Skip to main content

Ályktun frá SHA v. fjöldamorða á Gaza

By Uncategorized

Gaza2009 04Samtök hernaðarandstæðinga fordæma grimmdarverk Ísraelshers á Gaza-svæðinu, sem heimurinn hefur orðið vitni að undanfarna daga. Ljóst er að aðgerðirnar hafa kallað ólýsanlegar þjáningar yfir íbúa svæðisins og þverbrjóta alþjóðalög og mannréttindasáttmála. Samtökin taka undir kröfu félagsins Íslands-Palestínu þess efnis að íslenska ríkisstjórnin slíti stjórnmálasamstarfi við Ísraelsríki vegna fjöldamorðanna.

Íslendingar bera sína ábyrgð á stöðu mála vegna aðildar landsins að hernaðarbandalaginu Nató. Á undanliðnum árum hefur Nató átt í margvíslegum hernaðarsamskiptum við Ísrael og á leiðtogafundi bandalagsins í Búkarest á síðasta ári var sérstaklega ályktað að þróa bæri tengsl Nató og Ísraels enn frekar. Er það en nein sönnun þess að Ísland væri betur komið utan hernaðarbandalaga.

Jafnframt krefjast Samtök hernaðarandstæðinga þess að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að sett verði alþjóðlegt vopnasölubann á Ísrael.

Friðarhreyfingin og borgaraleg óhlýðni

By Uncategorized

civil disobedienceBorgaraleg óhlýðni hefur verið talsvert til umræðu upp á síðkastið, ekki hvað síst í tengslum við beinar aðgerðir ýmissa mótmælenda sem hafa látið skoðanir sínar í ljós á ýmsum málum tengdum hruni bankanna. Ýmsir hafa talið sig kenna breytingar á mótmælahegðun Íslendinga í þessu samhengi.

Samtök hernaðarandstæðinga hafa raunar fylgst grannt með þessari þróun um alllangt skeið. Fyrir nokkrum misserum var Dagfari, tímarit SHA, að mestu helgað umfjöllun um mótmæli, mótmælatækni og hugmyndafræði mótmæla. Varðandi borgaralega óhlýðni sérstaklega, hefur margoft verið fjallað um þessa baráttuaðferð erlendra friðarsinna í blöðum samtakanna og á þessari síðu. Má þar nefna Ploughshares-hreyfinguna, sem tileinkar sér þá baráttuaðferð að ráðast inn í herstöðvar og valda tjóni á kjarnorkuvígbúnaði. Félagar í hreyfingunni bíða undantekningarlaust handtöku að skemmdarverkunum loknum, láta handtaka sig en bera við neyðarrétti.

Um árið komu Samtök hernaðarandstæðinga að námskeiði sem haldið var í Reykjavík, þar sem breski róttæklingurinn Milan Rai og kona hans Emily Jones kenndu borgaralega óhlýðni og settu hana í sögulegt samhengi. Segja má að þetta námskeið marki viss tímamót í sögu þessarar tegundar pólitískra mótmæla hér á landi.

peace newsNýverið skrifaði Milan Rai grein í breska tímaritið Peace News, þar sem farið var yfir atburði ársins 2008 á sviði róttækrar baráttu friðarsinna. Greinina má lesa hér.

Þar er meðal annars fjallað um tímamótadóm sem féll í Bretlandi á síðasta ári, þar sem hópur mótmælenda á Norður-Írlandi var sýknaður af kæru fyrir að hafa brotið og bramlað á skrifstofu vopnaframleiðanda. Dómstóllinn féllst í stuttu máli á að neyðarréttur hefði átt við í þessu tilviki og að fólkinu hefði verið heimilt að grípa til þessara aðgerða til að afstýra öðrum og verri glæpum. Um þetta má og önnur þau sem Milan Rai nefnir í grein sinni má fræðast með einfaldri leit á netinu, s.s. á alfræðisíðunni Wikipediu.

