Keith McHenry, stofnandi samtakanna Food Not Bombs, heldur fund í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, sunnudaginn 10. janúar kl. 20:00. En um þessar mundir eru 30 ár liðin frá stofnun samtakanna.
Í fréttatilkynningu frá Íslandsdeild Food Not Bombs segir:
Food Not Bombs er alþjóðleg hreyfing sem á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna árið 1980. Venjulegt fólk var orðið þreytt á því að horfa upp á ríkisstjórnina eyða gríðarlegum fjármunum í stríðsrekstur á ári hverju á meðan mikill fjöldi fólks býr á götunni og hefur ekki efni á mat. Í stað þess að bíða lengur eftir aðgerðum stjórnvalda tók fólk málin í sínar hendur og byrjaði að gefa þeim mat sem þurftu og vildu.
Á þessum þrjátíu árum hefur Food Not Bombs hugmyndin ferðast um allan heiminn og nú starfrækja meira en 1000 hópar verkefnið. FNB eru ekki samtök með meðlimaskrá og ekki þarf að skrá sig neins staðar eða biðja um leyfi til að setja verkefnið af stað. Svo lengi sem hugmynda- og aðferðafræði FNB nær til fólks, getur það sett verkefnið af stað. Hér á landi hefur FNB átt sér stað á Lækjartorgi á hverjum laugardegi í tæp tvö ár; frá því í apríl 2008.
Þó FNB snúist að miklu leyti um mat – ójafnan aðgang fólks að mat, framleiðslu hans, sölu, sóun, lífsréttindi dýra og þar fram eftir götunum – hefur hugmyndafræði verkefnisins stækkað og snýst langt því frá um eitt málefni. Food Not Bombs gæti allt eins heitið Homes Not Jails, Society Not State, System Change Not Climate Change, og svo framvegis.
Food Not Bombs er ekki góðgerðasamtök og er ekki barátta fyrir umbótum heldur fyrir algjörri byltingu; fyrir samfélagi þar sem þarfir fólks vega þyngra en græðgi og ríkidæmi; fyrir heilbrigðu samfélagi.
Keith McHenry er einn af þeim sem stofnaði Food Not Bombs í Bandaríkjunum fyrir þrjátíu árum. Keith eyddi tveimur árum í fangelsi og var hótað lífstíðarfangelsi í Kaliforníu fyrir þátttöku sína í verkefninu. Amnesty International skilgreindi hann og alla þátttakendur FNB sem samviskufanga ef þeir hlytu fangelsisdóma.
Keith er nú á ferðalagi um heiminn þar sem hann segir sögu verkefnisins auk þess að taka þátt í FNB á þeim stað sem hann er hverju sinni. Sunnudaginn 10 janúar nk. verður Keith með fyrirlestur í Friðarhúsi Samtaka Hernaðarandstæðinga, Njálsgötu 87 kl. 20:00. Auk fyrirlestursins verður sýnd 15 mínútna mynd um FNB í Afríku.
Að vanda var fjölmenni í friðargöngu í Reykjavík á Þorláksmessu þrátt fyrir kulda og norðannepju. Ganga fór frá Hlemmi klukkan sex og endaði með útifundi á Ingólfstorgi. Fundarstjóri var Helga Baldvins- og Bjargardóttir, Einar Már Guðmundsson flutti ræðu og söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð söng í göngunni og við lok fundar undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.
Ræða Einars Más Guðmundssonar:
Góðir áheyrendur!
Á hinum myrku tímum fasismans orti Bertolt Brecht hið fræga kvæði Til hinna óbornu. Þar segir:
-
Hvílíkir eru þessir tímar, þegar
gengur næst glæpi að tala um tré.
Því það boðar þögn um svo margar ódáðir.
Sá sem gengur þarna rólegur yfir götuna
er víst ekki lengur tiltækur vinum sínum
sem í nauðum eru staddir.
Það er satt: ég vinn ennþá fyrir brauði mínu.
