Skip to main content

Kveðjuför til Suðurnesja sunnudag kl. 12

By Uncategorized

Herstöðvaandstæðingar munu á morgun, sunnudaginn 1. október, halda til Suðurnesja í kveðjuför. Lagt verður af stað frá Friðarhúsinu, Njálsgötu 87, kl. 12. Farið verður á slóðir herstöðvarinnar og komið aftur í bæinn á sjötta tímanum. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst, t.d. með því að senda póst á netfangið sha@fridur.is.

Það eru fleiri en Samtök herstöðvaandstæðinga sem fagna brottför hersins, enda er trúlegt að flestir Íslendingar séu því fegnir að þessari hersetu er loksins lokið. Þjóðarhreyfingin – með lýðræði heldur fund á NASA við Austurvöll kl. 14 á sunnudag. Aðalræðumaður þar verður Jón Baldvin Hannibalsson fyrrverandi utanríkisráðherra.

Þá herstöðvaandstæðinga sem eru minnugri en gullfiskar rámar í það að Jón Baldvin hafi verið utanríkisráðherra árið 1994 þegar fyrri bókunin við herstöðvasamninginn var gerð vegna viðleitni Bandaríkjamanna til að draga úr umsvifum hersins og herstöðvarinnar. Viðbrögð utanríkisráðuneytisins við þeirri viðleitni voru að halda í herinn og starfrækslu herstöðvarinnar. Það er virkilega fagnaðarefni að þáverandi utanríkisráðherra skuli nú sjá tilefni til að fagna brottför hersins.

Rétt er, þótt nú sé ærið tilefni til að fagna, að gleyma sér ekki í fögnuðinum. Það hefur allt verið krafa Samtaka herstöðvaandstæðinga að herstöðvasamningnum, eða varnarsamningnum eins og hann heitir opinberlega, verði sagt upp og Ísland gangi úr NATO. En nú er ætlunin að flækja Ísland og íslenskar stofnanir, eins og lögreglu og landhelgisgæsluna, í allskyns samstarf við bandarískar stofnanir, bæði borgaralegar og hernaðarlegar, bandaríski herinn fær árlega aðstöðu hér til heræfinga, sérstakt svæði verður skilgreint á Keflavíkurflugvelli til þessara æfinga og annarra hernaðarþarfa og bandaríski herinn mun áfram „halda fjarskiptastöðinni við Grindavík sem varnarsvæði“. Þessu er sem sagt alls ekki lokið.

Jafnframt hefur NATO að undanförnu verið að þróast úr staðbundnu bandalagi í herskátt hernaðarbandalag sem lætur til sín taka langt út fyrir sitt svæði og er t.d. núna í blóðugri styrjöld í Afganistan. Aldrei hefur verið jafnmikil ástæða til að segja skilið við NATO og einmitt nú.

Ísland úr NATO – segjum herstöðvasamningnum upp!

Ritstjóri

Kræsingar í Friðarhúsi

By Uncategorized

KokkurHinar mánaðrlegu fjáröflunarmáltíðir Friðarhúss hefjast á ný eftir sumarið fös. 29. september. Borðhald hefst kl. 19 og boðið verður upp á stutt skemmtiatriði.

Þrátt fyrir þenslu og óðaverðbólgu í samfélaginu kostar maturinn sem fyrr litlar 1.000 krónur.

Matseðillinn er á þessa leið:

Grænmetissúpa
indverskur kjúklingapottréttur
hrísgrjón
jógúrt raitha
naanbrauð

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

* * *

Enn er minnt á Suðurnesjaferð SHA, sunnudaginn 1. okt. Um er að ræða rútuferð frá Friðarhúsi kl. 12. Farið verður á slóðir herstöðvarinnar undir leiðsögn.

Æskilegt er að sem flestir skrá sig með því að senda tölvupóst á sha@fridur.is til að auðvelda skipulagningu.

Samkomulag milli Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál

By Uncategorized

Niðurstöðurnar af samningaviðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda má nálgast á vefsíðu stjórnarráðsins. Um er að ræða:

1. Samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um varnarmál.

2. Samningur milli ríkisstjórnar Bandaríkja Ameríku og lýðveldisins Íslands um brottflutning Bandaríkjahers frá tilteknum varnarsvæðum og mannvirkjum á Íslandi og um skil þeirra svæða og mannvirkja til Íslands.

3. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför.

Við munum fjalla um þessar niðurstöður innan skamms en í fljótu bragði virðist vera ljóst að Samtök herstöðvaandstæðinga munu hafa nógu að sinna eftir sem áður auk þeirrar almennu friðarbáráttu sem þau munu áfram sinna.

Við minnum á dagskrá SHA á næstunni:

Föstudagskvöldið 29. september verður fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi. Borðhald hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Máltíðin kostar aðeins 1.000 krónur en matseðillinn er á þessa leið: Grænmetissúpa, indverskur kjúklingapottréttur, hrísgrjón, jógúrt raitha og naanbrauð.

Sunnudaginn 1. október kl. 12 halda herstöðvaandstæðingar til Suðurnesja í kveðjuför. Farið verður á slóðir herstöðvarinnar og komið aftur í bæinn á sjötta tímanum. Ýmsar óvæntar uppákomur. Nánari dagskrá kynnt síðar. Áhugasamir eru hvattir til að skrá sig sem fyrst, t.d. með því að senda póst á netfangið sha@fridur.is

Miðvikudagskvöldið 4. október, kl. 20 mun sagfræðingurinn Vigfús Geirdal flytja óformlegt erindi um ýmsa þætti er varða sögu herstöðvarinnar á Miðnesheiði og herstöðvamálið. Í framhaldinu verða almennar umræður. Fundarstjóri er Stefán Pálsson formaður miðnefndar SHA. (ATH. var áður auglýst mið. 27. sept.)