All Posts By

Stefán Pálsson

Palindrome að kvöldi 30. mars

By Uncategorized

tonaflodStaðfest hefur verið að hljómsveitin Palindrome mun spila fyrir gesti að kvöldi 30. mars að loknu borðhaldi og ljóðadagskrá. Hljómsveitina skipa þeir Guðjón Heiðar Valgarðsson og Dagbjartur Elís Ingvarsson, en ekki er loku fyrir það skotið að þriðji tónlistarmaðurinn sláist í hópinn um kvöldið.

Tónlist Palindrome er ljúf og áheyrileg. Hægt er að kynna sér verk hennar á MySpace-síðu sveitarinnar.

Missið ekki af ljúffengum veitingum og góðri dagskrá í Friðarhúsi á föstudagskvöld!

Miðjarðarhafsmatseðill á 30. mars

By Uncategorized

accord coq au vin30. mars er mikilvæg dagsetning í baráttusögu íslenskra friðarsinna, en á þeim degi samþykkti Alþingi inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Að venju minnast SHA 30. mars og halda á lofti kröfu sinni um að Ísland standi utan allra hernaðarbandalaga.

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður að þessu sinni haldinn að kvöldi föstudagsins 30. mars. Guðrún Bóasdóttir (Systa) eldar Miðjarðarhafsmat:

* Coq au Vin (kjúklingur í rauðvíni)
* Svepparisotto fyrir grænmetisætur
* Heimabakað brauð

Mushroom RisottoVerð kr. 1.500. Borðhald hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr.

Boðið verðuyr upp á fjölbreytta ljóða- og menningardagskrá að mat loknum.

Ljóðskáldið Ingibjörg Haraldsdóttir les úr verkum sínum, auk þess sem fulltrúar úr menningarhópnum Nýhil koma fram. Þau eru: Gísli Hvanndal Ólafsson, Björk Þorgrímsdóttir, Ingólfur Gíslason og Halldór Halldórsson. Þá mun Birna Þórðardóttir lesa ljóð.

Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann

By Uncategorized

Í Morgunblaðinu 21. mars er frétt þess efnis að Herdís Sigurgrímsdóttir, 26 ára fjölmiðlamaður, sé á leið til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar í Bagdad. Þar mun hún starfa sem upplýsingafulltrúi NATO og bera titilinn major. Íslendingar hafa lagt til friðargæsluliða í stöðuna frá 2005 eins og lesa má á vef utanríkisráðuneytisins. NATO vinnur að þjálfun yfirmanna í íraska hernum með það að markmiði að heimamenn geti tekið við stjórn öryggismála, segir í frétt Morgunblaðsins.

Blaðið hefur einnig eftir forvera Herdísar í starfinu, Steinari Sveinssyni, að „dagarnir taki á sig ýmsar myndir og í gær hafi hann m.a. flogið með fjölmiðlamönnum og öðrum æðsta manni alþjóðaheraflans í Írak, til herakademíu og liðsforingjaskóla sem er tíu km utan við græna svæðið,“ en gæna svæðið er afgirt svæði Bandaríkjahers þar sem meðal annars er hið risastóra bandaríska sendiráð.

Þetta verkefni NATO er kallað „The NATO Training Mission – Iraq“ (NTM-I) og má fræðast um það á vef NATO. Norður-Atlantshafsráðið, æðsta stjórn NATO, samþykkti verkefnið 17. nóvember 2004. Þetta verkefni var einhliða ákveðið af NATO sem hefur ekkert umboð frá Sameinuðu þjóðunum. Bandalagið, sem eins og allir vita lýtur forystu Bandaríkjanna, tekur að sér það verkefni fyrir hernámsveldið að þjálfa her þeirrar ríkisstjórnar sem starfar undir hernáminu.

Þannig er hið svokallaða friðargæslulið ekkert annað en hluti þess hernámsliðs, sem kallað er alþjóðaheraflinn í tilvitnuninni hér að framan og starfar í Írak undir forystu Bandaríkjanna. Íslendingar taka því beinan þátt í stríði Bandaríkjanna í Írak, ekki aðeins með því að taka þátt í kostnaði við herflutninga til Íraks heldur líka með því að senda þangað íslenskan hermann. 26 ára gömul íslensk stúlka í hlutverki fjölmiðlafulltrúa NATO er alveg jafn mikilvægur liðsmaður í hernámsliðinu í Írak eins og hver annar hermaður.