En trúið mér: Það er aðeins tilviljun. Ekkert
það sem ég geri veitir mér rétt til að eta mig mettan.
Af tilviljun er mér hlíft. (Þegar heppni mín dvínar
er ég glataður.)
Og síðar í ljóðinu segir:
-
Einnig hatrið á svívirðunni
afskræmir andlitið.
Einnig heiftin vegna óréttlætisins
gerir röddina hása Ó, við,
sem vildum búa jarðveginn undir vináttu,
gátum sjálf ekki verið vingjarnleg.
En þegar svo langt verður komið
að maður réttir manni hjálparhönd,
minnist okkar þá
með umburðarlyndi.
Já, minnist okkar þá, því …
-
Um hjarta okkar þvert er hræelduð víglínan dregin
og orustan geisar í heitu höfði okkar …
Þannig orti annað skáld, Sigfús Daðason, um huga okkar andspænis veruleikanum … eða er það veruleikinn sem stendur andspænis huganum?
Nei, við fáum ekki miklar fréttir úr ljóðum, en samt deyja margir á ömurlegan hátt vegna skorts á því sem þar er að finna. Þetta sagði aftur á móti William Carlos Williams, sem ekki var bara skáld heldur líka læknir og vissi því um hvað hann var að tala … Og okkar skáld, Halldór Laxness, hvað sagði hann? Jú, hann sagði að menn ættu ekki að drepa fleiri en þeir gætu étið.
Já, friðarboðskapurinn er margvíslegur. Hjálparhöndin sem Bertolt Brecht talar um hvarf um hríð úr lífi okkar, eða réttara sagt, það var ekki hún sem átti upp á pallborðið á góðæristímum frjálshyggjunnar, í faðmi gróðahyggjunnar, sem stjórnvöld okkar fóstruðu einsog hvítvoðung við brjóst sér – já líktog mannætan á fyrsta farrými í flugvélinni sem sér ekkert bitastætt á matseðlinum og biður um farþegalistann, þannig var auðstétt þess lands afhent þjóðskráin og veð tekið í okkur öllum. Nei, sannarlega átti hjálparhöndin ekki upp á pallborðið, ekki umhyggjan, ekki réttlætið. Þvert á móti fól frjálshyggjan í sér nánast lögboðna sjálfselsku, þetta viðhorf að græða á daginn og grilla á kvöldin … og að öðru leyti komi okkur þjóðfélagið ekki við.
Og alltaf var samkeppnin af hinu góða … Hvaðan kom þetta góða? … Frá guði … Og guð, var hann kannski í Viðskiptaráði með fólkinu sem rændi völdum á Íslandi en biður okkur nú að vera svo kurteis að gleyma fortíðinni? … Af hverju var ekki samvinnan af hinu góða? … Og hjálpin! … Sá dagur þegar maður réttir manni hjálparhönd … Nei, hjálparhönd auðvaldsins, alþjóðagjaldeyrissjóðsins og valdhafa heimsins felst í því að gleypa allt í heilu lagi og sölsa allt undir sig … Hið nýliðna góðæri, tímabil frjálshyggjunnar, var líf án ljóðlistar, innihaldslaus eltingaleikur við tómleikann … við fútsí og nastakk sem voru einsog leirtöflur fjölmiðlanna … kvöldbæn sem nú er horfin af því að uppeldisgildi hennar er líklega lokið … þeir sem engin verðmæti skópu hirtu allan gróðann … en störf allra hinna voru lítils metin …
Um hús íslensku fátæklinganna sem settust að í Ameríku sagði skáldið og vinur minn Bill Holm: „Litla húsið var einsog geimskip á förum frá jörðinni, fermt því besta sem við höfum gefið hvert öðru á síðustu 4000 árum í sögu mannlegrar vitundar. Og ekkert af því var tíu króna virði í hinum harða heimi frjálsrar samkeppni!“
