Skip to main content

Söngur & súpa: Friðarhús á Menningarnótt

By Uncategorized

Mynd af glugganumAð venju verður fjölbreytt dagskrá í Friðarhúsi, á horni Njálsgötu og Snorrabrautar, á Menningarnótt Reykjavíkur laugardaginn 23. ágúst.

kl. 16:00 – Húsið opnað.

kl. 16.00-22.30 – Ljósmyndasýning eftir Hörpu Stefánsdóttur

kl. 17.00-19:30 – Friðsæl grænmetissúpa í boði hússins

kl. 16:30 – Kvikmyndasýning. Sýnd verður nokkurra ára gömul heimildarmynd Evu Maríu Jónsdóttur og Margrétar Jónasdóttur um Gervasoni-málið

kl. 20.00 – Ljóðskáld og hagyrðingar kveða um frið

kl. 21.00 – Hörður Torfason söngvaskáld leikur

kl. 21.30 – Tónlist, fleiri stíga á stokk, þar á meðal kemur Heiða upp úr klukkan tíu.

Létt og skemmtileg stemning á besta stað í bænum. Allir velkomnir!

Kerti fyrir Tíbet – raddir fyrir Tíbet

By Uncategorized

savetibet Kerti fyrir Tíbet
við kínverska sendiráðið við Víðimel
23. ágúst

Laugardagskvöldið 23. ágúst klukkan 21:00 taka vinir Tíbets þátt í alþjóðaaðgerðum til að sýna fram á að heimsbyggðin hefur ekki gleymt Tíbet, þó kínversk yfirvöld hafi gert sitt besta til að hindra aðgang að upplýsingum um ástand mála þar. Kveikt verður á kertum fyrir utan kínversk sendiráð um allan heim, en 215 staðir hafa verið staðfestir samkomustaðir.

Vinir Tíbets ætla að tendra kerti til að minnast þeirra sem þjást í Tíbet en samkvæmt fréttum hefur landinu verið haldið í herkví á meðan á Ólympíuleikunum stendur og eru stór svæði Tíbets eins og fangelsi. Milljónir manna um heim allan tendra kerti á sama tíma, hvort heldur er heima hjá sér, meðal vina eða fyrir utan sendiráð. Hvetjum alla sem láta mannréttindi sig varða að mæta og taka þátt í kertastundinni með okkur. Nánari upplýsingar á candle4tibet.org.

Raddir fyrir Tíbet – menningarveisla í Salnum 24. ágúst

Þann 24.ágúst klukkan 20:00 standa vinir Tíbets fyrir viðburði til að styrkja flóttamannamiðstöð sem rekin er í Dharamsala.

KK, Jónas Sig, Svavar Knútur, Páll Óskar & Monica og Jón Tryggvi munu ljá málefninu rödd sína sem og Ögmundur Jónason, Birgitta Jónsdóttir og Tsewang Namgyal munu halda stutt erindi um Tíbet. Gestir geta átt von á óvæntum skemmtiatriðum frá Tíbet. Harpa Rut Harðardóttir mun sýna ljósmyndir sem hún tók á ferðalagi sínu nýverið í Tíbet í anddyri Salarins og verða myndirnar til sölu og mun andvirði þeirra renna í styrktarsjóðinn.

Í Dharamsala á Indlandi er rekin flóttamannamiðstöð sem tekur við um 3000 flóttamönnum sem flýja Tíbet ár hvert. Mikil aukning hefur verið í flótta frá landinu undanfarin ár. Flóttinn tekur um fimm vikur yfir hæstu fjallaskörð í heimi og leggur fólk sig í lífshættu til að öðlast frelsi til að stunda sína menningu og fá tækifæri til að rækta tungumálið sitt. Þriðjungur allra flóttamanna eru börn sem leggja í 90% tilfella ein í þessa för til frelsis. Þau börn sem lifa af flóttann missa oftast tær og putta út af frostbitum.

