Hinir feykivinsælu fjáröflunarmálsverðir Friðarhúss hefjast á ný n.k. föstudagskvöld, 26. september.
Systa sér um eldamennskuna, en matseðillinn er enn um sinn hulinn dularhjúp. Hann verður þó í anda haustsins.
Borðhald hefst kl. 19:00, en húsið verður opnað hálftíma fyrr.
Það er engin verðbólga í Friðarhúsi og maturinn sem fyrr á litlar 1.500 krónur.
eftir Finn Dellsén
Eftirfarandi grein birtist í vefritinu ogmundur.is 12. september
Ein glórulausasta hervæðingarárátta síðustu ára er gagneldflaugavarnarkerfið – stjörnustríðsáætlunin svokallaða – sem Bandaríkjamenn eru nú óða önn að koma upp í Austur-Evrópu. Eins og gefur að skilja brýtur það gegn ABM-samningnum svokallaða um takmörkun gagneldflauga og gegn vígbúnaði í geimnum, sem Bandaríkjamenn eru aðilar að, auk þess sem það er í andstöðu við Samninginn um takmörkun kjarnorkuvopna (NPT), enda leiðir eldflaugavarnarkerfið fyrirsjáanlega til þess að aðrar þjóðir sjá sig knúnar til að auka kjarnorkuvígbúnað sinn á móti.
Eini ljósi punkturinn í uppbyggingu kerfisins er sennilega að hingað til hefur kerfið reynst algjörlega gagnslaust, þrátt fyrir stanslausar tilraunir í meira en 25 ár sem kostað hafa á bilinu 107 og 150 milljarða bandaríkjadala (það er u.þ.b. tvöföld landsframleiðsla Íslands í fyrra). Ef hervæðing væri rökleg og byggðist á raunverulegum ógnum en ekki móðursýki og hagsmunum vopnaframleiðenda, þá hefði kerfið því engin áhrif á vígvæðingu annarra ríkja. Það er því miður ekki tilfellið; Rússar svöruðu þessum áformum til dæmis nýlega með því að draga sig út úr Samningnum um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og auka viðbúnað sinn.
Norðmenn hafa lagst gegn kerfinu á vettvangi NATO, enda er kveðið á um það í stjórnarsáttmála norsku rauðgrænu ríkisstjórnarinnar. Margir vonuðust til að íslensk stjórnvöld gerðu hið sama eða tækju í það minnsta undir með Norðmönnum. En í Kastljósþætti mánudaginn 25. ágúst var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, spurð um gagneldflaugakerfið og aðkomu NATO. Ingibjörg kannaðist ekki við að málið hefði verið rætt á vettvangi NATO og gaf í skyn að hún kæmi ekki til með að styðja slíkt kerfi ef það kæmi til umræðu innan hernaðarbandalagsins.
Þetta kom mörgum í opna skjöldu því þarna talaði sami utanríkisráðherra og fór í vor á fund NATO í Búkarest – fljúgandi í einkaþotu eins og frægt er orðið – þar sem ein af helstu niðurstöðunum var einmitt að bandalagið tók undir nauðsyn þess að koma gagneldflaugakerfinu á. Orðrétt segir í ályktun fundarins: „We […] recognise the substantial contribution to the protection of Allies from long-range ballistic missiles to be provided by the planned deployment of European-based United States missile defence assets.“ Þetta var ein allra umdeildasta og umræddasta niðurstaða fundarins og afar ólíklegt, svo ekki sé meira sagt, að utanríkisráðherra með allt sitt fylgdarlið úr einkaþotunni hafi ekki tekið eftir því sem meðaljóninn heima í stofu gat vitað með því að lesa dagblöð og hlusta á fréttir.
Tvær meginskýringar koma þá til greina:
(1) Utanríkisráðherra sat ekki fundinn (og fór þá væntanlega sem túristi til Rúmeníu – ekki amalegt að gera það í einkaþotu).
(2) Gagneldflaugamálið er enn eitt dæmið um tvískinnunginn í utanríkisstefnu íslensku ríkisstjórnarinnar, sem snýst um að taka aldrei sjálfstæða afstöðu á alþjóðlegum vettvangi en gorta sig svo heima fyrir af „virkri utanríkisstefnu“ eins og það heitir nú á nýmáli utanríkisráðherra.
Aths. ritstjóra Friðarvefsins: Þess má geta í framhaldi af þessari grein Finns Dellsén að 14. apríl 2008, í kjölfar Búkarestfundarins, sendu SHA utanríkisráðherra, forsætisráðherra og formanni og varaformanni utanríkismálanefndar bréf með fyrirspurnum um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi ýmis atriði í yfirlýsingu fundarins, þar á meðal það sem hér er gert að umræðu. Bréfið er að finna hér.
Sjá einnig grein hér á Friðarvefnum 26. ágúst, „Misminni utanríkisráðherra“
Athygli er vakin á fróðlegri umfjöllun í fríblaðinu Reykjavík Grapevine, þar sem fjallað er um íslensku friðargæsluna, hermennskuævintýri hennar í Afganistan og hvernig stjórnvöld hafa brugðist við að gera upp alla þá sorgarsögu.
Grapevine-blaðið, sem gefið er út á ensku, má nálgast á mörgum fjölförnum stöðum, en greinina má einnig lesa hér.