… Og stríðin sem háð eru snúast um að festa þennan heim í sessi … þess vegna þurfum við að velta þeim sem honum stjórna úr sessi … Þeir hafa rænt okkur … sóað okkar sameiginlegu eignum, verðmætum sem fyrri kynslóðir höfðu skapað, og auðlindum og fyrirtækjum sem við áttum, þessu var öllu sóað; gróðinn var einkavæddur en nú er verið að þjóðnýta tapið … og gömlu refirnir vilja komast inn um bakdyrnar … einsog í gömlum kreppurómönum eða einsog segir í Vefaranum mikla frá Kasmír: „Í lok illæranna má alltaf ganga að því vísu að ísmeygilegur longintes með gull í munni læðist inn um bakdyrnar í baunkunum. … Hann fer utan að því með ákaflega hæverskum orðum hvort ekki muni vera hyggilegra að bánkarnir tæmi fjárhirslur sínar handa fyrirtækjum hans en ríkið verði gjaldþrota … Hann stingur uppá því með djúpri virðingu fyrir almenningi hvort ekki geti komið til mála að sér mætti leyfast að fara oní vasa hvers mannsbarns á landinu og hnupla þriðjungnum af gildi hverrar krónu …“
Ívitnun lýkur ….
Kreppan sýnir okkur hvert hömlulaus viðskipti og máttur markaðarins leiðir okkar … Um þetta snerist í raun nýliðin loftslagsráðstefna í Kaupmannahöfn eða um það átti hún að snúast …. þótt enginn nefndi það sínu rétta nafni … Við þurfum að koma á lýðræðislegu eftirliti með mörkuðum og alþjóðlegri samvinnu í stað þeirrar stórskaðlegu samkeppni sem ríkt hefur … Á næstu misserum ætlum við að fá stjórnmála og embættismenn sem segja: Samvinna er af hinu góða … því sá dagur kemur að maður réttir manni hjálparhönd … Þess vegna er Jesús, afmælisbarn morgundagsins, með okkur í baráttunni, hann sem ruddist inn í kauphöllina og sagði víxlurunum til syndanna …. og er bróðir allra þeirra sem þjást á jörðinni … og við munum kalla hann til vitnis á meðan við færum heiminn í betra horf …
Ekki tala um stórar þjóðir og litlar þjóðir, útkjálka, heimshorn og jaðra. Miðjan hvílir undir iljum þínum, færist úr stað og eltir þig hvert sem þú ferð. Þetta er hin eðlilega landafræði vegna þessa að við búum á hnetti, og ef þessari eðlilegu landafræði væri fylgt byggjum við í betri heimi og þá væru voldugar og vanmáttugar þjóðir ekki til. Engin Afríka, engin Ameríka, engin Evrópa, engar heimsálfur byggðar á valdahlutföllum. Auðvitað svæðisbundin sérkenni en allar þjóðir sameinaðar. Enginn maður væri ólöglegur. Þá væri hægt að tala um sameinuðu þjóðirnar, ekki bara sem stofnun heldur raunveruleika. Þá væri ekkert Öryggisráð, enginn Alþjóðagjaldeyrissjóður, ekkert NATO. Enginn Georg Bush, enginn Gordon Brown, enginn Geir Haarde, ekki af því að við þyrftum að passa okkur á ráðamönnum sem byrja á bókstafnum G heldur þyrftum við einfaldlega enga ráðamenn. Ekkert G8. Ekkert G20, heldur G192 þar sem allar þjóðir koma að borðinu, ekki bara ríku voldugu þjóðirnar … Þú getur sagt að ég sé draumóramaður, en ég er ekki sá eini. Hér í gamla daga sögðu baráttumennirnir. Við getum ekki flutt byltinguna út en við bönnum engum að fylgja góðu fordæmi. Ef við hættum að elta fjármagnið hættum við að elta vopnin og ofbeldið hverfur. Já, kallið okkur draumóramenn, við erum ekki þau einu.
