Á Akureyri stóð Samstarfshópur um frið (SHA og ÆSKÞ) að kertafleytingu við Minjasafnstjörnina kl. 22.30 fimmtudaginn 7. ágúst í góðu veðri. Ávarp flutti sr. Svavar Jónsson sóknarprestur á Akureyri. Að því loknu fleyttu þátttakendur kertum sínum út á kvöldkyrra tjörnina.
Við söfnumst hér saman til að minnast fórnarlamba, tæplega tvöhundruð þúsunda, sem fyrir rúmum sex áratugum fórust í eyðandi eldi tveggja kjarnorkjusprengja í japönsku borgunum Hiroshima og Nagasaki.
Máttur mannsins er mikill, stundum skelfilegur. Hann er fær um að eyða sjálfum sér og saga mannkyns er ofin blóðrauðum þræði sjálfseyðingaráráttu þess. Manneskjan smíðar tæki og tól til að granda sér. Hún stundar rányrkju og skipulega eyðileggingu á hinni góðu sköpun. Þar með stefnir hún í voða lífmöguleikum sínum á þessari plánetu. Og manneskjan smíðar af hugkvæmni sinni þjóðfélagsleg kerfi sem fæða af sér ranglæti og misskiptingu.
Þar lifa fáir útvaldir í andstyggilegum ofgnóttum en stór hluti mannkyns í andstyggilegri örbirgð og er dauðadæmdur áður en hann fæðist.
Eldur er tvírætt tákn. Friðsælt er flökt á litlum ljósum. Við tendrum eld á friðarkertum. Við berum friðarkyndla.
En eldurinn er líka tákn eyðileggingarinnar. Eldar loga í helvíti. Eldurinn er ófriðarbál. Sprengjan er eyðandi funi.
Og friðurinn er líka tvíræður. Við viljum öll frið. Við viljum búa saman hér á þessari jörð í sátt og samlyndi.
En sumt má ekki láta í friði ef friður á að verða. Ég sagði hér áðan að við værum hér samankomin til að minnast fórnarlamba.Við erum hér ekki einungis til þess. Við erum ekki bara hér til að minnast heldur til að áminna. Áminna okkur um eitt mesta ódæði mannkynssögunnar. Við megum ekki láta það gleymast, ekki láta það í friði – né önnur níðingsverk mannsins.
Sá friður sem felst í sinnuleysi og áhugaleysi, sá friður sem er máttleysi og hugleysi, sá friður sem er þögn um ranglætið og ofbeldið í mannheimum, hann er friður eyðileggingarinnar; hann er djöfullegur friður. Hann er friður sama eðlis og sá sem ríkir í yfirgefnum skotgröfum og í borgunum þar sem búið er að eyða öllu. Hann er friðurinn sem ógnar lífinu en þjónar því ekki.
Hér ætlum við ekki að láta nægja að líta sextíu og þrjú ár aftur í tímann. Við ætlum líka að líta í kringum okkur, horfa á heiminn eins og hann er. Eldurinn sem logar á flotkertunum nýtur sín vel í húminu. Við skulum láta hann bregða birtu á það sem þar leynist. Líka það sem illa þolir dagsljósið. Það sem ekki má segja og fáir vilja heyra.
Við horfumst í augu við fórnarlömb stríðssjúkra yfirvalda okkar tíma, við sjáum þau sem þjást vegna ranglætis og ofbeldis, þau sem ekki fá borið hönd fyrir höfuð sér, þau sem enga málsvara eiga.
Ef til vill finnst mörgum það heldur klént framlag til friðarins í veröldinni að kveikja á litlum kertum og í ofanálag að ýta þeim út á vatn, sem hæglega getur kæft þessi litlu friðarljós með einni nettri skvettu.
En þannig er hlutskipti friðflytjandans. Hann er í raun alltaf að kveikja á svona litlum kertum. Friðurinn á erfitt uppdráttar. Besta sönnun þess er ástandið í veröldinni. Friðurinn flöktir eins og fljótandi kerti í hvassviðri.
Það getur reynst jafn erfitt að kveikja á kerti úti í strekkingnum og að vekja frið í beljanda samtíðarinnar.
Og það getur verið jafn auðvelt að kæfa friðinn og það er fyrir vindinn að feykja loganum af kveiknum á einu litlu kerti.
Þess vegna á hver friðflytjandi aldrei nóg af kertum og eldspýtum.
Við skulum ekki gefast upp. Við skulum halda áfram, hvert með sínu lagi, hvert á sínum stað, hvert með sinni rödd, hvert eftir sinni sannfæringu, í smáu sem stóru.
Við skulum standa í flæðarmáli vettvangsins og halda áfram að senda friðarkerti út á höfin.
Þannig minnumst við þeirra best sem dóu í Hiroshima og Nagasaki. Og þannig reynumst við þeim best sem þessa stundina eru fórnarlömb ófriðarins á jörðinni.
Megi ljós friðarins eflast í veröldinni.