All Posts By

Stefán Pálsson

G-8 og hreyfing hreyfinganna

By Uncategorized

No G8 Kynningarfundur, 30. maí kl. 20:00

Friðarhús er vettvangur funda ýmissa frjálsra félagasamtaka sem eiga það sameiginlegt að berjast fyrir betri og friðsamlegri framtíð.

Þriðjudagskvöldið 30. maí verður haldinn áhugaverður fundur í Friðarhúsi þar sem rætt verður um baráttuna gegn G8-hópnum. Í kynningu fundarbjóðenda segir:

Árlega hittast leiðtogar átta ríkustu, iðnvæddustu og valdamestu ríkja heims, G-8 ríkjanna.

Síðan 1998 hafa þessir leiðtogafundir mætt andspyrnu hvar sem þeir eru haldnir, en hreyfingin sem berst gegn þeim er öðrum þræði nefnd “hreyfing hreyfinganna”. Mannréttinda- og friðarsamtök, hagsmunasamtök sem berjast fyrir réttindum flóttamanna og félagslegu réttlæti eru meðal þeirra fjölmörgu hópa sem hafa tekið höndum saman og komið sér saman um að koma málefnum sínum á framfæri og berjast gegn kapítalisma, heimsvaldastefnu og hnattvæðingu við þessi tilefni. 2007 verður fundurinn haldinn í Þýskalandi og þegar er skipulagning mótmæla hafin og hópar og einstaklingar eru hvattir til að mæta og láta rödd sína heyrast.

Hvað er G8? Hvers vegna að mótmæla? Kemur þetta okkur við?

Kynning, kvikmyndir og umræður eftir á. Allir velkomnir.
Fundurinn verður haldinn í Friðarhúsi, Njálsgötu 87

Sjá nánar:
http://g8-2006.plentyfact.net
http://www.g8-2007.de

Málsverður á föstudag

By Uncategorized

Fjáröflunarmálsverðir Friðarhúss eru sívinsælir. Föstudagskvöldið 26. maí (kvöldið fyrir kjördag) verður blásið til veislu. Guðrún Bóasdóttir (Systa) stýrir eldamenskunni, en matseðillinn er á þessa leið:

Lasagne
Spánskar kartöflueggjakökur (Tortilla de Patatas)
Linsubaunasalat
Vatnsmelónusalat með fetaosti
Brauð

Borðhald hefst kl. 19, en húsið er opnað hálftíma fyrr. Að venju kostar maturinn einungis 1.000 krónur.

Símar herstöðvandstæðinga hleraðir: Hversu lengi var hlerað?

By Uncategorized

Upplýsingar Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um símahleranir á tímum kalda stríðsins hafa vakið verðskuldaða athygli. Þessi tilvik sem um ræðir tengjast öll herstöðvaandstæðingum á einhvern hátt. Samkvæmt heimildum Guðna fengu íslensk stjórnvöld heimildir með dómsúrkurði til símahlerana vegna sex tilvika á árunum 1949 til 1968, átta heimildir alls.

Þessi tilvik voru innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið árið 1949, heimsókn Dwight Eisenhower, yfirhershöfðingja bandalagsins 1951 og koma Bandaríkjahers síðar það sama ár. Þá fengust heimildir til að hlera síma þegar var verið að semja við bresk stjórnvöld um landhelgi Íslands í þorskastríðinu árið 1961, og þegar Lyndon B. Johnson, varaforseti Bandaríkjanna, kom hingað til lands árið 1963. Síðasta tilvikið var árið 1968, þegar utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins fór fram hér á landi.

