Skip to main content

Herinn farinn

By Uncategorized

Steinar Harðarson skrifar á Morgunpósti VG 3. október:

morgunposturÍ sumar gerði ég þá ánægjulegu uppgötvun að næsta 17. júní verður væntanlega haldið uppá sjálfsæði þjóðarinnar í herlausu landi. Það er í raun ótrúlegt að í heil 55 ár hefur erlendur her setið í landinu. Í fyrsta sinn í 55 ár, fimmtíuogfimm ár, getur þjóðin fagnað fullveldi án erlendrar hersetu. Heil kynslóð hefur alist upp í landinu með erlendan her sem sjálfsagðan hlut. Og nú er hann loksins farinn.
meira

Leynd og lausir endar

By Uncategorized

Þórunn Sveinbjarnardóttir alþingismaður skrifar á heimasíðu sinni 2. október:

ThorunnHerinn er farinn. 55 ára sögu Keflavíkurherstöðvarinnar er lokið, a.m.k. í þeirri mynd sem við þekkjum. Það er ástæða til þess að gleðjast yfir því. Margboðuð brottför bandaríska hersins hefði ekki átt að koma nokkrum manni sem fylgst hefur með þróun heimsmála eða með samskiptum Íslands og Bandaríkjanna á óvart. En samt létu ráðamenn sem tilkynningin um brotthvarf hersins 15. mars sl. hefði komið þeim í opna skjöldu. Stundum býr fólk sér til hjúp afneitunar til þess að þurfa ekki að fást við óþægileg og aðkallandi verkefni. Það á jafnt við um stjórnmálamenn sem aðra. Það virðist hafa verið tilfellið með ráðherra í ríkisstjórn Íslands sl. áratug eða svo.
meira

Jón Baldvin: Hverfum frá Bandaríkjunum til Evrópu

By Uncategorized

thjodarhreyfinginÞjóðarhreyfingin hélt fund 1. október síðastliðinn til að fagna brottför hersins. Á fundinum voru ræðumenn þeir Pétur Gunnarsson rithöfundur og Jón Baldvin Hannibalssion fyrrverandi utanríkisráðherra.

Í ræðu sinni andmælti Jón Baldvin þeirri útbreiddu skoðun að leiðtogar íslenska lýðveldisins hefðu yfirleitt verið Bandaríkjunum helst til leiðitamir og nefndi ýmis dæmi þess að þeir hafi oft tekið sjálfstæða afstöðu jafnvel í andstöðu við vilja og stefnu Bandaríkjamanna. Hinsvegar hafi skipt um með núverandi ríkisstjórn sem hafi öfugt við forvera sína, sem ekki hafi látið segja sér fyrir verkum þegar þjóðarhagsmunir voru annarsvegar, brugðist trausti þjóðarinnar, m.a. með hinni dæmalausu stuðningsyfirlýsingu við ólöglegan stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak. Hann gagnrýndi samninginn um brottför hersins ekki síst fyrir að enn eigi Íslendingar að reiða sig á vernd Bandaríkjanna, sem hafi breyst í herskátt ríki fámennrar yfirstéttar sem hafi nánast sagt sig úr lögum við alþjóðasamfélagið og jafnvel hafið kalt stríð sem snýst um yfirráð yfir orkulindum og helstu hráefnum jarðarinnar. Í stað þess að reiða sig á Bandaríkin telur Jón Baldvin að nær treysta böndin við Evrópusambandið.

Þess má geta að í ávarpi sem Ragnar Arnalds fyrrverandi menntamálaráðherra hélt á samkomu Samtaka herstöðvaandstæðinga 29. september hélt hann því fram að barátta herstöðvaandstæðinga hefði haft meiri áhrif en oft er talið og m.a. komið í veg fyrir að Bandaríkjamönnum tækist koma sér upp enn meiri herstöðvum en raun varð á og vísaði m.a. annars til vilja þeirra til að koma upp herflugvöllum á Rangárvöllum, í Aðaldal og í Skagafirði og stórri flotastöð í Hvalfirði.

Því miður getum við ekki birt ávarp Ragnars þar sem það var flutt blaðalaust, en ræður Jóns Baldvins og Péturs má finna á heimasíðu Þjóðarhreyfingarinnar:
Ræða Jóns Baldvins Hannibalssonar
Ræða Péturs Gunnarssonar

Ályktun kjördæmisráðs VG í SV-kjördæmi vegna brottfarar hersins

By Uncategorized

Fundur kjördæmisráðs Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðvesturkjördæmi, haldinn 28. september 2006, fagnar því að bandaríska herliðið er loksins farið frá Íslandi eftir 55 ára samfellda hersetu.

Fögnuðurinn er þó blandinn þar sem ýmislegt er við samkomulag íslenskra og bandarískra stjórnvalda að athuga.

  • Enn eru atvinnumál margra fyrrverandi starfsmanna bandaríska hersins óleyst.
  • Samkomulag um frágang mengunar af völdum hersins er ófullnægjandi og bandarísk stjórnvöld sleppa ódýrt frá þeim vandamálum.
  • Gert er ráð fyrir nánu samstarfi milli Íslands og Bandaríkjanna um öryggismál sem felur m.a. í sér gagnkvæma upplýsingamiðlun, samstarf Landhelgisgæslunnar við bandarísku strandgæsluna og samstarf íslensku lögreglunnar við bandarísku lögregluna og sérsveitir Bandaríkjahers. Mjög óljóst er hvernig þessari samvinnu verður háttað eða hversu náin hún verður, hætta er á frekari þróun til óljósari skila milli borgaralegrar og hernaðarlegrar starfsemi og einnig er rétt að hafa í huga að bandarísk löggjöf sem þetta snertir verður æ ólýðræðislegri.
  • Gert er ráð fyrir árlegum heræfingum bandarískra hersveita og sérstakt svæði á flugvellinum skilgreint vegna þessara æfinga eða annarra hernaðarþarfa.
  • Bandaríkin halda fjarskiptastöðinni við Grindavík áfram sem „varnarsvæði“.
  • Í þessu samkomulagi og aðdraganda þess hefur íslenska ríkisstjórnin sýnt undirlægjuhátt gagnvart bandarískum stjórnvöldum, sem nú gerast æ herskárri og ófyrirleitnari.

Kjördæmisráðið telur að nú hefði átt að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin og hefja strax undirbúning að næsta skrefi, sem er úrsögn Íslands úr NATO. Ísland á að vera herlaust og herstöðvalaust land utan hernaðarbandalaga og hlutlaust eins og gert var ráð fyrir þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Friðarstefna á að vera grunnstefið í utanríkisstefnu Íslands.