All Posts By

Stefán Pálsson

Orrustuþotur ógna öryggi farþegaflugs

By Uncategorized

Steinunn Þóra Árnadóttir, virkur félagi í SHA, situr nú á þingi sem varaþingmaður og hefur látið til sín taka varðandi hernaðar- og friðarmál. Fimmtudaginn 31. janúar bar hún fram fyrirspurn vegna frétta um að danskar orrustuþotur hafi ítrekað flogið of nærri farþegaflugvélum. Fyrirspurn Steinunnar var svohljóðandi:

„Virðulegi forseti. Í síðustu viku voru fluttar fregnir af því í norrænum fjölmiðlum, m.a. í danska ríkisútvarpinu og færeyska blaðinu Sósíalnum, að á síðustu þremur árum hafi það gerst tíu sinnum að F16 orrustuþotur danska hersins hafi farið of nærri farþegaþotum á flugi. Fjögur þessara tilvika áttu sér stað á síðasta ári.

Það er óþarft að fjölyrða um þá hættu sem getur skapast af því fyrir áhafnir og farþega í almennu flugi þegar flugmenn á orrustuþotum, sem flogið geta á 2.000 kílómetra hraða á klukkustund, virða ekki nauðsynlegar öryggisreglur á flugi.

Fregnir þessar ættu að vekja sérstaka athygli Íslendinga enda hafa íslensk stjórnvöld verið fús til að leyfa erlendum herjum að stunda flugæfingar í og við landið. Slíkar æfingar, og þá einkum lágflugsæfingar, hafa mætt mikilli andstöðu hér á landi, m.a. frá aðilum í ferðaþjónustu.

Af þessu tilefni vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. utanríkisráðherra. Í fyrsta lagi: Valda þessar fregnir hæstv. utanríkisráðherra áhyggjum í ljósi þess að íslensk stjórnvöld hafa á síðustu missirum kappkostað að bjóða dönskum herþotum og vélum annarra NATO-ríkja til æfinga og eftirlitsflugs við Ísland? Og í öðru lagi: Hyggst utanríkisráðuneytið fara fram á skýringar frá dönskum yfirvöldum vegna þessa máls?“
(Skv. bráðabirgðaútgáfu á vef Alþingis)

Fyrirspurnin, svar utanríkisráðherra og frekari orðaskipti ráðherra og fyrirspyrjanda er að finna á vef Alþingis.

Aðalfundur MFÍK, Friðarhúsi

By Uncategorized

mfikAðalfundur MFÍK verður haldinn í Friðarhúsi, á horni Njálsgötu og Snorrabrautar, miðvikudagskvöldið 30. janúar kl. 19:00

Svavar Knútur Kristinsson trúbadúr mun leika og syngja nokkur lög í upphafi fundar.

Léttur kvöldverður verður seldur á hóflegu verði.

Fundurinn er öllum opinn.

Hershöfðingjar NATO vilja beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði

By Uncategorized

natoterror eftir Finn Dellsén

Eftirfarandi grein birtist í vefritinu ogmundur.is 25. janúar.

Nýjustu fréttir af vettvangi Atlantshafsbandalagsins eru þær að nokkrir af valdamestu hershöfðingjum bandalagsins boða beitingu kjarnorkuvopna til að „uppræta hryðjuverk“. Hershöfðingjarnir ætlast til þess að þessi nýja stefna verði samþykkt á NATO-þingi í apríl. Þar verða fulltrúar íslenskra stjórnvalda, og þar fá Íslendingar tækifæri til að mótmæla stefnu sem þessari.

Að vísu hefur NATO aldrei útilokað að beita kjarnorkuvopn að fyrra bragði, þótt þetta sé líklega í fyrsta skipti í áraraðir sem valdamiklir menn innan bandalagsins vilja beinlínis gera það hluta af opinberri stefnu bandalagsins. Réttast væri auðvitað að hin nýja kjarnorkustefna hershöfðingjanna yrði tilefni þess að endurskoða þessa glórulausu afstöðu Atlantshafsbandalagsins.

Því miður virtist formaður utanríkisnefndar Alþingis, Bjarni Benediktsson, útiloka slíkt þegar hann var spurður út í það í þinginu. Hann hafði engar áhyggjur af kjarnorkuhvatningu hershöfðingjanna, en tók þess í stað undir áhyggjur hershöfðingjanna af „þeirri ógn sem vestrænum ríkjum stafar af hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og mögulegri útbreiðslu gereyðingarvopna.“ Ekki er hægt að skilja orð hans öðruvísi en svo að honum finnist ekki útilokað að beita kjarnorkuvopnum í þessum tilgangi.

