All Posts By

Stefán Pálsson

Armadillo í Friðarhúsi

By Uncategorized

Á síðasta ári var danska heimildarmyndin Armadillo frumsýnd, en hún fjallar um danskan herflokk í Afganistan. Myndin hafði gríðarleg áhrif í Danmörku og ýtti undir umræður um þátttöku Dana í stríðsrekstrinum. Hún hefur einnig hlotið fjölda alþjóðlegra verðlauna.

Armadillo verður sýnd í Friðarhúsi miðvikudagskvöldið 16. febrúar kl. 20:30. Sýningartími er 100 mínútur. Myndin er með dönsku tali en enskum texta. Allir velkomnir.

Norðmenn og vopnasalan

By Uncategorized

Steinunn Rögnvaldsdóttir, fv. miðnefndarkona í Samtökum hernaðarandstæðinga er um þessar mundir við nám í Noregi. Hún birtir á vefritinu Smugunni stóráhugaverða grein um vopnasölu og vopnaiðnað Norðmanna. Óhætt er að hvetja áhugafólk um vígbúnaðarmál til að kynna sér efni þessa pistils.

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður Friðarhúss verður haldinn föstudagskvöldið 28. janúar kl. 19. Matseld verður að þessu sinni í höndum MFÍK og er matseðillinn svo sannarlega glæsilegur:

* Kjúklinga- og karrísúpa
* Chile-grænmetissúpa
* Salatþrenna
* Brauð og smjör
* Skyrkaka í eftirrétt

Verð kr. 1.500. Allir velkomnir. Húsið opnar kl. 18:30.

Friðargöngurnar – ólíkir tímar!

By Uncategorized

Friðargöngur verða haldnar á þremur stöðum á landinu á Þorláksmessu.

Eins og fram hefur komið á þessum vettvangi, hefjast göngurnar í Reykjavík og á Ísafirði kl. 18.

Á Akureyri verður gangan kl. 20, en dagskrá hennar er sem hér segir:

Gengið verður frá Samkomuhúsinu í Hafnarstræti og út á Ráðhústorg.

Grípum friðarboðskap jólanna og tengjum hann núinu!

Hernaðarmaskína vestrænna stórvelda rennur um Miðausturlönd og lengra austur. Barist er um olíuhagsmuni m.m. Mesta stríð nútímans er háð í Afganistan undir merkjum NATO. Ísland styður hernám landsins.

Sýnum hug okkar um stríðið og friðinn:
– Frið í Afganistan og Írak!
– Burt með árásar og hernámsöflin!
– Enga aðild Íslands að stríði og hernámi!

Ávarp flytur Gréta Kristín Ómarsdóttir
Söngur: Örn Birgisson og Valmar Väljaots
Kerti verða seld í upphafi göngunnar.

Friðarframtak

Friðargöngur á Þorláksmessu

By Uncategorized

Íslenskir friðarsinnar hafa efnt til blysfarar niður Laugaveginn á Þorláksmessu á hverju ári undanfarna þrjá áratugi. Þessi ganga er sú 31. Margir líta nú á friðargönguna sem ómissandi þátt í jólaundirbúningi fjölskyldunnar og tekur fjöldi fólks sér hlé frá tiltektum og innkaupum rétt fyrir jólin til að leggja þar sitt af mörkum og styðja kröfuna um frið í heiminum. Undanfarin ár hafa slíkar göngur einnig verið bæði á Akureyri og á Ísafirði

Samstarfshópur friðarhreyfinga stendur að venju fyrir blysför niður Laugaveginn í Reykjavík fimmtudaginn 23.desember. Safnast verður saman á Hlemmi frá klukkan 17:45 og leggur gangan af stað stundvíslega klukkan 18:00. Fólk er hvatt til að mæta tímanlega. Að venju munu friðarhreyfingarnar selja kyndla á Hlemmi áður en gangan leggur af stað.

Í lok göngunnar verður stuttur fundur á Ingólfstorgi þar sem Steingerður Hreinsdóttir, alþjóða þróunarfræðingur ráðgjafi og verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands og formaður stjórnar Háskólafélags Suðurlands flytur ávarp en fundarstjóri er Árni Pétur Guðjónsson leikari. Söngfólk úr Hamrahlíðarkórnum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð syngur í göngunni og við lok fundar undir stjórn Þorgerðar Ingólfsdóttur.

Samstarfshópurinn minnir á að málstaður og rök friðarsinna skipta jafn miklu máli nú og fyrir þrjátíu árum. Stöðugt berast fregnir af ofbeldisverkum þjóða á milli og innan samfélaga. Óheyrilegum fjárhæðum er enn sóað í vígvæðingu og ekkert lát virðist á stríðunum í Írak og Afganistan.

Á Ísafirði: Lagt verður af stað frá Ísafjarðarkirkju klukkan 18:00 og gengið niður á Silfurtorg þar sem verður hefðbundin dagskrá með tónlist, ljóðum og mæltu máli.
Ræðumaður er Martha Ernstdóttir.