Allur ágóði af menningarveislunni Raddir fyrir Tíbet rennur til flóttamannamiðstöðvarinnar og gefa allir listamennirnir vinnu sína.

Raddir fyrir Tíbet er haldin sama dag og lokahátíð Ólympíuleikana fer fram. Eitt af markmiðum hátíðarinnar er að tryggja að rödd Tíbets gleymist ekki.

Nánari upplýsingar á tibet.blog.is

Miðar fást hjá midi.is og salurinn.is og kosta 2000 krónur

Frelsi Suður-Ossetíu?

By Uncategorized

eftir Sverri Jakobsson

Eftirfarandi grein birtist í Fréttablaðinu 12. ágúst

Innrás Georgíu í Suður-Ossetíu síðastliðinn fimmtudag hleypti spennuþrungnu ástandi í Kákasuslöndum í bál og brand. Tilraunir Georgíumanna að brjóta sjálfstæðisbaráttu Suður-Ossetíu á bak aftur með hervaldi fóru út um þúfur þar sem Rússar komu héraðinu til aðstoðar og hröktu georgíska hernámsliðið á flótta. Það er lítið gleðiefni að horfa upp á tilraunir til að leysa áratuga gamalt deilumál með ofbeldi, fyrst af hálfu Georgíumanna en síðan af hálfu Rússa.

Sjálfstæðisbarátta Suður-Ossetíu hefur staðið síðan 10. nóvember 1989, daginn eftir fall Berlínarmúrsins, þegar þing Suður-Ossetíu samþykkti að sameinast Norður-Ossetíu, sem var hluti rússneska sambandslýðveldisins. Vakti samþykktin mikla andstöðu georgískra þjóðernissinna sem litu á héraðið sem óaðskiljanlegan hluta Georgíu. Við upplausn Sovétríkjanna gerðu Suður-Ossetar ítrekaðar tilraunir til að fá sjálfstæði héraðsins viðurkennt, en þær mættu andstöðu Georgíu sem viðurkenndi ekki kosningar sem haldnar voru til þings Suður-Ossetíu 1990. Síðan þá hefur Suður-Ossetía haft sjálfstjórn í raun en ekki fengið viðurkenningu alþjóðasamfélagsins.

Skýþar og Alanar
Ossetar eru náskyldir þjóðum sem einu sinni voru allsráðandi á sléttunum norðan og austan við Evrópu í fornöld, s.s. Skýþum og Sarmötum. Menning þessara þjóða er nú horfin; einu leifarnar af henni er samfélag Osseta. Fyrsta ríki þeirra sem sögur fara af var til á 4. öld á milli Don og Volgu. Þá kölluðust þeir Alanar. Húnar eyddu konungsríki Alana en það var endurreist á 8. öld og var miðstöð þess þá norðan við Kákasusfjöllin. Sókn Mongóla í vestur á 13. öld olli því hins vegar að Alanar fluttust suður á bóginn, yfir Kákusfjöllin. Þar býr mikill meirihluti þeirra í Norður-Ossetíu sem tilheyrir Rússlandi.

Hluti Osseta lenti hins vegar innan landamæra Georgíu og fékk sjálfstjórn þegar Georgía varð eitt af sambandsríkjum Sovétríkjanna. Suður-Ossetar hafa löngum verið tregir til að vera hluti af georgísku þjóðríki og börðust gegn georgíska ríkinu sem var til 1918-1920. Menning Osseta er af allt annarri rót en Georgíumanna. Þeir tala indó-evrópskt tungumál sem er fullkomlega óskylt georgísku og er móðurmál um 700.000 manns.