Hvenær ætla sjálfstæðismenn að átta sig á því að helsta ógnin við frið í þessum heimi er ekki hryðjuverk fátækustu þjóða heims heldur gereyðingarvopnin sem nú þegar eru til staðar í okkar eigin vopnabúri á Vesturlöndum?

(Frá ritstjóra: Þessar tillögur komu fram í skýrslunni Towards a Grand Strategy for an Uncertain World. Renewing Transatlantic Partnership (pdf-skjal) (bls. 94-98):

„Closely linked to proportionality is the principle of damage limitation. This requires looking at actions taken during a crisis or a conflict through the lens of the post-conflict period. The principle gains in importance as military operations are conducted as wars ‘among the people’. To achieve this end, damage done in the area of operations must be as small as possible, yet it must not reduce the chances of quick success, scored as decisively as possible. We are therefore no longer preoccupied with the traditional principle of destruction, which dominated strategic thinking from the early 19th century. The new principle – in line with the progress of technology – is the principle of minimum damage and victory through paralysis, involving the surgical use of all available instruments of power.

Simultaneously observing proportionality and damage limitation will become extremely difficult in cases where the use of nuclear weapons must be considered. The first use of nuclear weapons must remain in the quiver of escalation as the ultimate instrument to prevent the use of weapons of mass destruction, in order to avoid truly existential dangers. At first glance, it may appear disproportionate; but taking account of the damage that it might prevent, it could well be proportionate. Despite the immense power of destruction possessed by nuclear weapons, the principle of damage limitation remains valid and must be kept in mind. Indeed, it was one of the principles that governed NATO’s nuclear planning during the Cold War.“ (bls. 94)

„Nuclear weapons are the ultimate instrument of an asymmetric response – and at the same time the ultimate tool of escalation. Yet they are also more than an instrument, since they transform the nature of any conflict and widen its scope from the regional to the global. Regrettably, nuclear weapons – and with them the option of first use – are indispensable, since there is simply no realistic prospect of a nuclear-free world. On the contrary, the risk of further proliferation is imminent and, with it, the danger that nuclear war fighting, albeit limited in scope, might become possible. This development must be prevented. It should therefore be kept in mind that technology could produce options that go beyond the traditional role of nuclear weapons in preventing a nuclear armed opponent from using nuclear weapons. In sum, nuclear weapons remain indispensable, and nuclear escalation continues to remain an element of any modern strategy.“ (bls. 96-97)

Rétt er að taka það fram að höfundarnir eru ekki lengur starfandi hershöfðingjar. Samkvæmt frétt í breska blaðinu Guardian hafa þeir hins vegar haft samráð við ýmsa starfandi forsvarsmenn. Núna eftir áramótin hefur skýrslan verið lögð fyrir bandaríska varnarmálaráðuneytið og framkvæmdastjóra NATO og verður líklega til umræðu á leiðtogafundi NATO í Búkarest í apríl.

Sjá líka t.d.:
„NATO must prepare for nuclear first strike, report urges“

Umræður á Alþingi: sjá á vef Alþingis ræðu Steinunnar Þóru Árnadóttur og næstu ræður.)

Þingmenn allra flokka fordæma Guantanamó

By Uncategorized

eftir Álfheiði Ingadóttur alþingismann

guantanamostop Við vöktum athygli á því fyrir skemmstu að þverpólitísk samstaða hefði komið fram á Alþingi um fordæmingu á fangabúðunum í Guantanamó. Álfheiður Ingadóttir alþingismaður sagði frá umræðunum í eftirfarandi grein sem birtist í Morgunblaðinu 25. janúar:

Hinn 11. janúar sl. voru liðin sex ár frá því flogið var með fyrstu fanga Bandaríkjahers í hinar illræmdu fangabúðir við Guantanamó-flóa á Kúbu. Á þeim tímamótum var 277 mönnum enn haldið þar föngnum utan dóms og laga en þeir voru hátt í 700 talsins þegar mest var og sá yngsti 13 ára. Það bar til tíðinda á Alþingi viku síðar, fimmtudaginn 17. janúar, að þingmenn úr öllum flokkum fordæmdu mannréttindabrot Bandaríkjamanna í Guantanamó og hvöttu eindregið til þess að fangabúðunum yrði lokað.

