All Posts By

Stefán Pálsson

Mun Ísland halda áfram þátttöku í starfsemi NATO í Írak?

By Uncategorized

natoterror Á fundi Alþingis 4. júní beindi þingmaður VG, Katrín Jakobsdóttir, þeirri fyrirspurn til utanríkisráðherra, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, hvort þær heimildir, sem fyrri ríkisstjórn veitti til að bandarísk stjórnvöld mættu nýta íslenska lögsögu, lofthelgi og flugvelli til flutninga vegna innrásarstríðsins í Írak, hefðu verið teknar aftur eða til stæði að afturkalla þær.

Svar utanríkisráðherra var svohljóðandi: „Eftir því sem mér er best kunnugt voru þessar heimildir veittar þegar Íslendingar studdu innrásina í Írak og voru þá í gildi um ákveðinn tíma en slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur. Það eru auðvitað breyttar aðstæður líka í Keflavík eftir að herinn hvarf af landi brott og nú mun það vera til sérstakrar skoðunar hvernig slíkum heimildum verði háttað í framtíðinni.“ (Tilvitnun eftir bráðabirgðaútgáfu á vef Alþingis).

„Slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur,“ segir utanríkisráðherra. Þessi yfirlýsing er þýðingarmikil þótt ekki komi fram fram hvenær þær voru felldar úr gildi.

Í framhaldi af þessari yfirlýsingu utanríkisráðherra og yfirlýsingu ráðherrans frá 31. maí um að ríkisstjórn Íslands styðji ekki lengur stríðsreksturinn í Írak væri fróðlegt að fá svör við því hvað sé átt við með því að ríkisstjórnin vilji „leggja lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi,“ eins og segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Eins og kunnugt er hefur NATO verið með starfsemi í Írak, þótt ekki sé um formlega „friðargæslu að ræða“ eins og í Afganistan. Íslendingar hafa tekið þátt í þessari starfsemi, m.a með því að leggja til starfsmenn. Augljóslega er starfsemi NATO ekki óháð hagsmunum Bandaríkjanna þar sem Bandaríkin eru ótvírætt forysturíki í NATO. Því hlýtur það að vera rökrétt framhald af þeirri ákvörðun að hætta að styðja stríðsreksturinn í Írak, að Ísland hætti þátttöku í starfsemi NATO í Írak og beini kröftum sínum að öðrum vettvangi, vettvangi sem er óháður Bandaríkjunum.

Einar Ólafsson

Um starfsemi NATO í Írak, sjá:
„NATO’s assistance to Iraq“ á vef NATO.

„Íslendingar taka beinan þátt í stríðinu í Írak – og leggja til einn hermann“ á Friðarvefnum 21. mars 2007.

Styður ríkisstjórnin stríðsreksturinn í Írak?

By Uncategorized

Eftirfarandi grein Einars Ólafssonar birtist í Morgunblaðinu 3. júní 2007. Rétt er að geta þess að utanríkisráðherra lýsti því yfir á Alþingi 31. maí að umrætt orðalag í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þýddi að ríkisstjórnin styður ekki stríðsreksturinn i Írak. „Listi hinna viljugu ríkja“ með nafni Íslands heyrir því sögunni til og Bandaríkin geta ekki lengur litið á Ísland sem stuðningsríki í herferðinni í Írak. Þar sem Ísland hefur verið á þessum lista í fjögur ár án athugasemda íslenskra stjórnvalda hlýtur það að vera eðlilegt að ríkisstjórn Bandaríkjanna verði nú tilkynnt þessi stefnubreyting með formlegum hætti. Höfundur þessarar greinar mun sjá til þess að hún verði kynnt á vettvangi hinnar alþjóðlegu andófshreyfingar gegn innrásinni og stríðsrekstrinum í Írak.

Í stefnuyfirlýsingu hinnar nýju ríkisstjórnar segir svo: „Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak og vill leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi.“ Minna og óljósara gat það nú varla verið og má segja að þetta segi svo sem ekki neitt.

Flokksformennirnir tveir kusu að réttlæta hið óljósa orðalag með því að horft væri til framtíðar og fortíðin ætti ekki að þvælast fyrir. Nú er það svo, að sá fortíðargjörningur fyrri ríkisstjórnar að styðja innrásina í Írak er ekki bara fortíð, honum er ekki lokið. „Listi hinna viljugu ríkja“ er enn á heimasíðu Hvíta húsins, „coalition“ eru þessi 49 ríki kölluð þar, „bandalag, sem hefur hafið hernaðaraðgerðir til að afvopna Írak af gjöreyðingarvopnum þess“. Samkvæmt skilningi Bandaríkjastjórnar, sem íslensk stjórnvöld hafa ekki mótmælt, stóð Ísland að þessum hernaðaraðgerðum með Bandaríkjunum. Og þessar hernaðaraðgerðir standa enn. Þannig styður hin nýja ríkisstjórn Íslands stríðsreksturinn í Írak þótt hún harmi hann. Í því er engin mótsögn fólgin, því stundum þarf fleira að gera en gott þykir, og maður getur harmað verk sín þótt hann standi við þau. Það getur vel verið að Bush harmi þennan stríðsrekstur líka, þetta er auðvitað bölvað vesen.

Ég er ekki fyrst og fremst að biðja um uppgjör við fortíðina. Ég er bara að biðja um það að Ísland láti af stuðningi sínum við stríðsreksturinn í Írak. Auðvitað væri ekki verra ef Geir H. Haarde bæðist afsökunar á að hafa stutt innrásina í upphafi. En ég spyr Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur: „Hversu lengi ætlar þú að vera utanríkisráðherra í ríkisstjórn sem styður stríðsreksturinn í Írak?“

Ég spyr af því að þetta er stórmál. Þessi stríðsrekstur hefur kostað meira en 100 þúsund mannslíf, enn fleiri særða og örkumlaða á sál og líkama, efnahagur og innviðir Íraks eru í rúst, tugir þúsunda á flótta. Þessi stríðsrekstur er líka hluti af glæpsamlegri og siðlausri heimsvaldastefnu Bandaríkjanna, hann er ólöglegur að alþjóðalögum, hann tengist stríðsglæpum og ýmsum mannréttindabrotum, svo sem Guantánamo-fangabúðunum.

