalda, en þeir gerðu aldrei athugasemdir um vopnakaupin sem mestu fé var varið í.
Upphæðirnar sem fóru til landanna tveggja voru þó ekki alveg sambærilegar. Chossudovsky skrifar: „Utanlandsskuldir Úganda jukust um 2 milljarða dollara, sem sagt miklu hraðar en skuld Rúanda sem jókst um 250 milljónir árin 1990–94. Eftir á að hyggja var RPF-herinn – fjármagnaður með bandarískri hernaðaraðstoð og utanlandsskuld Úganda – miklu betur útbúinn og þjálfaður en Rúandaher sem studdi Habyarimana. Frá byrjun hafði RPF hernaðarlega yfirburði.“ http://www.globalresearch.ca/articles/CHO305A.html
Stórveldin sem stóðu á bak við borgarastríðið í Rúanda voru tvö, Bandaríkin og Frakkland, og hvort studdi sinn aðila og ráku þar með sína stórveldahagsmuni. Bernard Debré, ráðherra samyrkjumála í ríkisstjórn Henri Balladur í Frakklandi á tíma blóðbaðsins í Rúanda komst svo að orði: „Það sem menn gleyma að nefna, ef Frakkland var öðru megin þá voru Bandaríkjamenn hinum megin, sem vopnuðu Tútsa, sem vopnuðu Úgandamenn. Ég vil ekki draga upp mynd af uppgjöri milli Frakklands og Bandaríkjanna, en sannleikurinn verður að segjast.“ http://www.wsws.org/en/articles/1998/04/rwan-a29.html
Stærra samhengi
Rétt er að halda aðeins áfram með greiningu Chossudovskys. Eftir valdaskiptin í Rúanda 1994 varð Paul Kagame forseti. Skjótt jókst hernaðarleg samvinna við CIA og Pentagon. Flótti gömlu stjórnvaldanna og stórra hópa Hútúa yfir landamærin til Zaire varð tilefni þess að RPF-herinn sem nú var orðinn stjórnarher Rúanda réðist inn í Zaire. Zaire var miklu stærri og lystugri biti fyrir heimsvaldasinna en Rúanda. En með því að styðja uppreisnarhreyfingu undir stjórn Laurent Kabila í austurhluta Zaire tókst vel þjálfuðum RPF-hernum á fáum misserum að steypa stjórn Mobutu í Zaire (sem féll 1997). Þetta gerðist einnig með þáttöku hersveita frá Úganda og með bandarískri þjálfun og hernaðaraðstoð. Kabila varð nýr forseti í ríki sem nú nefndist Lýðveldið Kongó. Góð grein um þátt USA og Úganda í stríðinu í Kongó er t.d. hér: http://www.globalresearch.ca/darfurism-uganda-and-the-u-s-war-in-africa/7311
Það kom áður fram að útgáfa Philpots af „þjóðarmorðinu“ héngi betur saman en hefðbundna útgáfan. Þar við bætist að hlutverk og aðferðir Bandaríkjanna og nánustu bandamanna að tjaldabaki fylgir munstri sem er orðið mjög kunnuglengt: ófrægingarherferð gegn þeim stjórnvöldum sem grafa skal undan; markviss stýring fréttamiðlunar um landið í hinni miðstýrðu vestrænu pressu; aflsmun er beitt í SÞ og á alþjóðavettvangi og stríð er háð gegnum staðgengla. Með ofurvaldi sínu hannar risaveldið atburðarásina. Öll þessi atriði voru til staðar í Afganistan, Líbíu, Suður-Súdan, Sýrlandi og miklu víðar. Ekki síst ber sagan um Rúanda mörg líkindi við staðgengilsstríðið í Sýrlandi sem háð er af vestrænt studdum uppreisnarhópum gegn ríkjandi stjórnvöldum.
Yoweri Museveni komst til valda í Úganda 1986 og hefur æ síðan verið nákominn Bandaríkjunum og Pentagon og í hlutverki handlangara fyrir nýfrjálshyggju og vestræna heimsvaldastefnu. Bandaríska Afríkuherstjórnin, AFRICOM, hefur nú svæðisbundna stjórnstöð í flugherstöðinni við Entebbe í Úganda og lítur á Úganda sem „hernaðarlegan lykilbandamann Bandaríkjanna“ (key US strategic partner). Með stuðningi AFRICOM og á vegum Afríkusambandins hefur Úganda sent hersveitir inn í Sómalíu og Suður-Súdan, átakasvæði þar sem Bandaríkin eru djúpt innblönduð. Eitt dæmi: Nú í janúar stóðu yfir loftflutningar á vegum AFRICOM í Úganda. Gert var út frá herstöðinni í Entebbe og flogið með Rúandíska hermenn (850 menn) í „friðargæslu“ inn í Miðafríkulýðveldið. Rúanda og Úganda eru nú sem sagt tveir lykilhlekkir í hernaðarumsvifum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Mið- og Austur-Afríku. http://www.defenceweb.co.za/index.php?option=com_content&view=article&id=33323:uganda-supporting-us-airlift-missions-in-africa&catid=47:Logistics&Itemid=110
Dæmisagan um Rúanda sem á að réttlæta stórveldaíhlutanir um mál fullvalda ríkja er gegnumfölsk. Blóðbaðið í Rúanda er ekki dæmi um „skort á íhlutun“. Þvert á móti er það hörmulegt dæmi um heimsvaldaíhlutun. Og íhlutanir heimsvaldasinna eru ALDREI hluti af neinni lausn á staðbundnum vandamálum. Þær eru sjálft vandamálið.