Samstarfshópur friðarhreyfinga heldur undirbúningsfund vegna friðargöngu á Þorláksmessu 2005 í Friðarhúsi. Fundurinn hefst kl. 20 og er öllum opinn.
Herstöðvaandstæðingar taka til í skiltageymslunni, mála ný kröfuspjöld en endurnýja önnur. Hefst kl. 20 og eru allir velkomnir.
Það er markmið margra í lífinu að skrá hitt og þetta á spjöld sögunnar. Á fimmtudagskvöldið gefst friðarsinnum kostur á að skrá – og jafnvel mála líka – á spjöld SHA (sem eru síst ómerkilegri spjöld). Þá verður sem sagt lager SHA af gömlum mótmælaskiltum og -spjöldum tekinn í gegn, sumum skipt út en lappað upp á önnur með ferskri málningu. Segja má að þetta sé nokkurs konar jólahreingerning samtakanna.
Skiltavinna þessi hefst í Friðarhúsi kl. 20 og eru allir velkomnir á svæðið, drátthagir jafn sem myndlistarskussar. Verkefnin eru margvísleg og mismunandi.
Penslar og málning verða á staðnum, en verkfúsum er bent á að mæta ekki í sunnudagsfötunum.
Léttar veitingar verða í boði á vægu verði og kaffi á könnunni, til að auka enn á sköpunargleðina!
Það er fátítt að íslensk félagasamtök geti talið starfstíma sinn í áratugum, einkum þegar um er að ræða félög á sviði stjórnmála- eða þjóðmálabaráttu. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna, MFÍK, eru í þessum hópi. Samtökin voru stofnuð fyrir meira en hálfri öld, nánar tiltekið árið 1951, en áhugavert yfirlit um sögu þeirra birtist í tímaritinu Veru á fimmtugasta afmælisárinu.
MFÍK hefur meðal annars haft forgöngu um skipulagningu aðgerða á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars ár hvert, en ýmis félagasamtök – þar á meðal Samtök herstöðvaandstæðinga – hafa komið að þeim aðgerðum í gegnum tíðina. MFÍK hefur sömuleiðis sýnt uppbyggingu Friðarhússins mikinn áhuga, félagskonur hafa stutt framtakið með ýmsum hætti og félagið sjálft fengið inni með ýmsar eigur sínar í geymslum Friðarhúss. Vonir standa til að félagið muni í framtíðinni halda ýmsa fundi og samkomur í Friðarhúsi, enda standa dyr þess félaginu ætíð opnar.
Vert er að vekja athygli á heimasíðu MFÍK, en hana má sjá hér. Menningar- og friðarsamtök íslenskra kvenna er að sönnu elsta íslenska friðarhreyfingin, en jafnframt ein sú virkasta.
SHA kynnir til sögunnar nýjung í félagsstarfi sínu. Spurningakeppni á laugardagseftirmiðdegi, þar sem gestir og gangandi geta spreytt sig í skemmtilegri spurningakeppni. Fyrirmyndin er svokallað “pub-quiz” breskra öldurhúsa. Skemmtilegar spurningar og léttar veitingar á vægu verði. Látið ykkur ekki missa á spurningakeppni friðarsinnan frá kl. 16-18.