Öll þessi tilvik tengjast á einhvern hátt baráttu herstöðvaandstæðinga. Alltaf var hlerað hjá Sósíalistaflokknum, nær alltaf hjá Þjóðviljanum, stundum hjá Verkamannafélaginu Dagsbrún og Samtökum hernámsandstæðinga og einu sinni hjá Alþýðusambandi Íslands. Einnig upplýsti Guðni að hleraðir hefðu verið símar hjá einum eða fleiri alþingismönnum í hverju tilfelli. Þegar Johnson kom var veitt heimild til að hlera 6 símtöl, í hinum tilvikunum frá 14 til 25. Í þrjú síðustu skiptin, 1961, 1963 og 1968 var veitt heimild til að hlera síma Dagfara og Samtaka hernámsandstæðinga, forvera Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Samtök herstöðvaandstæðinga hljóta að fagna því að almennt virðist samstaða um að þessar hleranir verði teknar upp á Alþingi og síðan rannsakaðar nánar. En sú spurning situr eftir hvort hleranir hafi verið stundaðar eftir 1968 án dómsúrskurðar. Margir sem tóku þátt í baráttunni gegn herstöðvunum, NATO, Víetnamstríðinu og heimsvaldastefnu Bandaríkjanna á áttunda og níunda áratugnum hafa haft sterkan grun um að símar hafi verið hleraðir. Laust fyrir 1970 fór þessi barátta að ýmsu leyti harðnandi og breytti um svip, róttækar æskulýðshreyfingar urðu til og vitað er að víða í nágrannalöndunum var safnað gögnum um ýmsa baráttumenn og jafnvel beitt símahlerunum. Ef til vill eru engin gögn til sem sanna þetta eða afsanna ef engir dómsúrskurðir eru fyrir hendi, en ef þær hleranir, sem Guðni gat um í erindi sínu, verða rannsakaðar er nauðsynlegt að einnig verði kannað hvort heimildir eða vísbendingar séu um símahleranir eftir 1968.

Einar Ólafsson

Bandaríkin og NATO brjóta gegn NPT-sáttmálanum

By Uncategorized

Kjarnorkuvpon í Evrópu Í febrúar 2005 kom út á vegum Natural Resources Defense Council (NRDC) ritið U.S. Nuclear Weapons in Europe. A review of post-Cold War policy, force levels, and war planning. Á vefnum nukestrat.com tekur höfundur ritsins, Hans M. Kristensen, saman helstu niðurstöður þess:

Bandaríkin hafa nú 480 kjarnorkusprengjur í átta herstöðvum í sex Evrópulöndum: Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi, Tyrklandi og Bretlandi. Þessar 480 sprengjur eru restin af gífurlegu kjarnorkuvopnabúri í Evrópu á kaldastríðsárunum sem náði hámarki árið 1970 en 1973 höfðu Bandaríkin 7300 kjarnorkusprengjur í Evrópu. Sovétríkin voru þá með kjarnorkuvopn í Austur-Evrópu, en þau hafa öll verið fjarlægð. Um 1985 fór verulega að draga úr þessum kjarnorkuvígbúnaði og 1991 ákváðu Bandaríkin með samþykki NATO að fjarlægja kjarnorkuvopnin að mestu, en 480 sprengjur voru sem sagt skildar eftir.

Núna eru Bandaríkin eina kjarnorkuveldið sem hefur kjarnorkuvopn í öðrum löndum. Ætlunin er að beita þessum 480 kjarnorkusprengjum í samræmi við kjarnorkuvopnaáætlanir NATO gegn skotmörkum í Rússlandi eða Mið-Austurlöndum.

Í skýrslunni kemur fram hversu margar bandarískar kjarnorkusprengjur eru eyrnarmerktar kjanorkuvopnalausum NATO-löndum til notkunar. Á stríðstímum yrðu allt að 180 af þessum 480 sprengjum afhentar Belgíu, Þýskalandi, Ítalíu, Hollandi og Tyrklandi til notkunar fyrir flugheri þessara landa. Ekkert annað kjarnorkuveldi eða hernaðarbandalag hefur kjarnorkuvopn eyrnamerkt kjarnorkuvopnalausum löndum.

