Samtök herstöðvaandstæðinga standa fyrir fjölbreyttri dagskrá alla þessa viku í tilefni að því að senn eru þrjú ár liðin frá því að stríðið í Írak hófst með stuðningi íslenskra stjórnvalda.
Mánudagskvöldið 13. mars verður sýnd heimildarmynd úr röð Frontline-þáttanna, sem gerðir eru af PBS-sjónvarpsstöðinni. Myndin nefnist Private Warriors og fjallar um hinn einkavædda stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak. Þar starfa nú tugþúsundir hermanna í þjónustu einkafyrirtækja eða “öryggisverktakar” eins og þeir eru nefndir í íslenskum fréttum.
Hvaða áhrif hefur tilvist slíkra einkaherja á bandaríska utanríkispólitík og hver er staða þeirra gagnvart alþjóðalögum? Í myndinni er skyggnst inn í herbúðir Bandaríkjamanna í Írak og rakin saga nokkurra einkahermanna. Myndin er tæplega klukkustundarlöng og á ensku.
Sýningin hefst kl. 20. Allir velkomnir.
* * *
Þriðjudagskvöldið 14. mars verður hugað að sögu Íraks og bakgrunni þeirrar borgarastyrjaldar sem nú geysar þar í landi.
Sagnfræðingurinn Dagur Þorleifsson hefur um árabil fylgst grannt með þróun mála við Persaflóa og hefur kennt um sögu svæðisins við Háskóla Íslands. Hann mun fjalla um þá ólíku trúarhópa og þjóðflokka sem byggja Írak og reyna varpa ljósi á orsakir deilna milli einstakra hópa. Að loknu stuttu erindi, gefst færi á fyrirspurnum og umræðum.
Fundurinn hefst kl. 20. Allir velkomnir.
Mánudaginn 13. mars mun Bandaríkjamaður nokkur að nafni dr. Michael Rubin halda fyrirlestur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn heitir Hvað er Bandaríkjastjórn að vilja í Miðausturlöndum?
Á vef Háskóla Íslands er dr. Rubin kynntur lauslega. Hann er fræðimaður við American Enterprise Institute og ritstjóri Middle East Quarterly, hefur starfað sem ráðgjafi í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hvað varðar Íran og Írak og hefur víðtæka þekkingu á málefninu.
American Enterprise Institute for Public Policy Research (AEI) er svo lýst á Sourcewatch-vefnum að þessi stofnun sé mjög áhrifamikill hægrisinnaður hugmyndabanki (think-tank) sem leitist við að stuðla að framþróun frjáls kapítalisma, hafi löngum tekist vel upp við að koma sínum mönnum í áhrifastöður og sé eitt helsta vígi ný-íhaldsmanna (neo-conservatives.) Meðal fyrrverandi starfmanna stofnunarinnar eru Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna (fyrrum forstjóri Halliburton) og George P. Shultz, sem var utanríkisráðherra í stjórn Ronalds Reagans (sá fyrrnefndi er fyrrum forstjóri Halliburton en sá síðarnefndi er nú stjórnarmaður í Bechtel, en þessi fyrirtæki hafa setið að kjötkötlunum í Írak eftir að Bandaríkjamenn hernámu landið). Meðal núverandi starfsmanna stofnunarinnar eru Lynn Cheney, eiginkona Dicks, Jeane Kirkpatrick, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum þegar ríkisstjórn Ronalds Reagans var blóðug upp að öxlum vegna tengsla sinna við dauðasveitir í El Salvador og contra-skæruliðana í Nicaragua, og Richard Perle, fyrrum ráðgjafi varnarmálaráðherrans, stundum kallaður einn af helstu „haukunum“ innan Bandaríkjastjórnar.
AEI gegndi mikilvægu hlutverki við undirbúning innrásarinnar í Írak, svo sem við að spinna þann lygavef sem flestir kannast nú við. Og dr. Michael Rubin, gestur Háskóla Íslands, vann ötullega við þann spuna. Þekking dr. Rubins á Mið-Austurlöndum verður ekki dregin í efa. Doktorsritgerð hans fjallaði um Íran og hann hefur ferðast um Mið-Austurlönd og dvalist víða á þeim slóðum. M.a. var hann ráðgjafi bráðabirgðastjórnarinnar í Bagdad 2003-2004. En hvað sem um þekkingu dr. Rubens má segja, þá hefur hann fyrst og fremst þjónað hlutverki spunameistara eða, svo það sé orðað umbúðalaust, lygara, í því skyni að undirbúa og hvetja til árásarstríðs.
