Á fréttavefnum Bæjarins besta má lesa þessa frétt um friðargöngu á Ísafirði á Þorláksmessu. Líkt og í Reykjavík hefst gangan kl. 18. Lagt verður af stað frá Ísafjarðarkirkju og gengið á Silfurtorg þar sem Eiríkur Örn Norðdahl skáld og blaðamaður ávarpar göngufólkið.
Meðal þeirra tugmilljóna manna sem mótmæltu innrásinni í Írak í mars 2003 var bandaríski leikarinn Sean Penn. 18. desember sl. var honum veitt viðurkenning kennd við leikarann látna, Christopher Reeve. Í ávarpi sem hann flutti við þetta tækifæri gagnrýndi hann bandarísk stjórnvöld harðlega
Í ávarpi sínu vék Penn meðal annars að möguleikanum á ákæru, sem gæfi „kjörnum þingmönnum okkar vald til að láta fara fram rannsókn. Vald til að leggja sannleikann á borðið. Mæður og feður missa börn sína á hræðilegan hátt í þessu stríði á hverjum degi. Hryllilegur dauði. Hryllilegar limlestingar. Var framinn glæpur með því að láta land okkar styðja þá ákvörðun að fara í þetta stríð? … Ef sönnur verða færðar á að framin hafi verið „landráð, mútur eða önnur alvarleg afbrot og afglöp“, gerum þá það sem lagt er fyrir í annarri grein fjórða kafla stjórnarskár Bandaríkjanna og víkjum „forseta, varaforseta og … embættismönnum Bandaríkjanna“ úr embætti. Ef dómsmálaráðuneytinu sýnist svo við hæfi að stinga þeim inn með Jeff Skilling [forstjóra Enron], látum þá svo vera.“
Ávarp Sean Penn má nálgast í heild á þessari slóð:
www.afterdowningstreet.org/node/16505
Samstarfshópur friðarhreyfinga fundar.
Íslenskir friðarsinnar standa að blysför niður Laugaveginn á Þorláksmessu.
Safnast verður saman á Hlemmi og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Friðargangan á Þorláksmessu er nú orðin fastur liður í jólaundirbúningi margra. Gangan í ár er sú tuttugasta og sjöunda í röðinni. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi í upphafi göngunnar.
Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur kórstjóra tekur að vanda þátt í blysförinni sem endar með stuttum fundi á Lækjartorgi.
Þar mun Falasteen Abu Libdeh frá Palestínu halda stutt ávarp. Fundarstóri verður Arnar Jónsson leikari. Fundinum lýkur síðan með friðarsöng.
Friðargöngur verða einnig á Akureyri og Ísafirði á Þorláksmessukvöld.
Síðla árs 1999 hvöttu SHA íslensk sveitarfélög til að friðlýsa sig fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum. Undirtektir voru almennt góðar og í árslok 2002 var þorri sveitarfélaga búinn að gera slíkar samþykktir.
Á dögunum barst Samtökum hernaðarandstæðinga staðfesting á að nýtt sveitarfélag hefði bæst í hópinn. Húnavatnshreppur varð til í ár með sameiningu Bólstaðarhlíðarhrepps, Sveinsstaðahrepps, Svínavatnshrepps, Torfalækjarhrepps og Áshrepps. Tveir fyrstnefndu hrepparnir höfðu samþykkt friðlýsingu en erindinu ýmist verið vísað frá eða ekki fengist afgreitt í hinum hreppunum þremur.
Eftir þessa samþykkt Húnvetninga eru einungis tíu íslensk sveitarfélög sem ekki hafa fallist á þetta sjálfsagða baráttumál og standa vonir til að þeim muni fækka enn á næstu vikum. Sveitarfélögin sem hér um ræðir eru:
Garðabær
Gerðahreppur
Grindavík
Grímsnes- og Grafningshreppur
Hornafjörður
Reykjanesbær
Sandgerði
Skagabyggð
Skútustaðahreppur
& Vatnsleysustrandarhreppur
Tilkynnt verður jafnóðum um gang þessara mála hér á Friðarvefnum.