Samtök hernaðarandstæðinga lýsa þungum áhyggjum af hernaði og ofbeldisverkum í Miðausturlöndum liðinna daga. Í Jemen hafa valdhafar framið fjöldamorð á almenningi og sagnir eru um að taugagasi hafi verið beitt. Bahrein hefur í raun verið hernumið af her Sádi-Arabíu, án þess að hósti né stuna heyrist frá alþjóðasamfélaginu. Og í Líbýu hefur geysað blóðug borgara- og ættbálkastyrjöld með morðum á báða bóga.
Í ölum þessum tilvikum er um að ræða einræðisríki sem notið hafa beins eða óbeins stuðnings Vesturlanda og átt greiðan aðgang að því að kaupa vopn frá Evrópu og Bandaríkjunum. Einræðisherrar í Arabaheiminum byggja og hafa byggt völd sín á stuðningi þeirra ríkja sem fara með neitunarvald í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Reynslan kennir okkur að friður verður hvorki tryggður né komið á með því að varpa sprengjum úr flugvélum. Stríð síðustu ára ættu sömuleiðis að hafa kennt mönnum hversu lítið er að marka frásagnir af „mannúðlegum“ nútímahernaði sem eigi aðeins að beinast að hernaðarlegum skotmörkum. Veruleikinn er allt annar. – Loftárásunum verður að linna!
Samtök hernaðarandstæðinga vara við því að alþingi eða ríkisstjórn Íslands lýsi yfir stuðningi við athæfi þeirra herskáu ríkja sem hafa misnotað samþykkt Öryggisráðsins um flugbann og notað sem átyllu til allsherjar loftárása. Reynslan af þess konar hernaði sýnir að hann bitnar óvenju harkalega á almennum borgurum þar sem markmiðið er að verja eigin hermenn fyrir hnjaski frekar en almenning á jörðu niðri. Íslenskir stjórnmálamenn ættu frekar að horfa til t.d. Svía og Þjóðverja sem hafa tekið allt aðra afstöðu til hernaðarins. Íslendingar eiga ekki að styðja aðgerðir sem leiða til aukinna þjáninga fyrir almenning í Mið-Austurlöndum.