Skip to main content

Fjölmenni á málsverði

By Uncategorized

VeislugestirFrábær mæting var á fjáröflunarmálsverð Friðarhúss á föstudagskvöld, en um fimmtíu manns mættu og gæddu sér á veitingunum. Stemningin var sömuleiðis eins og best verður á kosið og fóru meðal annars fram miklar og góðar umræður um mótmæli og mótmælamenningu undir stjórn Hrundar Ólafsdóttur.

Guðrún Bóasdóttir átti veg og vanda að eldamennskunni, en hún tók jafnframt nokkrar myndir um kvöldið og má skoða þær hér.

Á laugardeginum var svo staðið fyrir spurningakeppni SHA í annað sinn og var gerður góður rómur að spurningunum. Ljóst er að samkomur þessar eru komnar til að vera, bæði málsverðirnir og spurningakeppnin. Sú hugmynd hefur þó komið fram að þess verði gætt í framtíðinni að setja þessa atburði ekki niður á sömu helginni.

Fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður til styrktar Friðarhúsi verður haldinn að kvöldi föstudagsins 16. desember og hefst kl. 19. Húsið verður opnað hálftíma fyrr. Yfirkokkur að þessu sinni verður Guðrún Bóasdóttir, en máltíðin kostar litlar 1.000 krónur. Léttar veitingar á vægu verði.

Friðarpípan – spurningakeppni SHA

By Uncategorized

SpurningakeppniFriðarpípan, reyklaus spurningakeppni, verður haldin laugardaginn 17. desember í Friðarhúsi. Keppt verður eftir hefðbundnu pöbb-kviss fyrirkomulagi (í tveggja manna liðum) og hefjast leikar kl. 16 og stendur gamanið framundir kvöldmat.

Aðalspurningakeppnin (30 spurningar, almenns eðlis) verður í umsjón Kolbeins Óttarssonar Proppé, en einnig verður boðið upp á tvær styttri keppnir. Steindór Jónsson sér um spurningakeppni með yfirskriftinni “Samsæriskenningar” og spurningatvíeykið Ólíver Stón spyr um “Söngvaskáld og tengd efni”. Verðlaun verða veitt fyrir alla flokka.

Léttar veitingar á vægu verði. Allir velkomnir.

Krásir

By Uncategorized

KokkurFöstudagskvöldið 16. desember verður efnt til fjáröflunarmálsverðar í Friðarhúsi, þar sem friðarsinnar geta kýlt vömbina fyrir aðeins 1000 krónur. Yfirkokkur verður Guðrún Bóasdóttir (Systa) og vita þá matgæðingar að von er á góðu.

Borðhald hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Meðan á veislunni stendur mun Birgitta Jónsdóttir skáldkona lesa úr nýútkominni bók sinni og Hrund Ólafsdóttir leikskáld ýtir úr vör umræðum um mótmæli, en það er einmitt viðfangsefni leikrits hennar, Frelsi, sem sýnt hefur verið við góðar undirtektir í Þjóðleikhúsinu.

Matseðill föstudagskvöldsins liggur nú fyrir, en hann er á þessa leið:

* Arabískur karrý-kjúklingaréttur
* Rauðrófupottréttur
* Rauðkálssalat að asískum hætti
* Rauðrófur í hvítlaukssósu
* Hrísgrjón

Léttar veitingar á vægu verði.

Allir velkomnir.