Skip to main content

Undirskriftasöfnun til að enda martröðina

By Uncategorized

Eftir innrás Bandaríkjanna og fleiri ríkja í Írak 2003 var settur upp dómstóll í anda Russell-dómstólsins sem heimspekingurinn Bertrand Russell hafði frumkvæði að árið 1967 til að rannsaka stríðsglæpi Bandaríkjanna í Víetnam. Í kringum Íraks-dómstólinn voru mynduð samtök með aðsetur í Brussel og kölluð BRussell dómstóllinn (Sjá nánar BRussells Tribunal).

BRussell-dómstóllinn hefur hafið söfnun undirskrifta undir áskorun til bandarískra og breskra stjórnvalda. Í áskoruninni er bent á það hörmungarástand sem ríkir í Írak og að innrásin hafi brotið í bága við alþjóðalög og nauðsynlegt sé að það sé rannsakað. Settar eru fram tvær kröfur:

Semjið við andstöðuna!
Refsið fyrir glæpina!

Fyrst til að skrifa undir áskorunina voru Denis Halliday og Hans von Sponeck fyrrum aðstoðarmenn framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna í Írak og Margarita Papandreou fyrrum forsetafrú í Grikklandi.

Nánari upplýsingar og form til að setja sig á undirskirftalistann er hér.

Pétur Pétursson. Kveðja frá SHA

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga minnast með virðingu Péturs Péturssonar sem borinn var til hinstu hvílu í dag og senda aðstandendum hans samúðarkveðjur. Pétur var alla tíð heitur andstæðingur erlendrar hersetu á Íslandi og meðal þeirra sem hófu baráttuna gegn herstöðvum Bandaríkjamanna hér. Með honum er nú genginn hinn síðasti af þeim sem skrifuðu undir „Ávarp um þjóðareiningu gegn her á Íslandi“ árið 1953. Pétur kom á landsráðstefnu SHA árið 2003 og rifjaði þetta upp.

Í ávarpinu var lögð áhersla á:

Að skipuleggja samstarf allra þeirra landsmanna sem hafa lýst sig andvíga her í landi.

Að blása lífi í allsherjar þjóðernisvakningu, sem hafi á stefnuskrá sinni endurheimt réttinda úr höndum hersins og íslenzkra forsvarsmanna hans.

Að ræða eftirgreind atriði:

a) lagalegt gildi herverndarsamningsins.

b) þjóðhættulega afleiðing þess, að Ísland gerðist aðili Atlantshafssáttmálans.

c) árekstra milli hermanna og Íslendinga.

Að gagnrýna alla þá, sem eru eða gerast kunna forsvarsmenn hers á Íslandi.

Að kynna þjóðinni þá hættu, sem sjálfstæði Íslands stafar af hernaðarlegum samningum, sem Ísland gerist aðili að.

Að kynna þjóðinni réttleysi Íslands til skaðabóta ef andstæðingar Bandaríkjanna sigra í styrjöld, sem háð kann að verða umhverfis Ísland eða í landinu.

Að krefjast þess, að forystumenn þjóðarinnar haldi Íslandi utan við hernaðarleg átök stórveldanna, hver sem í hlut á.

Við væntum þess að allir Íslendingar sameinist í þessu mikilvæga þjóðernismáli.

Þetta var undirritað:

Með vinsemd, Reykjavík, 8. apríl 1953.

Aðalbjörg Sigurðardóttir, frú
Einar Gunnar Einarsson, lögfræðingur.
Guðjón Halldórsson, bankaritari.
Gísli Ásmundsson, kennari.
Gunnar J. Cortes, læknir.
Gunnar M. Magnúss, rithöfundur.
Jón Þórðarson frá Borgarholti.
Marinó J. Erlendsson, afgreiðslumaður.
Ólafur Jóh. Sigurðsson, rithöfundur.
Pétur Pétursson, útvarpsþulur.
Sigríður Eiríksdóttir, hjúkrunarkona.
Skarhéðinn Njálsson, verkamaður.
Þórarinn Guðnason, læknir.
Þorsteinn Björnsson, fríkirkjuprestur.
Þórunn Elfa Magnúsdóttir, rithöfundur.

