Samtök hernaðarandstæðinga fagna því að hernaður Nató-ríkja í Afganistan hafi verið afhúpaður með þeim hætti sem raun ber vitni. Gögn þau sem vefsíðan Wikileaks hefur nú birt um stríðið í Afganistan, leiða glögglega í ljós eðli stríðsrekstrarins þar og þá hyldýpisgjá sem er á milli hins raunverulega gangs stríðsins og þeirrar glansmyndar sem reynt hefur verið að draga upp af því á Vesturlöndum.
Upplýsingar þessar staðfesta þó einungis það sem andstæðingar stríðsins og hin alþjóðlega friðarhreyfing hafa haldið fram frá upphafi. Í öllum meginatriðum hefur gangur stríðsins í Afganistan orðið með sama hætti og varað var við áður en innrásin hófst. Á sama tíma hafa allar spásagnir stuðningsmanna innrásarinnar farið rækilega út um þúfur.
Stríðið í Afganistan er stærsta aðgerð í sögu hernaðarbandalagsins Nató. Hafi þurft frekari vitnanna við eftir stríðsrekstur í Júgóslavíu, kjarnorkuvopnastefnu og vígvæðingu liðinna áratuga, hefur Afganistanstríðið endanlega leitt í ljós hið herskáa og heimsvaldasinnaða eðli bandalagsins. Þótt Bandaríkin beri hitann og þungann af stríðsrekstinum, hvílir ábyrgðin á öllum drápunum og eyðileggingunni á herðum Nató. Með aðildinni að hernaðarbandalaginu og beinum og óbeinum stuðningi íslenskra stjórnvalda við stríðið, eru hendur okkar litaðar blóði.
Samtök hernaðarandstæðinga árétta því kröfu sína um að Ísland gangi úr Nató, að allar Nató-hersveitir yfirgefi Afganistan og að bætt verði, eftir því sem unnt er, fyrir þann skaða sem hermenn bandalagsins hafa unnið í landinu. Þá er brýnt að Íslendingar dragi þegar til baka allan stuðning sinn við stíðið og biðjist afsökunar á þætti sínum í því. Jafnframt hvetja Samtök hernaðarandstæðinga íslensk stjórnvöld til að leggja sitt af mörkum til þess að tryggja að þeir einstaklingar sem gerðu það að verkum að upplýsingar þessar komust fyrir almenningssjónir þurfi ekki að gjalda þess.
Haraldur Ólafsson, prófessor í veðurfræði við Háskóla Íslands og áhugamaður um friðar- og alþjóðamál ritaði eftirfarandi grein í síðasta hefti tímaritsins Dagfara, sem út kom í nóvember 2009. Greinin birtist hér á Friðarvefnum í heild sinni.
Lítið hefur farið fyrir umræðu um hernað og vígvæðingu í hinu ákafa Evróputrúboði sem dunið hefur á Íslendingum að undanförnu. Líklega skýrist það af því að flestir sem kallaðir eru til að veita álit í fjölmiðlum koma úr hópi þeirra sem gera lítinn greinarmun á sameinuðu Evrópuríki og himnaríki. Þeir vilja alls ekki fæla frá söfnuðinum það fólk sem sefur ekki því betur sem meira er til af vígtólum í heiminum. Enn síður vilja þeir fæla þá burt sem óttast að hið nýja stórríki gömlu evrópsku nýlenduveldanna dragi tennur úr N-Atlantshafsbandalaginu, án þess að sýna sjálft viðeigandi röggsemi við að skrúfa saman nýjar sprengjur. Við slíkar aðstæður er skiljanlegt að Evróputrúboðið segi sem minnst um hernað og beini umræðu frekar að öllu því gulli og smjöri sem bíður Íslendinga ef þeir gerast þegnar í Evrópusambandinu.
Lissabonsáttmálinn talar
Til að varpa ljósi á eðli Evrópusambandsins er nærtækast að lesa hið verðandi stjórnarskrárígildi sambandsins, Lissabonsáttmálann. Ljóst er sambandið verður ekki stækkað fyrr en sá sáttmáli hefur verið staðfestur af þeim sem fyrir eru. Í Lissabonsáttmálanum eru bálkar sem varða leið að hervæddu stórríki. Mikil áhersla er lögð á sameiginlega utanríkisstefnu og ljóst er að skoðun bandalagsins er að henni þurfi að fylgja eftir með hervaldi. Í 42. grein sáttmálans segir að sameiginleg öryggis- og hernaðarstefna(1) skuli mótast af framsækni og stefnt sé að sameiginlegum her þegar Æðsta ráðið (e. European Council) samþykkir slíkt samhljóða.
