Skip to main content

Mótmæla- og samstöðufundur vegna Gaza

By Uncategorized

Félagið Ísland-Palestína efnir til fundar í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 sunnudaginn 27. desember kl. 16. Tilefnið er að ár er liðið frá blóðugri innrás Ísraelshers inn á Gaza. Á þremur vikum féllu meira en 1400 Palestínumenn í valinn, flestir óbreyttir borgarar, þar á meðal 414 börn og unglingar undir 18 ára aldri. Þrettán Ísraelsmenn féllu þar af tíu hermenn. Stríðsglæpum Ísraelsstjórnar verður mótmælt víðs vegar um heim á sunnudaginn, þriðja í jólum, og um leið verður þess krafist að ómannúðlegri herkví um Gaza verði aflétt. Kjörorð dagsins eru: Munum Gaza, rjúfum umsátrið!

Ræðumenn: Rawda og Muhamed Odeh frá Jerúsalem

Allir velkomnir.

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Uncategorized

kertiÍslenskir friðarsinnar hafa efnt til blysfarar niður Laugaveginn á Þorláksmessu á hverju ári undanfarna þrjá áratugi. Margir líta nú á friðargönguna sem ómissandi þátt í jólaundirbúningi fjölskyldunnar og tekur fjöldi fólks sér hlé frá tiltektum og innkaupum rétt fyrir jólin til að leggja þar sitt af mörkum og styðja kröfuna um frið í heiminum.

* Í Reykjavík stendur samstarfshópur friðarhreyfinga að venju fyrir blysför niður Laugaveginn. Safnast verður saman á Hlemmi um kl. 17:45 og leggur gangan af stað stundvíslega kl. 18:00. Í lok göngunnar verður stuttur fundur á Ingólfstorgi þar sem Einar Már Guðmundsson rithöfundur flytur ávarp en fundarstjóri er Helga Baldvinsd.Bjargardóttir lögfræðingur og þroskaþjálfi. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

* Á Ísafirði verður lagt af stað frá Ísafjarðarkirkju kl. 18:00 og gengið niður á
Silfurtorg þar sem verður stutt dagskrá. Lúðrasveit Tónlistarskóla
Ísafjarðar spilar, Elsa Þorgeirsdóttir og Þórhallur Arason flytja
ávörp og endað verður á söng og ljóðalestri. Friðarkerti verða seld á staðnum.

* Á Akureyri stendur Friðarframtak fyrir árlegri blysför gegn stríði á Akureyri. Safnast verður saman kl. 20.00 fyrir framan Samkomuhúsið í Hafnarstræti og gengið niður á Ráðhústorgið þar sem haldinn verður útifundur. Ösp Kristjánsdóttir frá Tjörn syngur,
Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni flytur hugvekju og lesin verður upp ályktun gegn stríðunum í Afganistan og Írak.
Fundarstjóri er séra Jóna Lovísa Jónsdóttir.
Að Friðarframtaki standa Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi og Æskulýðssamtök Þjóðkirkjunnar.