Skip to main content

Det Danske Fredsakademi

By Uncategorized

http://www.fredsakademiet.dk/abase/index.htm Það er full ástæða til að vekja athygli á danska vefnum Det Danske Fredsakademi. Þetta er öflugur vefur með óhejmumikið af allskyns upplýsingum varðandi stríð og frið og baráttuna fyrir friði. Bakvið þennan vef eru aðrir sérstakir vefir.

Þar á meðal er Freds- og sikkerhedspolitisk leksikon, þar sem hægt er að slá upp ótal orðum, ekki bara á þröngu sviði friðar- og öryggismála, eins og nafnið bendir til, heldur á miklu víðara sviði.

Annar undirvefur er Kronologi eða sögulegt yfirlit yfir atburði allt frá árinu 33 e.Kr. þegar talið er að Jesús hafi flutt fjallræðuna, þá frægu friðarræðu, til okkar daga, auk annarra upplýsinga. Einnig er þarna rafrænt bókasafn með bækur og greinar á pdf-formi og loks er það sem kallast Databaser, það er að segja ýmiskonar upplýsingasöfn og leiðir, svo sem um bækur, tímarit, bókasöfn, samtök, kvikmyndir, söngva, bæði danska og frá öðrum löndum og fleira.

Vefurinn miðast að nokkru við danskar aðstæður, en er þó engan veginn bundinn við þær og þar er líka talsvert efni bæði á ensku og þýsku. Það er vel þess virði að skoða þennan vef, þar er ýmislegt forvitnilegt og gagnlegt að finna.

Þörf á ítarlegri rannsókn á mengun á herstöðvasvæðunum

By Uncategorized

Í Blaðinu hefur undanfarna daga verið fjallað um mengun af völdum hersins á Suðurnesjum. Margir hafa haft áhyggjur af því hvernig viðskilnaðurinn verður hvað þetta varðar en ekkert er gefið upp um hvað rætt er á samningafundum sem haldnir hafa verið vegna brottfarar hersins.

Í febrúar árið 2000 lögðu Steingrímur J. Sigfússon og Sigríður Jóhannesdóttir fram eftirfarandi þingsályktunartillögu á Alþingi:

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gangast fyrir rannsókn á umfangi mengunar í jarðvegi og grunnvatni frá „varnarsvæðinu“ við Keflavíkurflugvöll.

Í umræðum um tillöguna 16. mars árið 2000 gerði þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, lítið úr vandanum og sagði að sú mengun sem um væri að ræða væri þekkt. Jafnframt gerði hann lítið úr ábyrgð Bandaríkjamanna, taldi þá hafa hegðað sér í samræmi við þær reglur sem hefðu verið á hverjum tíma og ekki bótaskyldir þegar svo væri. „Mér er sönn ánægja,“ sagði hann, „að upplýsa að utanríkisráðuneytið hefur vakandi auga yfir mengunarmálum vegna starfsemi varnarliðsins og það er fylgst náið með hugsanlegri mengunarhættu. Ég tel hins vegar að engin efni séu til þess að á þessu stigi fari fram umfangsmiklar rannsóknir á stöðu mála og ég tel að þessi málefni séu í allgóðu lagi á því svæði sem hér hefur verið til umræðu.“

Að lokinni fyrri umræðu var tillögunni vísað til utanríkismálanefndar og hefur verið skv. vef Alþingis til umræðu þar síðan 4. maí 2000.

Tillaga sama efnis var áður flutt af Sigríði Jóhannesdóttur á Alþingi árið 1992 og endurflutt 1997 en var ekki afgreidd.

Enn var tillaga sama efnis lögð fram á Alþingi 12. febrúar 2004 af Steingrími J. Sigfússyni. Sú tillaga var svohljóðandi:

    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta fara fram rannsókn á umhverfisáhrifum af völdum erlendrar hersetu og hernaðarumsvifa á Íslandi og hættum sem eru núverandi hernaðarumsvifum samfara. Einnig verði gerð úttekt á lagalegum álitaefnum þessu tengdum.