Sama dag og þessi frétt birtist í Morgunblaðinu var í Fréttablaðinu frétt af tveimur nýjum liðsmönnum íslensku „friðargæslunnar“ í Afganistan. Fréttin hefst á þessum orðum: „Íslenska friðargæslan tekur óðum á sig mýkri ásjónu og í vikunni fóru tvær ungar konur til starfa í Afganistan.“ Með fréttinni er mynd af þessum konum og er önnur í fullum herklæðum. Sú hefur titilinn „fyrsti liðþjálfi – first sergeant“ og verður vopnuð.

Íslenska „friðargæslan“ í Afganistan er líka hluti af verkefni NATO, en þetta kallast „International Security Assistance Force“ (ISAF) (sjá vef NATO). Munurinn á ISAF og NMT-I er að ISAF starfar í umboði Sameinuðu þjóðanna. En þótt tekist hafi að kría út samþykki SÞ breytir það ekki því að NATO er þarna að sjálfsögðu að þjóna hagsmunum forysturíkis síns, Bandaríkjanna.

Sjá einnig nýlegt frumvarp til laga um íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu.

Afnám hernáms

By Uncategorized

eftir Ólaf Hannibalsson

Eftirfarandi grein Ólafs Hannibalssonar birtist í Fréttablaðinu 21. mars, sjá einnig vef Þjóðarhreyfingarinnar.

Hvers vegna lét George Bush eldri staðar numið við landamæri Íraks eftir að hafa hrakið her Saddams Hússeins yfir landamærin í stað þess að fyrirskipa ameríska hernum að halda áfram til Bagdad og steypa harðstjóranum af stóli?

Ein skýring, sem gefin var á þeim tíma var sú, að umboðið sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu gefið fjölþjóðahernum hafi einungis náð til þess að frelsa Kúveit úr klóm hans. En fleiri skýringar komu fram á þeim tíma. Flóabardaga lauk 3. mars 1991. Hermálaráðherra George Bush eldra, Dick Cheney að nafni (varaforseti hins yngra Bush), gaf þessa skýringu í apríl: „Þó svo að að við næðum Bagdad á okkar vald, er ekki ljóst hvað við gætum gert. Það er ekki ljóst hvers konar stjórn við gætum sett á laggirnar í stað þeirrar, sem nú er þar… Hver yrði trúverðugleiki stjórnar sem komið væri á fót þar í skjóli amerísks hers?… Það að blanda ameríska hernum í borgarastyrjöld í Írak mundi falla undir skilgreininguna kviksyndi og við höfum alls enga löngun til að sitja fastir í slíku fúafeni.“

Greinilegt er af þessum orðum að hermálaráðherrann er þá enn minnugur ófara ameríska hersins í Víetnam. Orðið „kviksyndi“ (quagmire) hefur einmitt verið notað um þá stöðu sem amerískur hernaðarmáttur lenti í þar og engir tæknilegir hernaðaryfirburðir megnuðu að bjarga frá smánarlegum hrakförum.

Paul Wolfowits, aðstoðarhermálaráðherra á þessum tíma (nú bankastjóri Alþjóðabankans), skrifaði líka í grein 1994: „Til þess að velta Saddam Hússein úr sessi hefði ekkert minna dugað en algert hernám Íraks…. Jafnvel þótt það hefði gengið auðveldlega fyrir sig í upphafi, þá er það og verður óljóst, hvernig og hvenær slíkt hernám hefði endað.“ Og þremur árum seinna sagði Wolfowits: „Ný ríkisstjórn í Írak hefði orðið að vera á forræði og ábyrgð Bandaríkjanna. Hugsanlega hefði slík skipan mála leitt til meira eða minna varanlegs hernáms Bandaríkjanna á landi, ófæru um að stjórna sjálfu sér, en þar sem fyrirmæli erlenda hernámsliðsins sættu sívaxandi gremju og vanþóknun heimamanna.“