Suður-Ossetía og Kosovo
Tvennt hefur orðið til að þess að skerpa andstæður á milli Osseta og miðstjórnarinnar í Georgíu. Í fyrsta lagi er núverandi forseti Georgíu, Mikheil Saakashvili, staðráðinn í því að ná fullum yfirráðum miðstjórnarinnar yfir héruðunum sem hafa notið sjálfstæðis undanfarna áratugi. Saakashvili hefur notið mjög jákvæða umfjöllun í vestrænum fjölmiðlum og er jafnan kallaður lýðræðissinni enda þótt hann hafi beitt bæði neyðarlögum og hervaldi til þess að brjóta pólitísk mótmæli í nóvember síðastliðnum. Þá hafa pólitískir keppinautar Saakashvilis lent í hrakingum, ýmist lent í fangelsi eða látist við grunsamlegar kringumstæður undanfarin ár. Saakashvili virðist telja að gott samband hans við Bandaríkin og NATO muni tryggja honum liðsinni Vesturlanda hvað sem öðru líður og athygli vekur að frá því að Georgía hóf stríðið hefur hann mætt í sjónvarpsútsendingar með fána Evrópusambandsins í bakgrunni. Það er spurning hvort ríki Vesturlanda muni nú styðja Saakashvili „eftir pöntun“ en ljóst er að Bandaríkin beittu áhrif sínum í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna til að koma í veg fyrir samþykkt ályktunar frá Rússum um afvopnun beggja herja í upphafi átakanna. Eftir að Rússar hófu gagnsókn hefur hins vegar hljóðið breyst í Bandaríkjamönnum og núna eru það Rússar sem ekki vilja lengur heyra minnst á vopnahlé – a.m.k. ekki fyrr en her Georgíu hefur yfirgefið Suður-Ossetíu og önnur sjálfstjórnarhéruð.

Á hinn bóginn hefur víðtækur stuðningur við einhliða sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo fyrr á þessu ári hleypt vindi í segl Suður-Osseta en ekki eru nema tvö ár síðan að samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu að leita sjálfstæðis. Iðulega hefur verið bent á að stjórnarfarsleg staða héraðanna tveggja sé sú sama og þeir sem vilja viðurkenna rétt annars til sjálfstæðis hljóti því að viðurkenna rétt hins. Víst er að síðan Kosovo hlaut sjálfstæði hefur ekki komið til greina af hálfu Suður-Osseta að fallast á annað en fullt sjálfstæði. Og raunar er erfitt að sjá hví ríkisstjórnir sem hlupu til og viðurkenndu sjálfstæði Kosovo ættu ekki jafn greiðlega að viðurkenna fullveldi Suður-Ossetíu. Í þeim hópi er ríkisstjórn Íslands sem þarf nú að bregðast við.

Átökin í Kákasus

By Uncategorized

eftir Árna Þór Sigurðsson

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu 11. ágúst

Hernaðarátökin í Kákasus eru hörmuleg eins og stríðsrekstur ævinlega er. Það eru saklausir borgarar sem líða og falla fyrir sprengjum og skotárásum á báða bóga. Það er því brýnt að stöðva átökin milli Georgíu og Rússlands og koma á vopnahléi til að unnt verði að leita pólitískra lausna á deilunni.

Skyggnst í söguna
Á Vesturlöndum er sú skoðun almenn að hér séu Rússar með enn einn yfirganginn gegn litlu ríki, Georgíu, sem vill treysta sjálfstæði sitt í sessi. Það er líka sú mynd sem stjórnvöld hér vestra og fjölmiðlar draga gjarnan upp, það er jú ósköp þægilegt að hafa óvin eins og Rússa til að benda á og gera að blóraböggli. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins er hér engin undantekning.

En það getur verið hollt að skyggnast bak við tjöldin, skoða söguna og bera saman við önnur dæmi sem geta haft þýðingu gagnvart þeirri deilu sem uppi er í Kákasus. Vitaskuld er unnt að setja þessa deilu í það samhengi að hún snúist um hugsanlega aðild Georgíu að NATO og hernaðarlegar afleiðingar þess fyrir Rússa, það er hægt að nefna olíuna sem leidd er í gegnum þetta svæði o.fl. Átökin á Balkanskaga snerust á sinn hátt líka um yfirráð stórvelda, stöðu þeirra í alþjóðastjórnmálum og viðskiptum. Stríðsreksturinn í Írak nú og fyrr sömuleiðis. Og því miður hneigjast menn til að horfa eingöngu á þetta yfirborð.

