Skip to main content

Ályktun frá SHA vegna áforma um einkaflugher

By Uncategorized

Fréttablaðið bauð lesendum sínum upp á ónotalega forsíðufrétt í morgun, miðvikudaginn 17. mars, þar sem sagt var frá áformum um staðsetningu einkarekinnar herþotusveitar á Miðnesheiði. Fréttin bætti raunar litlu við fyrri fréttaflutning RÚV af málinu frá því í október á síðasta ári, en af því tilefni sendu SHA frá sér þessa ályktun.

SHA árétta þá afstöðu sína að starfsemi af þessu tagi eigi ekkert erindi hér á landi. Málaliðaher eins og hér um ræðir er eitthvert auvirðilegasta fyrirbæri mannlegrar tilveru. Markmið rekstursins er að þjálfa hermenn í drepa fólk í fjarlægum og fátækum löndum. Er það vilji íslensku þjóðarinnar að hafa slíka iðju að féþúfu?

Allt tal um vopnleysi starfsmanna fyrirtækisins er aumur fyrirsláttur. Þjálfun orrustuflugmanna og skipulagning heræfinga er og getur aldrei talist annað en hernaðarstarfsemi. Ljóst er að áform fyrirtækisins stangast á við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að Ísland skuli verða vettvangur friðarumræðu og vinna að afvopnun í heiminum.

SHA hvetja fjölmiðla til að grafast betur fyrir um fyrirtækið E.C.A. Program. Heimilisfang þess er pósthólf í smábæ í Hollandi og þótt forstjóri þess tali drýgindalega um verkefni þess um víða veröld, finnast um þau litlar heimildir. Ljóst er að E.C.A. Program er í dag hálfgert skúffufyrirtæki og væntanlega leppur fyrir öflugari fyrirtæki. Hver eru þau? Fyrir liggur að fyrirtækið sóttist eftir aðstöðu fyrir starfsemi sína í Kanada, en fékk ekki leyfi frá stjórnvöldum. Hvaða sjónarmið lágu þar að baki? Um þetta var m.a. fjallað í Dagfara, tímariti Samtaka hernaðarandstæðinga sem kom út seint á síðasta ári.

Dagskrá í Tjarnarsal, 8. mars

By Uncategorized

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. Dagskrá í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur mánudaginn 8.mars 2010 kl.17.

Við getum betur!

Fundarstjóri: Kolbrún Halldórsdóttir

Ávörp:

María S. Gunnarsdóttir: Framlag okkar til friðvænlegri heims.

Þórdís Elva Þorvaldsd. Bachmann: Kynbundið ofbeldi.

Helga Sif Friðjónsdóttir: Heilsugæsla fyrir jaðarhópa.

Barbara Kristvinsson: Við getum betur

Andrés Ingi Jónsson: Framtíð ófæddra barna.

Guðrún Hallgrímsdóttir: Hælisleitendur, hvað getum við gert?

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir: Fjölmiðlar og konur.

Kvennakór við Háskóla Íslands syngur undir stjórn Margrétar Bóasdóttur.

* * *

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK, BHM-Bandalag háskólamanna, BSRB-Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Félag ísl. hjúkrunarfræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Íslandsdeild Amnesty International, Kennarasamband Íslands, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennahreyfing Öryrkjabandalags Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Samtök kvenna af erlendum uppruna, Samtök um Kvennaathvarf, SHA – Samtök hernaðarandstæðinga, Sjúkraliðafélag Íslands, ST.Rv – Starfsmannafélag Reykjavíkur, Þroskaþjálfafélag Íslands.

Vissir þú…?

By Uncategorized

Hernaðarbandalagið Nató hefur þá yfirlýstu stefnu að aðildarríki þess skuli verja sem nemur 2% af landsframleiðslu sinni til öryggis- og varnarmála. Hafa aðildarríkin ítrekað verið hvött til að standa við þessi markmið og hafa íslenskir ráðamenn staðið að slíkum samþykktum.

Nærri lætur að þessi upphæð nemi 30 milljörðum króna fyrir Ísland. Það er nærri því sem rekstur Landsspítalans kostar.

Ef íslenskir Nató-sinnar eru samkvæmir sjálfum sér hljóta þeir að gera þá kröfu að Íslendingar standi við þessar skuldbindingar. Ekki satt?