Þessi orð sýna að klíka þeirra manna, sem síðar skipuðu sér undir merki George Bush yngra vissi fullvel hvílíku hættuspili þeir hrundu af stað með innrásinni í Írak, en hikuðu þó ekki við að beita fyrir sig hagræðingu staðreynda og beinum lygum til að hafa sitt fram og snúa almenningsálitinu með sér til beinnar hernaðaríhlutunar í málefni Miðausturlanda, pólitískt eldfimasta svæðis hnattarins. Hér er ekki rúm til að fara út í, hvað kann að hafa valdið þeim sinnaskiptum en um það sagði Michael Scheuer, sem starfað hafði í 22 ár á vegum CIA og þar af í fjögur ár sem sérfræðingur um málefni al Kaída, í bók sinni Ofurdramb heimsveldis: Hvers vegna Vestrið er að tapa stríðinu gegn hryðjuverkum: „Herir Bandaríkjanna og stefna þeirra eru að ná því marki sem Osama bin Laden hefur stefnt að síðan 1990 með takmörkuðum árangri, semsé að snúa gervöllum heimi Íslams til róttækni. Af því tel ég sanngjarnt að draga þá ályktun að Bandaríkin séu orðin hinn eini ómissandi bandamaður bin Ladens.“ Scheuer sagði af sér sem starfsmaður CIA 2004, þegar hann hafði komist að þeirri niðurstöðu, að „það að vera löghlýðinn bandarískur þjóðfélagsþegn er ekki lengur samrýmanlegt því að vera góður og gegn starfsmaður í æðstu stöðum CIA.“

En hernám bitnar ekki aðeins á hinum hernumdu. Það hefur líka sín áhrif á hugarfar og gerðir herraþjóðanna. Fjörutíu ára hernám Ísraels á Vesturbakkanum hefur ýtt undir fasískar tilhneigingar í stjórnmálum, her og leyniþjónustu Ísraelsríkis. Svo mjög að fyrir ekki alllöngu kvað ráðherra í ríkisstjórn landsins upp úr með það opinberlega að ákveðnar aðgerðir Ísraelshers gegn aröbum minntu sig á aðgerðir nasista gegn Gyðingum í heimsstyrjöldinni. Æ fleiri Bandaríkjamenn telja fulla ástæðu til að hafa áhyggjur af þeirri þróun í átt til lögregluríkis, sem átt hefur sér stað í stjórnartíð George Bush með beinum árásum yfirvalda í Hvíta húsinu og dómsmálaráðuneytinu á stjórnarskrárréttindi borgaranna, víðtækum heimildum „föðurlandsvinalaganna“, stórauknu snuðri njósnastofnana um símtöl og tölvupóst borgaranna, skerðingu lagaákvæða um vernd borgaranna gegn fangelsun án dóms og laga, heimilda til hers og leynilögreglu að reka leynileg fangelsi innan og utan bandarískra yfirráðasvæða og pynta grunaða hryðjuverkamenn til sagna, lögbundnum undanþágum frá Genfarsamþykktum um meðferð stríðsfanga, og groddalegum yfirlýsingum um að Bandaríkin séu hafin yfir allar alþjóðasamþykktir og sáttmála, ef þeim svo sýnist. Það verður mikið verk fyrir Bandaríkin og heimsbyggðina alla að snúa ofan af þeim markvisst skipulögðu árásum á vestræn lýðréttindi og gildi sem George Bush hefur gert með Osama bin Laden að blóraböggli og bakhjarli.

En þýðingarmest af öllu er að byrja á byrjuninni: Afnámi hernáms Bandaríkjanna og Ísraels á löndum araba í Miðausturlöndum, áður en það nær að eitra allt andrúmsloft vestrænna gilda og siðmenningar jafnt heimafyrir sem á öðrum menningarsvæðum.

Velheppnaður fundur í Reykjavík gegn Íraksstríðinu – aðgerðir um allan heim

By Uncategorized

Baráttufundur gegn Íraksstríðinu í Austurbæ að kvöldi 19. mars tókst með ágætum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Helgi Hjörvar fluttu kröftug ávörp, Bragi Ólafsson rithöfundur las kafla úr nýjustu skáldsögu sinni, Sendiherranum, með áhrifamiklum inngangsorðum og Ólöf Arnalds og Wilhelm Anton Jónsson heilluðu fundarmenn með tónlist sinni. Samkomunni lauk með tilþrifamikilli endurkomu XXX Rottweilerhunda sem hafa bersýnilega engu gleymt og gáfu ekkert eftir. Kynnirinn Davíð Þór Jónsson hélt svo utan um samkomuna traustum höndum. Að fundinum stóðu Samtök hernaðarandstæðinga, MFÍK, Þjóðarhreyfingin – með lýðræði, Ung vinstri græn og Ungir Jafnaðarmenn.

17mar07n Víða um heim hafa verið öflugar mótmælaaðgerðir gegn stríðinu á undanförnum dögum. Í Washington létu menn kalsaveður og slyddu laugardaginn 17. mars ekkert á sig fá en marséruðu tugþúsundum saman að Pentagon. Tugir þúsunda tóku þátt í mótmælaaðgerðum í Los Angeles og San Francisco auk tugþúsunda manna á meira en 1000 stöðum víðsvegar um Bandaríkin. (Sjá A.N.S.W.E.R., March On Pentagon og United for Peace and Justice).