Í sömu grein er fjallað um skuldbindingar aðildarríkja. Þar segir m.a.:”Aðildarríki skulu með hernaði og öðrum aðgerðum (e. civilian) framfylgja sameiginlegri öryggis- og hernaðarstefnu (e. defence policy) og ákvörðunum Ráðsins (e. the Council) þar að lútandi.” Síðar í sömu grein er hnykkt á vígbúnaðarskyldunni með orðunum ”Aðildarríki skulu sýna framsækni í vígvæðingu” sem með þjálari og skýrari hætti má orða svo: ”Aðildarríki skulu vígbúast af kappi”. Þá er fjallað með mörgum orðum um að hermálaþjónusta Evrópusambandsins sé til ráðgjafar við vígbúnað og styrkingu og þróun á hergagnaiðnaði.
Þingið og foringjarnir tala
Víða annars staðar í Lissabonsáttmálanum er fjallað um vígbúnað og hernað og settir eru fyrirvarar, m.a. um skörun við þátttöku í öðru hernaðarsamstarfi. En eins og ávallt þegar langur texti með ýmis konar tilvísunum á í hlut geta vaknað spurningar um túlkun. Þá er skynsamlegt að athuga hvað fyrirmenn bandalagsins hafa sjálfir sagt. Ekki þarf að leita lengi til að komast að því að mörgum valdamönnum innan sambandsins þykir verulega hafa vantað á röggsemi þegar kemur að hervæðingu og ef einhverju þurfi að breyta innan Evrópusambandsins, þá sé það að auka kappið við vígvæðinguna.
Haft var eftir Romano Prodi, fyrrverandi höfuðpaur í sambandinu að hugmyndin um Evrópuher sé fúlasta alvara, en menn geti vitaskuld kosið að kalla hann öðru nafni ef það hentar(2). Ekki þarf að leita lengi til að finna að einn helsti höfðingi Ítalíu, Silvio Berlusconi, fagnar sérlega hervæðingu Evrópusambandsins með þeim orðum að loksins verði þá hægt að fylgja utanríkisstefnu eftir með þunga(3). Svo haldið sé áfram yfirreið um helstu hirðsali sambandsins lýsir Angela Merkel, kanslari Þýskalands, mikilvægi vígvæðingar sambandsins í viðtali snemma árs 2007(4). Í svipaðan streng tekur Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, þar sem hann segir hervæðingu Evrópusambandsins nauðsynlegt forgangsmál næstu árin(5).
Í ljósi fyrri afreka þurfa menn lítt að efast um einlægan vilja breskra fyrirmanna á vettvangi vígbúnaðar og hernaðar. Heildarsýnin í þessum málum er deginum ljósari: Evrópusambandið stefnir að því sinna meintum hagsmunum sínum í skjóli þess að vera vel vígvætt herveldi. Á því er hnykkt með ályktun Evrópuþingsins 19. febrúar 2009 þar sem farið er refjalaust fram á 60.000 manna fastaher. Mikill meirihluti þingsins samþykkti ályktunina. Við hljótum að spyrja: Eiga Íslendingar samleið með þessu liði?
Peningurinn talinn
Þeir eru til sem þykir vanta á vígvæðingu heimsins og að brýnt sé að Íslendingar leggi þar hönd á plóg. Þeir hinir sömu segjast ekki sjá eftir nokkrum krónum í svo verðugt verkefni, en hversu margar yrðu þær krónur? Ekki þykir ofrausn að ”siðaðar” þjóðir verji andvirði 2-4% af þjóðarframleiðslu til hernaðar og vígbúnaðar. Sumum þjóðum þykir það lítið og Tyrkir, sem nú banka fast á dyr Evrópusambandsins, telja ekki eftir sér að reiða fram andvirði um 5% þjóðarframleiðslunnar til hermála. Ef Íslandshreppur Evrópusambandsins slyppi með að vera í lægri kantinum yrði því um að ræða um þrjá tugi milljarða króna á ári fyrir íslenskt samfélag. Það samsvarar rekstri allra grunnskóla í Reykjavík ásamt framlagi ríkisins til Háskóla Íslands. Þykir flestum muna um minna.
Þess yrði svo ekki langt að bíða að upp kæmu hugmyndir um að ná peningnum aftur. Munu þá fulltrúar ”uppbyggingar” og Evróputrúboðar ná saman í áætlun um verksmiðju handa Íslendingum til að mylja púður ofan í fallstykki gömlu evrópsku herveldanna?
Þegnar hins nýja stórríkis
Nú kynni einhver að spyrja hvort þetta sé ekki allt einhver misskilningur. Nóg er að skrúfa frá útvarpi eða sjónvarpi til að heyra íslenska Evróputrúboða keppast hvern um annan þveran við að útskýra að Evrópusambandið sé og verði um ókomna framtíð aðeins samband fullvalda ríkja, eins konar staðlaráð og vettvangur til að ræða heimsins gagn og nauðsynjar. Það er rangt. Enginn sem fylgst hefur með umræðu innan Evrópusambandsins um hinn svokallaða Evrópusamruna þarf að velkjast í vafa um hvert stefnt er í þeim málum, nefnilega að hervæddu stórríki. Í raun þarf ekki að lesa lengra en í 9. grein Lissabonsáttmálans sem tekur af vafa um stöðu fólksins í hinu nýja Evrópusambandi, en þar segir orðrétt: ”Sérhver þegn ríkja Evrópusambandsins skal vera þegn Evrópusambandsins” Eru það örlög sem við hugsum okkur og afkomendum okkar?
