All Posts By

Stefán Pálsson

Halldór Ásgrímsson, Írak, Diego Garcia og Keflavík

By Uncategorized

Írak

Í Speglinum, fréttaskýringaþætti Ríkisútvarpsins, í dag 15. ágúst, var viðtal við Halldór Ásgrímsson. Hann var spurður um afstöðuna til Íraksstríðsins og sagði að rétt hafi verið að styðja innrásina á sínum tíma. „Hinsvegar fengum við rangar upplýsingar, það liggur fyrir, þannig að það má vel vera að við hefðum tekið aðra ákvörðun ef við hefðum haft þær upplýsingar […] En eitt veit ég, að Saddam Hussein var nú ekkert mjög heppilegur foringi á sviði lýðræðis og mannréttinda.“

Það er vissulega umhugsunarvert, ef Halldór Ásgrímsson telur að íslenska ríkisstjórnin hafi verið blekkt til að styðja innrás í annað land, að hann skuli fara frá án þess að gefa aðra yfirlýsingu en lauslegt svar við spurningu blaðamanna, og reyna svo samt að réttlæta stríðsþátttökuna með tilvísun til að Saddam Hussein hafi verið „ekkert mjög heppilegur foringi á sviði lýðræðis og mannréttinda.“

En það er líka rétt að halda því til haga að veturinn 2002 til 2003 lá það fyrir að þær upplýsingar sem Halldór Ásgrímsson er væntanlega að tala um, upplýsingar um gereyðingarvopn í eigu Íraka, voru mjög hæpnar og vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna óskuðu eftir að fá heldur meiri tíma til að fá málin á hreint. En í ljósi þeirra upplýsinga, sem fyrir lágu, var mjög ólíklegt að greyðingarvopn fyndust í Írak, öfugt við það sem Bandaríkjastjórn hélt fram. Þær upplýsingar lágu fyrir, utanríkisráðuneyti Íslands átti að hafa aðgang að þeim og reyndar gat hver sæmilega netfær maður sem var læs á ensku fundið þær á netinu. Og þá færni þurfti ekki einu sinni því að á þetta var bent í fjölmörgum greinum hér á landi, bæði í dagblöðum og á netmiðlum.

Sem dæmi má nefna að hér á Friðavefnum birtist 29. janúar 2003 greinin „Írak: Nokkar staðreyndir og upplýsingar“. Þar segir m.a.:

„Í viðtalinu við CNN 17. júlí 2002 sagði Scott Ritter [fyrrum vopnaeftirlitsmaður] að 90-95% af verkefnum vopnaeftirlitssveitanna hafi verið lokið þegar þær voru kallaðar heim í desember 1998 og öllum vopnum og verksmiðjum sem þá hefðu fundist hefði verið eytt. Rolf Ekeus tók í sama streng án þess þó að nefna neinar tölur í fyrirlestri sem hann hélt við Washington Institute for Near East Policy 12. nóvember 2002. Hann taldi líka að hinar nýju vopnaeftirlitssveitir, sem tóku til starfa í nóvember 2002, mundu finna öll þau vopn sem til væri í Írak.“

„Þegar þetta er skrifað um miðjan janúar 2003 hafa hinar nýju vopnaeftirlitssveitir fengið að starfa óáreittar og ekki fundið nein vopn sem falla undir bann Sameinuðu þjóðanna. Það er því ekkert sem bendir til að Íraksstjórn hafi brotið það.“

Diego Garcia

Í þessum sama Spegli var einnig sagt frá herstöð Bandaríkjamanna á eynni Diego Garcia í Indlandshafi og grimmdarlegum brottflutningi íbúanna þaðan fyrir rúmum þremur áratugum. Enn er þetta fólk í útlegð og krefst þess að fá að snúa heim. En herstöðin á Diego García er Bandaríkjunum mjög mikilvæg og gegndi lykilhlutverki við innrásirnar í Afganistan og Írak og mun einnig gera það ef til þess kemur að ráðist verði inn í Íran. Hér á Friðarvefnum er grein um þessa herstöð: „Herstöðin á Diego Garcia og mannréttindabrot Breta“.