Samstarfshópur friðarhreyfinga:
Changemaker, ungliðahreyfing Hjálparstarfs kirkjunnar
Félag leikskólakennara.
Friðar- og mannréttindahópur BSRB
Friðar- og mannréttindanefnd Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar
Menningar og friðarsamtökin MFÍK
Samhljómur menningarheima
Samtök hernaðarandstæðinga
SGI á Íslandi mannúðar og friðarsamtök búddista

Nánari upplýsingar gefa:
Steinunn Þóra Árnadóttir. Sími: 690-2592/551-2592 & Guðrún V. Bóasdóttir. Sími: 891-9809

Friðarganga um Hólastað, 19. desember

By Uncategorized

Loksins geta Skagfirðingar komist í friðargöngu fyrir jólin. Athygli friðarsinna nyrðra er vakin á þessari fréttatilkynningu:

Gengið verður um Hólastað,
sunnudaginn 19. desember.
Mæting er við Háskólann á Hólum,
lagt verður af stað kl. 19.40.
Kyndlar á staðnum á kostnaðarverði.
Á eftir er tilvalið að njóta tónleika
Skagfirska kammerkórsins
sem hefjast kl. 20.30.

Klæðið ykkur vel!

Er starfsemi Varnarmálastofnunar nauðsynleg?

By Uncategorized

Samkvæmt Fréttablaðinu eru verkefni stofnunarinnar talin upp í 8 liðum.

1. Rekstur loftvarnakerfis, þar með talið ratsjárstöðva NATO á Íslandi.

2. Þátttaka í loftrýmiseftirliti sem erlendir flugherir hafa sinnt.
Hvaðan skyldum við Íslendingar eiga von á loftárásum? Væri ekki gott að vita það áður en við förum að leggja stórfé í loftvarnir?

3. Rekstur öryggissvæða í eigu ríkisins og NATO.
Hvaða svæði eru það og hvaða öryggi eiga þau að veita okkur Íslendingum?

4. Undirbúningur og umsjón varnaræfinga.
Hver er óvinur okkar sem við þurfum að verjast? Er ekki betra að vita það fyrst?

5. Rekstur gagnatenginga við upplýsingakerfi NATO og úrvinnsla upplýsinga.
Hvaða gagnlegar upplýsingar kynni það að geta veitt okkur?

6. Þátttaka í hernaðarstarfi NATO.
Hversvegna ættum við Íslendingar að taka þátt í morðum NATO á fátæku fólki í fjarlægum löndum? Eigum við eitthvað sökótt við það fólk? Eru ekki frumstæðustu mannréttindi hvers manns á jörðinni rétturinn til lífs? Meðal annarra orða, hversvegna eigum við að vera í NATO?

7. Verkefni tengt varnarsamningi.
Sé átt við varnarsamninginn við Bandaríkin hlýtur að vera augljóst að honum verður að segja upp þar sem Rússagrýlan er fallin frá og við höfum ekki orðið okkur úti um annan óvin í hennar stað að því er best er vitað. Eða er annar í sigtinu og þá hver?

8. Samskipti við erlend stjórnvöld og stofnanir á sviði varnarmála.
Hvaða samskipti eru það sem sendiherrastóðið getur ekki annast eða eru þau þess eðlis að þau megi ekki falla niður?

Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja verður ekki séð að neitt af þessum verkefnum séu nauðsynleg fyrir okkur Íslendinga. Þessvegna þarf að leggja þau öll niður og spara þannig stórfé til þarfari málaflokka.
Fyrir þá fáu einstaklinga sem eru svo hræddir við ímyndaðan óvin að það stendur þeim fyrir svefni hlýtur heilbrigðisþjónustan að eiga einhver ódýr ráð til úrbóta.

Sigurður Flosason, gjaldkeri SHA

Borgarstjóri á réttri leið

By Uncategorized

Í Fréttablaðinu í dag, miðvikudaginn 15. desember, er ánægjuleg fregn um tillögur borgarstjóra þess efnis að herflugvélum verði ekki heimilað að lenda á Reykjavíkurflugvelli. Ástæða er til að fagna þessum tillöguflutningi.

Samtök hernaðarandstæðinga hafa í mörg ár bent á að orð verði að fylgja aðgerðum þegar kemur að friðarmálum. Ekki er nóg að tala um Reykjavík sem friðarborg á tyllidögum – grípa verður til beinna aðgerða í því að úthýsa hergögnum. Tillaga borgarstjóra er til marks um að hugur fylgi máli og er það vel.

Rétt er að hvetja Reykjavíkurborg til frekari dáða í þessu efni. Nærtækasta skrefið er að afþakka herskipaheimsóknir þær sem verið hafa plagsiður í borginni á liðnum sumrum. Risaherskip helstu hervelda heims hafa ekkert erindi í Sundahöfn. Þá er brýnt að borgaryfirvöld taki það skýrt fram að heræfingar koma ekki til greina í borgarlandinu – þar með talið æfingar í tengslum við fyrirhugaðan “Norðurvíking” á næsta ári.

Bókmenntakynning MFÍK

By Uncategorized

PC070007Laugardaginn 11. desember
verður hin árlega
bókmenntakynning
Menningar- og
friðarsamtakanna MFÍK í
MÍR-salnum,
Hverfisgötu 105
.

Rithöfundarnir

    Vilborg Dagbjartsdóttir,
    Gunnar Theodór Eggertsson,
    Guðrún Hannesdóttir,
    Kristín Eiríksdóttir,
    Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir,
    Yrsa Þöll Gylfadóttir
    og
    Kristín Steinsdóttir

lesa úr nýútkomnum verkum sínum.

Fiðluleikarinn Laufey Sigurðardóttir og gítarleikarinn Páll Eyjólfsson leika ljúfa tónlist í upphafi dagskrár. Aðventustemning og kaffisala.

Ágóði af kaffisölu rennur til Maríusjóðs Aisha, félags til verndar konum og börnum á Gazasvæðinu.

Húsið verður opnað kl. 13.30.

Allir velkomnir!