Þó að Bandaríkin hafi full yfirráð yfir þessum sprengjum á friðartímum, þá er þessi staða kjarnorkuvopnalausu NATO-ríkjanna sem hálfgildings kjarnorkuríki brot á NPT-samningnum um að hefta útbreiðslu kjarnorkuvopna. Bandaríkin og NATO halda því fram að svo sé ekki af því að Bandaríkin hafi yfirráð yfir vopnunum. En kjarnorkuvopnalausu ríkin eru engan veginn óvirk hvað þetta varðar á friðartímum þar sem herflugmenn þeirra æfa kjarnorkuárásir og flugvélar eru tilbúnar til að taka við kjarnorkuvopnum ef nauðsyn krefur. Og með því að veita kjarnorkuvopnalausum ríkjum þann búnað sem þarf til að beita kjarnorkuvopnum ef þess verður þörf eru Bandaríkin og Evrópa að brjóta gegn þeim viðmiðum sem þau sjálf hafa sett um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna í deilum sínum við ríki eins og Íran og Norður-Kóreu.

Þá kemur fram í skýrslunni að Bandaríkin hafa verið að endurbæta svokallaðar B61 kjarnorkusprengjur í Evrópu á síðastliðnum 5 árum.

Árið 1994 gerði Bandaríkjaher ráðstafanir til hægt yrði að beita kjarnorkuvopnum í Evrópu utan ábyrgðarsvæðis Evrópuherstjórnar Bandaríkjahers (EUCOM), sem þýðir að ábyrgðin flyst yfir til CENTCOM, en undir það heyra Mið-Austurlönd, Austur-Afríka og Mið-Asía, þar á meðal Íran og Sýrland. Ekki er ljóst hvort þjóðþing NATO-ríkjanna vissu af þessum ráðstöfunum til að beina kjarnorkuvopnum í Evrópu að og hugsanlega skjóta á Mið-Austurlönd.

Niðurstaða skýrslunnar er að þessi kjarnorkuvopnastefna Bandaríkjanna og NATO feli í sér brot á NPT-sáttmálanum, geri andóf Bandaríkjanna og Evrópu gegn hugsanlegum tilraunum kjarnorkuvopnalausra ríkja til að koma sér upp kjarnorkuvopnum ótrúverðugt og hamli frekari kjarnorkuafvopnun.

Einar Ólafsson

Yfirlýsing frá fundi alþýðuhreyfinganna á fjórða Evrópska samfélagsþinginu í Aþenu 7. maí 2006

By Uncategorized

esf4 Fjórða Evrópska samfélagsþinginu (European Social Forum) lauk í Aþenu 7. maí. Í lok Evrópsku samfélagsþinganna hefur venjulega verið haldinn almennur fundur sem hefur verið kallaður „fundur alþýðuhreyfinganna“ eða á ensku Assembly of the Social Movements. Aðalverkefni þessara funda er að ræða sameiginlega baráttu næstu misserin og koma sé saman um stutta yfirlýsingu. Samskonar fundir hafa verið haldnir í lok Alþjóðlegu samfélagsþinganna (World Social Forum). Á þessum fundum hafa oft verið teknar eða staðfestar ákvarðanir um samevrópska eða alþjóðlega baráttudaga. Rétt er að taka fram að þessar yfirlýsingar eru ekki í nafni samfélagsþinganna sem slíkra, enda ekki gert ráð fyrir að þau skili neinum sameiginlegum yfirlýsingum eða ályktunum. Yfirlýsinguna má finna á ensku og fleiri tungumálum hér.

Við, konur og karlar í alþýðuhreyfingum víðs vegar um Evrópu, hittumst í Aþenu eftir áralanga sameiginlega reynslu, baráttu gegn stríði, nýfrjálshyggju, hverskyns heimsvaldastefnu, nýlendustefnu, kynþáttahyggju, mismunun og arðráni og gegn öllu því sem stefnir vistkerfinu í voða.

Undanfarið ár hefur einkennst af árangursríkri baráttu gegn ýmsum birtingarformum nýfrjálshyggjunnar og má þar nefna evrópsku stjórnarskrána, tilskipun ESB um hafnir og löggjöf um vinnu ungs fólks í Frakklandi.

