Skip to main content

Til umhugsunar: kaup handa börnum fyrir jól

By Uncategorized

dufa Menningar- og friðarsamtökin MFÍK hafa sent frá sér eftirfarandi áskorun sem okkur finnst ástæða til að birta hér á Friðarvefnum:

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK skora á foreldra og forráðamenn, ömmur, afa, frænkur og frændur og aðra þá sem kaupa gjafir handa börnum og ungmennum, að vera meðvituð um að það er á ábyrgð fullorðinna hvernig heimur snýr að börnum. Börn eiga að fá að vera börn.

Við vörum við tísku, sem rutt hefur sér til rúms hér á landi, að klæða litlar stúlkur í magaboli, G-streng og annað slíkt.

Við fögnum framtaki SAFT (Samfélag, fjölskylda og tækni) sem nýlega gáfu út bækling með leiðbeiningum um val á tölvuleikjum. Við bendum á að sömu vandvirkni er einnig þörf við val á öðrum leikföngum. Forðumst að kaupa leikföng sem gera stríð og ofbeldi aðlaðandi.
Hann fékk… en hún fékk…
Hvaða hlutverk ætlum við uppvaxandi kynslóð?

Tökum uppeldishlutverkið alvarlega.

Stöndum vörð um bernskuna.

Nokkur ráð til þeirra sem vilja stuðla að friðvænu uppeldi:

1.
Gefið barni ykkar ekki stríðsleikföng.

2.
Gerið ykkur grein fyrir að börnin alast upp í umhverfi þar sem þau eru útsett fyrir þær hugmyndir að vopn séu sama og vald og þess vegna séu vopn ákjósanleg. Ef barnið gerir sér vopn úr legókubbum eða ristuðu brauði segið þeim að byssur séu drápsvopn og þið viljið ekki að neinn sé drepinn.
Það eru nægileg rök í málinu fyrir börn.

3.
Byrjið snemma að gera barninu grein fyrir því að auglýsingar í sjónvarpi og annars staðar séu beggja blands og þær séu gerðar til þess að fá fólk til að kaupa hluti.

4.
Skýrið vinum ykkar og ættingjum barnsins frá því að þið viljið ekki að barnið fái stríðsleikfang í jóla- eða afmælisgjafir.

5.
Ef barnið þráir stríðsleikfang hugleiðið kostina við að gefa því hlutinn, en gerið því grein fyrir andúð ykkar á að drepa og meiða.

6.
Þegar barnið er í stríðsleik, má hjálpa því til að meta leikinn: hvers vegna fá sumir alltaf sínu framgegnt með því að slást? Er nokkur önnur leið til að leysa málið?

www.mfik.is

Friðarganga á Akureyri – réttur tími

By Uncategorized

AkureyriRanghermt var í frétt hér á Friðarvefnum að Þorláksgangan á Akureyri hæfist kl. 22. Hið rétta er að hún hefst kl. 20.

Þetta er fimmta Þorláksgangan í röð á Akureyri. Sú fyrsta var farin 2002 í aðdraganda Íraksstríðsins. Síðan hafa aðstæður ekki breyst eða batnað. Stríð þetta stendur enn og síst dregur úr mannfalli. Ísland er enn í stríðsliðinu.

Kjörorð okkar eru hin sömu:
– Frið í Írak!
– Burt með árásar- og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Gengið er frá Menntaskólanum.

Ávarp flytur Margrét Heinreksdóttir, lögfæðingur.

Kór Akureyrarkirkju syngur.

Friðarganga á Akureyri

By Uncategorized

Friðargangan á Akureyri leggur af stað Menntaskólanum klukkan 20. Göngunni lýkur með fundi þar sem Margrét Heinreksdóttir lögfræðingur flytur ávarp og kór Akureyrarkirkju syngur.

Friðarganga á Ísafirði

By Uncategorized

KirkjaFriðarganga verður að venju á Ísafirði á Þorláksmessu. Gangan hefst kl. 18, líkt og í Reykjavík en safnast verður saman við Ísafjarðarkirkju klukkan 17:45. Þaðan verður haldið niður á Silfurtorg þar sem verður stutt dagskrá, sem samanstendur af tónlist, ljóðalestri og friðarhugleiðingum. Ræðumaður dagsins verður Hörður Högnason hjúkrunarforstjóri og formaður Rauðakrossdeildar Ísafjarðar.

Friðarkerti verða til sölu við kirkjuna og í göngunni.

Jólagjöf friðarsinnans

By Uncategorized

PakkiFriðarsinnar eru upp til hópa nægjusamt fólk sem ekki gengur svo glatt græðginni og lífsgæðakapphlaupinu á vald. Þetta er að flestu leyti góður eiginleiki, nema þegar kemur að því að kaupa gjafir handa þessu fólki. Hvað gefur maður eiginlega fólki sem á allt eða þykist í það minnsta ekki skorta neitt?

Lausnin er fundin. Hlutabréf í Friðarhúsi er snjöll og góð lausn. Ef eftir því er óskað má fá smekklega útprentuð hlutaskírteini í Friðarhúsi, innplöstuð og tilbúin til að fara upp á vegg.

Verð á hverjum hlut í Friðarhúsi er 10.000 krónur. Áhugasamir gera haft samband við Sigurð Flosason, gjaldkera í s. 554-0900; sent tölvupóst á sha@fridur.is eða lagt beint inn á reikn. 0130-26-2530, kt. 600404-2530. Æskilegt er þó að senda tölvupóst til að taka fram á hvern bréfið skuli stílað.

Friðarhús SHA ehf.