Keflavík

Það er rétt að hafa það í huga að herstöðin á Keflavíkurflugvelli er hluti af sama hernaðarkerfi og herstöðin á Diego Garcia – og Guantánamo, svo að fleira sé nefnt.

Í ofangreindu viðtali gerði Halldór Ásgrímsson mikið úr vináttu Íslendinga og Breta og Bandaríkjamanna. Vissulega höfum við ekkert upp á þessar þjóðir að klaga frekar en aðrar þjóðir, en seint verður sagt að ríkisstjórnir og hernaðaryfirvöld þessara landa sé félegur félagsskapur. Og aumlegur er hlutur íslensku ríkisstjórnarinnar að væla um vernd hjá stríðsglæpamönnum sem blekktu hana til stuðnings við ólögmætt innrásarstríð.

Einar Ólafsson

Stóráfanga fagnað

By Uncategorized

party10Langþráður draumur herstöðvaandstæðinga rætist í þessari viku, þegar endanlega verður gengið frá kaupum á Friðarhúsinu. Það gerist við undirritun afsals í tengslum við lokagreiðslu útborgunar á húsnæðinu að Njálsgötu 87. Stjórn Friðarhúss SHA hefur lagt á sig ómælda vinnu við söfnun hlutafjár til að tryggja að þessi áfangi næðist, en með því er Friðarhús laust við allar lausaskuldir og einungis stendur eftir tiltölulega lágt tíu ára skuldabréf.

Hlutahafar í Friðarhúsi eru 183 talsins samkvæmt síðustu talningu, en það markmið hefur verið sett að koma tölunni yfir 200 manna markið í haust!

Til að fagna þessum merka áfanga verður haldin móttaka í Friðarhúsi föstudaginn 16. júní, þar sem hluthafar og velunnarar Friðarhúss koma saman og gera sér glaðan dag. Móttakan hefst kl. 18:30 og eru allir velkomnir.

Knattspyrnuáhugamenn úr röðum herstöðvaandstæðinga geta tekið daginn snemma, því kl. 16 verður sýndur leikur Hollands og Fílabeinsstrandarinnar á HM í beinni útsendingu á sýningartjaldi Friðarhúss. Hér er um að ræða einn af stórleikjum riðlakeppninnar og því óhætt að lofa spennandi leik.

Sjálfvígsárásir alvarlegasta ógnin?

By Uncategorized

Bréf til Fréttastofu RÚV

Í frétt, sem birtist á vefsíðu RÚV í dag (13. júní 2006), er greint frá því að samkvæmt mati „bandarískra sérfræðinga í erlendum málefnum og hryðjuverkum“ eru sjálfsvígssprengingar „alvarlegasta ógnin við Bandaríkin en hvorki efnavopn, sýklavopn né kjarnavopn.“

Ef látið er liggja milli hluta hver hafi framið árásirnar 11. september 2001, hefur enginn einstaklingur látist í Bandaríkjunum af völdum sjálfsvígssprenginga á s.l. 10 árum. Þar sem tiltölulega fáir einstaklingar deyja árlega í heiminum í hryðjuverkaárásum (í samanburði við aðrar dánarorsakir), er þess gætt að flagga ekki þessum tölum. Hætt er við að almenningur gleypi ekki við goðsögninni um hryðjuverkaógnina. Nýjasta skýrslan um umfang hryðjuverka í heiminum heitir „Country Reports on Terrorism 2005“ sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna útbýr árlega. Hún er fáanleg hér (á pdf-formi, sjá einnig hér ). Skýrslan er 292 bls. löng. Á bls. 289 (!) eru loksins tölur um fjölda bandarískra þegna sem dóu árið 2005 í hryðjuverkaárásum. Þar uppgötvar maður að 56 bandarískir borgarar (utan hermanna) létust það ár í hryðjuverkaárásum (þ.m.t. sjálfsvígsárásum) í heiminum. Af þeim dóu 47 manns í Írak en enginn í Norður-Ameríku. Þetta eru öll ósköpin sem leiða til þess að 117 „sérfræðingar“ telji sjálfsvígssprengingar „alvarlegustu ógnina við Bandaríkin.“

Tölur um fyrri ár hef ég birt í erindi um hryðjuverk sem ég flutti á ráðstefnu lögfræðinga í París í júní 2005. Erindið heitir „The War on Terrorism: A Double Fraud Upon Humanity“ (fáanlegt á pdf-formi hér). Þær segja svipaða sögu.

