All Posts By

Stefán Pálsson

Formsatriði fullnægt

By Uncategorized

Eins og lesendum þessarar síðu ætti að vera kunnugt, var nafni SHA breytt á landsfundi í nóvember sl. Félagið heitir nú Samtök hernaðarandstæðinga.

Þrátt fyrir samþykkt landsfundarins má segja að það hafi verið fyrst í þessari viku sem nafnbreytingin gekk endanlega í gegn. Nú fyrst hefur nefnilega fyrirtækjaskrá Ríkisskattsstjóra samþykkt breytinguna og fært hana inn í þjóðskrá. Kennitala félagsins er vitaskuld sú sama og fyrr, en í leiðinni var lögheimilið flutt í Friðarhús, Njálsgötu 87.

Útúrsnúningar bæjarfulltrúans

By Uncategorized

ReykjanesbaerÁ vef Víkurfrétta, fimmtudaginn 11. janúar sl., mátti lesa frásögn af umræðum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar um erindi frá SHA varðandi friðlýsingu sveitarfélagsins fyrir kjarnorkuvopnum. Því miður fékk tillagan ekki brautargengi og er vísað til rökstuðnings Böðvars Jónssonar bæjarfulltrúa fyrir því. Við málflutning hans er ýmislegt að athuga.

SHA hófu árið 1999 átak þar sem allar sveitarstjórnir á Íslandi voru hvattar til að friðlýsa sig fyrir geymslu og umferð kjarnorkuvopna. Frumkvæðið kom frá alþjóðlegum samtökum, en flestar stærstu borgir Evrópu hafa gert samþykktir af þessu tagi.

Eftir góða kynningu tóku sveitarstjórnarmenn við sér. Þannig var tillaga þessa efnis einróma samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur og er nú svo komið að einungis tíu sveitarfélög standa utan friðlýsingar. Athygli vekur að þessi tíu sveitarfélög sem tekið hafa annan pól í hæðina, hafa öll tekið málið til afgreiðslu en ýmist fellt slíkar tillögur eða reynt að drepa þeim á dreif á sama hátt og meirihlutinn í Reykjanesbæ hefur nú kosið að gera.

Böðvar Jónsson réttlætir afgreiðslu bæjarráðs, sem í raun er frávísun, á þann hátt að málið heyri ekki undir sveitarstjórn heldur ríkisvaldið. Þau rök eru sérkennileg, enda eru mörg dæmi um að sveitarfélög láti sig varða geymslu og flutninga háskalegra efna innan sinnar lögsögu. Þannig hlýtur umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar að áskilja sér rétt til að hafa skoðun á mögulegri geymslu kjarnorkuvopna í sveitarfélaginu líkt og ef um væri að ræða eldfim efni eða skaðlegar gastegundir. Annað væri hreint metnaðarleysi.

En jafnvel þótt fallist væri á þau rök bæjarfulltrúans að kjarnorkufriðlýsing sé fyrst og fremst verkefni ríkisvaldsins, geta sveitarstjórnir hæglega haft á henni skoðun. Sveitarstjórnir eru raunar stöðugt að lýsa yfir afstöðu sinni í málum sem teljast þó á könnu ríkisvaldsins, má þar nefna atvinnu- og samgöngumál.

Besta dæmið um samþykkt af þessu tagi er Staðardagskrá 21, sem flest íslensk sveitarfélög eru aðilar að. Staðardagskráin tekur til umhverfismála í víðum skilningi og felur í sér fjölda samfélagslegra markmiða sem mörg hver eru á sviði ríkisvaldsins fremur en sveitarstjórna. Staðardagskrá 21 kveður meðal annars á um baráttu fyrir afvopnun og hafa sumar sveitarstjórnir skírskotað til hennar við samþykkt kjarnorkufriðlýsingarinnar. Óþarft ætti að vera að minna Böðvar Jónsson á að Reykjanesbær er aðili að Staðardagskránni.

Það er merkileg staðreynd að af þeim tíu sveitarfélögum sem enn þráast við að samþykkja friðlýsingu er helmingurinn á Suðurnesjum. Eitt er á höfuðborgarsvæðinu – Garðabær – en hin fjögur eru dreifð um landsbyggðina. Það er einkar slæmt að sveitarfélögin sem kjósa að skera sig úr með þessum hætti skuli einmitt vera á sama svæði og alþjóðaflugvöllur landsins og mikilvægar hafnir. Vonandi munu sveitarstjórnarmenn suður með sjó endurskoða afstöðu sína í þessu máli.