-
Þú sem býrð með eyju í hjartanu
og víðáttur geimsins
stétt undir iljunum:
Réttu mér norðurljósin!
Ég ætla að dansa við unglinginn
sem heldur á stjörnunum.
Við roðflettum myrkrið
og afhausum eymdina.
…
Ég trúi á annað líf og önnur, að hér og nú sé þar og þá og þar og þá sé hér og nú. Ég trúi á annað líf og önnur, fyrir dauðann og eftir, á framvinduna og fortíðina sem liggur undir koju í káetu heimsins og læðist hjá tollvörðum tímans.
…
Þess vegna trúum við á spurningamerkið, á hring lífsins sem er síðasta núllið í síðustu krónunni og ekkert getur bjargað okkur nema öll þessi ef og öll þessi kannski, trúin í trúleysinu og trúleysið í trúnni, amen.
Takk fyrir og gleðileg jól!
Á Þorláksmessu var gengið til friðar niður Laugaveginn í Reykjavík í þrítugasta sinn. Þar flutti Einar Már Guðmundsson ávarp. Á Ísafirði fluttu Elsa Þorgeirsdóttir og Þórhallur Arason ávörp. Á á Akureyri var nú farin blysför gegn stríði í áttunda sinn í röð og stóð Friðarframtak fyrir henni undir kjörorðunum
-
– Frið í Írak og Afganistan!
– Burt með árásar og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!
Um 50 manns gengu frá Samkomuhúsinu og út á Ráðhústorg í logni og 12 stiga frosti. Þar stýrði Jóna Lovísa Jónsdóttir skólaprestur torgfundi. Ösp Kristjánsdóttir frá Tjörn söng og Pétur Björgvin Þorsteinsson djákni í Glerárkirkju flutti ávarp. Göngufólkið söng nokkur jólalög og í fundarlok var borin upp og samþykkt ályktun. Að Friðarframtaki á Akureyri stóðu Samtök hernaðarandstæðinga á Norðurlandi og Æskulýðssamtök Þjóðkirkjunnar. Hér er ályktunin frá Akureyri og ávarp Péturs Björgvins.
Ályktun um friðsamlega framtíð
Sá brotsjór sem nú gengur yfir íslenskt þjóðfélag er aðeins hluti af stærra umróti. Þar rennur í eitt siðferðis-, efnahags- og umhverfiskreppa. Heimsástandið einkennist af miklum hagsmunaárekstrum og þau eru í vaxandi mæli leyst með vopnavaldi.
Misskipting auðs á milli heimshluta ýtir undir átök, bæði innan landa og á milli þeirra. Samkeppni um auðlindir jarðar og yfirgangur stórvelda er rótin að stríðunum í Írak og Afganistan.
Það er góður siður að bæta við hinn almenna friðarboðskap jólanna andstöðu við stríðsrekstur og yfirgang á líðandi stund. Ýmsir trúartextar búa yfir skynsamlegri visku kynslóðanna. Í Orðskviðunum stendur:
-
Sá sem kúgar snauðan mann óvirðir skapara hans
en sá sem miskunnar snauðum heiðrar hann.
Hinn rangláti fellur á illsku sinni (Orðskviðirnir 14:31)
Við lýsum yfir þeirri von og þeirri ætlan að það endurreisnarverkefni sem þjóðir heimsins standa frammi fyrir verði leyst á grundvelli réttlætis og samhugar, í sátt við umhverfi og náttúru og með virðingu fyrir mannlegri reisn.
Við förum fram á að framlag Íslands, í fjármunum og mannskap, til hernáms Afganistans verði fellt niður strax og sérhver stuðningur við hernám Íraks sömuleiðis.
Ávarp Péturs Björgvins Þorsteinssonar
Kæru systkin.
Ég tel að með síauknum fólksflutningum og samskiptum fólks með bakgrunn af ýmsum toga, hvort heldur er varðandi þjóðerni, trú eða kynþátt, séu spurningarnar um réttlæti og samstöðu aldrei áleitnari en nú, og þar með nátengdar spurningar um lýðræði og frelsi.
