Sjá frásögn Guðríðar Sigurbjörnsdóttur og Önnu Sigríðar Hróðmarsdóttur á vef MFÍK:
Opinn félagsfundur MFÍK þriðjudaginn 7. október kl. 19 í Friðarhúsinu (á horni Njálsgötu og Snorrabrautar)
Þar munu Anna Sigríður Hróðmarsdóttir og Guðríður Sigurbjörnsdóttir segja frá European Social Forum sem haldið var í Málmey dagana 17. – 21.september 2008.
Nokkrir þátttakendur fyrri Social Forum munu einnig mæta á fundinn og taka þátt í umræðum um gildi þessa samfélagsvettvangs.
Í upphafi fundar verður seldur léttur matur (kr. 1000).
Fundurinn er öllum opinn.
Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 3. október. Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér um matseldina og leikur haustuppskeran aðalhlutverkið í matnum að þessu sinni:
* Buff Stroganoff
* Rótarávextir í karrí
* Réttirnir verða bornir fram með hrísgrjónum, kartöflum og salati.
* Kaffi og kaka hússins
Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur tekur lagið.
Verð kr. 1.500. Borðhald hefst kl. 19, en húsið verður opnað hálftíma fyrr. Allir velkomnir.
Dagana 17. til 21. september síðastliðinn var fimmti Evrópski samfélagsvettvangurinn (Europan Social Forum – ESF) haldinn í Malmö í Svíþjóð, en sá fjórði var haldinn í Aþenu í maí 2006. Þar áður var hann í London í október 2004 (sjá frásögn af honum hér) og París 2003, en fyrst var hann haldinn í Flórens árið 2002 (sjá frásögn af honum hér).
Á vefsíðu ESF 2008 er sagt að um 13 þúsund manns hafi sótt samkomur á vettvangnum en um 15 þúsund manns hafi tekið þátt í þriggja tíma göngu um borgina laugardaginn 20. september þar sem haldið var uppi kröfunni um öðruvísi Evrópu og öðruvísi veröld.
Meðal annarra stóðu friðarhreyfingar fyrir fundum og fyrirlestrum og réðu ráðum sínum um friðarbaráttuna á næstunni og undirbúning að mótmælum gegn NATO næsta vor í tilefni af 60 ára afmæli hernaðarbandalagsins, og verður sagt nánar frá þessum fundum á næstunni.
Þriðjudaginn 7. október munu tveir félagar úr MFÍK, þær Guðríður Sigurbjörnsdóttir og Anna Sigríður Hróðmarsdóttir, segja frá ferð sinni á ESF í Malmö í Friðarhúsinu.
Sjá nánar:
http://www.esf2008.org
http://openesf.net
http://www.wsflibrary.org
http://en.wikipedia.org/wiki/European_Social_Forum
http://www.forumsocialmundial.org.br
http://europeanpeaceaction.org
Amnesty International hefur undanfarin fimm ár staðið að herferðinni „Komum taumhaldi á vopni“ ásamt samtökunum Oxfam og International Action Network on Small Arms (IANSA). Amnesty International sendi félögum sínum nýlega áminningu um þessa herferð:
Vöktum gerð vopnaviðskiptasáttmála
Taktu þátt í að þrýsta á gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasáttmála
Á hverju ári líða milljónir manna fyrir óábyrg vopnasöluviðskipti, um heim allan. Um eitt þúsund einstaklingar láta lífið af vopna völdum á hverjum degi, og enn fleiri særast eða þurfa að þola pyndingar og illa meðferð af hendi vopnaðra aðila. Afleiðingar þessa á innviði samfélagsins eru jafnframt alvarlegar. Í fjölda landa sligast ekki einungis heilbrigðiskerfið undan álaginu heldur jafnframt efnahagurinn, sérstaklega þar sem hann er bágur fyrir. Gegndarlaus verslun með vopn viðheldur víða fátækt og mismunun.
Frá því að herferð Amnesty International, Oxfam og International Action Network on Small Arms (IANSA), Komum böndum á vopnin hófst í október 2003 hafa rúmlega milljón einstaklinga skrifað nafn sitt á undirskriftalista til stuðnings við gerð alþjóðlegs vopnaviðskiptasáttmála.
Sáttmálinn hefur þann tilgang að styrkja eftirlit með vopnaviðskiptum og koma í veg fyrir ólöglega vopnasölu. Nauðsyn á alþjóðlegum vopnaviðskiptasáttmála er brýn, ef koma á í veg fyrir að vopn falli í rangar hendur og stuðli að alvarlegum mannréttindabrotum og brotum á mannúðarlögum.
Samþykkt alþjóðlegs vopnaviðskiptasáttmála mun tryggja að vopn verði ekki seld til landa þar sem mannréttindabrot eru í hámarki og hætta er á vopnuðum átökum.
Í desember 2006 náðist mikilvægur áfangi í herferðinni þegar 153 ríki Sameinuðu þjóðanna greiddu atkvæði með gerð vopnaviðskiptasáttmála. Miklu varðar að halda Sameinuðu þjóðunum við efnið í aðdraganda Allsherjarþingsins í október á þessu ári. Skilaboðin eru þau að heimurinn fylgist með og vaktar vinnu þessara þjóða við gerð sáttmálans.
Þú getur hjálpað með því að styðja herferðina, Komum böndum á vopnin og þrýst á ríki heims að ljúka við gerð vopnaviðskiptasáttmála hið fyrsta.
Sjá nánar á vef AI:
KOMUM TAUMHALDI Á VOPNIN