Ávarp á kertafleytingu á Reykjavíkurtjörn

By 13/08/2012 Uncategorized
Ávarp Samstarfshóps friðarhreyfinga við kertafleytingu á Tjörninni í Reykjavík 9.ágúst 2012.
Kertafleyting friðarsinna á Reykjavíkurtjörn í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki á sér langa sögu. Athöfn þessi fór fyrst fram hér á tjarnarbakkanum árið 1985. Það ár höfðu höfðu japanskir friðarsinnar hvatt hugsjónabræður sína og –systur til að minnast 40 ára afmælis árásanna með þessum hætti.
Hingað til lands komu Japanir, sem lifðu hina hörmulegu atburði og sögðu sögu sína. Um þær mundir voru augu fólks að opnast fyrir hinni raunverulegu ógn kjarnorkuvopnanna. Lengi vel höfðu menn fyrst og fremst litið á kjarnorkuvopn eins og hverjar aðrar sprengjur, bara óvenju kraftmiklar. Vitneskjan um langvinnari afleiðingar þessara vopna, s.s. fósturskaða og hvers kyns sjúkdóma af völdum geislunnar, var ekki á margra vitorði. Leiðtoga stórveldanna héldu slíkum upplýsingum leyndum og Japanir sjálfir höfðu lengi eftir stríðið þagað um afleiðingarnar, af skömm.
Kjarnorkuvopn nútímans eru margfalt öflugri en sprengjurnar tvær sem drápu tugþúsundir í Hiroshima og Nagasaki fyrir tæpum 70 árum. Afleiðingarnar sem beiting slíkra vopna hefði í dag yrðu á sama hátt margfalt meiri og áhrif geislunarinnar sömuleiðis. Kjarnorkuvopn eru því síst minni ógn í dag en á liðnum áratugum, þótt minna sé fjallað um þau nú en á tímum kalda stríðsins. Þeim ríkjum fjölgar sem hafa yfir kjarnorkuvopnum að búa og gömlu kjarnorkuveldin eyða svimandi fjárhæðum í þróun og endurnýjun slíkra vopna – þótt vissulega megi fagna nýlegum samningum Bandaríkjamanna og Rússa um niðurskurð í vopnabúrunum.
En langdrægar kjarnorkueldflaugar eru ekki einu vopnin sem eru geislavirk. Á síðustu árum hefur orðið sífellt meira um notkun á sprengjum sem fela í sér geislavirkni: vopnum með auðguðu úrani. Frásagnir frá svæðum þar sem þessum vopnum hefur verið beitt eru á einn veg: stóraukin tíðni krabbameinstilfella, fósturdauði og alvarlegir fæðingargallar. Sprengjur af þessu tagi hafa verið notaðar víða á síðustu árum. Í Téténíu, Afganistan, Írak og í Líbýu.
Íslenskar friðarhreyfingar hafa tekið þátt í alþjóðlegri baráttu gegn notkun úranvopna. Þeirri baráttu leggjum við lið hér í dag, auk þess að minnast fórnarlamba árásanna á Hiroshima og Nagasaki. Krafa okkar er heimur án kjarnorkuvopna.

Aðilar að Samstarfshópnum:
* Friðarhópur leikskólakennara

* Friðar og mannréttindahópur BSRB
* Friðar og mannréttindanefnd ÆSKÞ (Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar)
* Heimsganga í þágu friðar
* Menningar og friðarsamtök íslenskra kvenna
* Samtök hernaðarandstæðinga

* SGI á Íslandi (Friðarhópur búddista)