Skip to main content

Landsráðstefna SHA

By Uncategorized

Landsráðstefna SHA 2005 verður haldin laugardaginn 5. nóvember í Friðarhúsi, nýju húsnæði SHA á horni Njálsgötu og Snorrabrautar. Óhætt er að segja að dagskráin sé spennandi, auk þess sem ýmsir hafa líka hug á að berja nýja húsið augum.

Klukkan 11:00 hefst fundurinn á hefðbundnum aðalfundarstörfum, þar sem kjörin verður miðnefnd, rætt um lagabreytingar, tillögur að ályktunum kynntar o.þ.h.

Í hádeginu verður matarhlé þar sem léttur hádegisverður er á boðstólum.

13:00 til 14:00 verður rætt um stefnuskrá SHA á grunni tillagna að nýrri stefnuskrá sem kynntar hafa verið.

Klukkan tvö hefst svo málþing um “Íslenska herinn”. Friðrik Guðmundsson og Kristinn Hrafnsson, framleiðendur heimildarmyndarinnar “Íslenska sveitin” segja frá upplifun sinni af heimsókn á slóðir “friðargæsluliða” í Afganistan. Eru íslensk stjórnvöld að að stofna her á laun? Einnig verður sýndur hluti af hinni erlendu útgáfu myndarinnar, sem meðal annars birtist í norska sjónvarpinu.

15:30 verður svo gengið til afgreiðslu stefnuskrárinnar og ályktana, en miðað er við að fundi ljúki ekki síðar en kl. 16.

Um kvöldið verður svo efnt til opnunarhátíðar Friðarhúss. Þar sem friðarsinnar koma saman og gera sér glaðan dag. Lárus Páll Birgisson verður með gamanmál og Svavar Knútur Kristinsson, sigurvegari trúbadorakeppni Rásar 2 2005 treður upp. Húsið verður opnað klukkan 21.

Vinnufundur í Friðarhúsi

By Uncategorized

Fimmtudagskvöldið 3. nóvember verður að venju opið hús í Friðarhúsi, á horni Njálsgötu og Snorrabrautar. Að þessu sinni verður unnið að því að fullbúa húsnæðið fyrir landsráðstefnu SHA sem verður haldin 5. nóvember.

Húsið opnar kl. 20:00.

Allir velkomnir. Kaffi á boðstólum og léttar veitingar á vægu verði.

Opinn miðnefndarfundur SHA

By Uncategorized

Friðarsinnar eru nú farnir að geta gengið að því vísu að haldnir séu fundir í Friðarhúsi, á horni Njálsgötu og Snorrabrautar, á hverju fimmtudagskvöldi. Fimmtudagurinn 27. október verður þar engin undantekning, því kl. 20 verður þar opinn fundur miðnefndar SHA um undirbúning landsráðstefnu SHA, sem haldin verður 5. nóvember nk.

Hvað þarf að gera til að Friðarhús verði tilbúið undir formlega opnun þann 5. nóv.? Hvernig skal opnunarhátíðinni háttað? Hvaða starfsemi á að fara fram í húsnæðinu til jóla?

Allt þetta og margt fleira verður rætt á fimmtudagskvöldið. Friðarsinnar eru hvattir til að mæta.

Kaffi á boðstólum og léttar veitingar á vægu verði.

Fimmtudagsfundur um stefnuskrá

By Uncategorized

Stefnuskrá Samtaka herstöðvaandstæðinga var samþykkt á landsráðstefnu síðla árs 1995. Stefnt er að því að ræða stefnuskránna á aðalfundi SHA laugardaginn 5. nóvember næstkomandi og er undirbúningsvinna þegar hafin.

Fimmtudagskvöldið 20. október kl. 20 verður boðað til fundar í Friðarhúsi, nýjum húsakynnum SHA á horni Snorrabrautar og Njálsgötu. Þar verður dreift drögum að nýrri stefnuskrá í framhaldi af umræðum á síðasta fundi og er markmiðið að þróa þær tillögur áfram fyrir aðalfundinn.

Herstöðvaandstæðingar eru sem fyrr hvattir til að mæta og ræða um grundvallaratriðin í baráttu hreyfingarinnar.

Heitt á könnunni og léttar veitingar á vægu verði.

Fundað um fjármál

By Uncategorized

Hið nýja húsnæði SHA, Friðarhúsið á horni Snorrabrautar og Njálsgötu, er óðum að taka á sig mynd. Fjöldi sjálfboðaliða hefur unnið að standsetningu húsnæðisins síðustu vikur, en til að standa undir slíkum rekstri er ekki nægilegt að hafa vaskar hendur. Fjármuna er þörf til að standa undir rekstri og afborgunum.

Fimmtudagskvöldið 13. okt. kl. 20 er boðað til fundar í Friðarhúsi þar sem rætt verður um hvaða kostir séu fyrir hendi í fjármögnun. Þar verður vonandi velt upp frjóum og frumlegum hugmyndum. Friðarsinnar eru hvattir til mæta, skoða húsnæðið og taka þátt í fjörugum umræðum.

Heitt á könnunni og léttar veitingar á vægu verði.

SHA