Skip to main content

Forkastanlegt framferði lögreglu gagnvart mótmælendum og ferðamönnum

By Uncategorized

IMG 0882 Friðarvefurinn tekur undir þá gagnrýni sem fram hefur komið á aðgerðir lögreglu gagnvart mótmælendum á Kárahnjúkasvæðinu, svo sem í ályktun Náttúruverndarsamtaka Íslands, sem nálgast má á heimasíðu samtakanna.

Rétturinn til mótmælaaðgerða er mikilvægur hluti tjáningarfrelsis og fáir vita það betur en herstöðvaandstæðingar og friðarsinnar hversu dýrmætur sá réttur er. Eðlilegt er að lögreglan bregðist við ef mótmælaaðgerðir ógna friði og öryggi eða valda tjóni, en svo er að sjá að í þessu tilviki, eins og reyndar líka í fyrrasumar, hafi lögreglan farið úr yfir öll mörk. Þannig hefur ritstjóri Friðarvefsins hitt ungt fólk sem ætlaði sér til gamans inn að Kárahnjúkum á laugardaginn en var stöðvað af lögreglumanni sem yfirheyrði þau um hvert þau væru að fara, hvort þau væru á vegum einhvers o.s.frv., og meinaði þeim síðan að fara áfram þennan veg. Þarna var ekki um neitt afmarkað svæði að ræða, engin girðing eða hlið, þetta var bara á veginum, vegi sem ekki var á neinn hátt auðkenndur sem einkavegur eða vegur bannaður umferð. Engin haldbær skýring var gefin. Það er orðið undarlegt lýðræðisríki ef almenningur getur ekki ekið um vegi landsins án þess að gefa lögreglunni upplýsingar um tilgang fararinnar. Slíkt ríki kallast lögregluríki. Og slíku ber að mótmæla.

Mynd: www.savingiceland.org

Náttúruverndarsamtök á Norðurlöndum: Varnarsvæði skulu hreinsuð á kostnað mengunarvalds

By Uncategorized

Landvernd Fundur Landverndar og sex norrænna náttúruverndarsamtaka sem haldin var í Færeyjum dagana 31. júlí – 3. ágúst 2006 sendi ríkisstjórn Íslands eftirfarandi orðsendingu vegna brottfarar bandaríkjahers frá Íslandi:

Þar sem bandaríkjaher er nú á förum frá Íslandi þarf að tryggja hagsmuni Íslendinga er varða umhverfisgæði. Náttúruverndarsamtök á Norðurlöndum beina því til ríkisstjórnar Íslands að sjá til þess að nauðsynlegar rannsóknir fari fram og að menguð svæði verði hreinsuð með fullnægjandi hætti á kostnað mengunarvalds í samræmi við mengunarbótaregluna.

Herinn hefur haft umsvif víðsvegar á Íslandi í hart nær sextíu ár. Víða um heim þar sem herstöðvar hafa verið starfræktar hefur slík starfsemi valdið umtalsverðri mengun í jarðvegi og grunnvatni. Ísland er engin undantekning í þeim efnum þar sem fundist hefur mengun sem rakin hefur verið til starfsemi bandaríkjahers á nokkrum svæðum á landinu.

www.landvernd.is

Undirskriftasafnanir vegna stríðsins í Miðausturlöndum

By Uncategorized

Um allan heim leita menn leiða til að stöðva blóðbaðið í Líbanon og Palestínu. Því miður hafa ýmsir af áhrifamestu mönnum heims takmarkaðan áhuga. Mótmælaaðgerðir eru daglega víða um heim og margir hafa hafið undirskriftasafnanir til að reyna að hafa áhrif á ráðamenn.

Save Lebanon Við höfum áður vakið athygli á þessari undirskriftasöfnun:
http://epetitions.net/julywar/index.php
sjá nánar hér: https://fridur.is/safn/384
Við minnum áfram á hana.

Stop the Bloodshed Við viljum einnig minna á þessa undirskriftasöfnun sem er nýlega hafin:
http://www.ceasefirecampaign.org/

Textinn, sem skrifað er undir, er á þessa leið:

Heimurinn má ekki leyfa að blóðbaðið í Miðausturlöndum haldi áfram. Þúsundir saklausra borgara hafa verið drepnir og limlestir, hátt í ein milljón manns eru heimilislausir og hætta er á enn frekari átökum með hryllilegum afleiðingum. Við skorum á Bush, forseta Bandaríkjanna, Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að styðja ákall Kofi Annans, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, um tafarlaust vopnahlé og alþjóðlegt lið til að koma á friði.

Takmarkið er að safna milljón undirskriftum. Undirskriftirnar verða afhentar Öryggisráðinu og áskorunin birt í dagblöðum í Bandaríkjunum, Evrópu og Miðausturlöndum.

Að þessu átaki stendur hópur fólks í tenglsum við samtökin MoveOn og Res Publica og vefritið openDemocracy.

Ceasefire - Lebanon/Israel Við minnum líka á vefsíðu Amnesty International um stríðið í Líbanon.

Mótmælaaðgerðir víða um heim – 100.000 manns í Lundúnum

By Uncategorized

potest London 05.08.06 Í dag, laugadaginn 5. ágúst, eru víða mótmælaaðgerðir gegn ofbeldi Ísrales í Líbanon og Palestínu. Í Lundúnum var í dag mikil mótmælaganga og var safnast saman í Hyde Park á hádegi á staðartíma. Skv. Indymedia voru 100 þúsund manns í göngunni að sögn skipuleggjenda (tvennum sögum fer þó af fjöldanum, 15 þúsund skv. RÚV í dag). Gönguleiðin lá hjá Downing Street 10, heimili forsætisráðherrans, og hvöttu skipuleggjendurnir, samtökin Stop the War Coalition, fólk til að skilja eftir barnaskó á tröppum forsætisráðherrans.