Heimildir:
1) Hér er fylgt þeim sið að þýða ”defence” sem ”hernaður”.
2) The Independent, 4. febrúar 2000a
3) Nationen, 13. desember 2003a
4) Bild Zeitung, 23. mars 2007a
5) Ræða í Elyséehöll í París, 18. janúar 2008. http://www.elysee.fr/
a) haft eftir Amund Vik í júní 2007. http://www.neitileu.no/kunnskapsbank/forsvar_og_sikkerhet
Þann 19. júní 1960 var í fyrsta sinn efnt til Keflavíkurgöngu frá hlið herstöðvarinnar á Miðnesheiði til Reykjavíkur. Gangan var skipulögð af hópi fólks sem starfað hafði innan samtakanna Friðlýsts lands. Ekki höfðu allir mikla trú á tiltækinu, en fyrirmynd þess var fengin frá Bretlandi þar sem samtökin CND skipulögðu fyrstu Aldermaston-gönguna árið 1958.
Þátttakan í þessari fyrstu Keflavíkurgöngu var þó ágæt og mikið fjölmenni á útifundi í lok hennar við Miðbæjarskólann. Í kjölfarið var ákveðið að koma baráttunni gegn hernum og veru Íslands í Nató á fastari fót. Um haustið var efnt til Þingvallafundar, þar sem Samtök hernámsandstæðinga voru stofnuð. Þau urðu á næstu árum leiðandi í herstöðvabaráttunni.
Minnt er á sögusýningu Keflavíkurgöngunnar, sem stendur nú uppi í anddyri Þjóðarbókhlöðunnar. Hægt er að skoða sýninguna á opnunartímum bókasafnsins.
Stefán Pálsson
Fyrsti maí er alltaf stór dagur hjá Samtökum hernaðarandstæðinga. Hið víðfræga morgunkaffi SHA verður haldið í Friðarhúsi. Húsið verður opnað kl. 11 og er verðið einungis 500 krónur, líkt og verið hefur í rúman aldarfjórðung.
Morgunkaffið stendur fram að kröfugöngu verkalýðsfélaganna, sem leggur af stað frá Hlemmi 13:30.
Um kvöldið verður fjáröflunarmálsverður Friðarhúss í verkalýðsanda. Þórunn Ólafsdóttir úr miðnefnd SHA er yfirkokkur, en matseðillinn verður á mexíkóskum nótum:
* mexíkósk kjúklingasúpa/grænmetissúpa
* brauð
* meðlæti
* kaffi
* heimagert konfekt
Gísli Magnússon trúbador tekur nokkur lög og Ármann Jakobsson íslenskufræðingur flytur hugvekju.
Borðhald hefst kl. 19. Verð kr. 1.500. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
Fregnir frá hernumdu svæðunum
– rabbfundur SHA um Palestínu og Ísrael
Miðvikudagskvöldið 28. apríl kl. 20 efna Samtök hernaðarandstæðinga til fundar í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.
Gestur fundarins, Sigríður Víðis Jónsdóttir blaðamaður, er vel að sér um samskipti Ísraels og Palestínu og er nýkomin úr ferð um svæðið. Hún mun ræða um upplifun sína af hernáminu, aðskilnaðarmúrnum, landtökubyggðunum og ástandinu í Hebron. Meðal þess sem hún kynnti sér í ferðinni voru verkefni sem Rauði kross Íslands hefur stutt og ísraelsku samtökin Machsom Watch, sem fylgjast með framferði hersins og fræða samlanda sína um stöðu mála.
Allir velkomnir. Heitt á könnunni.
* * *
Samtök hernaðarandstæðinga bjóða að venju upp á þétta dagskrá á 1. maí, sem að þessu sinni ber upp á laugardegi.
Hið víðfræga morgunkaffi SHA verður í Friðarhúsi og hefst kl. 11 og stendur fram að göngu verkalýðsfélaganna. Verðið er það sama og frá myntbreytingu, 500 kr.
Um kvöldið verður svo fjáröflunarmálsverður Friðarhúss með verkalýðsívafi. (Athugið að málsverðurinn er að þessu sinni haldinn á laugardegi en ekki föstudegi.)
Matseldin verður á mexíkóskum nótum og miðnefndarfólk stýrir pottum og pönnum. Boðið verður upp á skemmtiatriði og Ármann Jakobsson flytur hugvekju í tilefni dagsins.
Borðhald hefst að venju kl. 19. Verð 1.500 kr.