Opinn félagsfundur MFÍK

By Uncategorized

Fundurinn hefst með sameiginlegu borðhaldi.
Listakokkurinn Ruby (Veróníka S.K. Palaniandy) mun sjá um matseldina ásamt Ragnhildi Kjeld.
Að borðhaldi loknu mun María S. Gunnarsdóttir segja frá þátttöku MFÍK í Ráðstefnu Alþjóðasamtaka lýðræðissinnaðra kvenna sem haldin var í Caracas í Venesúela í apríl.
Allir friðarsinnar velkomnir.

Hverju svara stjórnmálaflokkarnir? – II. hluti, Ísland og NATO

By Uncategorized

no natoÍ aðdraganda Alþingiskosninga 2007 sendi miðnefnd SHA spurningalista til íslensku stjórnmálaflokkanna, þar sem þeir voru inntir eftir afstöðu sinni til öryggis- og friðarmála. Ekki bárust svör frá Sjálfstæðisflokki og Frjálslyndum.

1. Spurning
Hver er afstaða framboðsins til veru Íslands í Nató eða öðrum hernaðarbandalögum? Er framboðið hlynnt eða andvígt úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu?

Svar Framsóknarflokksins (Sæunn Stefánsdóttir, ritari Framsóknar, svaraði fyrir hönd flokksins):

Framsóknarflokkurinn er hlynntur veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Bandalagið hefur stækkað ört á síðustu árum og tekið að sér verkefni sem stuðla að friði og öryggi. Framsóknarflokkurinn vill efla þátttöku Íslands í borgaralegum verkefnum á vegum bandalagsins, sem eru síst viðaminni en þau hernaðarlegu.

Svar Íslandshreyfingarinnar:
Íslandshreyfingin – lifandi land er andvígt úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu. Aðild að alþjóðasamtökum sem tryggja frið og öryggi fyrir aðildarlönd er nauðsynleg smáríkjum. Aðild að Atlantshafsbandalaginu tryggir líkt og varnarsamningurinn við Bandaríkin öryggi landsins og gerir Íslandi kleyft að hafa rödd í varnarsamstarfi þjóða við norðanvert Atlantshaf. Þó er nauðsynlegt að Ísland sem aðildarríki sé í fararbroddi þeirra ríkja innan NATO sem vilja fara varlega í friðargæslu bandalagsins utan Evrópu og má þar nefna friðargæslu þess í Afganistan sem gæti reynst því skeinuhætt.

Svar Samfylkingarinnar:

Við erum hlynnt veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu.

Svar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs:

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er eindregið fylgjandi úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu (NATO) og hefur það á stefnuskrá sinni að Íslandi standi utan hvers kyns hernaðarbandalaga. Það er grundvallaratriði í hugmyndafræði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að hernaðarbandalög ýti frekar undir ófrið og átök en að sporna gegn slíku. Mannkynssagan er vörðuð dæmum um slík bandalög sem mögnuðu upp spennu, leiddu til baráttu um áhrif utan bandalagsríkjanna sjálfra og ýttu undir vígbúnaðarkapphlaup af einhverjum toga. Þær kröfur sem NATO gerir nú til nýrra aðildarríkja í Mið- og Austur-Evrópu um útgjöld til vígvæðingar eru áhyggjuefni, bæði vegna áhrifanna á alþjóðastjórnmál og lífskjör íbúanna, sem glíma í sívaxandi mæli við fátækt og hafa víða ekki aðgang að grundvallarþjónustu í heilbrigðismálum.

Þá verður ekki litið framhjá þeirri óheillavænlegu breytingu sem orðið hefur á eðli NATO frá því á dögum ógnarjafnvægisins sem ríkti fram um 1990. Það hefur í seinni tíð gengið fram sem árásargjarnt hernaðarbandalag, fyrst á Balkanskaga og síðan í Afganistan, þar sem það tók beinlínis við ábyrgð á hernaðinum af Bandaríkjastjórn.

Hitt hefur því miður ekki breyst að NATO áskilur sér enn þann dag í dag rétt til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði í átökum, og sýnir það kannski betur en flest annað hversu úrelt, óþarft og beinlínis hættulegt þetta hernaðarbandalag er – bæði sjálfu sér og öðrum.