RÚV ætti frekar að birta skjalfestar tölfræðilegar upplýsingar um fórnarlömb hryðjuverka, m.a. í samanburði við aðra vá, en áróðurskennt kukl.

Virðingarfyllst,

Elías Davíðsson 13. júní 2006

Yfirlýsing CND um kjarnorkuáætlun Írana

By Uncategorized

imagesstopwaroniran vert Bresku friðarsamtökin Campaign for Nuclear Disarmament (CND) sendu frá sér yfirlýsingu 10. apríl síðastliðinn varðandi kjarnorkudeiluna við Íran. Þar hvetja samtökin alþjóðasamfélagið til að beita sér gegn því að Bandaríkin geri innrás í Íran og sér í lagi beina þau orðum sínum til bresku ríkisstjórnarinnar. Það er ástæða til að hvetja ríkisstjórn Íslands til að beita áhrifum sínum. Þau lönd sem fylgdu Bandaríkjunum að málum gagnvart Írak bera nú sérstaka ábyrgð, þar sem ætla má að rödd þeirra geti haft einhver áhrif á Bandaríkin. Í yfirlýsingunni er gerð góð grein fyrir eðli þessa máls og því höfum við þýtt hana og birtum hér að neðan.

Fyrir þremur árum fylgdi Bretland Bandaríkjunum eftir í innrás í Írak á grundvelli ásakana, sem reyndust rangar, um að Írak hefði gjöreyðingarvopn í fórum sínum. Nú horfum við upp á sambærilegar ásakanir á hendur Íran þar sem Bandaríkjastjórn heldur því fram að í kjarnorkuáætlun Írans felist áætlanir um að þróa kjarnorkuvopn. Er einhver grundvöllur fyrir þessum ásökunum eða er verið að spinna upp réttlætingu fyrir ólöglegri árás á Íran?

Ein helsta ásökunin á hendur írönsku stjórninni er að hún brjóti gegn NPT-sáttmálanum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna, en Íran á aðild að honum. Þess vegna er mikilvægt að vita hvað nákvæmlega stendur í þessum samningi. Fjórða greinin er lykilatriði, en hún fjallar um réttinn til að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Þar stendur eftirfarandi:

1. Ekkert í þessum samningi skal túlka þannig, að það breyti óhagganlegum rétti allra samningsaðila til þess, án mismununar og í samræmi við fyrstu og aðra grein þessa samnings, að efla rannsóknir, framleiðslu og notkun kjarnorku í friðsamlegum tilgangi.

2. Allir samingsaðilar skuldbinda sig til að auðvelda, og eiga rétt á að taka þátt í, sem allra víðtækustum skiptum á tækjum, efni og vísinda- og tæknilegum upplýsingum fyrir friðsamlega notkun kjarnorku. Samningsaðilar, sem eru í aðstöðu til þess, skulu einnig vinna að því, sér í lagi eða ásamt öðrum ríkjum eða alþjóðastofnunum, að efla frekari þróun kjarnorkunotkunar í friðsamlegum tilgangi, sérstaklega á landsvæðum kjarnavopnalausra ríkja, með réttu tilliti til þarfa þróunarsvæða heimsbyggðarinnar.

Fyrsta og önnur grein samningsins banna flutning kjarnorkuvopna milli kjarnorkuvopnaríkja og kjarnorkuvopnalausra ríkja.

