Skip to main content

Dagfari á Friðarvefnum

By Uncategorized

dagfariTímarit og fréttabréf Samtaka herstöðvaandstæðinga nefnist Dagfari, en útgáfusaga blaðsins nær aftur á fyrri hluta sjötta áratugarins. Í Dagfara birtast fréttir af starfi SHA, en einnig ítarlegar greinar og annað efni sem tengist friðar- og afvopnunarmálum. Félagar í Samtökum herstöðvaandstæðinga fá Dagfara sendan heim til sín, en leitast er við að gefa út stóran Dagfara árlega en minni tölublöðin 3-4 sinnum á ári.

Nú hafa nokkur nýjustu eintök Dagfara verið sett inn á Friðarvefinn á pdf-formi. Þau má nálgast með því að smella á reitinn Dagfari, til vinstri á síðunni.

Málningarvinna í Friðarhúsi

By Uncategorized

pensillUnnið verður að málningarvinnu í Friðarhúsi á sunnudag frá klukkan 14. Um er að ræða hliðarherbergi á stigapalli, sem ætlunin er að nýta undir skrifstofu SHA.

Allir eru velkomnir og vonandi leggja sem flestir hönd á plóg.

Heitt á könnunni.

Aðgerðir gegn Íraksstríðinu 18. mars

By Uncategorized

End the War Eins og kom fram í fréttum hér á síðunni 10. janúar (sjá hér neðar á síðunni) er stefnt að mótmælaaðgerðum gegn Íraksstríðinu dagana 18.-20. mars. Sagt var frá því að samtökin Stop the War Coalition í Bretlandi og ANSWER (Act Now to Stop War & End Racism) í Bandaríkjunum séu farin að undirbúa aðgerðir. Nú hafa samtökin United for Peace and Justice (UFPJ) einnig boðað aðgerðir í Bandaríkjunum undir kjörorðunum „Þremur árum of lengi“ (Three Years Too Many) og og „Stöðvið stríðið – kallið hersveitirnar heim strax“. UFPJ eru stærstu regnhlífarsamtök friðarhreyfinga í Bandaríkjunum, stofnuð í 25. október 2002. Samtökin hafa deildir eða aðildarfélög um gjörvöll Bandaríkin og hugmyndin er að það verði aðgerðir hvarvetna í Bandaríkjunum vikuna 15. til 22. mars.

Væntanlega verða aðgerðir víða um heim helgina 18.-19. mars. Miðnefnd SHA ákvað á fundi sínum 11. janúar að stefna að aðgerðum í Reykjavík laugardaginn 18. mars. Nánar verður sagt frá undirbúningi og undirbúningsfundir auglýstir hér á síðunni þegar þar að kemur.

Innrásin er ýmist sögð hafa hafist 19. eða 20. mars 2003. Í Evrópu er miðað við 20. mars, í Ameríku 19. mars. Ástæðan er sú að innrásin hófst aðfaranótt 20. mars, um það bil kl. hálf sex að staðartíma í Írak. Í Ameríku var ekki enn komið miðnætti og því var ennþá 19. mars þar.