All Posts By

Stefán Pálsson

Kjarnorkuvopnavandinn snýst ekki um Íran

By Uncategorized

kjarnorku Þessi grein birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 25. febrúar 2006

Viðleitni Íransstjórnar til að auðga úran hefur vakið hörð viðbrögð á alþjóðavettvangi. Leiðtogar Vesturveldanna hafa ekki farið í grafgötur með þá stefnu sína að taka málið upp í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og fá þar samþykktar refsiaðgerðir gegn Írönum ef stjórnvöld í Teheran leggi kjarnorkuáætlanir sínar ekki á hilluna í eitt skipti fyrir öll. Hins vegar má spyrja hversu trúverðugur málflutningur Bandaríkjamanna, Breta og Frakka er þegar kemur að kjarnorkuvopnum.

Samkvæmt tölum frá bandaríska tímaritinu Bulletin of Atomic Scientists eiga kjarnorkuveldi heimsins a.m.k. 14.000 kjarnaodda í skotstöðu (operational) sem eru tilbúnir til árásar með litlum sem engum fyrirvara. Samkomulag um bann við tilraunasprengingum (Comprehensive Test Ban Treaty) frá 1996 hefur ekki verið fullgilt af Bandaríkjastjórn, enda þótt öll kjarnorkuveldin nema Indland og Pakistan hafi undirritað samninginn á sínum tíma. Þá hefur Bandaríkjastjórn einhliða sagt upp ABM-sáttmálanum um afvopnun, án þess að líkur séu á að nýr afvopnunarsamningur komi í stað hans. Stefna Bandaríkjastjórnar virðist vera sú að önnur ríki skuli afvopnast en á meðan auki hún sjálf vígbúnað sinn og hafi óheft svigrúm til tilrauna með ný kjarnorkuvopn.

Opinber stefna Bandaríkjastjórnar eru sú að Bandaríkin muni ekki nota kjarnorkuvopn gegn ríki sem ekki búi yfir slíkum vopnum. Í raun hefur Bandaríkjastjórn margsinnis hótað slíkum árásum. Til eru ríkisstjórnir sem virðast tilbúnar að fylgja Bandaríkjastjórn fram á brúnina. Varnarmálaráðherra Bretlands, Geoff Hoon, hefur lýst því yfir að Bretar væru tilbúnir að nota kjarnorkusprengjur „við réttar aðstæður“ og gegn ríkjum sem ekki eigi kjarnorkuvopn.

Í orði kveðnu óttast ríki heimsins smygl og verslun með kjarnorkuvopn, ekki síst til ríkja sem Bandaríkjastjórn er uppsigað við og kallar útlagaríki. Einfaldasta leiðin til að fylgjast með slíku væri að gera lista yfir sprengjur sem kjarnorkuveldin eiga eða efni sem til er í þær. En ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Rússlands hafa neitað að gera slíkan lista. Eftirlitsmenn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hafa engan aðgang að kjarnaoddum þeirra ríkja sem eiga 96% af kjarnorkuvopnum heimsins!

Bandaríkjastjórn hefur um 480 kjarnorkuflaugar á meginlandi Evrópu, hálfum öðrum áratug eftir endalok kalda stríðsins. Önnur kjarnorkuveldi eiga mun færri sprengjur; en ríkisstjórn Bretlands hefur uppi áform um að endurnýja kjarnorkuflaugar sínar, þrátt fyrir að ekki sé hægt að benda á neinn óvin sem Bretlandi standi ógn af. Kjarnaoddum Kínverja hefur hins vegar ekki fjölgað í rúm 20 ár, þrátt fyrir endurteknar spár bandarískra hernaðaryfirvalda um það. Ekki má svo gleyma því kjarnorkuveldi sem einna mest leynd hvílir yfir, en það er Ísrael. Að mati sérfræðinga ræður Ísraelsher yfir um 75-200 kjarnaoddum. Ljóst er að tilvist þessara vopna veldur miklu óöryggi í Austurlöndum nær og er trúlega ástæða þess að önnur ríki kunna að hafa áform um að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Þar að auki stangast þessi vopn á við sáttmálann um útbreiðslu kjarnorkuvopna. Samt sem áður verður ekki vart við neinn alþjóðlegan þrýsting á Ísraelsmenn um að láta þau af hendi.

