All Posts By

Stefán Pálsson

Íslensk stjórnvöld ákærð vegna ábyrgðar þeirra á kjarnorkuvopnaáætlun NATO

By Uncategorized

kjarnnei Belgísku friðarsamtökin Forum voor Vredesactie og Bombspotting hafa í samvinnu við Greenpeace hvatt til þess að í aðildarlöndum NATO taki menn sig til og leggi fram kæru á næstu lögreglustöð á hendur viðkomandi ráðamönnum og sendimönnum þeirra og starfsmönnum fyrir þátttöku í að móta og útfæra hernaðarstefnu NATO, sem felst m.a. í að koma fyrir kjarnorkuvopnum og heimila notkun þeirra.

8. júlí 1996 gaf Alþjóðadómstóllinn í Haag út þann úrskurð að það bryti gegn alþjóðalögum að beita kjarnorkuvopnum eða hóta beitingu þeirra. Jafnframt kvað dómstóllinn upp úr með það að skuldbindingin í 6. grein NPT-samningsins um eyðingu kjarnorkuvopna þýddi einfaldlega að öllum ríkjum sem ættu kjarnorkuvopn bæri skylda til að eyða þeim.

Ofangreind samtök skipulögðu fyrst svona aðgerð haustið 2002. Meira en þúsund manns lögðu leið sína á næstu lögreglustöð í Belgíu og lögðu þar fram kæru á hendur stjórnvöldum til að leggja áherslu á andstöðu sína við kjarnorkuvopn. Síðan hefur þetta verið endurtekið nokkrum sinnum en að þessu sinni er ætlunin að gera þetta í a.m.k. 16 NATO-löndum, þ.á.m. Íslandi, og hafa kærubréf verið samin fyrir öll þessi lönd og er hægt að nálgast þau á heimasíðu Vredesactie. Ætlunin er að kærurnar verði lagðar fram áður en leiðtogafundur NATO hefst í Ríga í Lettlandi, en hann verður dagana 28.-29. nóvember. Bombspotting og Greenpeace munu svo 24. nóvember ákæra framkvæmdastjóra NATO í Brussel formlega og munu þá vísa til þeirra kæra sem lagðar hafa verið fram um alla Evrópu. Því þarf þetta í rauninni að gerast fyrir 24. nóvember.

Nánari upplýsingar um tilhögun þessa hér á Íslandi verður birt innan skamms hér á Friðarvefnum. Staðlað form fyrir kæruna má nálgast hér.

Sjá einnig:
Complaint Day: Step by step instructions for making a complaint
NATO Nuclear weapons
Bandaríkin og NATO brjóta gegn NPT-sáttmálanum
Vígvæðing NATO: Bandaríkjamenn koma gagneldflaugum fyrir í Póllandi og Tékklandi
Illegality of nuclear weapons

Sendiherra Ísraels laumaðist út um glæpamannaútgang utanríkisráðuneytisins

By Uncategorized

Nokkur hópur fólks, sennilega á annað hundrað manns, söfnuðust saman við utanríkisráðuneytið laust fyrir kl. 11 í morgun til að lýsa fordæmingu sinni á glæpaverkum ríkisstjórnarinnar og hersins í Ísrael. Tilefnið var að von var á sendiherra Ísraels, sem hefur aðsetur í Osló. Félagið Ísland-Palestína hafði haft spurnir af að von væri á sendiherranum, en hafði þær upplýsingar að heimsóknin í utanríkisráðuneytið yrði á morgun, miðvikudag. Það var ekki fyrr en um kl. 7 í gærkvöldi, mánudag, að í ljós kom að sendiherrann kæmi í ráðuneytið um kl. 11 á þriðjudagsmorgni. Þá var farið að senda út boð um mótmælastöðu með símhringingum, SMS-sendingum og tölvupósti. Má segja að mæting hafi verið allgóð með svona stuttum fyrirvara á tíma þegar flestir eru bundnir í vinnu eða skóla.

Hópurinn beið komu sendiherrans utan við ráðuneytið, en upp úr kl. 11 bárust þær upplýsingar að sendiherrann hefði komið í ráðuneytið fyrr um morguninn og sæti nú á fundi með Valgerði Sverrisdóttur, utanríkisráðherra. Sveinn Rúnar Hauksson, formaður Félagsins Ísland-Pelstína, flutti þá ávarp og las upp bréf sem ætlunin var að afhenda sendiherranum. Enn var beðið um stund, en þá bárust þær upplýsingar að sendiherrann væri farinn úr ráðuneytinu og hefðu verið laumað út um bakdyr.

Það er að þekkt að sumir sem eru í vafasömum félagsskap eða stunda einhver myrkraverk hafi leynilega útgönguleið úr híbýlum sínum. Ýmsir vafasamir karakterar eiga erindi í utanríkisráðuneytið og því ekki ónýtt að hafa glæpamannaútgang í ráðuneytinu.

Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, afhenti sendiherranum bréf til utanríkisráðherra Ísraels, Tzipi Livni. Morgunblaðið segir svo frá að í bréfinu sé árás Ísraelshers á Beit Hanoun á Gaza-svæðinu fordæmd. „Íslensk stjórnvöld fordæma þá árás en segjast viðurkenna rétt Ísraels til að verja sig líkt og annarra þjóða samkvæmt alþjóðalögum.“

Sjá einnig:
Vísir, NFS, RÚV

Breyting á nafni Samtaka herstöðvaandstæðinga?

By Uncategorized

shamerkiÁrið 1972 voru Samtök herstöðvaandstæðinga stofnuð. Félagið var reist á grunni Samtaka hernámsandstæðinga sem legið höfðu að mestu í dvala um nokkurra missera skeið. Til þessa dags hafa samtökin verið leiðandi í baráttu íslenskra friðar- og afvopnunarsinna. Þótt spjótunum hafi verið beint gegn veru bandarísks herliðs hér á landi, hefur það alla tíð komið í hlut SHA að vera í fararbroddi við að mótmæla stríðsrekstri í öðrum löndum eða geggjuðu vígbúnaðarkapphlaupi risaveldanna.

Á sama hátt og Samtök hernámsandstæðinga þótti hentugt og lýsandi nafn á sjöunda áratug síðustu aldar, var talin ástæða til að breyta nafninu árið 1972 til að lýsa betur eðli starfseminnar. Til þessa dags hafa félagsmenn barist gegn öllum herstöðvum, hvar í heimi sem er. Forsenda baráttu okkar er og hefur verið almenn andúð á her og hervaldi. Þess vegna hafa íslenskir herstöðvaandstæðingar jöfnum höndum mótmælt bandarískri hersetu á Íslandi og í Írak eða ofbeldi rússneska hersins í Téténíu.

Brottför bandaríska hersins frá Miðnesheiði fyrr í haust var meiriháttar sigur fyrir málstað okkar herstöðvaandstæðinga. Því fer þó fjarri að um fullnaðarsigur hafi verið að ræða. Enn eru verkefnin ærin, þótt athyglin kunni nú að beinast í vaxandi mæli að öðrum þáttum. Þannig er brýnt að losna við síðustu eftirhreytur hersetunnar og uppsögn varnarsamningsins er forgangsatriði.

Síðustu mánuði hafa þær raddir verið háværar innan Samtaka herstöðvaandstæðinga að vel fari á því að tengja þessi mikilsverðu tímamót í Íslandssögunni, sem brottför hersins óneitanlega er, við breytingu á nafni samtakanna. Ýmsar tillögur hafa komið upp í þessum umræðum, en svo virðist sem flestir taki ástfóstri við eina þeirra.

Miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga veturinn 2005-2006 hefur einróma komið sér saman um tillögu að breytingu á nafni samtakanna sem lögð verður fram á landsfundi SHA sunnudaginn 26. nóvember næstkomandi. Það er sameiginlegt álit miðnefndar að hið nýja nafn myndi endurspegla verkefni og baráttumál félagsins jafnvel betur en það ágæta nafn sem það hefur borið síðustu 24 árin. Þá spillir ekki fyrir að hljómur nýja nafnsins er ekki ósvipaður þess sem fyrir var og skammstöfunin gæti staðið óbreytt.

Miðnefnd Samtaka herstöðvaandstæðinga veturinn 2005-2006 leggur til að hið nýja nafn félagsins verði Samtök hernaðarandstæðinga.

Það er von tillöguflytjenda að þessi uppástunga verði kveikja frjórra umræðna innan félagsins fram að landsfundi sem og á fundinum sjálfum. Afar æskilegt væri að áhugafólk um þetta mál setti hugleiðingar sínar á blað og sendi til birtingar hér á Friðarvefinn.

Aðstandendur tillögunnar eru:
Bergljót Njóla Jakobsdóttir,
Davíð Stefánsson,
Harpa Stefánsdóttir,
Sigurður Flosason,
Snæbjörn Guðmundsson,
Sonja Lind Eyglóardóttir,
Stefán Pálsson,
Steindór Grétar Jónsson,
Sveinn Birkir Björnsson,
Torfi Stefán Jónsson,
Þórður Sveinsson &
Þórhildur Halla Jónsdóttir.

The Chicken Commander í Friðarhúsi mánudaginn 13. nóv. kl 20

By Uncategorized

Það er eitt og annað á döfinni í Friðarhúsi um þessar mundir. Unnið hefur verið að ýmsum smáúrbótum til að gera góða aðstöðu enn betri. Í samvinnu við aðra íbúa hússins hefur sömuleiðis verið ákveðið að ráðast í framkvæmdir á lóð, sem vonandi munu styrkja starfsemina í framtíðinni.

N.k. mánudagskvöld, 13. nóvember kl. 20, verður kvikmyndasýning í Friðarhúsi. Sýnd verður heimildarmyndin The Chicken Commander eftir Kristinn Hrafnsson og Friðrik Guðmundsson. Um er að ræða útgáfu myndarinnar Íslenska sveitin sem gerð var fyrir erlendar sjónvarpsstöðvar. Myndin fjallar um hið svokallaða friðargæslulið Íslands í Afganistan. Hlutar úr myndinni voru sýndir á landsráðstefnu SHA síðasta haust og vöktu þá mikla athygli. Myndin er nú sýnd í heild sinni. Hún er ótextuð.

