Margir hafa vafalítið heyrt söguna af Sadako Sasaki, japönsku stúlkunni sem var fórnarlamb kjarnorkusprengjunnar í Hírósíma árið 1945, þá tveggja ára gömul. (Sjá enska Wikipediufærslu hér.) Nokkrum árum síðar fékk hún krabbamein vegna geislavirkninnar. Í veikindum sínum greip hún til þess ráðs að gera origami trönur, enda sú þjóðtrú í Japan að sá sem geri 1000 slíka pappírsfugla fái ósk sína uppfyllta. Sadako litlu tókst ekki ætlunarverk sitt og hún lést tólf ára gömul áður en ætlunarverkinu var lokið.
Upp frá því hefur origami-tranan verið tákn friðarbaráttu í huga friðarsinna víða um lönd. Á menningarnótt frá kl. 13-16 verður starfrækt kaffihús í Friðarhúsi á vegum Samtaka hernaðarandstæðinga.
Boðið verður upp á origami-smiðju þar sem gestir og gangandi geta lært að útbúa friðarfuglinn japanska. Saman stefnum við að því að gera þúsund trönur til að óska okkur friðar og afvopnunar.