All Posts By

Stefán Pálsson

Ályktun varðandi heræfingar

By Uncategorized

Ályktun þessi var samþykkt á landsfundi SHA laugardaginn 15. mars:

Landsfundur SHA lýsir furðu á fréttum sem borist hafa af því að við mótun nýrrar þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sé gert ráð fyrir áframhaldi þeirra herflugsæfinga sem kallaðar hafa verið loftrýmisgæsla.

Æfingar þessar hafa þann eina tilgang að vera þjálfunarbúðir fyrir orrustuflugmenn þeirra Nató-herja sem hingað vilja koma og nýta sér ákafa stjórnvalda til að lána íslenskt land undir siðlausar og truflandi æfingar. Sífellt berast fregnir af ónæði almennings og náttúruraski vegna þotuflugs af þessu tagi. Það væri þá lágmarkskrafa að utanríkisráðherra á hverjum tíma hýsi þær í sinni heimabyggð.

SHA minna á að endanlegt markmið lofherja sé að heyja stríð og drepa fólk. Slíkri starfsemi eiga landsmenn ekki að leggja lið með neinum hætti.

Fundur SHA með framboðunum í Reykjavík

By Uncategorized

Samtök hernaðarandstæðinga efna til fundar með yfirskriftinni „Friðarborgin Reykjavík? – Hver er afstaða framboðanna til friðarmála?“ á efri hæð Sólon Íslandus í Bankastræti kl. 12 miðvikudaginn 21. maí.

Þangað hefur verið boðið fulltrúum allra framboða í borgarstjórnarkosningunum í vor til að sitja fyrir svörum og gera grein fyrir stefnu flokks síns.

Hægt verður að kaupa súpu ásamt brauði á kr. 950.

Allir velkomnir.

Fáfróðir vilja stríð

By Uncategorized

Í gegnum tíðina hafa íslenskir friðarsinnar lengi haldið því fram að einhver besta leiðin til að afla málstað sínum fylgis væri einfaldlega að fræða fólk um gang heimsmálanna. Stuðningur við stríðsaðgerðir er einmitt sjaldnast réttlættur nema með afar yfirborðskenndum vísunum í aðstæður í þeim löndum þar sem sprengja skal. Þvert á móti forðast stríðsæsingamenn efnislegar umræður eins og heitan eldinn og grípa til frasa á borð við að enginn tími sé til að ræða málin heldur þurfi tafarlausar aðgerðir.

Read More

1. maí kaffi SHA 2014

By Uncategorized

Morgunkaffi SHA á 1. maí er víðfræg samkoma og í hugum margra ómissandi hluti af baráttudegi verkalýðsins. Húsið opnar kl. 11, en ganga verkalýðsfélaganna fer af stað kl. 13:30.

Allir velkomnir í 1. maí-kaffið í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.

Verð kr. 500

Fjáröflunarmálsverður aprílmánaðar

By Uncategorized

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi er kokkur aprílmánaðar í málsverðinum föstudagskvöldið 25. apríl. Matseðillinn er ekki af verri endanum:

  • Ofnbakaður þorskur í grænmetis – karrýsósu
  • Hrísgjón, salat og brauð
  • Fyrir þá sem ekki borða dýrindis fisk verður grænmetisréttur í karrý
  • Aðalbláberjaterta í eftirrétt

Tónlistarmaðurinn Gímaldin tekur lagið að borðhaldi loknu. Sest verður að snæðingi kl. 19. Verð kr. 2000. Allir velkomnir.

Er femínismi heimsvaldastefna? : lesendabréf til Knúz.is

By Uncategorized

Hinn 11. apríl sendum við bréfið hér að neðan til ritstjórnar Knuz.is og báðum um að það yrði birt á vefsíðunni. Ritstjórnin sá sér ekki fært að birta bréfið eins og það er. Því birtum við það hér, enda teljum við að bréfið eigi erindi við lesendur Fridur.is.

Föstudaginn 4. apríl birtist á Facebook-vegg Knuz.is tengill á pistil úr málgagninu Foreign Policy. Greinin bar fyrirsögnina „The Men-Only Club“ (Karlaklúbburinn), og í undirfyrirsögn var spurt: „Why, after 65 years, can’t NATO find a woman to head the alliance?“ (Hvers vegna getur NATO, eftir 65 ár, ekki fundið konu til að stýra bandalaginu?) Með deilingunni á pistlinum birti Knuz.is texta sem gaf til kynna að tekið væri undir með málflutningi höfundar hans, að það væri sigur fyrir kvennabaráttuna ef kona yrði framkvæmdastjóri NATO.