Í áliti Alþjóðadómstólsins í Haag frá 8. júlí 1996 er úrskurðað að notkun kjarnorkuvopna að fyrra bragði sé ólögleg undir öllum kringumstæðum og ríkjum heims beri að stefna að útrýmingu slíkra vopna. Þessi úrskurður merkir í raun að alþjóðadómstóllinn telur kjarnorkuvopn ólögleg. Í samræmi við þetta hefur Malasía nokkrum sinnum lagt tillögu fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna undanfarin ár. Í henni felst að ríkjum heimsins beri að ná samkomulagi um að banna hvers konar framleiðslu og meðferð kjarnorkuvopna, ekki síst beitingu kjarnorkuvopna eða hótun um að beita þeim. Jafnframt beri að útrýma slíkum vopnum hið bráðasta.Tillaga þessi hefur jafnan hlotið góðar undirtektir og má taka sem dæmi atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1. desember 1999. Þá greiddu 114 ríki tillögunni atkvæði og hún var samþykkt. Hins vegar greiddu 28 ríki atkvæði á móti þessari tillögu um kjarnorkuafvopnun og 22 ríki sátu hjá. Ísland var í hópi þeirra ríkja sem greiddu atkvæði gegn útrýmingu kjarnorkuvopna. Ekkert NATO-ríki þorði að styðja tillöguna, en sum söfnuðu þó kjarki til að sitja hjá, t.d. Kanada og Noregur.

Þau aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem standa þver gegn afvopnun eru ekki mörg en þau hafa heilmikið vægi í Öryggisráðinu og eiga fjóra af fimm fastafulltrúum þar. Það er fyrst og fremst tvískinnungur kjarnorkuveldanna sem veldur því að afvopnunarmál eru í sjálfheldu og framtíð án kjarnorkuvopna er ennþá utan seilingar.

Sverrir Jakobsson

Troðfullt Friðarhús

By Uncategorized

matarmyndÓhætt er að segja að fjáröflunarmatarboðið í Friðarhúsi á Safnanótt hafi tekist framar vonum. Meira en sextíu manns gæddu sér á gómsætum matnum og nokkur fjöldi til viðbótar kom og tók þátt í bráðskemmtilegum umræðum að borðhaldi loknu, en rithöfundurinn Andri Snær Magnason gerði grein fyrir óútkominni bók sinni um ýmsa þætti umhverfismála.

Guðrún Bóasdóttir hafði umsjón með eldamennskunni að þessu sinni og tók nokkrar ljósmyndir sem sjá má hér.

Næsti málsverður verður haldinn föstudagskvöldið 24. mars.

Samfylkingin: Ekki verði hægt að lýsa yfir stuðningi við stríð án samþykkis Alþingis

By Uncategorized

Alþingi Á haustþingi, þann 11. október, lagði þingflokkur Samfylkingarinnar fram frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Tillagan er þessi:

„Við 21. gr. stjórnarskrárinnar bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Samþykki Alþingis þarf að liggja fyrir áður en heitið er þátttöku eða stuðningi Íslands í stríði gegn öðru ríki.“

Í síðustu viku, 21. febrúar, var tillagan tekin til fyrstu umræðu og mælti Helgi Hjörvar fyrir henni. Tillöguna og umræðurnar má nálgast á vef Alþingis:

http://www.althingi.is/altext/132/s/0055.html
http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=132&mnr=55

Þeir þingmenn hinna stjórnarandstöðuflokkanna, sem tóku til máls, lýstu yfir samþykki við tillöguna en athygli vekur að enginn þingmaður stjórnarflokkanna tók þátt í þessari fyrstu umræðu. Hinsvegar setti forseti þingsins, Sólveig Pétursdóttir, ofan í við Össur Skarphéðinsson og voru þau orðaskipti svohljóðandi (birt með fyrirvara um að þessi umræða eru enn óyfirlesin á vef Alþingis):

„Að lokum, frú forseti. Við Íslendingar berum vegna þessarar löglausu, siðlausu ákvörðunar tveggja forustumanna íslensku þjóðarinnar okkar siðferðilegu ábyrgð á þeim hörmungum sem innrásin hefur kallað yfir Írak. Því má ekki gleyma.
(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmann um að gæta orða sinna. Ef forseti heyrði rétt þá talaði hann um löglausa og siðlausa ákvörðun forustumanna ríkisstjórnar.)“

Í greinargerð með frumvarpinu, sem birt er með því á vef Alþingis, er bent á að efni þessa frumvarps hefði ekki áhrif á skuldbindingar Íslands gagnvart t.d. NATO og 5. greinar Atlantshafssamningsins:

