All Posts By

Stefán Pálsson

Píningarbekkur á Austurvelli

By Uncategorized

Waterboarding 009Á morgun, föstudag, kemur utanríkisráðherra Bandaríkjanna í stutta heimsókn til Íslands til fundar með hérlendum ráðamönnum. Að þessu tilefni vilja Samtök hernaðarandstæðinga beina athygli að því hvernig bandarísk yfirvöld hafa kerfisbundið grafið undan mikilvægum mannréttindasáttmálum undir flaggi “stríðs gegn hryðjuverkum”.

Ein birtingarmynd þessa er notkun Bandaríkjahers og samherja hans á pyntingum, sem sætt hafa alþjóðlegri fordæmingu. Þekkt pyntingaraðferð af þessu tagi felst í því að binda fanga við planka og hella vatni yfir vit hans til að skapa drukkunartilfinningu. Bandarísk stjórnvöld þræta fyrir að sú aðferð teljist til pyntinga.

Samtök hernaðarandstæðinga munu standa fyrir sýnikennslu með vatnspyntingarbekk á Austurvelli kl. 17 á föstudag. Condoleeza Rice er sérstaklega boðin velkomin þangað til að kynna sér hið raunverulega eðli þessarar píningaraðferðar. Sama máli gegnir um íslenska ráðamenn.

Jafnframt hvetja Samtök hernaðarandstæðinga íslensk stjórnvöld til að nota tækifærið og fordæma pyntingar í viðræðum við bandaríska utanríkisráðherrann. Jafnframt er brýnt að ráðist verði í óháða rannsókn á umfangi þeirra pyntinga sem Bandaríkjaher hefur staðið fyrir og að hlutur fórnarlamba þeirra verði réttur. Ísland á að skipa sér í hóp þeirra ríkja sem standa vörð um frið og mannréttindi í stað þess að grafa undan þeim.

Friðarsinnar eru hvattir til að láta sjá sig á Austurvelli kl. 17 á morgun.

Sumarmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

427175377EUHtYW phFjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 30. maí n.k.

Systa býður uppá sumarkjötrétt og sumarsalöt.

Matseðillinn:

Nautatunga reykt borin fram köld með piparrótarrjóma.

Kalt kartöflusalat.

Steikt svínakjöt með heitu kartöflusalati.

Suðrænt saltfisksalat með fetaosti og ólífum.

Eftirréttur: Heimagerð súkkulaðimousse að hætti Systu.

Guðrún Lára Pálmadóttir trúbador tekur lagið.

Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 1.500.

Condoleezza Rice ber ábyrgð á pyntingum fanga

By Uncategorized

Condoleezza Rice utanríkisráðherra Bandaríkjanna er væntanleg til Íslands næstkomandi föstudag til fundar við utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Hvað sem öllu kurteisisvenjum líður við slíkar heimsóknir er full ástæða til að nota tækifærið og krefja gestinn svara við ýmsum áleitnum spurningum, svo sem varðandi þær pyntingar sem bandarísk stjórnvöld beita við yfirheyrslu fanga.

waterL1104 468x493

Condoleezza Rice 5. desember 2005:

Í desember 2005 var Condoleezza Rice í heimsókn í Evrópu. Þá höfðu borist óþægilegar spurningar frá Evrópu, frá Evrópuráðinu, Evrópusambandinu og einstökum löndum, sem vörðuðu vafasamt atferli Bandaríkjanna í „stríðinu gegn hryðjuverkum“. Áður en hún lagði upp í ferðina frá Andrews-herstöðinni rétt utan við Washington, þar sem einkaþotur Bandaríkjastjórnar hafa aðsetur, gaf hún út yfirlýsingu til að svara þessum spurningum.

Þessi yfirlýsing er merkilegur samsetningur að því leyti að annarsvegar er lögð áhersla á það að bandarísk stjórnvöld fari að lögum, pyntingar séu bannaðar með lögum og því komi pyntingar ekki til greina. Hinsvegar er lögð áhersla á hættuna sem stafar af hryðjuverkamönnum og mikilvægi þess að upp um þá komist, að þeir náist, að hægt sé að fá þá til að veita þær upplýsingar sem þeir hafa og að þeir taki út sína refsingu.

Eftir lýsingu á því hversu hættulegir nútíma hryðjuverkamenn eru sagði Rice:

„Þeir hryðjuverkamenn 21. aldarinnar sem náðst hafa falla ekki auðveldlega að hefðbundnum réttarkerfum varðandi glæpi eða hernað sem þróuðust út frá öðrum þörfum. Við verðum að laga okkur að breyttum aðstæðum. Aðrar ríkisstjórnir standa nú gagnvart þessum vanda.“

Síðan fer hún mörgum orðum um það hversu mjög bandarísk stjórnvöld virða lögin, þar á meðal lög gegn pyntingum. Svo víkur hún að þeirri klemmu stjórnvalda að þurfa annarsvegar að virða lögin og hefðbundin bönn við pyntingum en hinsvegar beri þeim skylda til að vernda borgarana gegn yfirvofandi hættum.