Í Danmörku voru útifundir í Kaupmannahöfn, Árósum, Óðinsvéum og Rönne (sjá Nej til krig), í Stokkhólmi mættu 2-3000 manns á útifund en einnig voru aðgerðir í Gautaborg, Málmey, Uppsölum og fjölda smærri bæja (sjá Mot krig). Á Írlandi voru mótmæli gegn stríðinu og bandarísku herstöðinni á Shannon-flugvelli (Irish Anti War Movement) og í Belgíu stóðu nokkur samtök að aðgerðum á sunnudaginn (Stop USA, Coordination Nationale d’Action pour la Paix et la Démocratie, Mother Earth). Á Ítalíu voru fjölmennar aðgerðir (Confedarazione Cobas) og í Aþenu tóku um 6000 manns þátt í útifundi sem samtök gegn stríði stóðu fyrir. Tugir þúsunda tóku þátt í aðgerðum í Madrid (sjá frétt) og fundir voru einnig í fjölmörgum öðrum borgum á Spáni. Á ótal öðrum stöðum voru mótmælaaðgerðir, Ungverjalandi, Ástralíu, Tyrklandi, Kýpur, Suður Kóreu, Chile og Írak svo fátt eitt sé talið.

Í London stóð Stop the War Coaliton fyrir almannaþingi þriðjudaginn 20. mars þar sem stríðið og þátttaka Breta í því var rædd (sjá Socialist Worker).

Rétt er að geta þess að 27. janúar voru fjölmennar mótmælaaðgerðir í Washington gegn stríðinu og sömuleiðis í London 24. febrúar.

Sjá einnig Myndir utan úr heimi.

Bætt aðgengi að Friðarvefnum

By Uncategorized

f 1978ind02 007BSífellt er unnið að endurbótum á Friðarvefnum, í því skyni að gera hann aðgengilegri fyrir lesendur. Rétt er að vekja athygli á nýjum tæknilegum valkosti.

Yfir atburðadagatalinu hér til vinstri gefur að líta mynd af litlum bláum karli. Sé þrýst á þessa mynd, breytist útlit síðunnar og við tekur viðmót sem auðveldar sjónskertum að lesa efni síðunnar. Er það von aðstandenda síðunnar að þessi nýjung mælist vel fyrir.

Fyrirlestur Elíasar Davíðssonar á Akureyri

By Uncategorized

Norðurlandsdeild SHA stóð fyrir fundi á Akureyri laugardaginn 17. mars í tilefni af 4 ára afmæli Íraksstríðsins. Efni fundarins var fyrirlestur Elíasar Davíðssonar: „Er hryðjuverkaógnin raunveruleg?“ Um 20 manns hlýddi á Elías. Hann talar blaðalaust kringum punkta sem hann varpar á vegg auk þess sem hann sýndi eina stutta heimildakvikmynd. Nokkur atriði í máli hans voru sem hér segir:

Hann sýndi hvernig hryðjuverkaógnin er nú skilgreind sem meginógn og viðfangsefni öryggismála af Öryggisráði SÞ, einnig m.a. af NATO og ESB. Næst sýndi hann fram á hvernig dauðsföll af völdum hryðjuverka í heiminum eru hverfandi fá og lítilmótlegar stærðir miðað við flestar aðrar tegundir ótímabærra dauðsfalla. Sérstaða hryðjuverka er að þau eru blásin upp af skipulegum áróðri stjórnvalda og ráðandi fréttastofa út yfir öll tilefni og þó sérstaklega „hættan“ á ókomnum hryðjuverkum. Elías gerði síðan greinarmun á raunverulegum hryðjuverkum andófsmanna og sviðsettum hryðjuverkum stjórnvalda og leyniþjónusta. Hann rakti allangan lista hinna síðarenfndu á 20. öld, nefndi einnig sannanlega sviðsett hryðjuverk hernámsaflanna í Írak og leiddi rök að því að slíkt væri nú mjög stundað til að gefa mynd af andspyrnu Íraka sem gagnkvæmu „ofbeldi trúarhópa“, og um al-Qaeda sem afsprengi bandarískrar leyniþjónustu.