Stefán Pálsson,
formaður Samtaka hernaðarandstæðinga

Reykjanesbær hyggst ekki komast yfir kjarnorkuvopn

By Uncategorized

43808 Reykjanesbaer kjarnorka Eftirfarandi frétt birtist í Víkurfréttum 11. jan. 2006, sjá: http://vf.is/frettir/numer/29830/default.aspx

„Íbúar Reykjanesbæjar geta sofið rólegir því Böðvar Jónsson, forseti bæjarráðs, upplýsti það á síðasta bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ að sveitarfélagið hygðist ekki koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Til snarpra orðaskipta kom á fundinum vegna afgreiðslu meirihluta bæjarráðs á erindi Samtaka herstöðvarandstæðinga um að Reykjanesbær lýsi sveitarfélagið opinberlega kjarnorkuvopnalaust svæði, líkt og bæjaryfirvöld í Vogum gerðu nýverið.

Á fundi bæjarráðs síðla í desember lá fyrir erindi frá Samtökum herstöðvarandstæðinga þess efnis að Reykjanesbær slæist í hóp „hinna friðlýstu sveitarfélaga á Íslandi sem hafa friðlýst sín svæði fyrir kjarnorkuvopnum og krafist útrýmingar allra slíkra vopna í heiminum,“ eins og segir í tillögunni. Afgreiðsla bæjarráð fór á þann veg að samþykkt var með þremur atkvæðum meirihlutans að vísa erindinu til afgreiðslu Utanríkisráðuneytisins. Guðbrandur Einarsson, A-lista, greiddi atkvæði á móti þeirri afgreiðslu og Eysteinn Jónsson (A) sat hjá.

Guðbrandur tók málið til umfjöllunar á síðasta bæjarstjórnarfundi og kvað þessa afstöðu meirihlutans með öllu óskiljanlega þar sem fjölmörg sveitarfélög vítt og breitt um landið hefðu gefið út slíkar yfirlýsingar.

Böðvar Jónsson varð til svara fyrir meirihlutann og sagði það einfaldlega ekki í verkahring bæjaryfirvalda að gefa út yfirlýsingar sem þessar þar sem það hlyti að falla undir utanríkisstefnu landsins. Þess vegna hefði erindinu verið vísað til Utanríkisráðuneytisins.

„Ég get hins vegar upplýst það hér, ef mönnun líður eitthvað betur, að Reykjanesbær á engin kjarnorkuvopn, hefur ekki átt og hyggst ekki koma sér upp slíkum vopnum,“ sagði Böðvar.

Þá vitum við það.“

Leynist í þér rótari?

By Uncategorized

rodinshSamtök hernaðarandstæðinga hafa á síðustu misserum komið sér upp góðu hljóðkerfi fyrir fundi af ýmsu tagi. Með því sparast umtalsverðar fjárhæðir, enda leiga á slíkum kerfum afar dýr. Hljóðkerfi þetta hefur einnig verið lánað ýmsum aðilum fyrir fundi sem taldir eru samrýmast markmiðum SHA. Þannig fær Amnesty International afnot af kerfinu fyrir aðgerðir sínar á Lækjartorgi á morgun, fimmtudag, eins og lesa má um hér á síðunni.

Mikilvægt er að sem flestir kunni skil á tækjabúnaði þessum, þannig að notkun tækjanna standi ekki og falli með því að 1-2 einstaklingar séu á lausu. Í þessu skyni verður efnt við hljómtækjanámskeiðs í Friðarhúsi laugardaginn 13. janúar kl. 13. Þar gefst gestum og gangandi færi á að skoða hljóðkerfið í rólegheitum og spreyta sig á að setja það upp.

Námskeið þetta er alls ekki hugsað fyrir neina tæknisérfræðinga, heldur til þess ætlað að sem flestir hafi fengið nasasjón af tækjunum. Þeir sem lítið vilja af snúrum og hátalaraboxum vita eru hins vegar velkomnir í kaffi, en opið verður í Friðarhúsi frá kl. 13-15 nú líkt og næstu laugardaga.