Samtök hernaðarandstæðinga lýsa vonbrigðum sínum með að íslensk stjórnvöld skuli eina ferðina enn ákveða að gera landið að æfingasvæði erlends herliðs. Heræfingingar þær sem ganga undir nafninu Norðurvíkingur, eru leifar frá kalda stríðinu og hafa engu jákvæðu hlutverki að gegna fyrir íslenskt samfélag eða umheiminn.
Það er umhugsunarefni hvers vegna íslenskir ráðamenn hafi í seinni tíð reynt að stuðla að sem stærstum og umfangsmestum heræfingum hér á landi. Hernaðarbrölt af þessu tagi hefur engan tilgang, nema ef vera skyldi til að þjálfa erlenda herflugmenn og búa þá undir að taka þátt í hernaði í fjarlægum löndum. Þá verður ekki framhjá því litið að heræfingar eru, líkt og önnur hernaðarumsvif, afar kostnaðarsamar og hafa haft mikil óþægindi í för með sér fyrir íbúa og gesti landsins, með tilheyrandi lágflugi herflugvéla og lokun svæða. Erfitt er að ímynda sér fánýtari leið til að eyða fé úr sameiginlegum sjóðum borgaranna en æfingar af þessu tagi.
Fréttatilkynning frá utanríkisráðuneytinu
http://www.utanrikisraduneyti.is/frettaefni/frettatilkynningar/nr/4433
Varnaræfingin Norður Víkingur 2008 verður haldin á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli 1.- 5. september næstkomandi. Æfingin er haldin í samræmi við samkomulag um framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá því 2006. Æfðir verða liðsflutningar til og frá landinu auk loftvarna við Ísland og fara æfingar fram yfir hafsvæðinu umhverfis landið.
Æfingin er undir stjórn Varnarmálastofnunar Íslands og Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna. Að auki koma að undirbúningi hérlendis m.a. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli, Flugstoðir, Landhelgisgæsla Íslands og Lögreglustjórinn á Suðurnesjum. Flugsveitir frá Bandaríkjunum, Noregi og Kanada taka þátt í æfingunni, auk ratsjárvéla frá Atlantshafsbandalaginu (AWACS). Danskt varðskip mun taka þátt í varnaræfingunni, og stunda æfingar með Landhelgisgæslunni. Jafnframt verða fulltrúar annarra bandalagsþjóða á meðal þátttakenda.
Samhliða Norður Víkingi hefst regluleg loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins í samræmi við ákvörðun þess og íslenskra stjórnvalda frá því á síðasta ári. Bandarísk flugsveit mun annast loftrýmisgæsluna að þessu sinni frá 1.- 20. september en fyrsta gæsluverkefninu sinnti frönsk flugsveit í maí og júní síðastliðnum.
Á þeim tíma sem varnaræfingin Norður Víkingur fer fram í byrjun september verða rúmlega 400 liðsmenn aðildarþjóða NATO við störf á öryggissvæðinu. Þá verða hér 15 orrustuþotur (4 bandarískar, 5 norskar og 6 kanadískar), 2 ratsjárvélar, 3 eldsneytisáfyllingarvélar og 2 P-3 kafbátaleitarvélar.
Varnaræfingin Norður Víkingur var haldin reglulega hér á landi á meðan varnarliðið hafði hér fasta viðveru. Síðustu æfingarnar voru árin 2001 og 2003. Fyrsta Norður Víkings æfingin samkvæmt breyttu fyrirkomulagi var haldin á síðasta ári. Æfingin í ár er sambærileg hvað varðar loftvarnarþáttinn, en nokkuð aukin að umfangi vegna beinnar þátttöku flugsveita frá Noregi og Kanada.
Miðnefnd SHA hefur sent frá sér eftirfarandi ályktanir:
Samtök hernaðarandstæðinga fagna yfirlýsingu utanríkisráðherra þess efnis að íslenskir friðargæsluliðar muni eftirleiðis ekki bera vopn við störf sín. Ákvörðun þessi er mikið heillaspor og getur stuðlað að því að Íslendingar muni í framtíðinni koma að meira gagni á stríðshrjáðum svæðum jarðar en nú er.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa um langt árabil gagnrýnt þá hervæðingu sem átt hefur sér stað á vettvangi íslensku friðargæslunnar í utanríkisráðherratíð þeirra Halldórs Ásgrímssonar, Davíðs Oddssonar og Geirs H. Haarde. Byrjað var að sveigja frá þessari stefnu í tíð Valgerðar Sverrisdóttur og nú hefur utanríkisráðherra stigið mikilvægt skref.
Betur má þó ef duga skal. Brýnt er að stefna Íslands í málefnum friðargæslu verði tekin til gagngerrar endurskoðunar, með það að markmiði að framlag Íslendinga verði til að stuðla að friðsælli og öruggari veröld. Þannig eiga Íslendingar fremur að starfa á vettvangi friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna en að taka þátt í verkefnum hernaðarbandalagsins Nató.
* * *
Samtök hernaðarandstæðinga lýsa vonbrigðum sínum vegna fregna af vopnaflutningum íslenska flugfélagsins Icelandair til Georgíu. Samtökin hvetja Icelandair og önnur íslensk fyrirtæki til að setja sér siðareglur, þar sem allri aðild að hernaði, þar með talið flutningum og meðferð vopna og vígtóla, er hafnað. Málatilbúnaður talsmanns flugfélagsins þess efnis að einhverju máli skipti í þessu samhengi að byssurnar og skotfærin hafi ekki verið um borð í sömu flugvél dæmir sig sjálfur.