„Af því að stríðið gegn hryðjuverkum gengur út fyrir þau viðmið og fordæmi, sem við höfum haft varðandi átök til þessa, hefur almenningur hjá okkur rætt og tekist á um hvaða lagalegan grundvöll er tilhlýðilegt að taka upp.“

Í þessari yfirlýsingu höfðar Rice til vinaríkja Bandaríkjanna, sem þurfi líka að kljást við þennan vanda, og lýkur yfirlýsingu sinni svo:

„Fjórum árum eftir 11. september spyrja flestir íbúar landa okkar að því hvort við séum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda þá. Ég veit hvernig það er að standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort allt hafi verið gert sem hægt er að gera. Svo að nú, fyrir næstu árás, verðum við öll að vega og meta þá hörðu kosti sem lýðræðisleg stjórnvöld standa frammi fyrir. Og við stöndum best gagnvart þessum hættum ef við vinnum saman.“

(Sjá www.state.gov/secretary/rm/2005/57602.htm)

Pyntingar voru leyfðar eftir 2001

Í viðtali við ABC-fréttastofuna bandarísku 11. apríl síðastliðinn sagði George Bush forseti Bandaríkjanna að hann vissi að æðstu ráðgjafar hans í öryggismálum hefðu rætt og tekið ákvörðun um það eftir 11. september 2001 hvernig skyldi standa að yfirheyrslum yfir háttsettum Al Qaeda-mönnum. Þær aðferðir, sem ráðgjafarnir samþykktu, felast meðal annars í höggum, hrindingum, hindrun á svefni og eftirlíkingu á drukknun, sem kallað er á ensku „waterboarding“, og felst í því að vatni er helt ofan í fangann þannig að honum finnst hann vera að drukkna. Meðal þessara háttsettu ráðgjafa voru Dick Cheney, Condoleezza Rice, Donald Rumsfeld, Colin Powell, George Tenet og John Ascroft.

(Sjá einnig frétt í vefútgáfu breska blaðsins Daily Mail)

Condoleezza Rice var í heimsókn í höfuðstöðvum Google í Mountain View í Kaliforníu nú um daginn, 23. maí. Frétt Associated Press frá þessum fundi hefur birst í allmörgum fjölmiðlum (sjá t.d. vefútgáfu Guardian). Á fundinum var hún spurð um þessa drukknunaraðferð við yfirheyrslur. Í svari sínu varði hún harðar yfirheyrsluaðferðir. Hún fullyrti að yfirheyrsluaðferðir eftir 11. september hefðu verið í samræmi við lög og reglur en viðurkenndi að síðan hefðu þessar reglur breyst og lagalegar takmarkanir á meðferð fanga hefðu tekið verulegum breytingum á árunum 2002 til 2003 þegar stjórnvöld hefðu leyft óvægnar aðferðir, þar á meðal nokkrar sem sumir telji pyntingar. Hún neitaði hinsvegar að upplýsa hvaða sérstöku aðferðir hefðu verið leyfðar.

Við væntum þess að utanríkisráðherra Íslands krefji utanríkisráðherra Bandaríkjanna svara um þetta á fundi þeirra næstkomandi föstudag.

Sumarmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

427175377EUHtYW phFjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 30. maí n.k.

Systa býður uppá sumarkjötrétt og sumarsalöt.

Guðrún Lára Pálmadóttir trúbador tekur lagið.

Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 1.500.

Friðargæsla í skiptum fyrir herþotur

By Uncategorized

Í 2. grein hinna nýju varnarmálalaga segir að meðal markmiða laganna sé „að greina á milli varnartengdra verkefna og borgaralegra verkefna sem lúta að löggæslu og innra öryggi ríkisins“. Í umsögn sinni um frumvarpið lýstu SHA ánægju sinni með hin almennu markmið laganna, en við nánari skoðun virðast hin góðu áform þó vera mest á yfirborðinu.

Í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins 21. maí var viðtal við nýráðinn forstjóra Varnarmálastofnunar, Ellisif Tinnu Víðisdóttur. Aðspurð sagði hún Varnarmálastofnun eiga að „sjá um borgaralega hlið varnarmálanna“, eins og fréttamaðurinn orðaði það. Hún lagði áherslu á það í viðtalinu að varnarmál þyrftu ekki að vera eingöngu hernaðarleg, varnarmál gætu verið skilgreind borgaralega.

Helstu verkefni Varnarmálastofnunar sagði hún vera að sjá um rekstur íslenska loftvarnarkerfisins, þátttöku í samræmdu loftrýmiseftirliti NATO, rekstur, umsjón og hagnýtingu öryggissvæðanna og mannvirkja sem NATO á hér, undirbúning og umsjón varnaræfinga hérlendis, þátttöku í starfi nefnda og undirstofnana NATO og fleira. Allt er þetta eins og tilgreint er í lögunum.