Í Bandaríkjunum eru víða mótmælaaðgerðir í dag (sjá U.S. Troops Out Now) en verið er að undirbúa miklar mótmælaaðgerðir um næstu helgi (sjá International A.N.S.W.E.R) og stærstu friðarsamtök Bandaríkjanna, United for Peace and Justice, hafa í samstarfi við samtökin US Campaign to End the Israeli Occupation lýst næstu viku sem viku aðgerða til að krefjast vopnahlés í Miðausturlöndum

Viðskiptabann á Ísrael

By Uncategorized

boycott Israel Í grein eftir Þorleif Gunnlaugsson, formann Vinstrihreyfingarinnar græns farmboðs í Reykjavik, á heimasíðu Ögmundar Jónassonar 1. ágúst hvatti hann til að stjórmálasambandi við Ísrael yrði slitið og sett á viðskiptabann. Fleiri greinar hafa fylgt í kjölfarið, sjá ogmundur.is.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á yfirlýsingu hafnarverkamanna í Liverpool frá 28. júlí. Þar átelja þeir verkalýðsfélög fyrir að hafa sýnt lítil viðbrögð við árásunum á Líbanon. Minnt er á það að á fjórða áratugnum fóru verkamenn frá Merseyside til Spánar til að berjast gegn fasimanum, 1973 neituðu vélvirkjar í Rolls Royce verksmiðjunum í Glasgow að aðstoða við flutning Rolls Royce flugvélahreyfla, sem átti að selja herforingjastjórninni í Chile, og á níunda áratugnum tóku hafnarverkamenn í Liverpool þátt í viðskiptabanni gagnvart Suður-Afríku eins og verkalýðsfélög víða um heim. Vitnað er í orð Willie Madisha, forseta suðurafríska verkalýðssambandsins COSATU, um að viðskiptabannið á Suður-Afríku hafi auðveldað baráttuna þar og á sama hátt gæti viðskiptabann virkað gagnvart Ísrael.

Á undanförnum árum hafa af og til heyrst raddir um að tími væri kominn til að setja viðskiptabann á Ísrael. Framferði ísraelskra stjórnvalda gagnvart Palestínumönnum hefur verið kennt við apartheid, en svo var aðskilnaðarstefna hvítra stjónvalda í Suður-Afríku kölluð á sínum tíma. Með viðskiptabanni tókst að brjóta þá stefnu á bak aftur.

Einhverjir kunna að sjá tvískinnung í því, að þeir sem börðust gegn viðskiptabanni á Írak á valdatíma Saddams Hussein skuli nú krefjast viðskiptabanns á Ísrael. Málið er hins vegar það að viðskiptabann nýtist misjafnlega eftir aðstæðum og gengur illa gagnvart einræðisstjórn á borð við stjórn Saddam Husseins þar sem ráðamenn láta sig hag almennings litlu skipta en geta sjálfir lifað í vellystingum praktuglega þrátt fyrir viðskiptabann. Suður-Afríka var hins vegar lýðræðisríki að því er sneri að hvíta minnihlutanum og Ísraelsríki er líka lýðræðisríki, þetta eru ríki og þjóðir sem er umhugað að teljast í klúbbi hinna vestrænu lýðræðisríkja og taka m.a. þátt í menningarlegu samstarfi (svo sem Evróvisjón) og alþjóðlegum íþróttakeppnum. Almenningur og almannasamtök voru líka virk, listamenn og samtök þeirra, íþróttafélög og verkalýðsfélög.

Roger Waters sýndi frumkvæði með því að aflýsa snemma í sumar fyrirhuguðum hljómleikum í Ísrael og frést hefur af fleiri tónlistarmönnum sem hafa gert það. Verkalýðsfélög gætu byrjað á því að senda verkalýðsfélögum í Ísrael skilaboð, sömuleiðis gætu listamenn sent kollegum sínum í Ísrael skilaboð. Í Írak olli viðskiptabannið hungurneyð og dauða ótal óbreyttra borgara, ekki síst barna. Í Suður-Afríku virkaði það fyrst og fremst þannig að hvíta minnihlutanum skildist að með framferði sínu væri hann ekki talinn hæfur í hinn vestræna klúbb og þannig myndi viðskiptabann virka á Ísrael. Viðskiptabanni þarf ekki að haga þannig að það valdi neyð meðal almennings. Styrkur viðskiptabannsins á Suður-Afríku lá í allt öðru.

Í ályktun sinni skora hafnarverkamennirnir í Liverpool á launafólk að:

  1. sniðganga vörur frá Ísrael (sjá „Sniðgöngum ísraelskar vörur“ á palestina.is)
  2. athuga hvort vinnuveitandi eigi einhver viðskipti við Ísrael og taka það þá til umræðu
  3. taka málið upp innan verkalýðsfélgsins og krefjast þess að ástandið í Líbanon og á Gaza sé viðurkennt sem mál er varðar verkalýðshreyfinguna og kallar á viðbrögð hennar
  4. taka þátt í mótmælaaðgerðum og gefa fé í safnanir handa fórnarlömbum árásarstefnu Ísraels
  5. að skerast, ef mögulegt er, beint í leikinn til að stöðva viðskipti við Ísrael

Sjá einnig:
„Time to Impose Sanctions on Israel“ eftir Harry van Bommel, þingmann Sósíalistaflokks Hollands
„ICAHD First Israeli Peace Group to Call for Sanctions“, 27. janúar 2005