„Sérstaða Íslands í samfélagi þjóðanna markast að nokkru leyti af því að það er herlaust ríki. Ísland hefur þó tekið afstöðu til öryggis- og varnarmála með aðild að Sameinuðu þjóðunum, Atlantshafsbandalaginu og herstöðvarsamningi við Bandaríkin. Alþingi hefur fjallað um og veitt samþykki sitt fyrir þátttöku landsins í þessu samstarfi og hefði efni þessa frumvarps ekki áhrif á það. Þannig yrði ekki skylt að bera undir Alþingi ákvarðanir um stríð sem teknar væru með réttum hætti innan stofnana sem Ísland er fullgildur aðili að, svo sem skv. 5. gr. Atlantshafssamningsins eða á vegum Sameinuðu þjóðanna með samþykki öryggisráðsins. Þannig hefur Alþingi þegar skuldbundið Ísland til aðildar að átökum ef á eitt eða fleiri aðildarríki Atlantshafsbandalagsins er ráðist. Ákvörðun um stuðning eða nokkurs konar aðild Íslands að stríði sem háð væri á öðrum grundvelli yrði aftur á móti að hljóta samþykki Alþingis. Hefði ákvæði þetta verið í gildi sl. áratug hefði samþykki Alþingis þurft fyrir árásum NATO-ríkja í Júgóslavíu í tengslum við Kosovo árið 1999. Slíkt samþykki hefði hins vegar ekki þurft þegar Atlantshafsbandalagið lýsti því yfir á grundvelli 5. gr. Atlantshafssamningsins að árásirnar á Bandaríkin í september 2001 væru árásir á öll aðildarríki bandalagsins.“

Samtök herstöðvaandstæðinga hafa lagt áherslu á úrsögn Íslands úr NATO. Þekktasta kjörorð samtakanna er: „Ísland úr NATO, herinn burt“. NATO mun alltaf þvælast fyrir vilja til friðsamlegrar stefnu Íslands meðan við erum aðilar að þessu hernaðarbandalagi. Má í því sambandi nefna að tillögum um kjarnorkuvopnalaust Ísland hefur verið svarað með því að slík yfirlýsing stangist á við skuldbindingar okkar gagnvart NATO.

Varðandi 5. greinina er þó rétt að minna á að við undirritun Atlantshafssamingsins gerði Bjarni Benediktsson, þáverandi utanríkisráðherra, fyrirvara. Vigfús Geirdal hefur fjallað um þann fyrirvara í greinum sem hafa birst í Dagfara og hér á Friðarvefnum. Þar segir m.a. svo:

„Bjarni sat engu að síður fastur við sinn keip, flutti sína ræðu og áréttaði fyrirvara Íslendinga sem fela það í sér að Ísland er ekki að fullu aðili að Grein 5 sem stundum er kölluð hornsteinn Nató. Aðild Ísland að Nató er að því leyti einstök, að Ísland lýsir ekki yfir stríði við neinn þann árásaraðila sem ræðst á eitthvert Natóríkjanna, en Natóríkin eru aftur á móti skuldbundin að lýsa yfir stríði og koma Íslandi til hjálpar ef einhver aðili ræðst á það! Nánast eina skuldbinding Íslendinga við Nató er að leggja til land (sér að kostnaðarlausu) undir hernaðaraðstöðu með svipuðum hætti og gert var í seinni heimstyrjöld.“

Samtök herstöðvaandstæðinga sendu stjórnarskrárnefnd erindi sl. vor með tillögu þar sem segir meðal svo:

„Það verði bundið í stjórnarskrá að Ísland fari aldrei með ófriði á hendur öðrum þjóðum né styðji á nokkurn hátt slíkar aðgerðir annarra ríkja.“

Ennfremur að aldrei verði stofnaður her á Íslandi og Ísland verði friðlýst fyrir kjarnorkuvopnum. Rétt er að geta þess að Þjóðarhreyfingin – fyrir lýðræði, hefur lagt fyrir stjórnarskrárnefnd svipaða tillögu, en þó með ákveðnum fyrirvara. Þjóðarhreyfingin kveðst munu berjast fyrir:

„ … lögfestingu nýs ákvæðis í stjórnarskrá þess efnis, að íslenskur her verði aldrei settur á stofn og að Ísland fari ekki með stríð á hendur neinu öðru ríki eða þjóð. Enn fremur að ríkisstjórn Íslands verði með slíku ákvæði bannað að styðja í orði eða verki hernaðaríhlutun erlends ríkis eða ríkjasamtaka gegn öðrum ríkjum, nema Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi veitt ótvíræða heimild til hennar og Alþingi Íslendinga styðji þá ákvörðun.“

Evrópska samfélagsþingið – European Social Forum – í Aþenu 4.-7. maí

By Uncategorized

ESF 2006 Það eru víst flestir Íslendingar með það á hreinu hvað gerist í Aþenu 20. maí nk. En færri vita að hálfum mánuði fyrr, 4. til 7. maí, stendur líka mikið til í Aþenu. Þá verður fjórða Evrópska samfélagsþingið (European Social Forum – ESF) haldið þar. Síðast var þingið haldið í Lundúnum haustið 2004 og voru þá skráðir þátttakendur um 20 þúsund. Fyrsta evrópska þingið var í Flórens haustið 2002 og lauk því með gífurlega fjölmennri göngu gegn nýfrjálshyggjunni og hinni kapítalísku hnattvæðingu en einkum þó fyrirætlunum Bandaríkjanna um innrás í Írak, en talið er að um ein milljón manns hafi tekið þátt í þessari göngu, sem varð upphafið að hinum miklu mótmælaaðgerðum veturinn 2002-2003.