Það er ljóst, að samkvæmt NPT-samningum er Íran leyfilegt að þróa kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. Meira en 40 ríki hafa nýtt sér þennan rétt á undanförnum áratugum og mikill meirihluti þeirra á ekki kjarnorkuvopn. Engu að síður er eðlilegt að vera á varðbergi þar sem náin tengsl eru milli ferlisins við framleiðslu kjarnorku í friðsamlegum tilgangi annarsvegar og kjarnorkuvopna hinsvegar, sem sagt auðgun úrans. Þar er samt ekki um að ræða nein sjálfvirk eða bein tengsl af því að það þarf miklu minna af auðguðu úrani til framleiðslu kjarnorku en til framleiðslu kjarnorkuvopna eða 3% á móti 90%.

En vegna þessara nánu tengsla og vegna þess að þróun frá kjarnorkuframleiðslu til framleiðslu kjarnorkuvopna er möguleg, þá kveður NPT-sáttmálinn á um ákveðin öryggisákvæði. Þau er tilgreind í þriðju grein sáttmálans:

1. Sérhvert kjarnavopnalaust ríki, sem er samningsaðili, skuldbindur sig til að fara eftir öryggisákvæðum, sem sett verða fram í samkomulagi, sem samið verður um og gert verður við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina í samræmi við stofnskrá Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar og öryggiskerfi stofnunarinnar, til þess eingöngu að sannprófa, hvort það hefur uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi, er miða að því að koma í veg fyrir, að kjarnorku verði veitt frá friðsamlegri notkun til kjarnavopna eða annarra kjarnasprengjutækja. Öryggisreglum þeim, sem krafist er í þessari grein, skal fylgt að því er varðar vinnsluefni eða sérstakt kjarnkleyft efni, hvort heldur er við framleiðslu, umbreytingu eða notkun þess í öllum helztu kjarnorkustöðvum eða þegar það er utan við slíka stöð. Öryggisákvæðin, sem krafizt er í þessari grein, eiga að ná til alls vinnsluefnis eða sérstaks kjarnkleyfs efnis við alla friðsamlega notkun kjarnorku á landssvæði slíks ríkis, í lögsögu þess eða hvar sem er undir stjórn þess.

Þannig kveður þriðja greinin á um að aðildarríkin verði að fallast á öryggisákvæði Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, en samkvæmt þeim má sannreyna að kjarnorkuframleiðsla sé ekki nýtt til þróunar kjarnorkuvopna. Hér er það sem Íran hefur ekki staðið sig og með því gefið ástæðu til gagnrýni og áhyggna. Fyrir 2003 veitti Íran Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni ekki fullan aðgang að öllum þeim stöðum þar sem kjarnorkuframleiðsla eða þróun hennar fór fram eins og kveðið er á um í samningum um öryggisákvæði. Þeir staðir, sem ekki var hægt að gefa skýrslur um, voru Jabr Ibn Hayan rannsóknarstöðin í Teheran, Esfahan eldsneytisauðgunarstöðin, Natanz eldsneytisauðgunarstöðin og Arak Iran tilraunakjarnorkuverið.

Þær ásaknanir, sem nú eru bornar á hendur írönsku stjórninni, eru byggðar á þessum gömlu syndum og þótt hún hafi síðan gefið eftir hefur málið verið blásið enn frekar upp. En eru þau hörðu viðbrögð, sem sýnd eru núna, í einhverju samræmi við stöðuna eða réttlætanleg af henni?