rumsfieldAlmennt telur Elías að herfræði þeirra sem nú leiða „stríðið gegn hryðjuverkum“ sé að skapa þá „mynd af óvininum“ sem hentar þeim. Nú er sú mynd af heittrúuðum múslima sem laumast um alls staðar og hvergi á meðal vor, stórhættulegur öryggi borgaranna. Þessi goðsögn er síðan skipulega notuð til að herða eftirlit með alþýðunni og taka hart á öllu andófi. Kjörorðið um baráttu gegn hryðjuverkamönnum virðist vera gripið fagnandi af valdamönnum um heim allan; það auðveldar þeim stjórnun og undirokun. Í öðru lagi er „hryðjuverkaógnin“ skilgreind af vestrænum stjórnvöldum og fréttastofum sem vopnuð barátta gegn vestrænum hagsmunum og „vinveittum“ ríkisstjórnum. Hin nýja áróðurssókn felst í því að stimpla slíka andspyrnu sem „hryðjuverk“ sem „alþjóðasamfélagið“ þurfi að uppræta með öllum tiltækum ráðum.

Seinni hluti erindisins fór í 11. september sem Elías færir rök fyrir að sé einmitt eitt slíkt sviðsett hryðjuverk. Hann sýnir fyrst og fremst hvernig hin opinbera útgáfa atburðanna getur með engu móti staðist. Rökfærsla þeirra sem hafna opinberu skýringunni er ekki síst byggingarfræðilegs eðlis: Stálstrengjabyggingar sem falla lóðrétt saman með hraða fallandi steins og breytast í mjöl og fínt ryk geta ekki verið að falla af völdum holu eftir flugvélarskrokk og mjög afmarkaðs eldsvoða ofarlega í þeim. Elías sýndi einnig stutta heimildakvikmynd frá hinum dramatíska degi þar sem fjöldi manns, m.a. á vettvangi, vitnaði um sprengingar miklu neðar í byggingunum. Allur sá vitnisburður um sprengingar er hins vegar fjarverandi í skýrslum opinberra rannsóknanefnda eftir atburðina. Hvernig sem hinir dularfullu atburðir eru til komnir komu þeir eins og eftir pöntun og urðu átylla nýrrar stórsóknar bandarískrar hernaðar- og heimsvaldastefnu með útlit fyrir enn miklu stærri stríð í náinni framtíð. Einkum vegna þessa er það orðin krafa heimsvaldaandstæðinga að það dómsmál verði tekið upp og upplýst að fullu.

Rökfærsla Elíasar var föst og þung og spurningar hans knýjandi. Afar góður rómur var gerður að fyrirlestrinum.

Þórarinn Hjartarson

Ríkisstjórnarflokkarnir studdu innrásina í Írak

By Uncategorized

eftir Magnús Má Guðmundsson formann Ungra jafnaðarmanna

Magnús Már Guðmundsson, form. Ungra jafnaðarmanna Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars og á vef Ungra jafnaðarmanna, Politik.is, 19. mars.

Um miðjan febrúar árið 2003 vildi Tony Blair að vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna fengu lengri tíma til að sinna starfi sínu í Írak. Nokkrum dögum síðar sagði Hans Blix, yfirmaður vopnaeftirlitsnefndar SÞ, að Írakar sýndu raunveruleg merki um samvinnu. Í framhaldinu fór hann fram á að vopnaeftirlitsmenn fengu nokkra mánuði til viðbótar við störf sín í landinu. Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra sagði á Alþingi 3. mars að hann undirstrikaði nauðsyn þess að ályktanir SÞ héldu annars væri hætta á að öryggishlutverk samtakanna yrði dregið niður og að lokum myndu SÞ verða fyrir álitshnekkjum.

Skömmu fyrir innrásina
Á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna 7. mars sagði Mohamed El Baradei, yfirmaður Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, að engar vísbendingar hefðu komið fram um að Írakar hefðu endurnýjað kjarnorkuvopnaáætlun sína. Stuttu síðar sagði hann stofnuna þurfa ,,tvo til þrjá mánuði til viðbótar til þess að geta slegið því föstu að Írakar vinni ekki, og hafi ekki unnið, að þróun kjarnorkuvopna.”

George Bush, Tony Blair og José María Aznar, þáverandi forsætisráðherra Spánar, hittust og funduðu á Azoreyjum 17. mars. Þar gaf Bandaríkjaforseti SÞ sólarhringsfrest til að ákveða hvort samtökin styddu stríð gegn Írak undir forystu Bandaríkjanna. Skömmu síðar sagðist Davíð Oddsson styðja yfirlýsinguna.