Íslendingar hafa lítið gert af því að sækja þessi þing. Þó fóru nokkrir til Lundúna í fyrra og í síðustu viku, 16. febrúar, komu þau Halla Gunnarsdóttir, Alistair Ingi Grétarsson og Viðar Þorsteinsson í Friðarhúsið og sögðu frá ferðum sínum á Alþjóðlegu samfélagsþingin (World Social Forum) í Malí og Venesúela í janúar sl., en Halla hefur líka skrifað fróðlegar greinar í Morgunblaðið um ferð þeirra Alistairs til Malí.

Um Evrópska samfélagsþingið í Flórens 2002 má lesa í grein Páls H. Hannessonar BSRB á lýðræðisvettvangi Evrópu og um þingið í Lundúnum haustið 2004 skrifaði Einar Ólafsson: Við viljum öðruvísi veröld: 20 þúsund manns á þriðja Evrópska sósíalfórum í Lundúnum.

Upplýsingar um fyrirhugað þing í Aþenu má finna á vefsíðu ESF og sérstökum vef sem hefur verið settur upp í tilefni af þinginu.

List, sannleikur og stjórnmál

By Uncategorized

TMM Ræða Harolds Pinters við móttöku Bókmenntaverðlauna Nóbels 2005 í Tímariti Máls og menningar

Jóhann Ludwig Torfason myndlistarmaður vann kápumyndina sérstaklega í tilefni af Nóbelsræðu Pinters. Glöggir menn munu kannast við hermanninn unga á myndinni.

Þegar Harold Pinter tók við Bókmenntaverðlaunum Nóbels 7. desember sl. flutti hann ræðu sem vakti mikla athygli, ekki síst fyrir beinskeytta gagnrýni á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Við sögðum lítillega frá henni hér á Friðarvefnum 14. desember og vísuðum þar á hvernig hægt er að nálgast hana á ensku og sænsku á internetinu. Það er ástæða til að vekja athygli á því að nú hefur þessi ræða birst í íslenskri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur í Tímariti Máls og menningar, þannig að þeir sem kjósa að lesa hana á íslensku geta nálgast hana þar, og hvetjum við fólk til að nálgast tímaritið annað hvort með því að kaupa það eða drífa sig á næsta bókasafn, enda er ýmislegt fleira áhugavert í því.

Í leiðinni minnum við á átakið og undirskriftasöfnunina gegn hugsanlegri árás Bandaríkjanna á Íran, sem Harold Pinter hefur ásamt öðrum haft frumkvæði að og við greindum frá um daginn. Nánari upplýsingar um það má nálgast með því að klikka á fyrirsögnina Gegn innrás í Íran – stöðvum stríðið áður en það byrjar! hér til hliðar.

Hefjið Safnanótt í Friðarhúsi

By Uncategorized

hnetupottFöstudaginn 24. febrúar verður Safnanótt haldin í miðborg Reykjavíkur í tengslum við Vetrarhátíð borgarinnar. Boðið verður upp á fjölbreytta menningardagskrá um alla borg langt fram yfir miðnætti.

Tilvalið er að hefja kvöldið á fjáröflunarmálsverði í Friðarhúsi. Húsið verður opnað kl. 18:30 og hefst borðhald kl. 19.

Guðrún Bóasdóttir (Systa) stýrir matseldinni að þessu sinni og er matseðillinn svo sannarlega glæsilegur:

* Svínakjötspottréttur í hnetusmjörssósu (satay)
* Chili sin carne, grænmetisréttur með sætum kartöflum og nýrnabaunum
* Couscous-salat
* Hrísgrjón og heimabakað brauð

Allt þetta fæst fyrir litlar 1.000 krónur.

Skáldið Andri Snær Magnason flytur hugvekju og opnar fyrir umræður.

Sláið tvær flugur í einu höggi og mætið södd og sæl á safnanótt. Allir hjartanlega velkomnir!

Fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverður í Friðarhúsi. Húsið verður opnað kl. 18:30 en borðhald hefst kl. 19.

Systa eldar

Matseðill

Svínakjötspottréttur í hnetusmjörssósu (satay)
Chili sin carne, grænmetisréttur með sætum kartöflum og nýrnabaunum
Couscous salat
Hrísgrjón og heimabakað brauð

hnetupott
chili
couscous