Satt að segja hafa allar ofangreindar kjarnorkustöðvar verið settar undir öryggisákvæði Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar eins og stofnunin hefur greint frá. Íran hefur líka samþykkt viðbótarreglur (Additional Protocols), en mörg ríki, sem eru með kjarnorkuframleiðslu, hafa ekki gert það. Þessar reglur veita meiri aðgang til eftirlits en öryggisreglurnar gera. Á undanförnum þremur árum hafa verið gerðar mjög miklar athuganir á kjarnorkustöðvum Írans og auk þess hefur Íran veitt aðgang að ýmsum hernaðarlegum stöðum og samt hefur ekkert fundist sem gefur tilefni til að ætla að Íran sé nú eða hafi verið með áætlanir um að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Tregða íranskra stjórnvalda við að gefa upplýsingar um gerðir sínar fyrir 2003 hefur auðvitað veikt stöðu Írans og gefið tilefni til gagnrýni, og ekki hafa ógeðfelldar yfirlýsingar Ahmadinejads forseta nýlega um Ísraelsríki bætt úr skák. Kjarnorkuvopnaeign Ísraels, í trássi við margar ályktanir Sameinuðu þjóðanna um kjarnorkuvopnalaus Miðausturlönd, veldur tvímælalaust aukinni spennu á svæðinu, en öfgafullar yfirlýsingar forsetans hafa aukið enn á vandann. Þar að auki ber það vott um mikla hræsni að bandarísk stjórnvöld líta fram hjá kjarnorkuvopnaeign Ísraels meðan þau beina spjótum sínum að Íran. Þessi tvískinnungur ýtir undir ótta um að Bandaríkin séu að spinna upp falskar ástæður til að skipta um stjórn í Íran í því skyni að ná tökum á hinum ríku orkulindum landsins.

Í því skyni að endurheimta traust varðandi áætlanir sínar samþykkti Íran í nóvember 2004 – í viðræðum við Bretland, Frakkland og Þýskaland, ESB-löndin þrjú – að fresta tímabundið áætlunum sínum um auðgun úrans. Meðan á þessum fresti stæði var ætlunin að ESB-löndin þrjú kæmu með áætlanir um efnahagslega hvatningu og öryggistryggingar sem Íran fengi fyrir að láta vera að auðga sitt eigið úran. Málið er að Bandaríkin hafa gengið hart fram í, að Íran fái ekki fullt vald yfir öllu ferlinu í kjarnorkuframleiðslu sinni vegna möguleikans á að þróa það yfir í framleiðslu kjarnorkuvopna, og að auðgun úransins fari fram annarsstaðar. Á þessum loforðum urðu engar efndir og þar með hefur Íran hætt við að slá áætlunum sínum á frest og fullyrðir enn á ný, í samræmi við alþjóðalög og samninga, að ríkið hafi fullan rétt til að ráða yfir öllu ferlinu í kjarnorkuframleiðslu sinni, og að það muni fara eftir öryggisákvæðum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Rússland hefur átt í viðræðum við Íran um þann möguleika að Rússland taki að sér að sjá um auðgun úrans fyrir Íran að mestu leyti meðan Íran héldi eftir litlum hluta þessarar starfsemi. Svo virðist sem samkomulag þessa efnis hafi verið nánast í höfn milli þessara tveggja ríkja en Bandaríkin gátu jafnvel ekki sætt sig við auðgun úrans í litlum mæli og þar með var tilgangslaust að halda þessum viðræðum áfram. Afstaða Bandaríkjanna virðist vera að ekki eigi að „umbuna“ írönskum stjórnvöldum fyrir hversu ósamvinnuþýð þau hafa verið á liðnum árum með minnsta möguleika á að auðga úran.

En samtímis því sem Bandaríkin taka afstöðu gagnvart Íran, sem virðist útiloka alla möguleika á samkomulagi, og viðurkenna ekki þá staðreynd að Íran hefur gengið lengra en formlega er krafist varðandi vopnaeftirlit, hefur forseti Bandaríkjanna gert mjög svo umdeilanlegan samning við Indland varðandi kjarnorkumál. Indland, sem hóf framleiðslu á kjarnorkuvopnum seint á tíunda áratug síðustu aldar, hefur ekki undirritað NPT-samninginn og er þess vegna ekki háð samningum um öryggisákvæði. Samingurinn tryggir samvinnu við Bandaríkin um framleiðslu kjarnorku í friðsamlegum tilgangi en Indland heldur réttinum til að neita eftirlitsmönnum Bandaríkjanna um aðgang að kjarnakljúfum sínum sem geta framleitt úran fyrir kjarnorkusprengjur. Hér er aftur um að ræða tvískinnung hjá Bandaríkjunum sem hefur valdið miklum áhyggjum víða um heim en tilgangurinn er vaflaust að treysta böndin við hernaðarlega bandamenn í Asíu.