Hnattvæðing er í mínum huga það að einstaklingurinn upplifir hraða breytingu á heimsmyndinni í kringum sig. Helstu áhrifavaldar í lífi hans eru ekki lengur fólkið í bænum hans, stjórnmálamennirnir sem hann kaus og fyrirtækið sem hann vinnur hjá. Stórfyrirtæki og aðrir leikmenn á velli hnattvæðingarinnar birtast nú á þröskuldinum hjá honum og hann efast um eigið sjálfstæði og spyr um fullveldi þjóðar sinnar. Og hann leitar að nýju handriði að styðja sig við. Ég viðurkenni að mér líkar hnattvæðingin að því leyti að hún bíður upp á aukna möguleika til samsömunar við stétt, kynferði, kynhneigð, trú og margt fleira þvert á landamæri. En mér er líka ljóst að þetta frelsi þvert á landamæri hefur að hluta snúist í andhverfu sína, því um leið og aukið rými hefur skapast fyrir fjölbreytni, hefur ásteytingarsteinum fjölgað og sumir kjósa að hugsa bara um sig. Ég spyr hvort þetta marghliða og þversagnakennda hnattvæðingarferli, þar sem einstaklingshyggjan eykst samhliða hnattborgarasamsömuninni í flóru fjölhyggju og fjölmenningar, kalli ekki á nýjar fræðikenningar. Við sjáum að fólk leitar eftir samskiptum þvert á landamæri til að efla þekkingu sína, til að uppgötva hvert það sjálft er, hvaða hópi það vill tilheyra og hvaða framtíð það getur skapað sér og sínum. Þetta þykir mér jákvætt, sérstaklega þegar leitað er eftir þekkingu og upplifun sem hefur jákvæð áhrif á þann máta sem við sem samfélag viljum nota fyrir samsömun einstaklingana, fyrir framleiðslu- og stjórnarhætti sína. Vissulega hefur samsömun fólks í gegnum aldirnar tengst þjóðerni, en eru viðhorfin ekki önnur í dag? Ég leyfi mér að varpa þeirri spurningu fram hér í kvöld – og beini henni jafnt til mín sem til þín: Hvort er mikilvægara að kenna sig við þjóð eða kenna sig við frið?
Darmstädter Signal er hreyfing sem ég kynntist nýverið í gegnum tímarit sem ég er áskrifandi að. Og hjarta mitt fylltist von um að lýðræðinu væru að opnast nýjar leiðir. Þessi hreyfing er félagsskapur sem kallar sig á þýsku ,,kritischer Forum für Staatsbürger in Uniform“, semsagt einstaklingar sem þjóna landi sínu sem ríkisborgarar þess í hermannabúningi og telja það um leið skyldu sína að vera krítísk rödd um ákvarðanir sem eru teknar og hvernig þær eru framkvæmdar þegar kemur að hernaðarmálum. Og það er meira en áhugavert að heyra hvað einn af forsvarsmönnum þessarar hreyfingar hefur að segja um stríðið í Afganistan. Ekki vegna þess að við þekkjum ekki málefnið sem hann talar um, heldur áhugavert vegna þess hver það er sem segir það, en félagsskapurinn sendi þeim sem sitja á þýska þinginu, Bundestag, nýverið erindi þess efnis að hvatt er til að Þjóðverjar dragi sig út úr stríðinu í Afganistan. Sú rök að Þjóðverjar séu hluti af stærra bandalagi þykir honum duga skammt og bendir á að:
-
Hlutirnir snúast ekki um að verja lýðræði og mannréttindi í Afganistan, heldur um að þjóna sem fánaberi bandarísks ákalls um forræðishyggju. Það er verið að byggja upp betri hernaðarstöðu í Asíu og tryggja vernd á svæði sem á að nota til að leggja gasleiðslu og þar með eru hvatirnar orðnar viðskiptalegs eðlis.