„Varnarmál í dag og hlutverk NATO hefur verið að taka á sig nýja mynd, varnarmál snúast ekki eingöngu um þetta, varnir eru líka borgaralegar, ógnirnar í dag eru aðrar og framlag til NATO þarf ekki að vera hernaðarframlag sem slíkt í þeirri merkingu, það getur verið borgaralegt framlag, og það sem kannski margir vita ekki er að NATO er líka með fullt af borgaralegri starfsemi…“

Spurð nánar út í þetta með tilvísun til þeirrar gagnrýni, að hér sé í raun um hernaðarstarfsemi að ræða, sagði hún:

„Menn átta sig ekki á að framlag Íslendinga til NATO þarf ekki að vera í formi hermennsku, við sem hluti NATO þurfum að uppfylla ákveðnar skyldur. Það þýðir ekki að það sem við leggjum inn hjá NATO sé eins og það sem við fáum til baka. Það að við fáum loftrýmiseftirlit í formi herflugvéla og hermanna, það þýðir ekki að við þurfum að leggja hermennina á móti. Við getum lagt inn í borgarlega hluta NATO á móti, með t.d. lögreglumönnum í störf í Afganistan.“

Hinn nýskipaði forstjóri Varnarmálastofnunar leggur þannig mikla áherslu á að starfsemi stofnunarinnar sé borgaraleg og eigi lítið skilt við hernaðarstarfsemi. Í athugasemdum við frumvarp til varnarmálalaga segir: „Frumvarp þetta lýtur að verkefnum sem varða varnarviðbúnað ríkisins og ytra öryggi þess. Þessi verkefni eru flest skilgreind sem stoðþjónusta við hernaðarstarfsemi en ekki sem hreinræktuð borgaraleg starfsemi. Sé hernaðarstarfsemi ekki til að dreifa falla þessi stoðþjónustuverkefni sjálfkrafa niður.“ (Aths. við 1. gr.).

Í þessum athugasemdum er reyndar lögð mikil áhersla á aðskilnað borgaralegrar og hernaðarlegrar starfsemi og er það vel. En veruleikinn virðist grafa undan þessum góðu áformum. Vandinn er nefnilega sá að „hlutverk NATO hefur verið að taka á sig nýja mynd“, eins og forstjórinn lýsir svo prýðilega, og í þeirri nýju mynd blandar hernaðarbandalagið æ meir saman hernaðarlegri og borgaralegri starfsemi. Þetta er raunar í samræmi við tilhneiginguna eftir að „stríðið gegn hryðjuverkum“ hófst fyrir alvöru haustið 2001, en var þó byrjað fyrr á vettvangi NATO, enda þurfti að finna því verkefni og tilverurétt eftir lok kalda stríðsins.

Utanríkisráðherrann, sem lagði svona mikla áherslu í frumvarpi sínu á að að skilja að borgarlega og hernaðarlega starfsemi, talar í raun tungum tveim með því að tönnlast á frasa sem hljómar einhvern veginn svona: „Öryggishugtakið sjálft er gjörbreytt og nær nú til miklu fleiri þátta en áður var“ (sjá t.d. ræðu um utanríkismál á Alþingi 8.11.2007). Þessi frasi mun ættaður frá NATO og Halldór Ásgrímsson notaði hann talsvert líka. En þessi frasi gengur einmitt út á það að rugla saman borgaralegri og hernaðarlegri starfsemi, ýmist gera það hernaðarlegt sem áður var borgaralegt eða kalla það borgaralegt sem í raun er hernaðarlegt.

Þetta kemur einkar vel fram í sambandi við friðargæsluverkefni NATO og þátttöku Íslendinga í þeim. Gagnrýni á hervæðingu friðargæslunnar, ef svo má segja, varð til þess að í ráðherratíð Valgerðar Sverrisdóttur var farið að gera þessa hervæðingu minna áberandi. Þó er enn haldið áfram að taka þátt í þessari mjög svo vafasömu friðargæslu NATO. Skilningur forstjóra Varnarmálstofnunar á stöðu íslensku friðargæslunnar gagnvart NATO er mjög athyglisverður: Íslensku friðargæsluliðarnir þjóna sem endurgjald til NATO fyrir hernaðarlega þjónustu.

Einar Ólafsson

Malaví-fundur, miðvikudagskvöld

By Uncategorized

Opinn félagsfundur MFÍK verður miðvikudaginn 21. maí kl. 19.00 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 (á horni Snorrabrautar).

Eygló Bjarnardóttir segir frá Malaví, einu fátækasta landi Afríku og sýnir myndir úr ferð sinni þangað.

Fundurinn hefst með léttum kvöldverði kl. 19.00. Fjölmennum og tökum með okkur gesti.

Allir velkomnir.