Hreyfingar í andstöðu við nýfrjálshyggjuna fara vaxandi og takast á við fjölþjóðafyrirtækin, G8-ríkjasamstarfið og stofnanir eins og Alþjóðaviðskiptastofnunina, Alþjóðgjaldeyrissjóðinn og Alþjóðabankann sem og nýfrjálshyggju einstakra ríkja og Evrópusambandsins.

Mikilvægar pólitískar breytingar hafa orðið í Rómönsku Ameríku. Þær hafa hamlað gegn sókn nýfrjálshyggjunnar og í sumum tilvikum hafa alþýðuhreyfingar náð að snúa við þróun einkavæðingarinnar.

Eins og staðan er nú sjáum við mörg tækifæri en einnig margar hættur. Andstaða og andóf gegn stríðinu í Írak og hernámi landsins hafa afhjúpað þær ógöngur sem stefna Bandaríkjanna og Bretlands hefur leitt til. Heimurinn stendur frammi fyrir martröð nýrrar styrjaldar í Íran. Hin óyfirvegaða ákvörðun Evrópusambandsins að hætta fjárveitingum til stjórnvalda í Palestínu er forkastanleg og stefnir stöðu mála þar í enn meiri voða. Og enn hefur ekki verið bundinn endir á kúgun kúrdísku þjóðarinnar.

Íhaldssöm öfl í norðri og suðri ýta undir „átök milli menningarheima“ í því skyni að sundra kúgaðri alþýðu sem svarar með ólíðandi ofbeldi, skrílslátum og aðför að réttindum og heiðri innflytjenda og minnihlutahópa.

Þótt Evrópusambandið sé eitt af auðugustu svæðum heims búa tugir milljóna við fátækt, annaðhvort vegna fjöldaatvinnuleysis eða vaxandi öryggisleysis á vinnumarkaði. Stefna Evrópusambandsins, sem byggist á sífellt aukinni samkeppni innan og utan Evrópu, felur í sér atlögu að atvinnuöryggi, réttindum og velferð vinnandi alþýðu, almannaþjónustu, menntun og heilbrigðiskerfi og svo mætti áfram telja. Evrópusambandið stefnir að launalækkunum, að skera niður atvinnubundin réttindi og gera öryggisleysi á vinnumarkaði að almennri reglu.

Við höfnum nýfrjálshyggju Evrópusambandsins og hverskyns tilraunum til að setja aftur á dagskrá þá stjórnaskrá sem hefur verið hafnað; við berjumst fyrir öðruvísi Evrópu, femínískri, vistvænni, opinni Evrópu, Evrópu friðar, félagslegs réttlætis og sjálfbærs lífs, Evrópu sem er sjálfri sér næg um fæðuöflun, Evrópu þar sem samstaða, viðurkenning á réttindum minnihlutahópa og sjálfsákvörðunarréttur þjóða eru í heiðri höfð.

Við fordæmum nornaveiðar og aðdróttanir gagnvart framfarasinnuðum hreyfingum í Austur- og Vestur-Evrópu, hreyfingum sem berjast gegn hinni kapítalísku hnattvæðingu, hreyfingum sem berjast fyrir annarskonar hnattvæðingu.

Á Evrópska samfélagsþinginu í Aþenu hefur okkur tekist að samhæfa betur hreyfingar í austri og vestri með sameiginlegum ásetningi um að berjast fyrir friði, atvinnu og öryggi. Við munum kynna áætlanir okkar um sameiginlegar aðgerðir í Evrópu til að berjast fyrir helstu atriðum í sameiginlegri stefnu okkar sem við höfum þróað á vettvangi Evrópska samfélagsþingsins.

Við þurfum að samhæfa starf okkar, skilgreina sameiginlegar baráttuaðferðir fyrir næsta tímabil og efla og stækka hreyfingar okkar.

Við skorum á allar hinar evrópsku hreyfingar að taka upp víðtækar umræður í þeim tilgangi að ákveða sameiginleg skref sem við þurfum að stíga á næstu mánuðum varðandi þróun samvinnunnar í sambandi við Evrópsku samfélagsþingin.