Og þessa þjónandi hermaður talar um sekt Þýskalands í þessu samhengi og krefst þess að gengið sé í málin af alvöru. Það dugi ekki að frú Merkel tilkynni að senda eigi 250 lögreglumenn til Afganistan til að aðstoða við þjálfun lögreglumanna þar og svo séu bara sendir 60. Í stað þess að setja peninga áfram í hernaðarbrölt sé tími til kominn að nota peningana í friðarverkefni.
Það ætti að vera auðvelt að standa hér í dag og taka undir með þessum þýska hermanni og stórum hópum fólks út um allan heim sem hefur margbent á að hernaðarbrölt í formi skaðlegra valdaleikja þar sem hvatinn er talinn í seðlum en mannslífin fyrirlitin, er eitthvað sem við viljum ekki sjá. Við ættum að vita að rödd okkar, þó lítil sé, hefur áhrif, styður við tjáningu aðra, sýnir samstöðu og samkennd, er dropi sem holar steininn. Og hér er gott fyrir okkur sem hugsum á nótum Biblíunnar að muna eftir því að Jesaja stóð einsamall þegar hann hvatti til þess að sverðum yrði breytt í garðyrkjutæki! Við eigum að sameinast um að byggja upp, ekki rífa niður. En sennilegast er auðveldar að sitja heima og gera ekki neitt. Það geri ég að minnsta kosti allt of oft. Þá gerir maður engin mistök, eða hvað?
Leyfið mér að ljúka máli mínu með sögu eftir rabbí Marshall Meyer:
-
Maður nokkur hafði misst áttirnar í dimmum skógi. Eftir því sem dagsbirtan þvarr, og skuggarnir stækkuðu og stækkuðu þar til þeir urðu að dimmri nótt, jókst hræðsla hans. Eftir þrjá daga og þrjár nætur þar sem tilfinningin um að vera án vonar og vissan um að vera týndur höfðu tekið yfirhöndina var hann orðinn örvæntingafullur. Á fjórða degi sá hann skrímsli stefna í áttina til sín, í gegnum skuggablandna dagsbirtu drungalegs skógarins. Hann fyllti vasa sína með steinum til að henda í skrímslið og tók sér þykka trjágrein í hönd sem barefli sjálfum sér til varnar. Hjartað barðist í brjósti hans og hann svitnaði sífellt meir af hræðslu þegar skrímslið stækkaði og stækkaði, eftir því sem það kom nær honum. Það var jafn hátt og manneskja. Hann skreið á bak við runna, tók oddhvössustu steinana sér í hönd og bjóst til varnar. Þegar skrímslið nálgaðist enn frekar var hann frosinn af hræðslu. En þá rann upp fyrir honum ljós, skrímslið hræðilega var manneskja. Hann losaði sig við steinana en hélt bareflinu eftir svona til vonar og vara. En þegar manneskjan var komin alveg að honum þá henti hann bareflinu frá sér og faðmaði manneskjuna sem þarna var mætt. Þetta var bróðir hans.
Félagið Ísland-Palestína efnir til fundar í Friðarhúsi, Njálsgötu 87 sunnudaginn 27. desember kl. 16. Tilefnið er að ár er liðið frá blóðugri innrás Ísraelshers inn á Gaza. Á þremur vikum féllu meira en 1400 Palestínumenn í valinn, flestir óbreyttir borgarar, þar á meðal 414 börn og unglingar undir 18 ára aldri. Þrettán Ísraelsmenn féllu þar af tíu hermenn. Stríðsglæpum Ísraelsstjórnar verður mótmælt víðs vegar um heim á sunnudaginn, þriðja í jólum, og um leið verður þess krafist að ómannúðlegri herkví um Gaza verði aflétt. Kjörorð dagsins eru: Munum Gaza, rjúfum umsátrið!
Ræðumenn: Rawda og Muhamed Odeh frá Jerúsalem
Allir velkomnir.