Stuðningur Íslands við stríðið var ákveðin af tveimur mönnum sem sýndi og sýnir ótrúlega vanvirðingu þeirra manna gagnvart lýðræði í landinu og um leið sinni eigin þjóð. Þetta var gert án þess að utanríkismálanefnd Alþingis kæmi saman, en nefndin á að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um ,,meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt á þingtíma sem í þinghléum.” Ef stuðningur við stríð er ekki meiri háttar utanríkismál – hvað er þá meiri háttar utanríkismál?

Skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma þann 20. mars hófst stríð í Írak.

SÞ og alþjóðasamfélaginu sýnd vanvirðing
Ísland var og er á lista sem gengur þvert gegn samþykktum alþjóðasamfélagsins, heimilaði aðgerðir sem ekki voru studdar af Sameinuðu þjóðunum og tóku ekki mið af upplýsingum manna eins og Hans Blix og Mohamed El Baradei. Hvað sem fólki finnst um SÞ og það hversu svifaþung samtökin geta verið þá geta þjóðir, líkt og þjóðirnar á lista hinna viljugu gerðu, ekki hegðað sér á þennan hátt. Það er óábyrgt. Með þessum gjörningi sýndu Íslendingar í samvinnu við félaga okkar á listanum Sameinuðu þjóðunum og alþjóðasamfélaginu í heild sinni gífurlega vanvirðingu og um leið drógu við úr áhrifamætti SÞ.

Hroki Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna
Kofi Annan, þáverandi aðalritari Sameinuðu þjóðanna, fullyrti um miðjan september 2004 að árásarstríðið í Írak hefði ekki verið í samræmi við stofnsáttmála SÞ og væri í því ljósi ólöglegt. Ákvörðun sem þessa væri ekki hægt að taka fram hjá öryggisráði SÞ. Í framhaldinu sagðist Halldór Ásgrímsson ekki hafa skipt um skoðun hvað varðaði lögmæti innrásarinnar í Írak þrátt fyrir yfirlýsingu aðalritara SÞ. Halldór sagði að fólk ætti ekki að vera að ,,dvelja svona mikið við fortíðana eins og er verið að gera” og sagði hann jafnframt að það ætti frekar að horfa til framtíðar. Varðandi gjöreyðingarvopnin sagðist Halldór hafa orðið ,,a.m.k. fyrir miklum vonbrigðum” með að upplýsingar sem hann hafði haft undir höndum hafi ekki verið réttar.

Í byrjun árs 2005 kom í ljós í könnun sem Gallup framkvæmdi að 84% Íslendinga voru á móti því að við séum á lista hinna viljugu þjóða. Davíð Oddsson skildi ekkert í því að Gallup skyldi spyrja ,,svona” og taka þátt í ,,uppþoti stjórnarandstöðunnar”. Þáverandi formaður utanríkismálanefndar Alþingis, Sólveig Pétursdóttir, reyndi að gera lítið úr lista hinna vilju og sagði listann ekki skipta máli. Siv Friðleifsdóttir reyndi einnig að draga úr mikilvægi lista hinna viljugu og sagði aukinheldur að nú væri aðeins uppbyggingin eftir og að ,,fólk [virtist] ekki átta sig á því.” Uppbyggingin eftir. Er það raunin? Hvernig er ástandið í Írak í dag? Ekkert lát virðist vera á óöldinni í Írak og sífellt fleirum verður ljóst hvaða hörmungar stríðið hefur kallað yfir írösku þjóðina. Samt sem áður stendur Sjálfstæðisflokkurinn fast á því að stuðningur við innrásina hafi verið réttur. Afstaða Framsóknarflokksins er óljós en Jón Sigurðsson formaður flokksins hefur farið ófáa hringi í málinu eftir að hann kom fram á sjónarsviðið sem handvalinn eftirmaður Halldórs Ásgrímssonar sl. sumar.

Hinir staðföstu stríðsandstæðingar
Um þessar mundir eru liðin fjögur ár frá því að innrás Bandaríkjamanna og bandalagsríkja þeirra í Írak hófst með formlegum stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Mánudagskvöldið 19. mars kl. 20 munu hinir staðföstu stríðsandstæðingar efna til baráttusamkomu í Austurbæ þar sem allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Þar verður innrásinni mótmælt og þess krafist að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð vegna hins svívirðilega stuðnings við hið ólöglega árásarstríð. Ungir jafnaðarmenn tilheyra hinum staðföstu stríðsandstæðingum.