Tilefnið var þingsályktunartillaga Vinstri grænna sem nú er flutt öðru sinni. Tillagan hljóðar svo: „Alþingi fordæmir ólöglega og ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu og felur ríkisstjórninni að beita sér fyrir því á alþjóðavettvangi að þeim verði lokað.“ Það er brýnt að Alþingi og ríkisstjórn fordæmi mannréttindabrotin í Guantanamó og beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að fangabúðunum verði lokað. Það var þess vegna ánægjulegt og mikilvægt málefnisins vegna að finna stuðninginn við þessi sjónarmið í þinginu. Þar sem fregnir af umræðunni rötuðu ekki í fjölmiðla vil ég fara nokkrum orðum um hana hér.

Auk undirritaðs framsögumanns tóku til máls þingmennirnir Pétur Blöndal, Ögmundur Jónasson, Jón Magnússon, Bjarni Harðarson, Árni Páll Árnason, Karl V. Matthíasson og Dýrleif Skjóldal.

Pétur Blöndal kvað sterkt að orði og sagði Bandaríkin hafa brugðist sem brjóstvörn fyrir baráttu fyrir mannréttindum í heiminum. Gunnfáni þeirra í baráttu fyrir mannréttindum væri troðinn í svaðið.

Jón Magnússon og Árni Páll Árnason tóku í sama streng og harmaði Árni Páll að Bandaríkin skyldu hafa komið sér í þær ógöngur sem raun ber vitni með starfrækslu Guantanamó-búðanna og misbeitingu valds þar. Jón Magnússon sagði dapurlegt að í Bandaríkjunum væri við völd stjórn sem leyfir sér að þverbrjóta þær reglur sem alþjóðasamfélagið hefur sett, reglur sem gilda í bandarísku samfélagi og reglur sem hver einasti siðaður maður hlýtur að vilja halda í heiðri.

Ögmundur Jónasson sagði fyrri ríkisstjórn hafa mótmælt fangabúðunum með svo linkulegum hætti að það hefði nánast verið í kyrrþey eftir að samtök launafólks, Amnesty International og ungliðahreyfingar nokkurra stjórnmálaflokka höfðu barið lengi á dyrnar. Íslensk stjórnvöld og íslenskir ráðherrar hefðu hins vegar ítrekað gengið á fund starfsbræðra sinna og systra vestra án þess að hreyfa við málinu.

Bjarni Harðarson taldi pyntingarnar í Guantanamó einsdæmi í fangelsum í svokölluðum vestrænum ríkjum. Tengsl Íslendinga við stríðsreksturinn í Mið-Austurlöndum kölluðu einnig á að þingið beitti sér í þessu máli.

Karl V. Matthíasson taldi fulla ástæðu fyrir smáþjóð eins og Íslendinga að leggja slíkar ályktanir fyrir alþjóðasamfélagið. Á þessari stundu væru í Guantanamó drengir sem einmitt væru að vona að einhverjir tækju þeirra málstað þó á litlu þjóðþingi væri.

Dýrleif Skjóldal fagnaði umræðunum og sagði samstöðu þingmanna í þessu máli auka á virðingu Alþingis.

Ég ætla ekki að rekja efni framsöguræðu minnar hér en tillöguna ásamt greinargerð er að finna á vef Alþingis (þingskjal nr. 107). Góðar undirtektir þingmanna úr öllum flokkum á Alþingi er vísbending um að tillögunni verði vel tekið í utanríkismálanefnd og að hún verði samþykkt á Alþingi fyrir vorið.

Austur-evrópskt þema á málsverði

By Uncategorized

Matseðillinn í Friðarhúsi n.k. föstudagskvöld verður með áustur-evrópsku sniði:

* Ungversk gúllassúpa með paprikusnúðum og sterku paprikumauki
* Rúmensk grænmetissúpa
* Búlgarskt grænmetissalat

Gestakokkur er að þessu sinni Nanna Rögnvaldardóttir.

Málsverðurinn hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Verð kr. 1.500

Nanna og Ingibjörg í Friðarhúsi

By Uncategorized

Hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn n.k. föstudag, 25. janúar.

Nanna Rögnvaldardóttir stýrir eldamennskunni og Ingibjörg Haraldsdóttir skáldkona les úr nýlega útkominni bók sinn.

Takið kvöldið frá. Nánari upplýsingar birtast síðar.