Elías Davíðsson hefur sent ritstjóra Friðarvefsins skeyti varðandi þessa ógeðfelldu heimsókn. Elías kemst svo að orði: „Þessi maður var einn af þeim sem vann undir Donald Rumsfeld í þeim tilgangi að mata forseta Bandaríkjanna með rangar upplýsingar um Írak, til þess að stuðla að árásarstríði gegn Írak. Hann ber ábyrgð á dauða hundruð þúsunda manna. Hann er einnig einn af þeim sem reyndi að espa stjórnvöld Bandaríkjanna til árása á Sýrland. … Þessi maður hvetur nú til árásarstríðs gegn Íran. Árásarstríð er skilgreint í þjóðarétti sem einn mestu alþjóðaglæpa. Nokkrir leiðtogar nasísta voru dæmdir til dauða vegna undirbúnings árásarstríðs („crime against peace“). Árásarstríð er einn þeirra glæpa sem Alþjóða sakadómstóllinn hefur lögsögu yfir. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur skilgreint árásarstríð með sérstakri ályktun. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna bannar árásarstríð (gr. 2(4)). Sá sem hvetur til glæpa er sjálfur sekur um saknæmt athæfi. Mun Háskóli Íslands í framtíðinni e.t.v. bjóða mönnum sem mæla með þjóðarmorði einnig til að halda fyrirlestur um kosti og galla þjóðarmorðs?“
Nánari upplýsingar:
Tom Barry:. “On the Road to Damascus? Neo-Cons Target Syria”
Robert Dreyfuss and Jason Vest : “The Lie Factory”
“Smearing Fitzgerald”
Karen Kwiatkowski: “Standing By Your NRO and AEI”
Julian Borger: “The spies who pushed for war”
Varðandi fræðimennsku dr. Rubins er fróðlegt að lesa grein hans: “Mary Robinson, War Criminal?”
Ritstjóri
Stefna, félag vinstri manna, heldur umræðufund um efnið Álver og efnahagslegt sjálfstæði í Lárusarhúsi Eiðsvallagötu laugardaginn 11. mars. kl 14. Framsögu hefur Þórarinn Hjartarson.
Í fréttatilkynningu segir að með fyrirhugaðri uppbyggingu áliðnaðar verði langstærstur hluti iðnaðar hér á landi í eigu þriggja amerískra álrisa, en tveir þeirra munu reyndar vera í eigu sömu aðila. Spurt er hvaða þýðingu það hafi fyrir efnahagslegt sjálfstæði Íslands og hvernig þessi stefna nýtist byggðastefnu. Þá er spurt hvernig sakaskrá þeirra auðhringa, sem hér eru að hasla sér völl, sé á sviði umhverfismála, mannréttinda og heimsvaldastefnu?
Vert er að taka undir þetta. Friðarsinnar hafa fordæmt „öll fyrirtæki sem hagnast á styrjöldum og hernámum víðsvegar um heim, svo sem Bechtel, Halliburton, Caterpillar o.s.frv.“ eins og komist er að orði í yfirlýsingu friðarráðstenu í Tókýó vorið 2003. Bectel, sem er aðalverktaki við byggingu álversins á Reyðarfirði, hefur hagnast mjög á verkefnum sem fyrirtækið fékk í kjölfar innrásarinnar í Írak og einnig mun Alcoa hafa verið viðriðið hergagnaframleiðslu.
eó
Nýlega var einhver fréttaflutningur um það að Bandaríkjamenn hygðust draga allt sitt herlið út úr Írak áður en þetta ár yrði liðið. Reyndar hafa bandarískir ráðamenn alltaf sagt að ekki sé ætlunin að setja upp herstöðvar í Írak til frambúðar. Ýmislegt bendir þó til að það sé ekki raunin, þvert á móti vinni Bandaríkjamenn að því að byggja upp stórar framtíðarherstöðvar í Írak. Nú þegar hefur verið lagður gífurlegur kostnaður í uppbyggingu herstöðva þar sem öll tilhögun er slík að erfitt er að ímynda sér að þær eigi bara að vera til bráðabirgða.
Einna stærst þessara herstöðva er Balad-herstöðin um 70 km norðan við Bagdad. Blaðamaður frá Washington Post var þar á ferð fyrr í vetur og lýsti henni í grein 4. febrúar. „Balad-herstöðin er einstakt sköpunarverk,“ segir hann, „lítill amerískur bær mitt í óvinveittasta hluta Íraks.“ 20 þúsund hermenn eru í herstöðinni en fæstir þeirra fara nokkurn tíma út fyrir hana. Annarri herstöð, al-Asad, er lýst á svipaðan hátt í netútgáfu breska blaðins The Telegraph 11. febrúar. Hún er einnig á svæði þar sem hefur verið mjög óeirðasamt, en þegar inn í herstöðina er komið minnir hún helst á úthverfi í bandarískri borg, segir blaðamaðurinn.
Það eru a.m.k. fjórar slíkar risaherstöðvar í Írak og engin þeirra ber þess merki að þeim sé ætlað að vera tímabundnar. Þær eru eins og amerískar eyjar mitt í eyðimörkinni og bera öll merki þess að eiga að vera til frambúðar. En það hefur verið ótrúlega hljótt um þessar herstöðvar og þær tvær greinar sem hér hefur verið vitnað til heyra til undantekninga. Allt bendir til að þessar fjórar herstöðvar séu komnar til að vera en meiri óvissa ríkir um hina fimmtu af stærstu herstöðvunum í Írak, Camp Victory við alþjóðaflugvöllinn í Bagdad, sem og aðrar minni herstöðvar sem munu vera hátt á annað hundrað talsins. Þeim verður kannski lokað eða færðar í hendur íraska hernum, en hvort það gerist á þessu ári, það er óvíst.
Sjá nánari upplýsingar á Tomdispatch.com og Global Security vefnum.
eó
Þróunaraðstoð – í þágu hverra?
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna
fyrir friði og jafnrétti.
Opinn fundur miðvikudaginn 8.mars 2006 kl.17
í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Sjá dagskrá
Opinn miðnefndarfundur SHA í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, kl. 20.
Meðal fundarefnis: undirbúningur aðgerða 18. mars. Allir velkomnir.