Amnesty mótmælir á Lækjartorgi

By Uncategorized

AmnestyFimmtudaginn 11. janúar n.k. verða fimm ár liðin frá því að Bandaríkjaher flutti fyrstu fangana í „stríðinu gegn hryðjuverkum“ til flotastöðvarinnar við Guantánamo-flóa á Kúbu. Þrátt fyrir að fangabúðirnar hafi verið fordæmdar um heim allan eru þar enn 430 einstaklingar af 35 þjóðernum. Enginn þeirra hefur verið dæmdur samkvæmt bandarískum lögum. Tíu fangar hafa sætt ákæru en ekki hefur verið réttað í málum þeirra.

Aðstaða fanganna er slæm, varðhaldsvistin ótímabundin og þeir eru einangraðir frá umheiminum. Varðhaldsvistin telst ill, ómannleg og niðurlægjandi meðferð og brýtur því gegn alþjóðalögum. Fangabúðirnar við Guantánamo-flóa eru tákn óréttlætis. Bandaríska ríkisstjórnin verður að loka þeim. Fanga skal leysa úr haldi eða þeir skulu sæta ákæru og réttað skal yfir þeim í fullnægjandi og réttlátum réttarhöldum.

Íslandsdeild Amnesty International efnir til táknrænnar uppákomu þann 11. janúar kl. 17:00 á Lækjartorgi þar sem blöðrum verður sleppt til að undirstrika kröfu Amnesty um að fangarnir verði látnir lausir eða þeir látnir sæta ákæru. Félagar sem aðrir eru hvattir til mæta og sýna samhug með föngunum sem þar er haldið í trássi við alþjóðlega mannréttindalöggjöf og krefjast lokunar búðanna.

Kvöldið 11. janúar sýnir Íslandsdeildin heimildarþátt frá BBC sem heitir Inside Guantánamo og fjallar um heimsókn þáttagerðarmanna til fangelsisins. Sýnd eru viðtöl við fyrrverandi fanga, aðstandendur fanga og síðast en ekki síst fangaverði og yfirmenn fangelsisins. Sýningin fer fram í Alþjóðahúsinu á 3. hæð og hefst kl. 20:30. Sýningin stendur yfir í um klukkutíma og umræður verða að henni lokinni. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Frá miðnefnd SHA

By Uncategorized

fredsakademietMiðnefnd Samtaka hernaðarandstæðinga kom saman til fundar s.l. fimmtudag. Rétt er að minna á að öllum félagsmönnum er heimilt að sitja fundi hennar. Á fundinum voru samþykktar þrjár ályktanir eða áskoranir, þar sem hnykkt er á klassískum baráttumálum hreyfingarinnar:

Ályktun 1:

SHA mótmæla öllum viðræðum um varnarsamstarf við Norðmenn og Dani. Að gefnu tilefni gera samtökin einnig kröfu um bann við heræfingum á Íslandi og benda í því sambandi á ósprungnar sprengjur, skothylki í þúsundatali og annað drasl á heræfingasvæðum liðinna áratuga.

Ályktun 2:

SHA gera þá kröfu til ríkisstjórnar Íslands að hún lýsi því yfir að Íslendingar verði teknir af lista þeirra þjóða sem styðja innrás og hernám í Írak og íslenska þjóðin beðin afsökunar á þeim hræðilegu mistökum sem þar voru gerð. Ennfremur að hætt verði þátttöku í hernámi Afganistans og stuðningi við Íraksstríðið hvort sem er með fjárframlögum eða yfirlýsingum. SHA telja það ekki sæma Íslendingum að styðja fjöldamorð og dauðarefsingar eða fantaskap við saklaust fólk eins og í Gvantanamo. Íslendingar eiga ekkert sökótt við fátækt fólk í Asíu eða annarsstaðar í heiminum.

Áskorun:

SHA skora á Alþingi og ríkisstjórn að segja upp herverndarsamningnum við Bandaríkin frá 1951, enda þjónar hann engum skynsamlegum tilgangi og hefur aldrei gert. Ennfremur að Ísland segi sig úr NATO og verði þannig ekki lengur aðili að vígbúnaðar- og kjarnorkuvopnabandalagi sem stendur fyrir árásum og hernámi í fjarlægum löndum.