All Posts By

Stefán Pálsson

Fyrsti málsverður haustsins

By Uncategorized

Komið er að fyrsta málsverði haustsins í Friðarhúsi. Auk þess að vera góð fjáröflun fyrir rekstur húsnæðisins, eru fjáröflunarmálsverðirnir góður félagslegur vettvangur fyrir hernaðarandstæðinga til að koma saman og leggja á ráðin.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) sér að þessu sinni um eldamennskuna, sem tekur mið af árstímanum og nýjustu uppskeru á markaðnum.

* Rauðrófusúpa (Bortsj) með kjötsnúðum

* Tortilla (spænsk kartöflueggjakaka)

* Kaffi og gulrótarkaka

Verð kr. 1.500. Borðhald hefst kl. 19 föstudaginn 25. september.

Heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis 2. okt. 2009 til 2. jan. 2010

By Uncategorized

heimsganga sm logo 2. október næstkomandi hefst á Nýja Sjálandi heimsganga í þágu friðar og tilveru án ofbeldis. Henni lýkur þrem mánuðum síðar, 2. janúar 2010 við rætur fjallsins Aconcagua í Argentínu, hæsta fjalls Suður-Ameríku.

2. október er fæðingardagur Mahatma Gandhis og Sameinuðu þjóðirnar hafa tilnefnt þann dag sem „Alþjóðlegan dag tilveru án ofbeldis“.

Göngunni er komið af stað af samtökunum „Heimur án stríðs“ sem eru alþjóðleg og hafa starfað í 15 ár að friðarmálum og andófi gegn ofbeldi.

Tilgangur göngunnar er að:

  • Ná fram útrýmingu kjarnavopna; hlutfallslegri og stöðugt meiri fækkun annarra vopna; undirritun samninga milli þjóða um að ráðast ekki gegn öðrum; og að ríkisstjórnir hafni stríði sem aðferð til að leysa ágreining.
  • Viðurkenna og hefja til vegs og virðingar bestu eiginleika ólíkra menningarsamfélaga og þjóða jarðarinnar.
  • Sameina vilja fólks allsstaðar til að binda endi á þá plágu sem stríð eru.
  • Skapa alþjóðlega, félagslega vitund sem fordæmir allt ofbeldi hvernig sem það birtist (líkamlegt, sálrænt, byggt á kynþætti, trúarbrögðum, efnahagslegt, kynferðislegt), sem er svo útbreitt og viðurkennt í þjóðfélögum hvarvetna.
  • Alþjóðleg vitund sem fordæmir allt ofbeldi.

Gengið verður um allar heimsálfur og í hverri borg sem gangan fer um verða skipulagðir einhverjir viðburðir.

Nánari upplýsingar er að finna á íslenskri vefsíðu göngunnar, heimsganga.is.

Ástandið á Sri Lanka

By Uncategorized

Borgarastríð hefur geysað á Sri Lanka nær samfellt í aldarfjórðung og komust átökin mjög í fréttirnar á vormánuðum þegar stjornarherinn í landinu gekk milli bols og höfuðs á sveitum Tamíl-tígra. Daglega berast nýjar fréttir af afleiðingum átakanna og mannréttindabrotum á eynni.

Íslendingar hafa haft talsverð afskipti af málefnum Sri Lanka, til dæmis með því að senda þangað vopnahléseftirlitsmenn. Mánudagskvöldið 14. september efna Samtök hernaðarandstæðinga til fræðslufundar í Friðarhúsi, Njálsgötu 89, um ástandið á Sri Lanka. Þar muð Kristján Guðmundsson fv. vopnahléseftirlitsmaður segja frá og sitja fyrir svörum.

Fundurinn hefst. kl. 20. Allir velkomnir.

Mótmælandi Íslands, minningarsýning

By Uncategorized

Sem kunnugt er lést Helgi Hóseasson á dögunum, en hann var þjóðkunnur baráttumaður fyrir friði og mannréttindum. Helgi var alla tíð harður andstæðingur stríðsrekstrar og lét sig sjaldan vanta á mótmælafundum gegn hernaði og vígvæðingu, þótt yfirleitt héldi hann sig nokkuð til hliðar við mótmælendahópinn og tjáði afstöðu sína á eigin forsendum.

Samtök hernaðarandstæðinga og Vantrú, félag trúleysingja efna til sameiginlegrar sýningar á heimildarmyndinni Mótmælanda Íslands eftir Þóru Fjeldsted og Jón Karl Helgason, laugardaginn 12. september kl. 15.

Myndin verður sýnd í Friðarhúsi, Njálsgötu 89, með góðfúslegu leyfi framleiðenda. Allir velkomnir.

* * *

Mánudagskvöldið 14. september kl. 20 verður svo staðið fyrir fundi í Friðarhúsi um stöðu mála í hinu stríðshrjáða landi Sri Lanka. Kristján Guðmundsson fv. vopnahléseftirlitsmaður og sérfræðingur um málefni landsins gerir grein fyrir efninu. Nánar auglýst síðar.