Stefán Pálsson

Útifundur til að mótmæla blóðsúthellingunum á Gaza

By Uncategorized

palestinafrjals 02Útifundur til að mótmæla blóðsúthellingunum á Gaza
á Lækjartorgi, þriðjudag 30. desember kl. 16

Kröfur dagsins eru:
Stöðvið fjöldamorð Ísraelshers á Gaza
Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael

Ræðumenn verða:
María S. Gunnarsdóttir, formaður Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna
Ögmundur Jónasson, alþingismaður
Sr. Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur

Fundarstjóri:
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands

Fundurinn er undibúinn af Félaginu Ísland-Palestína með stuðningi fjölmargra félagasamtaka
Fjölmennum!

Látum erindið berast á Facebook: http://www.facebook.com/n/?event.php&eid=41181914711

Ráðherra efast um eldflaugar í A-Evrópu

By Uncategorized

Við sögðum frá því hér á Friðarvefnum 9. desember að utanríkisráðherrar NATO hefðu samþykkt á fundi sínum í Bussel 2.-3. desember að styðja gagnflaugaáætlun Bandaríkjanna, en slíkur stuðningur var reyndar líka samþykktur á leiðtogafundi NATO í Búkarest apríl 2008, sem forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands sátu.

Það er fagnaðarefni að í Fréttablaðinu 29, desember er haft eftir aðstoðarmanni utanríkisráðherra, Kristrúnu Heimisdóttur, að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem hafi lýst yfir efasemdum um málið:

    „Utanríkisráðherra hefur ekki stutt þetta mál og Ísland var í hópi þeirra ríkja sem lögðu áherslu á að þessir samningar fengu ekki stóran sess í yfirlýsingunni frá Brussel, en rétt er að halda til haga að utanríkisráðherra sótti þann fund ekki.” Ingibjörg Sólrún sat þó fundinn í Búkarest í vor þar sem sams konar yfirlýsing var samþykkt og fulltrúi Íslands skrifaði undir yfirlýsinguna í Brussel.

    „Við höfum skipað okkur í lið með Norðmönnum, Þjóðverjum og fleiri þjóðum sem hafa lýst yfir efasemdum um þessi mál,” segir Kristrún. Hún segir aðferðafræðina sem að baki eldflaugavörnunum býr ekki treysta sameiginlegt öryggi í Evrópu og víðar. „Utanríkisráðherra hefur aldrei skipað sér í flokk þeirra sem vilja magna, í orðum eða verki, kaldastríðsnálgun gagnvart Rússlandi.”

Þessu ber að fagna, þótt ekki verði horft framhjá því að yfirlýsingarnar í Búkarest og Brussel voru sameiginlegar yfirlýsingar allra NATO-ríkjanna. Þótt það sé góðra gjalda vert að þetta sé haft eftir aðstoðarmanni utanríkisráðherra í blaðafrétt, þá þurfum við öllu ákveðnari yfirlýsingu frá utanríkisráðherra.

Snemma í október var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga þriggja þingmanna Vinstri grænni svohljóðandi:

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggjast eindregið gegn áformum Bandaríkjanna og eftir atvikum NATO um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu. Skal þessari afstöðu komið skýrt til skila á vettvangi NATO og annars staðar þar sem við á í alþjóðasamstarfi. Jafnframt ályktar Alþingi að Ísland beiti sér fyrir því með virkum hætti að gildandi samningar um afvopnun eða takmörkun vígbúnaðar verði virtir. Eru þar einkum mikilvægir ABM-samningurinn um takmörkun gagneldflauga og gegn vígbúnaði í geimnum, samningurinn um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og NPT-samningurinn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, sér í lagi 6. gr. samningsins sem kveður á um kjarnorkuafvopnun.

Tillagan hefur ekki enn komið til umræðu í þinginu, en vert væri að flýta afgreiðslu hennar þannig að utanríkisráðherra hefði í höndunum ályktun Alþingis. Hún yrði ráðherranum ómetanlegur stuðningur í andstöðunni við gagnflaugaáætlun bandaríkjanna og NATO.

Frétt Fréttablaðsins
Þingsályktunartillagan