Nokkrir mikilvægir atburðir hafa nú þegar verið ákveðnir:

  • Við stefnum að fjöldaaðgerðum til að krefjast þess að hernámsliðin hverfi frá Írak og Afganistan, til að andæfa hótunum um nýtt stríð í Íran, til að mótmæla hernámi Palestínu, til að knýja á um kjarnorkuafvopnun, til að uppræta herstöðvar í Evrópu. Við stefnum að aðgerðum þar að lútandi vikuna 23. til 30. september 2006.
  • Við hvetjum til baráttudags 7. október 2006 í Evrópu og Afríku fyrir skilyrðislausu jafnréttis allra innflytjenda gagnvart lögum og hverskyns réttindum, fyrir lokun allra einangrunarbúða fyrir innflytjendur í Evrópu, gegn útskúfun og brottflutningi innflytjenda, gegn tengingu dvalarleyfis og atvinnuleyfis og fyrir ríkisborgararétti.
  • Við munum á næstu mánuðum samhæfa baráttu okkar enn frekar um alla Evrópu í því skyni að standa vörð um félagsleg réttindi og jafnan rétt allra til almannaþjónustu.

Í janúar 2007 mun Evrópska samfélagsþingið koma saman í Nairobi. Efling afrísku alþýðuhreyfinganna hefur gífurlega þýðingu á heimsvísu. Með því að styrkja enn frekar og byggja upp Alþjóðlegu samfélagsþingin gefst tækifæri til að berjast gegn arðráni og nýlendustefnu Evrópuríkjanna.

Í júní 2007 verður fundur Ráðherraráðs ESB og fundur G8-ríkjanna í Rostock í Þýskalandi. Við stefnum að fjölmennum baráttufundum við það tækifæri.

Heitt friðarhaust 2006

By Uncategorized

Nato Nuclear Threat Mikill hugur er nú í evrópskum friðarsinnum og öðrum baráttumönnum fyrir öðruvísi og betri veröld og eru ýmis fundarhöld og aðgerðir í bígerð.

Aðgerðir gegn bandarískum herstöðvum í Evrópu 1. október

Snemma í vor kom upp sú hugmynd að hafa sameiginlegar aðgerðir um alla Evrópu 1. október gegn bandarískum herstöðvum í álfunni. Þessi hugmynd hefur verið rædd innan Samtaka herstöðvaandstæðinga, en svo vill til að 1. október er áætlað að bandaríska herliðið verði farið héðan að fullu.

Á Evrópska samfélagsþinginu (European Social Forum), sem lauk í Aþenu 7. maí, var tekið undir þessa hugmynd og ákveðið að helga alla síðustu viku septembermánaðar aðgerðum gegn herstöðvum í Evrópu.

Á sama vettvangi var ákveðið að skipuleggja baráttudag 7. október í Evrópu og Afríku fyrir réttindum innflytjenda.

Aðgerðir gegn kjarnorkustefnu NATO í nóvember

Samtökin Bombspotting í Belgíu hafa leitað eftir samstarfi um alla Evrópu um sameiginlegar aðgerðir gegn kjarnorkustefnu NATO dagana 6.-11. nóvember. Jafnframt hafa þau boðað til ráðstefnu í Belgíu 25. nóvember, eftir að ráðherrafundi NATO lýkur í Ríga í Lettlandi.

Ennfremur hafa samtökin Abolition 200o Europe ásamt alþjóðlegum þingmannasamtökum fyrir kjarnorkuafvopnun (The Parliamentary Network for Nuclear Disarmament – PNND) og Palmecentret – The Olof Palme International Center í Svíþjóð hafið undirbúning að ráðstefnu um kjarnorkuafvopnun í Evrópuþinginu 23. nóvember. Abolition 2000 Europe hefur líka boðað til ráðstefnu 6.-7. júlí í tilefni af því að þá verða liðin tíu ár frá því að Alþjóðadómstóllinn gaf út það álit sitt að kjarnorkuvopn væru ólögleg að alþjóðalögum.