Staðreyndin er að allt efni til kjarnorkuvinnslu í Íran, sem gerð hefur verið grein fyrir, hefur verið kannað og það hefur ekki verið þróað til framleiðslu kjarnorkuvopna. Sem stendur eru engar vísbendingar um að Íran sé með efni eða starfsemi til kjarnorkuframleiðslu sem ekki hefur verið gerð grein fyrir. Fyrri rannsóknir Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar hjá kjarnorkuvopnalausum ríkjum, sem hafa vald yfir öllum þáttum kjarnorkuframleiðslu, hafa tekið allt að sex árum, þannig að það væri við hæfi að gefa tíma til vopnaleitar og samninga í stað þessa óvenjulega þrýstings og flýtis sem settur er gagnvart Íran, og sér í lagi þegar það er almennt viðurkennt að Íran á enn mörg ár í að geta framleitt kjarnorkuvopn, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir að að því sé stefnt. Það er ekki auðvelt að horfa framhjá samsvöruninni við aðdraganda Íraksstíðsins þar sem vopnaeftirlitsmenn Sameinuðu þjóðana fóru fram á meiri tíma til kannana en Bandaríkin höfnuðu því og kusu þess í stað að hraða ólöglegu stríði sem var réttlætt með innistæðulausum ásökunum. Heimurinn hefur undanfarin þrjú ár horft upp á hræðilegar afleiðingar þess stríðs. Alþjóðasamfélagið verður nú að vinna einarðlega að því að koma í veg fyrir árás á Íran og ríkisstjórn Bretlands verður að nýta sérstakt samband sitt við bandarísk stjórnvöld í því skyni. Ef þetta tekst ekki verða afleiðingarnar skelfilegar fyrir Miðausturlönd og alla heimsbyggðina.

Friðargæsla

By Uncategorized

Pacification Hugtakið „pacification“ (sjá skilgreiningu að neðan) var einu sinni notað af Bandaríkjamönnum til að snyrta sýn ofbeldisverka sinna í Suðaustur-Asíu. Eftir því sem menn áttuðu sig betur á inntaki orðsins minnkaði áróðursgildi þess. Leitað var að nýjum hugtökum. Nú nota árásaraðilar víðsvegar hugtökin „peace operations“, „peace maintenance“ og fleiri friðartengd orð til að lýsa hernaðaraðgerðum sínum, t.d. í Afganistan. “Friðargæsla” þar felst m.a. í því að innrásarher „upprætir“ (les: drepur án dóms og laga) landsmenn sem berjast gegn hernámsliðinu og leppum þess.

Hlutlæg lýsing á á deilumáli felst í því að báðir aðilar að deilunni geta fallist á lýsinguna. Er unnt að lýsa með hlutlægum hætti framferði erlendra herja í Afganistan? Hér er ein tilraun:

„Hersveitir Atlantshafsbandalagsins gerðu árás á sveitarþorp í Suður-Afganistan til að drepa meðlimi Talíbanahreyfingar sem berjast gegn stjórninni í Kabúl.”

Elías Davíðsson

Pacification (source: Wikipedia)

The word “pacification” is most often used as a euphemism for counter-insurgency operations by a dominant military force. It involves eliminating the insurgents, sympathizers with the insurgents, and often some of the local civilian population, in order to crush the resistance to the rule of the occupying or invading force. It has little to do with the ordinary meaning of the word “pacify”, except in the sense that dead people are usually very peaceful.

Sjá einnig grein eftir kanadískan hermann, Patrick Cain, I was trained to kill.

