Skip to main content

Enn fjölgar í hópi kjarnorkuvopnalausra sveitarfélaga

By Uncategorized

Fugl dagsinsSíðla árs 1999 hvöttu SHA íslensk sveitarfélög til að friðlýsa sig fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum. Undirtektir voru almennt góðar og í árslok 2002 var þorri sveitarfélaga búinn að gera slíkar samþykktir.

Á dögunum barst Samtökum hernaðarandstæðinga staðfesting á að nýtt sveitarfélag hefði bæst í hópinn. Húnavatnshreppur varð til í ár með sameiningu Bólstaðarhlíðarhrepps, Sveinsstaðahrepps, Svínavatnshrepps, Torfalækjarhrepps og Áshrepps. Tveir fyrstnefndu hrepparnir höfðu samþykkt friðlýsingu en erindinu ýmist verið vísað frá eða ekki fengist afgreitt í hinum hreppunum þremur.

Eftir þessa samþykkt Húnvetninga eru einungis tíu íslensk sveitarfélög sem ekki hafa fallist á þetta sjálfsagða baráttumál og standa vonir til að þeim muni fækka enn á næstu vikum. Sveitarfélögin sem hér um ræðir eru:

Garðabær
Gerðahreppur
Grindavík
Grímsnes- og Grafningshreppur
Hornafjörður
Reykjanesbær
Sandgerði
Skagabyggð
Skútustaðahreppur
& Vatnsleysustrandarhreppur

Tilkynnt verður jafnóðum um gang þessara mála hér á Friðarvefnum.

Bókmenntakynning MFÍK

By Uncategorized

MFIKHin árvissa bókmenntakynning Menningar- og friðarsamtakanna, MFÍK er ómissandi þáttur í jólaundirbúningi fjölmargra. Hún verður að venju haldin í húsnæði MÍR, Hverfisgötu 105 (á horni Snorrabrautar) laugardaginn 16. desember kl. 14.

Lesið verður úr verkum eftirtalinna höfunda:

* Vilborgar Dagbjartsdóttur
Það kallast ögurstund úr bókinni Heil brú.
Myndir Guðrúnar Hannesdóttur hanga uppi í salnum.

* Ingunnar Snædal
Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást.

* Fríðu Á Sigurðardóttir
Í húsi Júlíu – Guðrún Sigfúsdóttir les.

* Einars Más Guðmundssonar
Ég stytti mér leið framhjá dauðanum.

* Guðrúnar Helgadóttur
Öðruvísi saga.

* Kristínar Steinsdóttur
Á eigin vegum.

* Kristínar Ómarsdóttur
Jólaljóð.

*Rósu Þorsteinsdóttur
Einu sinni átti ég gott : upptökur úr Árnastofnun.

* Hildar Finnsdóttur
Að opna dyr : æviminningar Guðrúnar J. Halldórsdóttur.

* Vilborgar Dagbjartsdóttur
Fjögur ljóð.

* Tónlist: Magga Stína og Kristinn H. Árnason, gítaleikari flytja lög af diskinum Magga Stína syngur Megas.

Aðventustemning. – Kaffisala.
Húsið opnar kl. 13:30 – Allir velkomnir.

Mótmæli gegn endurnýjun kjarnorkuvopna í Bretlandi

By Uncategorized

trident Í gærmorgun, 11. desember, kom hópur fólks að tveimur hliðum flotastöðvarinnar í Faslane í Skotlandi og lagðist þar á götuna til að stöðva umferð. 21 voru handteknir. Síðan aðgerðaætlunin Faslane 365 hófst 1. október sl. hafa 350 manns verið handteknir við mótmælaaðgerðir við flotastöðina.

Í Bretlandi hafa að undanförnu verið tíðar mótmælaaðgerðir gegn kjarnorkuvopnum, einkum vegna áætlana um endurnýjun kjarnorkuvopnabirgða Breta. Í flotastöðinni í Faslane í Skotlandi eru kjarnorkuvopn staðsett og 1. október sl. var sett af stað aðgerðaáætlun til eins árs, til 30. september 2007, Faslane 365. Víðar í Evrópu hafa að undanförnu verið mótmælaaðgerðir gegn kjarnorkuvopnum og kjarnorkuvopnaáætlunum NATO, m.a í Belgíu.

Sjá nánar:
www.faslane365.org
www.blockthebuilders.org.uk
www.tridentploughshares.org/index.php3
www.banthebomb.org/index.php
www.globalsecurity.org/wmd/world/uk/clyde.htm
http://en.wikipedia.org/wiki/HMNB_Clyde
www.vredesactie.be/campaign.php?id=12

Mynd: faslane365.org