Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla því að til standi að halda þingmannafund NATO hér á landi um komandi helgi. Íslendingar eru herlaus og friðelskandi þjóð, sem ekki á að taka að sér gestgjafahlutverk fyrir slíkar samkomur. Að þessu tilefni vilja SHA minna á eftirfarandi staðreyndir um hlutverk og eðli NATO:
• NATO er hernaðarbandalag sem hefur yfir að ráða gríðarlegum hernaðarmætti. NATO hefur ekki útilokað beitingu kjarnorkuvopna að fyrra bragði.
• NATO hefur tekið þátt í árásarstríðum, s.s. á Balkanskaga. Um þessar mundir tekur bandalagið virkan þátt í hernámi Afganistan og hefur með aðgerðum sínum leitt til dauða fjölda saklausra borgara.
• Aðildarríki NATO eru ásamt Rússlandi langstærstu vopnaframleiðslulönd í heimi. Með vopnasölu sinni til stríðshrjáðra svæða bera þau ábyrgð á þjáningum fólks um víða veröld,
• NATO og einstök NATO-ríki hafa staðið gegn gerð og samþykkt fjölmargra afvopnunarsamninga á liðnum árum og áratugum, þar á meðal á sviði kjarnorkuafvopnunar.
• Það er innbyggt í skipulag NATO að Bandaríkjamenn hafi með höndum hernaðarlega stjórn þess. Bandarríkjastjórn hefur ítrekað notað NATO sem verkfæri eftir innrásir sínar, bæði í Afganistan og í Írak, undir yfirskini friðargæslu eða uppbyggingarstarfs.
• Ein af röksemdum Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, gegn tillögum um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum árið 2004 var að það samrýmdist ekki skuldbindingum Íslands gagnvart NATO.
• Hinar umdeildu áætlanir Bandaríkjanna um gagneldflaugakerfi eru gerðar með fullu samþykki NATO og eru í raun liður í áætlunum NATO. Þessar áætlanir eru taldar spilla mjög fyrir viðleitni til afvopnunar.
• Einstök aðildarríki NATO bera höfuðábyrgð á stríðinu í Írak sem kostað hefur hundruð þúsunda Íraka lífið og hrakið milljónir á flótta.
Um leið og Samtök hernaðarandstæðinga mótmæla fundarhöldum þessum, hvetja þau íslensk stjórnvöld til að taka upp sjálfstæða og friðsama utanríkisstefnu. Úrsögn úr NATO er rökrétt fyrsta skref í þá átt.