Kanaútvarpið hættir

By Uncategorized

Kanaútvarpinu, útvarpsstöð bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli, var lokað 1. júní síðastliðinn eftir 55 ára starfsemi. Þessi starfsemi var löngum umdeild, ekki síst sjónvarpsútsendingarnar sem hófust árið 1960 og margir á suðvesturhorninu nýttu sér, einkum áður en Ríkisútvarpið hóf sjónvarpsútsendingar árið 1966. Áhrifa þessarar útvarpsstöðvar gætti þó líklega fyrst og fremst á sviði dægurtónlistar eins og fram kemur í frétt Víkurfrétta af lokuninni. Í grein á vefsíðunni ogmundur.is segist Rúnar Sveinbjörnsson hins vegar ekki sjá eftir þessari útvarpsstöð og rifjar upp þegar hópi herstöðvaandstæðinga tókst að komast inn í sjónvarpsstöðina á Keflavíkurflugvelli og rjúfa útsendingar stöðvarinnar:

KANAÚTVARP IN MEMORIAM

Haft var samband við mig (ekki í síma) og ég spurður hvort ég væri tilbúinn að fara til Keflavíkur og mótmæla hernum og Nató. Ég var akandi, átti Moskvít, sem troða mátti í fjórum grönnum mönnum. Hluti liðsins hugðist taka rútu eða fara í öðrum bílum.

Moskvítinn var fylltur af úlpuklæddum friðarsinnum og haldið til Keflavíkur. Þegar að hliðinu var komið, þótti laganna vörðum ásamt verndurunum ósennilegt að þessir fjórir menn væru að taka á móti farþegum og var vísað frá. Því var þannig fyrir komið að í för var Keflvíkingur staðháttum kunnugur. Með snarræði og kunnáttu breyttum við í áætlun B. Keflvíkingurinn vísaði til vegar og lærlingsklippur mínar komu að góðum notum. Síðan var tekið á sprett og náð á áfangastað einhverjum mínútum of seint. En hvað um það, fleiri voru seinir fyrir þannig að inn í Kanaútvarpið gengu 14-17 friðarsinnar og listamenn.

Þegar inn var komið var hálfvandræðalegt ástand, útvarpsmenn undrandi og við einnig, engin mótspyrna stöðin féll án átaka eða vopna. Listamaðurinn skreytti myndverið með slagorðunum Ísland úr Nató á ýmsum tungumálum, litaði linsur hersins rauðar, enda ekki vanþörf, heimurinn hefur alltaf verið svart hvítur hjá könunum.

Sem áhugasamur rafvirkjanemi virti ég fyrir mér raflagnir stöðvarinnar sem voru einfaldar og utanáliggandi. Til þess að kanna hvort rétt væri kippti ég út höfuðrofanum og viti menn allt varð myrkt nema örfá öryggisljós. Þeirri hugsun skaut upp að ekki væri “varnarkerfi” landsins ýkja sannfærandi. Ekki skorti hinar sýnilegu varnir og reyndar ekki hinar ósýnilegu eins og fyrr getur.

Eftir mikið japl og fuður mynduðum við hring í keðju og vorum tínd eitt og eitt út í einu og mynduð af CIA.

Eftirmálar urðu nánast engir, enda um að ræða háðung hina mestu fyrir Bandaríkjaher sem hann án efa var ekki mjög áhugasamur um að auglýsa út fyrir landsteinanna.

Rúnar Sveinbjörnsson,
fyrrverandi rafvirkjanemi

Vígvæðing NATO: Bandaríkjamenn koma gagneldflaugum fyrir í Póllandi og Tékklandi

By Uncategorized

antimissile Í grein í New York Times 22. maí var sagt frá því að Bandaríkjastjórn áætli að vera búin að koma upp 10 gagneldflaugum í Evrópu árið 2011. Meðal þeirra landa sem helst er litið til eru Pólland og Tékkland, sem gerðust aðilar að NATO árið 1999. Pentagon hefur beðið þingið um 56 milljónir dala til að hefja verkið en áætlað er að það kosti allt í allt 1,6 milljarða dala.

Tékknesk stjórnvöld hafa farið ákaflega dult með þetta, trúlega til að komast hjá því að þetta yrði að kosningamáli við nýafstaðnar þingkosningar. Hins vegar hefur verið öllu opinskárri umræður um þetta í Póllandi. Ef af þessu verður yrði þetta fyrsta hernaðaraðstaðan sem Bandaríkjamenn koma sér upp í Póllandi, en þeir hafa nýlega samið um herstöðvar í Búlgaríu.