Úr ræðu utanríkisráðherra á Alþingi 31. maí 2007 (Textinn er tekinn af vef Alþingis og er birtur hér með þeim fyrirvara að hann er enn óyfirlesinn þar. Leturbreytingin er ekki í frumtextanum.).

„Eitt þeirra mála sem reynst hefur þjóðinni þungbært á síðustu árum er afstaðan til Íraksstríðsins. Við þekkjum öll sögu þess máls. Það var fyrri ríkisstjórn Íslands sem tók þá umdeildu ákvörðun að styðja innrásina í Írak, m.a. í andstöðu við minn flokk. Þeim stuðningi fylgir siðferðileg ábyrgð sem við sem þjóð verðum að horfast í augu við og axla. Ákvörðunin um innrásina í Írak var tekin á röngum forsendum og stuðningur stjórnvalda á Íslandi var það einnig. Að mínum dómi átti hann aldrei að koma til greina. Ný ríkisstjórn lýsir því yfir að hún harmar þennan stríðsrekstur. Hún styður hann því ekki. Þetta er mikilvæg yfirlýsing um nýja stefnumótun um utanríkisstefnu þar sem friðsamleg lausn deilumála og virðing fyrir alþjóðalögum og mannréttindum verða leiðarljós stjórnvalda á alþjóðavettvangi. Ég hygg að þjóðarsátt sé um það að Íslendingar eigi um ókomna tíð að ganga fram í samfélagi þjóða sem friðflytjandi. Þjóð menningarsamskipta, viðskipta og útrásar, stolt af landi okkar og þjóð en jafnframt meðvituð um nauðsyn vits þess sem víða ratar eins og segir í Hávamálum. Ný ríkisstjórn lýsir því yfir að í framtíðinni munu allar meiri háttar ákvarðanir á sviði utanríkismála verða teknar í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.“

„Lista hinna viljugu ríkja“ má sjá á vefsíðu Hvíta hússins.

Evrópa án kjarnavopna

By Uncategorized

europeforpeace Undanfarið hafa borast fréttir af uppsetningu gagnflaugakerfis í Evrópu á vegum Bandaríkjanna. Þetta eru reyndar ekki nýjar fréttir, alllangt er síðan farið var að segja frá þessu hér á Friðarvefnum. Fyrirhugaðar eru gagneldflaugastöðvar í Póllandi og Tékklandi. Breska þingið ákvað nýlega að endurnýja Trident-eldflaugar sínar sem er ætlað að bera kjarnorkusprengjur. Enn eru Bandaríkjamenn með kjarnorkuvopn í ýmsum Evrópulöndum sem ekki eru skilgreind sem kjarnorkuveldi. NATO áskilur sér enn rétt til að beita kjarnavopnum. NATO hefur þanist út austurs á undanförnum árum og auk þess hafið ýmiskonar starfsemi utan Evrópu. Bandaríkjamenn hafa fengið hernaðaraðstöðu eða komið sér upp herstöðvum í löndum Austur-Evrópu og allt inn í Mið-Asíu. Rússar telja sér ógnað. Talað er um nýtt kalt stríð. Fjölmargir hafa orðið til að andæfa þessari þróun og m.a. var haldin alþjóðleg ráðstefna í Prag fyrir tæpum mánuði.

Herferðin: Evrópa án kjarnavopna
Nýlega var ýtt úr vör herferðinni Evrópa án kjarnavopna. Frumkvæði að þessari herferð hefur Húmanistahreyfingin í Evrópu. Ætlunin er að upplýsa og virkja almenning um þetta mikilvæga mál og fá svör þingmanna um afstöðu þeirra.

Í yfirlýsingu í tenglsum við herferðina segir:

„Við krefjumst þess að Evrópa taki afgerandi afstöðu með friði og mannlegri tilveru án ofbeldis. Við krefjumst eftirfarandi óafturkræfra aðgerða:

  • Evrópa án kjarnavopna: Fyrstu skrefin í alþjóðlegri kjarnorkuafvopnun, undir eftirliti Sameinuðu Þjóðanna, verði að fara fram á: Að Bandaríkin dragi til baka og eyði kjarnavopnabúnaði sem er í herstöðvum þeirra og NATO í Evrópu. Að Frakkar og Bretar eyði kjarnavopnabúrum sínum.
  • Lýst verði yfir ólögmæti kjarnavopna í samræmi við dómsorð Alþjóðadómstólsins frá 1996.
  • Ógilt verði hvers konar samkomulag um að koma á fót eða stækka herstöðvar erlendra ríkja á landssvæði Evrópu.
  • Evrópuríki afturkalli allan herafla sinn frá hersetnum landssvæðum.
  • Unnið verði að lausn deilumála með skoðanaskiptum og eftir diplómatískum leiðum.

Á götum stórborganna, í hverfunum, í smáborgum og þorpum Evrópu er eitthvað nýtt að verða til, – mjúk en voldug hljómhviða sem fer um eins og hvirfilbylur og býður öllu óréttlæti, fantaskap og ofbeldi byrginn.

Vinir um alla Evrópu, við skulum skapa Evrópu friðarins með styrk þess sem ekki beitir ofbeldi.“

Yfirlýsingin í heild

Nánari upplýsingar á vefsíðunni www.europeforpeace.eu