Miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga gagnrýnir harðlega boðaðar æfingar rússneskra herskipa í grennd við Ísland sem sagt hefur verið frá í fjölmiðlum. Æfingar af þessu tagi þjóna engu uppbyggilegu hlutverki og þeim fylgja ýmsar hættur ekki hvað síst þar sem í för verða kjarnorkuknúin farartæki og skip sem að öllum líkindum eru búin kjarnavopnum.
SHA minna á það baráttumál sitt að Alþingi Íslendinga samþykki að friðlýsa Ísland og íslenska lögsögu fyrir allri geymslu og umferð kjarnorkuvopna. Illu heilli hafa stjórnvöld þvertekið fyrir að standa að slíkri friðlýsingu og bera því við að hún samrýmist ekki aðildinni að NATO þar eð slík vopn eru hluti að vígbúnaði NATO. Íslensk stjórnvöld geta því illa mótmælt hinum fyrirhuguðu æfingum.
Jafnframt árétta SHA þá kröfu sína að látið verði af “kurteisisheimsóknum” erlendra herskipa í íslenskar hafnir. Íslendingum er enginn sómi sýndur með komu slíkra gesta.
Nú hefur verið sett upp stærra og betra sýningartjald í Friðarhúsi og eru því aðstæður til fótboltaáhorfs orðnar enn betri en áður.
Allir leikir sem eftir eru á HM verða sýndir í Friðarhúsi fyrir boltaþyrsta friðarsinna. 16-liða úrslitum lýkur þriðjudaginn 27. júní með tveimur leikjum en fjórðungsúrslit verða leikin föstudag og laugardag. Allir velkomnir.
Samkvæmt nýrri skoðankönnun Gallup er meirihluti þjóðarinnar hlynntur uppsögn herstöðvasamningsins. Skv. könnuninni eru 53,9 mjög eða frekar hlynnt uppsögn samningsins en aðeins 24,8% mjög eða frekar andvíg. 21,3% sagði hvorki né. Munurinn er þó meira afgerandi ef betur er rýnt í tölurnar, því að 33,2% eru mjög hlynnt uppsögninni en aðeins 9,4% mjög mótfallin:
Mjög hlynnt(ur): 33,2%
Frekar hlynnt(ur): 20,6%
Hvorki né: 21,3%
Frekar andvíg(ur): 15,4%
Mjög andvíg(ur): 9,4%
Í könnunni var einnig greind afstaða eftir tekjum, menntun, kyni, aldri og afstöðu til stjórnmálaflokka. Meirihluti er með uppsögn meðal fylgismanna allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins, en þar eru þó fleiri með uppsögn en móti, eða 41,3% á móti 37,8% meðan 20,8% segja hvorki né.
Þessi skoðanakönnun var gerð fyrir Helga Hjörvar alþingismann og má lesa nánar um hana á heimasíðu hans en þar er einnig tilvísun í greinargerð Gallup fyrir könnuninni þar sem skoða má nánari greiningu á henni.
Í grein sinni segir Helgi einnig: „Samfylkingin hefur kallað eftir því að virkjuð sé 7. grein samningsins sem setur í gang formlegt málamiðlunarferli sem lyktað getur með formlegri uppsögn samningsins. Það er auðvitað löngu tímabært að taka það skref enda ljóst að enginn áhugi er á því hjá þjóðinni að framlengja varnarsamningnum við Bandaríkin. Það er nauðsynlegt fyrir forsætisráðherra að vita þegar hann hittir fulltrúa bandaríska hersins hinn 7. júlí næstkomandi að þjóðin vill einfaldlega segja þessum samningi upp.“
Þess er einnig að geta að hinn nýi utanríkisráðherra Íslands situr þessa dagana á fundi með yfirhershöfðingja NATO, James L. Jones. Eða eins og segir á fréttasíðu Morgunblaðsins 19. júní, þar sem einnig getur að líta hjartnæma mynd af ráðherranum og hershöfðingjanum: „James L. Jones, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, er staddur hér á landi í boði íslenskra stjórnvalda og átti í dag fund með Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra. Á fundinum voru málefni Atlantshafsbandalagsins rædd, s.s. þróun bandalagsins, þátttaka Íslendinga í alþjóðlegu starfi og stuðningur við aðgerðir. Einnig var rætt um stöðu mála í viðræðum Íslands og Bandaríkjanna um varnarsamstarf ríkjanna, eins og segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.“
eó