Þessar áætlanir valda mörgum áhyggjum vegna pólitískra áhrifa þeirra. Í viðtali við pólska blaðið Gazeta Wyborcza í desember sagði yfirhershöfðingi Rússlands, Júrí Balújevskí: „Hvað getum við gert? Gjörið svo vel, komið ykkur upp þessari varnalínu. En þið verðið líka að hafa í huga hvað getur seinna meir dottið niður á hausinn á ykkur. Ég get ekki séð fyrir neina kjarnorkuárekstra milli Rússlands og Vesturlanda. Hins er það skiljanlegt að lönd, sem eru hluti af svona varnarlínu, auka áhættu sína.“ Og varnarmálaráðherra Rússlands, Sergej Ívanov, sagði í viðtali við dagblað í Hvíta-Rússlandi að þessar framkvæmdir í Póllandi mundu hafa slæm áhrif á allt öryggiskerfi Evrópu og Norður-Atlantshafsins. „Þetta staðarval fyrir þessi tæki er vægast sagt mjög vafasamt,“ sagði hann.

Þessar áætlanir eru hluti af áætlun sem stjórn Bush hefur verið með frá upphafi og birtist meðal annars í því þegar stjórnin sagði upp ABM-samningnum (Antiballistic Missile Treaty) um takmörkun eldflaugavarna árið 2002. Þessar gagneldflaugar eru sagðar vera til varnar árásum frá Norður-Kóreu og Íran. Nú þegar hefur níu gagneldflaugum verið komið upp í Fort Greely í Alaska og tveimur í Vandenberg-herstöðinni í Kalíforníu. Þá eru endurbætur á radar-stöðvunum í Fylingdale á Bretlandi og Thule á Grænlandi hluti þessa verkefnis. Pentagon hefur sótt um samtals 9,3 miljarða dala til þessa verkefnis fyrir árið 2007.

Rétt er að hafa það í huga að þessar framkvæmdir koma NATO að sjálfsögðu mjög við. Pólland og Tékkland eru valin vegna aðildar þeirra að NATO og haft er eftir Henry A. Obering, yfirmanni eldflaugavarnadeildarinnar í Pentagon, að þessar gagneldflaugar muni fullkomna áætlun NATO um að þróa eldflaugavarnir.

Greinina í New York Times má nálgast hér.

Sjá einnig:
Bandaríkin og NATO brjóta gegn NPT-sáttmálanum hér á Friðarvefnum.
The US National Missile Defence System, NMDS, NMD. Fredsakademiet

Einar Ólafsson

Haditha: My Lai Íraks?

By Uncategorized

My Lai 1968 Fréttir af fjöldamorðum bandarískra hermanna í bænum Haditha í Írak 19. nóvember í fyrra hafa vakið mikla athygli. Þessi atburður hefur leitt huga margra að árásinni á Fallujah í nóvember 2004 en einnig rifjast nú upp fyrir mörgum fjöldamorðin í bænum Song My í Víetnam 16. mars 1968. Í þessum bæ, sem er reyndar þekktari undir nafninu My Lai, gengu bandarískir hermenn berserksgang og reyndar af enn meira offorsi en í Haditha, því að talið er að um 500 íbúar bæjarins hafi verið drepnir þar. Eftir þennan atburð tók bandarískur lögmaður, Mark Lane, sig til og ræddi við allmarga bandaríska hermenn sem höfðu tekið þátt í pyndingum og drápum á óbreyttum borgurum og birti í bók sem kom út í íslenskri þýðingu undir nafninu „Og svo fór ég að skjóta…“. Þessi bók er sígild heimild um viðurstyggð hernaðar. Hún er enn aðgengileg á mörgum bókasöfnum.

http://en.wikipedia.org/wiki/Haditha_massacre
http://en.wikipedia.org/wiki/My_Lai
http://www.rememberfallujah.org/

Fundað í friðarhúsi

By Uncategorized

Miðnefnd SHA og stjórn Friðarhúss funda sameiginlega til að ræða starfsemina næsta haust og rekstur húsnæðisins. Fundurinn er öllum opinn.