Read More

Ályktun um NATÓ

By Uncategorized

Ályktun þessi var samþykkt á landsfundi SHA laugardaginn 15. mars:

Áætlað er að á þessu ári yfirgefi vestrænir hermenn Afganistan eftir þrettán ára dvöl. Í fyrstu átti stríð Bandaríkjamanna og bandalagsþjóða þeirra í þessu fátæka landi að taka skjótt af og ljúka með frægum sigri. Veruleikinn blasir nú við. Eftir öll þessi ár, með tilheyrandi útgjöldum og hörmungum fyrir íbúa landsins, er vart hægt að kalla útkomu Nató-ríkja annað en fullkominn ósigur.

Hernaður Nató-þjóða í Afganistan felur í sér siðferðislegt gjaldþrot. Alþjóðlegir mannréttindasáttmálar hafa verið þverbrotnir og grundvallarlögum á borð við Genfarsáttmálann varpað fyrir róða. Vélmennahernaður svokallaðra dróna hefur kostað ótal mannslíf og enn í dag má finna fanga í Guantanamo-búðunum sem þar hafa mátt dúsa án dóms og laga svo árum skipti.

Framferði Nató í Afganistan helst í hendur við sívaxandi árásareðli þess á liðnum árum. Bandalagið keppist við að leita sér nýrra verkefna til að réttlæta tilveru sína og hefur í því skyni drepið niður fæti í fjarlægum löndum. Færa má rök fyrir því að Nató sé í dag ein helst ógnin við frið og öryggi í veröldinni. Landsfundur Samtaka hernaðarandstæðinga áréttar að löngu tímabært sé að Ísland segi skilið við bandalag þetta.

Sókn Pútíns sem nauðvörn

By Uncategorized

Þórarinn Hjartarson á Akureyri sendi Friðarvefnum þessa grein til birtingar.

Nú er hafið efnahagslegt stríð gegn Rússlandi. Viðskiptaþvinganir og diplómatísk einangrun. Bandaríkin eiga frumkvæðið. Evrópuríkin fylgja á eftir í halarófu – að vanda. Ísland veitir virkan stuðning – eins og venjulega þegar ófriður er í boði. Ástæðan er íhlutun Rússlands í málefni Úkraínu. Nú eru stóru vopnin skekin.

Ásakanir Rússa um vestræna íhlutun í Úkraínu, tal Pútíns um að Bandaríkin og Vesturveldin hafi staðið á bak við valdaskiptin í Úkraínu og þar með umsátur um Rússland eru hins vegar afgreidd í vestrænni pressu sem samsæriskenning. Hlustið bara á eða lesið íslensku pressuna. Vestræn íhlutun er þar aldrei til umræðu. Óheillavænleg þróun mála á Krím er sprottin af valdahroka Pútíns, punktur og basta. Pútín er æ oní æ líkt við Hitler. Fyrstur til þess varð Zbigniew Brzezinski, gamli utanríkisráðgjafi Carters forseta sem enn hefur háa stjörnu og sem Obama kallar „one of our most outstanding thinkers“. Daginn eftir fylgdu bæði Hillary Clinton og John McCain í kjölfarið og brúkuðu Hitlerstimpilinn á Pútín. Garry Kasparov tönglaðist á því í viðtali við Þóru Arnórsdóttur og síðan hefur hver étið það upp eftir öðrum. Sjá: Brzezinski compared Putin to Hitler.

Nú skal horft í austur og rök færð fyrir því að vestræn íhlutun sé einmitt afgerðandi í Úkraínu og að umsátrið um Rússland sé raunverulegt. Read More

Fjáröflunarmálsverður marsmánaðar

By Uncategorized

Föstudagskvöldið 28. mars verður fjáröflunarmálsverður Friðarhúss haldinn. Matseld verður í höndum MFÍK og er matseðillinn sem hér segir:

  • Chili con carne
  • Chili sin carne
  • Hrísgrjón
  • Brauð
  • Kaffi og meðlæti

Árni Hjartarson jarðfræðingur mun mæta, taka lög og segja sögur úr baráttunni.

Borðhald hefst að venju kl. 19. Verð kr. 2.000.

Úkraína og Krímskagi – félagsfundur SHA

By Uncategorized

Málefni Úkraínu hafa mikið verið til umræðu upp á síðkastið vegna pólitísks óstöðugleika og rússneskrar íhlutunar. Samtök hernaðarandstæðinga boða til opins félagsfundar um málið miðvikudaginn 26. mars kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87. Leitast verður við að varpa ljósi á bakgrunn átakanna í landinu og þróun síðustu mánaða.

Framsögumaður verður Sverrir Jakobsson sagnfræðingur, en að erindinu loknu mun hann sitja fyrir svörum í pallborði ásamt Árna Bergmann rithöfundi.

Allir velkomnir.