Arfleifð Stalíns
Sjálfsstjórnarhéruðin Suður-Ossetía og Abkhasía liggja innan landamæra Georgíu eins og þau eru viðurkennd af alþjóðasamfélaginu. Þess er nú krafist að þau landamæri séu virt. Á hitt er að líta að þarna búa þjóðir sem vilja sjálfstæði, hafa eigin menningu, sögu og tungumál. Og þær hafa verið þvingaðar undir georgísk yfirráð. Barátta þeirra fyrir því að ráða sér sjálfar er ekki ný af nálinni. Rússeska keisaradæmið fór með hernaði gegn þeim á 19. öld. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar stofnuðu Menshevíkar sjálfstætt ríki Georgíu þar sem Abkhazía var hluti en áttu í miklum erjum við íbúana sem kærðu sig ekkert um þá tilhögun. Þegar Georgía samdi um aðild sína að Sovétríkjunum varð t.d. Abkhazía sjálfstætti lýðveldi í tengslum við Georgíu. Það var hins vegar ákvörðun Jósefs Stalíns að þessi sjálfsstjórnarhéruð yrðu hluti af Sovétlýðveldinu Georgíu. Og í kjölfarið hóf sá illræmdi Lavrentíj Bería, yfirmaður KGB, að skipuleggja fólksflutninga, m.a. að flytja Georgíumenn til héraðanna. Það er við þessa arfleifð stjórnar Stalíns sem þjóðirnar eru m.a. að berjast í dag. Og það er í raun skömm að því að Vesturlönd skuli ekki sýna þessum þjóðum stuðning við að brjótast undan stalínismanum ef svo má að orði komast.

Sjálfsákvörðunarréttur – sjálfsögð mannréttindi
Ossetar og Abkhasar eru ekki Georgíumenn. Eiga raunar lítið sameiginlegt með þeim nema hin formlegu landamæri. Suður-Ossetar eru hluti af stærri þjóð, þar sem meirihlutinn býr í Norður-Ossetíu sem tilheyrir Rússlandi. Meirihluti þessara þjóða ber rússneskt ríkisfang. Það er hægt að gera lítið úr því og segja að Rússar hafi útbýtt vegabréfum til þeirra sem það vildu hafa. Hin hliðin á þeim peningi er auðvitað spurningin hvers vegna Georgíustjórn hefur ekki veitt þessum þjóðum sjálfsögð borgaraleg réttindi eins og ríkisfang? (Ég hef hér ekkert minnst á þriðja sjálfsstjórnarhéraðið í Georgíu, Adjaríu, þar sem það hefur ekki dregist inn í þessi átök.)

Burtséð frá því hvar menn kunna að standa í deilum stórveldanna, með eða móti NATO eða ESB o.s.frv., þá stendur í mínum huga eftir spurningin um sjálfsákvörðunarrétt ossetísku og abkhösku þjóðanna. Er réttur þeirra annar og minni en til dæmis Albana í Kosovo? Eða hver yrði afstaða okkar ef Færeyingar lýstu yfir sjálfstæði? Það er fyrst og fremst vanvirða og lítilsvirðing við þessar þjóðir að horfa fram hjá áralangri baráttu þeirra fyrir sjálfsákvörðunarrétti en beina sjónum þess í stað aðallega að átökum stjórveldanna, framferði Rússa, hagsmunum NATO og Bandaríkjanna. Um það allt má vissulega margt segja og flest heldur miður. En eftir standa hagsmunir þjóða, sem eiga sína djúpu og ríku sögu og menningu, og sem vilja berjast fyrir sjálfstæði sínu. Það myndi sæma betur öllum þeim sem vilja berjast fyrir mannréttindum og lýðræði að taka málstað þessara þjóða og leita pólitískra lausna sem tryggja rétt þeirra til að ráða málum sínum sjálfar.