Miðvikudagskvöldið 15. nóvember stendur friðarhreyfingin MFÍK fyrir fundi í Friðarhúsi um ástandið í Vestur-Sahara. Fundurinn hefst kl. 20.

Athygli er vakin á því að landsfundur SHA 2006 verður haldinn sunnudaginn 26. nóvember. Friðarsinnar eru hvattir til að taka daginn frá. Auk almennra aðalfundarstarfa verður fjallað um nafn samtakanna.

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á Dagfara, tímarit SHA. Það mun berast öllum félagsmönnum innan skamms ásamt nákvæmari dagskrá landsfundarins. Þeir sem ekki eru nú þegar félagar í SHA eru hvattir til að gerast það hið fyrsta, t.d. með því að senda tölvupóst á sha@fridur.is

Öryggisvottorð í þágu NATO

By Uncategorized

Í dag, 7. nóv. 2006, birtist afar athyglisverð frétt á forsíðu Fréttablaðsins. Hún fjallar um mál sem sjaldan eða aldrei hefur verið fjallað um í íslenskum fjölmiðlum, þ.e. um útgáfu svokallaðra „öryggisvottorða um einstaklinga“ í þágu NATO.

Í fréttinni er haft eftir Böðvari Bragasyni lögreglustjóra í Reykjavík að „öryggisvottunin“ fari fram eftir reglum NATO þar sem farið er fram á uppáskrift íslenskra yfirvalda um áreiðanleika þeirra sem starfa munu á vegum NATO. Haft er eftir fyrrverandi ráðuneytisstjóra, Róberti Trausta Árnasyni, að í beiðni um vottun komi fram „á hvaða stigi öryggisvottunin þurfi að vera af þeim fjórum stigum sem NATO tilgreinir“.

Í fréttinni er greint frá að Árni Páll Árnason, fyrrverandi starfsmaður utanríkisráðuneytins (og nú frambjóðandi Samfylkingarinnar), hafi vitað um útgáfu slíkra „öryggisvottorða“ en segist bundinn þagnarskyldu um aðferðirnar sem notaðar til að kanna hvort þeim er treystandi til að fá „öryggisvottorð“ svo þeir geti starfað hjá eða með NATO. Vitnað er til bréfs hans frá 26. okt. sl. til Valgerðar Sverrisdóttur, núverandi utanríkisráðherra, þar sem hann segir m.a.: „Ef ég á við skýrslutöku [um hlerunarmál] að upplýsa frekar en þegar hefur verið gert … þarf ég að geta fjallað með heildstæðum og ítarlegum hætti um atriði er varða öryggismál ráðuneytisins og annað sem er til þess fallið að varpa ljósi á heildarsamhengi eftirlits með þeim mönnum sem fóru á þeim tíma með mál er varða öryggismál ríkisins og þá sérstaklega þá verkferla sem liggja að baki útgáfu öryggisvottorða á hæsta stigi, jafnt hér á landi og í öðrum löndum.“

Ofangreind frétt vekur ýmsar spurningar:

1. Hverjum hefur löggjafinn falið úrskurðarvald til að flokka Íslendinga í áreiðanleikastig í þágu NATO?
2. Er pólitísk afstaða manna ein af forsendum fyrir því að menn fá eða fá ekki „öryggisvottorð“ á ýmsu stigi?
3. Hvers konar trúnaðareið verða þeir sem fá „öryggisvottorð“ í þágu NATO að gangast undir? Verður þeim refsað ef þeir greina frá aðild NATO að brotum á þjóðarétti? Er þeim skylt að ljúga að almenningi ef þess er krafist af bandalaginu? Er þeim skylt að hlýða skipunum NATO, þótt slíkt kynni að stangast á við lýðræðislegar eða embættisskyldur þeirra gagnvart Íslendingum? Hver er hæfur til að dæma hvort tiltekin þjónusta Íslendings við NATO flokkist undir landráð?

Þessar spurningar vakna m.a. vegna ákvörðunar NATO-ráðsins um að styðja loftárásir Bandaríkjanna á Afganistan árið 2001, en í þeim dóu a.m.k. 3500 manns. Utanríkisráðuneytið tilkynnti undirrituðum að forsendurnar fyrir þessari ákvörðun væru „trúnaðarmál“ NATO sem íslenskir borgarar fengju ekki að kynna sér. Margt bendir til þess að þessar forsendur hafi verið upplognar eða með öllu ófullnægjandi.

Eru íslenskir embættismenn tilbúnir að axla þá ábyrgð sem af því leiðir að styðja leynilegar, ólögmætar og saknæmar aðgerðir á alþjóðavettvangi án umboðs löggjafarvaldsins? Er þjóðin sátt við það að landsmenn verði flokkaðir eftir leynilegum aðferðum um áreiðanleika sinn til að stunda brot á alþjóðarétti í þágu NATO og Bandaríkjanna?

7. nóv. 2006
Elías Davíðsson