Aðgerðir á Íslandi seinnihluta september og 1. október

Eins og fram hefur komið telja Samtök herstöðvaandstæðinga að baráttu þeirra sé engan veginn lokið þótt bandaríska herliðið sé á förum frá Keflavíkurflugvelli. Allt útlit er fyrir að Bandaríkjamenn vilji halda hér einhverri aðstöðu, nánast mannlausri herstöð, íslenska ríkisstjórn reynir allt hvað hún getur að fá einhverja til að stunda hér hermennsku, engar áætlanir eru um úrsögn úr NATO, friðargæslan er enn í herklæðum, enn hefur ríkisstjórnin ekki látið af stuðningi við Íraksstríðið, mannskapur og tæki sem héðan verða flutt munu nýtast til ófriðar annarsstaðar, herstöðvum Bandaríkjanna fer fjölgandi, vígvæðing eykst og hugsanlega er í undirbúningi stríð gegn Íran.

Það er því full ástæða fyrir okkur, íslenska herstöðvaandstæðinga og friðarsinna, að láta í okkur heyra um það leyti sem herstöðin á að tæmast. Við höfum því rætt um að hafa einhverja dagskrá, fundarhöld og aðgerðir alla síðustu viku eða seinni hluta septembermánaðar.

Að sletta skyri og príla upp krana

By Uncategorized

Illvirkjun Reykjavíkurakademían efnir til málþings fimmtudaginn 18. maí milli kl. 16:30 og 18:30. Umræðuefnið er mótmæli og varpa fundarboðendur fram ýmsum áleitnum spurningum í kynningu sinni:

„Í tilefni af því má spyrja hvar mörkin milli eðlilegra og óeðlilegra mótmæla liggja og hvenær mótmælendur gangi of langt. Einnig má spyrja hve langt yfirvöld megi ganga til að hefta mótmælendur. Hvenær helgar tilgangurinn meðalið? Mega mótmælendur sletta skyri og príla upp krana og mega yfirvöld elta mótmælendur á röndum eða loka þá inni í skóla í Reykjanesbæ? Þetta eru ekki aðeins spurningar um einstök tilvik heldur einnig grundvallarspurningar um mikilvægi mótmæla og andstöðu fyrir lýðræðismenningu hverrar þjóðar. “

Frummælendur verða Viðar Þorsteinsson, heimspekingur og Illugi Gunnarsson, hagfræðingur.

Að loknum erindum verða pallborðsumræður með frummælendum og Gesti Guðmundssyni, prófessor í félagsfræði við Kennaraháskóla Íslands og Írisi Ellenberger, sagnfræðingi og umhverfisverndarsinna.

Fundarstjóri er Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki við Viðskiptaháskólann á Bifröst.

Málþingið er haldið í aðalsal ReykjavíkurAkademíunnar, Hringbraut 121, 4. hæð og er öllum opið.

Svíar árétta andstöðu sína við NATO

By Uncategorized

large flag of swedenEnn einu sinni hefur það verið staðfest að sænska þjóðin kærir sig ekki um að landið gangi í Atlantshafsbandalagið. Margoft hefur verið spurt í skoðanakönnunum um afstöðu Svía til bandalagsins og eru niðurstöðurnar ætíð á sömu lund – landsmenn vilja ekki ganga til liðs við hernaðarbandalagið NATO. Hefur þessi einarða afstaða ítrekað valdið leiðarahöfundum Morgunblaðsins gremju.

Nú síðast lýstu 46% aðspurðra í skoðakönnum á vegum Gautaborgarháskóla sig andvíga inngöngu í NATO, en aðeins 22% reyndust fylgjandi.

Það er hins vegar athyglisverð staðreynd að í þeim Evrópuríkjum sem ekki eru meðlimir í Atlantshafsbandalaginu sé í sífellu efnt til skoðanakannanna af þessu tagi, en enginn sér ástæðu til að spyrja íbúa þeirra ríkja sem fyrir eru í bandalaginu um afstöðu þeirra