All Posts By

Stefán Pálsson

Ísland úr Nató – þétt dagskrá

By Uncategorized

gegn natoUm þessar mundir eru sextíu ár frá stofnun hernaðarbandalagsins Nató. Að því tilefni munu Samtök hernaðarandstæðinga standa fyrir margháttaðri dagskrá þar sem áhersla verður lögð á kröfuna um að Ísland standi utan allra hernaðarbandalaga og að Nató verði lagt niður.

* Þriðjudagur 24. mars, kl. 20 í Friðarhúsi. Austurvallarmyndir – gamlar fréttamyndir frá atburðunum á Austurvelli 30.mars 1949 rifjaðar upp, einnig „Nafnakall“ frá 1989, þar sem atkvæðagreiðslan afdrifaríka var sviðsett.

* Miðvikudagur 25. mars, kl. 20 í Friðarhúsi. Nató í nútíð og framtíð. Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ ræðir þróun hernaðarbandalagsins. Umræður.

* Fimmtudagur 26. mars, kl. 20 í Friðarhúsi. „Operation Gladio“- áhugaverð bresk heimildarmynd um leynilega hryðjuverkastarfsemi Nató í Evrópu á árum Kalda stríðsins.

* Föstudagur 27. mars, kl. 19 í Friðarhúsi. Hinn mánaðarlegi fjáröflunarmálsverður Friðarhúss ásamt skemmti- og menningardagskrá. Verð kr. 1.500.

Og síðast en ekki síst:

* Mánudagur 30. mars, kl. 17 á Austurvelli. „Botninn sleginn úr Nató“ – útifundur á Austurvelli til að leggja áherslu á kröfuna um að Ísland standi utan hernaðarbandalaga.

Frumvarp um kjarnorkuvopnalaust Ísland á Alþingi

By Uncategorized

kjarnorkuvopn Við sögðum frá því 6. mars að þá stæði til að setja á dagskrá Alþingis frumvarp til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Það fór þó ekki svo að það yrði tekið fyrir þann dag heldur var það 12. mars sem Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, mælti fyrir frumvarpinu. Meðflutningsmenn hans eru úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki: Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir, Ellert B. Schram, Guðjón A. Kristjánsson, Höskuldur Þórhallsson, Kristinn H. Gunnarsson, Katrín Jakobsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Álfheiður Ingadóttir og Helgi Hjörvar.

Þetta er í rauninni sama frumvarp og lagt var fram fyrir um ári síðan, í febrúar 2008, af nokkrum þingmönnum sömu flokka. Það náðist þó ekki til umræðu á því þingi, enda kom það seint fram, og hæpið er að það náist að afgreiða það á þessu þingi, þar eð svo stutt er til þingloka.

Þetta er í níunda sinn sem lagt er fram furmvarp um þetta efni, en það hefur fram að þessu aldrei komið til afgreiðslu, í mesta lagi hefur verið mælt fyrir því og því síðan vísað til nefndar án þess að vera tekið fyrir.

Steingrímur J. Sigfússon mælti fyrir samskonar frumvarpi í mars árið 2000. Þá var núverandi utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, meðal flutningsmanna. Í umræðum komst þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, svo að orði: „Ég vil jafnframt ítreka að Ísland er aðili að Atlantshafsbandalaginu og hefur þar ákveðnar skuldbindingar. Samþykkt þessa frumvarps samrýmist ekki þeim skuldbindingum eins og áður hefur komið fram við umræðu um málið og ég vil lýsa yfir áframhaldandi andstöðu minni við þetta frumvarp.“

Í ræðu Steingríms þá kom þetta fram:

„Ég hygg að þetta frumvarp sé nú flutt í 7. sinn, í það var efnað á árunum 1984 -1985 ef ég man rétt. Þannig háttaði til þegar það var fyrst flutt að þá voru sömuleiðis til umfjöllunar á þingi Nýsjálendinga drög að frumvarpi til laga um friðlýsingu Nýja-Sjálands fyrir því sama, þ.e. friðlýsingu Nýja-Sjálands fyrir kjarnorku- og efnavopnum og takmarkanir á umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Þar skildi þó á milli með þessum málum að Nýsjálendingar settu þetta í löggjöf. Þeir kjarnorkufriðlýstu land sitt og urðu að því nokkur eftirmál og ýfingar með Nýsjálendingum og Bandaríkjamönnum einkum og sér í lagi. Þær leiddu nánast til þess að svonefnt varnarbandalag Suðvestur-Kyrrahafsins ANZUS leið undir lok.“

Að lokinni fyrstu umræðu var frumvarpið sent til utanríkismálanefndar og, eins og segir á vef Alþingis: „Er til umfjöllunar í utanríkismálanefnd síðan 04.05.2000.“

Þótt hæpið sé að náist að afgreiða þetta frumvarp á þessu þingi, þá er talsverð von til að hægt verði að taka það aftur upp á næsta þingi og afgreiða það þá. Samtök hernaðarandstæðinga munu fylgjast náið með því.

Sjá vef Alþingis 2009, 2008 og 2000.

Sjá líka Kjarnorkuvopn og kjarnorkuafvopnun

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti

By Uncategorized

Dagskrá í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur sunnudaginn 8.mars 2009 kl.14

Breytt samfélag – aukinn jöfnuð!

Fundarstjóri: Halldóra Friðjónsdóttir, form. jafnréttisnefndar BHM

Kvennakórinn Vox feminae syngur undir stjórn Margrétar J. Pálmadóttur
Bryndís Petra Bragadóttir les ljóð.
MENEO LATINO (latínusveifla). Dans og söngur frá Kúbu.
Dansarar: Edna Mastache og Juan Borges

Ávörp:

Eyja M. Brynjarsdóttir, heimspekingur: Hvar er réttlætið?

Lárus Páll Birgisson, sjúkraliði og friðarsinni: Heilbrigði og friður.

Ragnhildur G. Guðmundsdóttir, form. Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur: „…ok skal þat barn út bera, ef þú fæðir meybarn, en upp fæða, ef sveinn er.“

Maria del Pilar Acosta, í stjórn Samtaka kvenna af erl. uppruna: Við skulum standa saman.

Steinunn Gunnlaugsdóttir: Niðurbrot siðmenningarinnar – rýtingur í hjarta auðvaldsins.

María S. Gunnarsdóttir, form. Menningar- og friðarsamtakanna MFÍK : Enginn jöfnuður án friðar.