    Rannsókn beinist sérstaklega að eftirfarandi þáttum:

    1. grunnvatnsmengun,
    2. jarðvegsmengun,
    3. frágangi spilliefna og sorphauga,
    4. umhverfishættu sem stafar af núverandi hernaðarumsvifum,
    5. réttarfarslegum hliðum málsins varðandi skaðabótaskyldu erlendra og/eða íslenskra stjórnvalda gagnvart landeigendum í þeim tilfellum sem mengun hefur orðið og skyldu þeirra til að hreinsa menguð svæði.

    Jafnframt verði reynt að áætla kostnað við hreinsun þeirra svæða sem mengast hafa.

Þessi tillaga hefur ekki enn verið tekin til umræðu.

Af umfjöllun Blaðsins um þessi mál má ráða að betur hefði verið farið að tillögum þeirra Sigríðar og Steingríms.

Utanríkisráðherra sagði í umræðunum árið 2000: „Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur sinnt eftirliti með umhverfismálum á varnarsvæðum frá 1989 og greiðir varnarliðið fyrir þann kostnað sem af því hlýst. Heilbrigðiseftirlitið hefur starfsmann sem sinnir þessum verkefnum sérstaklega og starfar náið með umhverfisdeild varnarliðsins. Umhverfisdeild varnarliðsins hefur með höndum innra eftirlit á varnarsvæðunum og starfa þar á annan tug manna í dag. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur eftirlit með umhverfisdeildinni og að hún starfi í samræmi við íslenskar reglur.“

Í umfjöllun Blaðins 25. ágúst segir svo:

    Magnús Guðjónsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, hefur áhyggjur af olíu- og PCB-mengun á svæði varnarliðsins á Suðurnesjum.

    „Við vitum um nokkur svæði þarna með PCB-mengun í og það getur verið að við vitum ekki um þau öll. Við höfum upplýsingar um stór svæði sem notuð voru til urðunar og þar er ýmislegt grafið sem við vitum ekkert um,“ segir Magnús.

Jafnframt hefur Blaðið eftir Cornelis Aart Meyles, sérfræðingi Umhverfisstofnunar í jarðvegsmengun:

    „Bandaríski herinn hefur gengið mjög illa um á þeim stöðum þar sem hann hefur athafnað sig hér á landi. Ég er undrandi á athafnaleysi stjórnvalda, þeim er leyft að pakka bara saman og fara. Áður en þeir fara eigum við að grípa til stórtækra rannsókna á þessu svæði. Það er mjög erfitt að fá þá til að sýna ábyrgð eftir að þeir eru farnir,” segir Cornelis.

Það er auðvitað ekki seinna vænna. Fyrir tveimur árum, sex árum, níu árum og fjórtán árum voru lagðar fram tillögur á Alþingi um að gerð yrði rannsókn á umhverfismálum á herstöðvasvæðinu. 1992 var tillaga tekin til fyrri umræðu en enginn stjórnarþingmaður tók til máls. 1997 kom hún ekki til umræðu né heldur 2004. Það var bara árið 2000 sem einhverjar umræðu urðu um, en utanríkisráðherra gerði lítið úr málinu og taldi engin efni til að gera nokkrar rannsóknir.

Hvers vegna?

By Uncategorized

bear-d Í þessari grein, sem birtist í Morgunblaðinu 4. júní 2006, hrekur Vigfús Geirdal staðhæfingar ritstjóra Morgunblaðsins um að Íslendingum hafi stafað ógn af sovéskum flugvélum, kafbátum og njósnaduflum á dögum kalda stríðsins

„HVERS vegna voru risastórar sovézkar sprengiflugvélar stöðugt á ferð í kringum Ísland, nánast í hverri viku? Hvers vegna voru sovézkir kafbátar allt í kringum landið? Hvers vegna fundust sovézk njósnadufl hér og þar í fjörum á Íslandi?“

Þessum þremur spurningum er varpað fram í athyglisverðum leiðara Morgunblaðsins þriðjudaginn 22. maí sl. Svarið liggur í augum uppi að mati leiðarahöfundar. Spurningunum er í raun ætlað að birta í hnotskurn ógnina sem Íslendingum stafaði á sínum tíma af Sovétríkjunum. Öllum á að vera ljóst að vegna þessarar ógnar var nauðsynlegt að hafa hér bandarískt varnarlið í hartnær hálfa öld. Og vegna hennar var það réttlætanlegt að hlera síma þeirra „sem vildu að Ísland yrði skilið eftir varnarlaust í þeim hörðu átökum“ sem áttu sér stað á tímum kalda stríðsins.

Það eru auðvitað staðreyndir að sovéskar herflugvélar áttu árum saman reglulega leið hjá, eða jafnvel um íslenska lofthelgi. Sovéskir kafbátar fóru um sundin milli Grænlands og Íslands og Skotlands til að komast út á Atlantshaf. Og það er alkunna að þessir kafbátar drógu oft langa kapla með hlustunarduflum til að reyna að hlera ferðir bandarískra kafbáta.

En stundum er hægt að setja staðreyndir fram með þeim hætti að úr verður afskræming á sannleikanum. Og það gerir leiðarahöfundur Morgunblaðsins hér, hvort sem hann gerir það af vanþekkingu eða vitandi vits. Þegar grannt er skoðað er engin þessara umræddu staðreynda vísbending um ógnun sem sérstaklega er beint að Íslandi.

Herflugvélarnar sem um ræðir voru vissulega þess konar vélar sem kallaðar voru á Vesturlöndum „Björninn“, þ.e. í grunninn sams konar vélar og langdrægar sprengiflugvélar Sovétmanna. Langflestar vélarnar, sem orustuþotur varnarliðsins í Keflavík flugu í veg fyrir, voru hins vegar svokallaðar “Björninn D”, könnunar- og kafbátaleitarvélar, á leið til eða frá Kúbu og reyndar afar berskjölduð skotmörk. Þetta voru með öðrum orðum ekki sprengiflugvélar sem beint var að Íslandi.

Kafbátar þeir sem einkum áttu leið hjá Íslandi voru svokallaðir árásarkafbátar, þ.e. kafbátar sem ætlað var svipað hlutverk og þýskum kafbátum í síðari heimsstyrjöld. Þetta voru skip hönnuð til átaka við bandaríska kafbáta, flugmóðurskipaflota og flutningaskipalestir á stríðstímum. Þessir kafbátar voru sannarlega hluti af þeirri ógn sem mannkyninu stafaði af átökum risaveldanna í kalda stríðinu en þessir bátar báru engan þann vígbúnað sem stefnt var sérstaklega að Íslandi. Síst af öllu eru kafbátar til þess fallnir að flytja landgöngulið til að gera innrás í landið (ef það er það sem leiðarahöfundur Mbl. ætlar lesendum sínum að trúa).

Njósnaduflin sem fundust „hér og þar í fjörum á Íslandi“ (fundust ekki jafnvel einhver við Kleifarvatn?) voru jafnvel enn minni „ógn“ við íslenskt þjóðaröryggi en þeir Ragnar Arnalds og Kjartan Ólafsson eftir að þau hafði rekið á fjörur hér við land.

Þessi dufl höfðu eingöngu það hlutverk að hlera ferðir kafbáta og það má jafnvel draga í efa gagnsemi þeirra á því sviði, ef haft er í huga að bandarískir kafbátaforingjar hældu sér iðulega af því að hafa siglt bátum sínum undir sovéskum kafbátum inn á hafnir á Kolaskaga án þess að þeirra yrði vart.
Það er dálítið kaldhæðnislegt að þessar sovésku „sprengiflugvélar“, kafbátar og „njósnadufl“ afhjúpa fyrst og fremst veikleika sovésku hernaðarvélarinnar í samanburði við þá bandarísku á dögum kalda stríðsins. Það hefði verið meiri ástæða til að óttast ef stjórn-, eftirlits- og njósnabúnaður Bandaríkjahers hefði ekki nær öllum stundum vitað hvar þessi stríðstól Sovétríkjanna voru hverju sinni.

Mikilvægasta staðreynd þessa máls er sú að Bandaríkjaher taldi Íslandi ekki stafa meiri ógn af Sovétríkjunum en svo að hann hafði aldrei nokkurn tíma neinn viðbúnað hér á landi til að verjast hugsanlegri innrás þeirra.
Báðum aðilum var fullkomlega ljóst að Sovétríkin höfðu aldrei hernaðarlegar forsendur til að hernema Ísland og halda landinu.

Mynd: www.fas.org/nuke/guide/russia/bomber/tu-95.htm